Nýlenduveldin og undirlægjurnar
—
Bandaríkjaforseti segist ætla „að laga olíuinnviði Venzuela”. Vitað er að innrás Bandaríkjahers og valdarán í því landi snýst um það eitt að ná yfirráðum yfir auðlindum landsins. Við munum stjórna Venezuela þar til lögmæt valdaskipti hafa átt sér stað, segir Trump:
We are going to run that country until such time as we can do a safe, proper and judicious transition … it has to be judicious because that is what it is all about.
Það snýst með öðrðum orðum allt um lögmæti segir leiðtogi auðvaldsheimsins eftir að hann lét herinn fremja valdarán í Venezuela. Það gerði hann án þess að láta eigið þing vita, enda þá hætta á fréttaleka! Allt sem tengist lýðræði er þannig aukaatriði þegar hagsmunir auðvaldsins eru annars vegar.
Kaja Kallas utanríkisráðherra Evrópusambandsins segir að fara beri að alþjóðalögum en stjórn Venezuela hafi skort lögmæti!!! Utanríkisráðherra Íslands talar á svipuðum nótum og fagnar því að „alla vega sé þessi einræðisherra farinn” og „nú er Venesúela laust við harðstjóra“. Þar vísar talsmaður Íslands til Madúró forsætisráðherra Venezuela sem var kjörinn í opnum lýðræðislegum kosningum en situr núna í bandarísku fangelsi og bíður þess að bandarískur dómstóll rétti yfir sér.
Hvort svindlað hafi verið meira í Venezuela en í kosningum í Bandaríkjunum eða ýmsum fylgilagsríkjum þeirra skal ósagt látið. Veit það ekki fremur en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Íslands eða Kaja Kallas utanríkisráðherra ESB. Tel að sönnunarbyrðin hvíli á þeim. Þær láta sér hins vegar nægja að fullyrða eins og fyrri daginn og eru látnar komast upp með það í fjölmiðlum heima fyrir.
Hitt veit ég að um árabil hafa talsmenn Bandaríkjastjórnar lýst því yfir að þeirra eigi að vera olíuauðlindir Venezuela – hinar mestu í heimi – og eftir þjóðnýtingu þeirra að hluta til hefur ríkið og þar með þjóðin verið beitt efnahagsþvingunum um árabil. Ísland hefur tekið þátt í þeim þvingunum sem öðrum sem BNA og NATÓ hafa staðið fyrir. Síkt kallar á skort og þrengingar og leiðir á endanum til valdstjórnar líkt og gerðist í Sýrlandi. Eignir Venezuela erlendis voru frystar, ríkið missti aðgang að alþjóðelegum lánamörkuðum og að gjaldeyri til kaupa á matvælum og lyfjum. Svo er það borið á borð að allt snúist þetta um grimmd forseta landsins. Þar tala hæst þeir sem mig grunar að viti hvað minnst – eins og stundum fyrri daginn.
Hvar á að byrja og hvar á að enda? Íslensk stjórnvöld hafa lengi verið undirlægjur. Þegar Pompeo fyrrum forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, CIA, sem er eins konar glæpaarmur Bandaríkjastjórnar sem myrðir, pyntar og kúgar eftir því sem þurfa þykir, fór þess á leit við íslensku ríkisstjórnina að afsegja Madúró og samþykkja Juan Guaidó sem forseta var það umyrðalaust samþykkt.
Það hafa áður verið tilefni til að tala um Venesúela. Ég hvet lesendur til þess að kynna sér eftirfarandi:
UM VENESÚELA Á TRÖPPUM STJÓRNARRÁÐSINS
Í VENESÚELA ERU MESTU OLÍUBIRGÐIR HEIMSINS – ÞARF AÐ SEGJA MEIRA?
FRÁ VENESÚELA MÁ SJÁ HEIMINN SKÝRAR OG SKÝRAR…
Við erum að sjá heiminn eins og fórnarlömb nýlendustefnunnar hafa lengi séð Evrópuríkin og Bandaríki Norður Ameríku. Veruleiki arðráns og valdstjórnar var þeim jafnan augljós. Í vestrænum sögubókum og fjölmiðlum var þetta hins vegar alltaf að hálfu hulið, sett í ógagnsæjar umbúðir. Svo var lungann úr tuttugustu öldinni.
En svo er þetta nú allt orðið öllum grímulaust eins og það reyndar var fyrir hundrað árum. Enginn lengur að reyna að sýnast. Og íslensk stjórnvöld heyra í „vinaþjóðunum“, þessum sem við deilum margrómuðum „gildum“ með. Og eftir símtölin og samráðið er tekið undir í meðvirkninni. Öll tala NATÓ ríkin um mikilvægi „lögmætis“ eins og gert var gagnvart Ísrael í þann mund sem þau sendu morðingjum þar á bæ vopnin til manndrápanna.
Hlutskipti Íslands er dapurlegt. En aðeins svo lengi verður það dapurlegt sem við, almenningur i landinu, leyfum það.
Það er kominn tími til að vakna!
Nú hóta þeir því að halda áfram, næst sé það Kúba. „Ég hefði áhyggjur ef ég byggi þar“, segir utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Ég hef áhyggjur, búandi í Reykjavík.
Greinin birtist 3. janúar á heimasíður Ögmundar Jónassonar.







