Staða aðfluttra Eflingarkvenna í stéttabaráttunni
—
Hér má lesa erindi Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar – stéttarfélags á viðburði ASÍ: „Nútíma kvennabarátta – Málþing um stöðu kvenna af erlendum uppruna á vinnumarkaði“ sem haldinn var þann 23. október í tilefni 50 ára afmælis kvennaverkfallsins 1975. Ritstjórn
Góðan dag, og takk fyrir að bjóða mér hingað til að tala. Ég á að tala um stöðu aðfluttra Eflingarkvenna. En slík umfjöllun er aldrei eingöngu um einhvern tiltekinn hóp; hún hlýtur alltaf af vera umfjöllun um stéttastöðu, stéttaskiptingu og arðrán.
Það er dálítið erfitt að finna stað til að byrja, því í raun langar mig bara til að tala um það skemmtilega sem við gerum. Mig langar að segja frá því hvað við grínum mikið, sérstaklega þegar við erum í samningaviðræðum, sérstaklega þegar þær eru erfiðar. Mig langar að segja söguna af salatinu sem var einu sinni í kvöldmat fyrir samninganefndina við Reykjavíkurborg og uppnámið sem við sumar komumst í við þetta mannréttindabrot sem þarna var á okkur framið, eða frá börnunum sem koma með á fundi og vita nákvæmlega hvar nammiskúffan er og verða soldið leið ef hún er tóm. Sem við skiljum auðvitað mjög vel. Sérstaklega eftir salat-glæpinn.
En þetta eru sögur fyrir annarskonar samkomu – sögur sem lifa hjá í munnlegri geymd okkar í Eflingu og við segjum hvort öðru með reglulegu millibili.
Mig langar ekki að tala um biðlistann hjá Bjargi og skilaboðin sem ég fæ frá konum sem vilja athuga hvort eitthvað sé hægt að gera til að hraða því að þær fái íbúð. Mig langar ekki að tala um ómannúðlegan vinnuhraða í ræstingum en við það starf vinna næstum aðeins aðfluttar konur, eða örorkutíðni verkakvenna. Mig langar ekki að tala um árásir á trúnaðarmenn sem reyna bara að sinna hlutverki sínu, eða um könnun Vörðu sem sýnir fram á að í samfélaginu er stór hópur kvenna sem þrátt fyrir að vinna og vinna geta ekki leyft sér nokkurn skapaðan hlut. Ástæðan er ekki sú að ég hafi talað of oft um þetta, heldur sú að mér finnst eins og enginn hlusti. Nema við sjálfar – konurnar í Eflingu.
Í umræðunni er oft sagt að innflytjendur „festist“ í láglaunastörfum. Að ef þau fengju menntun sína metna myndu þau komast ofar í stigveldi þjóðfélagsins, ef að þau gætu lært íslensku á vinnutíma myndu þau eiga auðveldara með að sleppa úr slæmum aðstæðum, og svo framvegis. Við í Eflingu höfnum þessari sýn og afstöðu. Við segjum að með því að tala svona er útbúin afsökun fyrir stjórnmálafólk og atvinnurekendur til að viðurkenna ekki að hið raunverulega vandamál er kerfislægt.
Það að tala um að fólk „festist“ í láglaunastarfi skapar tilfinningu fyrir því að um einstaklingsbundinn vanda sé að ræða – að hver og einn geti losnað af vonda staðnum með því að mennta sig, fá menntun metna, læra íslensku. Með þessu er vandinn settur á herðar þeirra sem lifa við erfiðar aðstæður og skert kjör, en ekki þeirra sem búa til og hagnast á ömurlegu kerfi.
Staðreyndin er þessi: Atvinnustefna Íslands, mótuð af kapítalistum og stjórnvöldum sem starfa í þeirra þágu, hefur síðasta áratug snúist um að hingað flytjist fólk í þeim tilgangi að vinna í láglaunastörfum. Frjálst flæði vinnuafls innan Evrópu snýst ekki um að gefa fólki tækifæri til að upplifa nýtt land eða læra spennandi tungumál eða breiða út menningararfleið heimalandsins. Frjálst flæði snýst um að skapa aðgengi fyrir eigendur atvinnutækjanna að stórum hópi fjölþjóðlegs vinnuafls sem bókstaflega þarf að flytja á milli landa til að finna stað þar sem vinnu er að fá, og hægt er að sjá fyrir sér og sínum. Módelið vill geta fært til stóra hópa vinnandi fólks á milli þjóðríkja – líkt og menn á taflborði.
Efnahagsmódelið: ódýrara vinnuafl er tilgangur hins frjálsa flæðis
Efnahagsmódel frjáls flæðis vinnuafls hefur leyst kapítalista og stjórnvöld hérlendis undan því að takast á við það sem hefði verið mjög mikill vandi: Hvernig á að skapa og viðhalda samkeppnishæfni við önnur lönd og knýja áfram mikinn hagvöxt og skapa mikinn gróða í mjög fámennu landi ef að ein af grundvallaratvinnugreinunum er mjög mannaflsfrek líkt og túrisminn.
Þetta módel er eftirsóknarvert fyrir meðlimi efnahagslegrar og pólitískrar valdastéttar af tveimur meginástæðum. Í fyrsta lagi er launakostnaði haldið niðri með því að stækka sífellt hóp vinnuaflsins; þar er unnið eftir lögmálinu um framboð og eftirspurn. Í öðru lagi flytur fólk ekki með sér annað en vinnuaflið sitt. Lýðræðisleg þátttaka er að mestu skilin eftir í heimalandinu. Fyrsta kynslóð innflytjenda tekur yfirleitt ekki þátt í kosningum, sem gerir það að verkum að þau verða ekki hópur sem getur haft áhrif á útkomu þingkosninga; því er mjög auðvelt fyrir stjórnmálafólk að láta sem hagsmunir þeirra skipti engu máli.
Frjálst flæði vinnuafls, sameiginlegur evrópskur markaður með þá einstöku vöru sem vinnuaflið er, snýst aðeins um hagsmuni kapítalista. Að bæta kjör eða aðstæður verkafólks er því eðli málsins samkvæmt aldrei partur af planinu. Með þeim afleiðingum sem við sjáum nú allstaðar í Evrópu – afleiðingum sem sama fólk og elskar módelið neitar að sé afleiðing þess.
Þetta kerfi og staðan sem það hefur skapað er sá materíalíski veruleiki sem við í Eflingu lifum og störfum innan. Ef við í Eflingu ætlum að ná árangri þurfum við að viðurkenna stöðuna og vinna með hana. Ég umorða í tilefni dagsins hinn forna kveðskap: …“og loks eiga konurnar sér ekki annars úrkosti en að hvessa algáð augu á lífsstöðu sína alla og samskipti.“
Og með hvesstum augum höfum við skoðað allt í kringum okkur síðustu ár. Við höfum séð að það er engin lausn fólgin í því að skipta okkur sem tilheyrum stétt verkafólks upp í hópa. Við trúum ekki á þá leið, rétt eins og við trúum ekki á þjóðernishyggjuna. Við sjáum skýrt að aðgreiningar á okkur í hópa, þar sem látið er sem hagsmunir okkar séu í grunninn ekki þeir sömu, er gildra sem við ætlum ekki að ganga í.
Við skiljum djúpt inn í okkur, að vegna alþjóðavæðingar nýfrjálshyggjunnar, sem sent hefur af stað stóra hópa fólks frá heimalöndum sínum í leit að störfum, verðum við að reiða okkur á hin gömlu gildi verkalýðsbaráttunnar: Alþjóðlega samstöðu vinnandi fólks. Við höfnum því að við sem tilheyrum stétt vinnuaflsins eigum að vera í samkeppni innbyrðis, konur gegn körlum, íslendingar gegn innflytjendum. Við skiljum, ekki af því að við séum svo krúttleg og góð, heldur vegna þess að við ætlum ekki að tapa í baráttu okkar, að við þurfum samstöðu alþjóðlegrar stéttar verkafólks innan þjóðríkisins.
Láglaunastörfin, sem aðfluttar konur „festast“ í samkvæmt meginstraumsumræðunni, eru grundvallarstörf í efnahagskerfinu. Tilgangur þeirra og tilvist eru ekki fyrir fólk til að spreyta sig á, á meðan að beðið er eftir því að eitthvað betra taki við. Fyrrverandi borgarstjóri sagði þegar Eflingarfólk, mest konur, í leikskólum voru í harðri kjarabaráttu árið 2020, að störf í leikskóla væru sniðug fyrir ungt fólk sem væri að safna fyrir heimsreisu. Þetta er magnað dæmi um útúrsnúning og afvegaleiðingu meðlima ráðandi stéttar í þeim tilgangi að grafa undan baráttu verkafólks. Staðreyndin er sú að kerfið virkar ekki ef verkamannastörfin eru ekki unnin. Fólkið í þeim er ómissandi, í algjörlega bókstaflegum skilningi orðsins. Kerfið reiðir sig á að fólk sé til staðar, einmitt til að vinna þessi störf fyrir léleg laun, fyrir lítil völd, fyrir stöðu nálægt botni hins efnahagslega stigveldis.
Það er ekki vanmat á menntun aðfluttra kvenna sem gerir það að verkum að þær festast í láglaunastörfum. Sá hluti vinnumarkaðarins, sá sem þær eiga að tilheyra er manngerður tjörupollur, og allt íslensk auðvald og stjórnmálastéttin vita það. Og ég trúi ekki öðru en að verkalýðshreyfingin viti þetta líka innst inni – þótt hún vilji kannski ekki horfast í augu við það – vegna þess að ef hún horfist í augu við þetta, hver eru þá skrefin sem hún þarf að stíga til að takast á við vandann? Stundum er betra að viðurkenna ekki dýpt vandans vegna þess að þá þarftu ekki að finna leiðir til að leysa hann.
Hugmyndafræðileg afneitun þegar leitað er að einstaklingslausnum
Það er því einhverskonar hugmyndafræðileg afneitun sem leiðir til þess að leitað er að einstaklingsbundnum lausnum, eins og mati á menntun, en horft er fram hjá eðli kerfisins. Afstaða okkar í Eflingu er að við eigum ekki að velta okkur upp úr því af hverju aðfluttar konur festast í láglaunastörfum og reyna að finna lausnir sem henta valdastéttinni, vegna þess að þær ráðast ekki að rótum vandans. Við eigum að krefja þau sem stjórna um svör við því af hverju þeim þykir í lagi að arðræna og útkeyra ómissandi konur í grunnstörfum. Og við eigum ekki sjálf að taka þátt í að breiða yfir orsök vandans, sem er augljóslega stéttaskipting og misskiptingin sem henni alltaf fylgir.
Oft er Ísland, ásamt öðrum Norðurlöndum, hyllt sem femínísk paradís vegna mikillar þátttöku kvenna á vinnumarkaði. En þessi árangur byggist ekki síst á vinnumarkaðsskipulagi aránskerfisins.
Þetta kerfi hefur náð ótrúlegum árangri í að tryggja þátttöku kvenna á vinnumarkaði. En það sem norræna velferðarríkið, þrátt fyrir allan femínismann, hefur ekki gert, er að viðurkenna umönnunarstörf sem grundvallarstörf. Kerfisvæðing umönnunar felur í sér mikinn opinberan kostnað en vinnuaflið sem sinnir þessum störfum, mest konur og í sívaxandi mæli, aðfluttar konur, er verðlagt mjög lágt, í raun geymt á útsölumarkaði atvinnulífsins. Tilraunum til að bæta kjör þessara kvenna, bæði launakjör og aðstæður á vinnustað, er mætt með hörku og fjandsemi ráðandi stétta, og talsmanna og kvenna þeirra.
Það hlýtur að vera öllum ljóst á þessari stundu að alvinnusamfélagið, þar sem að þátttaka kvenna á vinnumarkaði er jafn mikilvæg og þátttaka karla, hefur ekkert að gera með réttindi verkakvenna. Hvergi er það jafn augljóst og í umræðunni um umönnunarkerfin – þar er fallist á að til þess að allir geti verið á vinnumarkaði verði hópur fólks, mest kvenna, að halda áfram að gera sér að góðu ömurlegar aðstæður á vinnustað; líkamlega og andlega erfiðisvinnu sem gerir fólk, mest konur, veikt og ýtir þeim oft á tíðum hratt og örugglega í átt að heilsuleysi og örorku. Þar sjáum við að kerfið treystir í raun á misnotkun á einni kvennastétt – stétt lágt verðlagra kvenna með lágt samfélagslegt virðingarstig. Þjóðfélagsleg frelsun kvenna hvílir á arðráni og ofurálagi kvenna. Ef að einhver neitar að sjá æðisgengnar þversagnir arðránskerfisins, bendið þeim á þetta dæmi og sjáið hvað þau segja. Ef að þau neita enn að horfast í augu við efnislegan raunveruleika – þá er sennilega ekki hægt að tjónka við þau, ekki frekar en fólk sem trúir því að jörðin sé flöt.
Inngilding: Efling tengir félagsmenn sína við samfélagið og styrkir rödd þeirra
Kæru áheyrendur. Í Eflingu höfum við valið að fara leið samstöðu og samvinnu hvert með öðru. Við trúum raunverulega á inngildingu. Við höfnum því að vera skrifstofuvirki sem hræðist lýðræðislega þátttöku meðlima. Allt sem við gerum byggir á skoðunum og sýn Eflingarfólks. Fræðimaðurinn Adam Fishwick, gestaprófessor við Háskólann á Akureyri, rannsakar nú Eflingar-módelið, þar sem endurnýjun félagsins er drifin áfram af félagsfólki. „Félagsfólk upplifir Eflingu sem sitt samfélag“ segir Adam. Einnig: „Það sem Efling hefur gert er að færa sig frá því að vera fjarlæg skrifræðisleg eining yfir í að virkja grasrótina. Þannig styrkist félagið sem heild, bæði til að semja um hærri laun og betri kjör.“ Fyrstu niðurstöður hjá Adam sýna hvernig félagið byggir upp styrk sinn „neðan frá“. Adam segir að reynslan af Eflingu sýni skýrt að stéttarfélög geti haft bæði félagslegt og pólitískt hlutverk. „Þetta er kjarninn í endurnýjuninni,“ segir hann, „og það sem mér finnst sérstaklega áhugavert er hvernig félagið tengir félagsmenn sína við samfélagið og styrkir rödd þeirra innan vinnumarkaðarins og samfélagsins almennt.“ „Félagsfólk upplifir Eflingu sem sitt samfélag“ segir hann.
Breytingin, endurnýjunin, snýst um að horfa alltaf á það sem sameinar Eflingarfólk, aldrei það sem skilur okkur að. Í stjórn, trúnaðarráði og samninganefndum vinnur og berst saman fólk allstaðar að úr heiminum, ungt og eldra, konur og karlar, frá Hondúras, Ghana, Lettlandi, Íslandi, Brasilíu, Filippseyjum, Litháen, Nígeríu, Noregi, Indlandi, Póllandi, Tælandi, Úkraínu og Venesúela. Í trúnaðarráði erum við frá 27 löndum. Bozena, Olga, Munda, Karla, Mariangela, Guðbjörg, Vania, Mary Jane; við deilum sögum og upplifunum hvor með annarri – sumt er sorglegt og erfitt, og sumt er fyndið og skemmtilegt. Þetta er samfélagið okkar. Við sköpuðum það og við elskum það. Og við munum gera allt til að varðveita það.
Í Eflingu höfum við verið að tala um konur og konustörf síðan 2018. Við höfum talað um konurnar í leikskólunum, á hjúkrunarheimilunum, í ræstingum og á hótelunum. Við höfum talað um tilfinningavinnu og um sögulega vanmetin kvennastörf. Við höfum sagt: „Við erum meira virði. Við erum ómissandi. Við sköpum verðmætin.“ Við höfum reynt að útskýra aftur og aftur hver staðan er í lífi meðlima stéttar kven-vinnuaflsins.
Og hvað hefur svarið verið? Til skiptis fordæmingar eða hunsun. Við höfum verið kallaðar efnahagslegir hryðjuverkamenn og barna-gísla-tökumenn. Það hefur verið sagt að barátta verkakvenna sé aðeins lágvært tif, eins og við séum því sem næst ósýnilegar. Stundum er kannski talað um okkur sem dálítið krúttlegar. En það er aldrei er talað um Eflingarkonurnar sem valkyrjur eða flottar stelpur. Aldrei er bent á að við höfum sjálfar staðið í umfangsmikilli innleiðingarherferð sem skilað hefur miklum árangri. Að við séum í raun nokkurskonar frumkvöðlar. Aldrei nema þegar við gerum það sjálfar.
Kjarninn er þessi: Verkakonur verða aldrei frjálsar undan arðráni ef við látum sem vandamálin sem plaga líf þeirra séu persónubundin. Með því að einblína á menntun eða tengslanet einstaklinga, gröfum við undan möguleikum stéttar verkakvenna til að ná árangri í sinni lífsnauðsynlegu baráttu. Ekkert býr yfir möguleikanum á frelsi verkakvenna nema stéttabaráttan. Og þar er aðeins hægt að ná árangri ef að við stöndum öll saman, og látum ekkert skilja okkur að.
Við látum ekki búta okkur niður út frá uppruna, tungumáli, kyni eða menntun
Sameinuð stétt verkafólks er auðvitað það versta sem ráðandi öfl geta hugsað sér. Ráðandi öfl elska þess vegna hópamyndanir og tilhneigingu samtímans til þess að finna sífellt minni og fágætari hópa fyrir fólk til að vilja tilheyra. Þess vegna er það einmitt það sem við í Eflingu gerum ekki. Við ætlum ekki að taka þátt í því að grafa undan stéttarvitund okkar sjálfra með því að búta okkur niður út frá uppruna, tungumáli, kyni eða menntun. Íslensk Eflingarkona stendur með aðfluttri Eflingarkonu, og Eflingarkonur og -karlar standa saman og berjast saman.
Þótt aðrir vilji skipta okkur niður í hópa, þá höfum við séð að árangur næst með því að gera gagnstæða. Það eru ekki Eflingarkarlar sem hafa verið í viðvarandi taugaveiki-kasti frá því að krónutölusamningarnir 2019 leiddu til þess að kaupmáttur kvenna og innflytjenda jókst mest. Nei, það eru félög háskólamenntaðra og félög hálaunahópa ASÍ sem hafa gert það að meginmarkmiði sínu að koma í veg fyrir að hægt sé að semja um krónutöluhækkanir aftur – þar hafa staðið saman íslenskar konur og íslenskir karlar gegn íslenskum og aðfluttum verkakonum. Þar hafa stéttaátökin afhjúpast með hvað skýrustum hætti.
Við í Eflingu höldum áfram að segja sögurnar okkar. Við höldum áfram að grínast og berjast. Vegna þess að þegar við horfum öll saman, karlar og konur, innfædd og aðflutt, með hvesstum augum á raunveruleikann, sjáum við hið augljósa: Að sameinuð í stéttasamstöðu okkar, erum við það afl sem raunverulega getur breytt því sem breyta þarf.
Takk fyrir.







