Hermálasamningur er varla prívatmál

19. júlí, 2025

“Varnarsamningur” við Evrópusambandið krefst skuldbindinga og fjárframlaga. Svona samningaviðræður kalla þess vegna augljóslega á umræðu í þjóðfélaginu og síðan á Alþingi og eiga ekki að hefjast án slíkrar umræðu. Endapunkturinn á svo að vera hjá þjóðinni, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Milliríkjasamningar koma nefnilega okkur öllum við og á ekki að gera að geðþótta forsætisráðherra og utanríkisráðherra.

Svo leyfi ég mér að setja spurningmerki við siðferði og dómgreind forsætisráðherra sem hefur eftirfarandi að segja um Ursulu von der Layen, mjög umdeilda forystukonu Evrópusambandsins sem auk þess hefur haft uppi óábyrgt tal um stríð og frið að undanförnu:

Úrsúla er “ótrúlega hæfur leiðtogi”

„Þetta eru tímar sem kalla á yfirvegaða og ákveðna forystu. Ég held að þú hafir sýnt heiminum hvað þú ert ótrúlega hæfur leiðtogi og það er mikill heiður að fá þig hingað í dag og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs..,“

Þetta voru ávarpsorð Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra í garð forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Ber blak af þjóðarmorðingjunum á Gaza

Úrsúla þessi er þekkt fyrir að hafa borið blak af Ísraelsmönnum í hryllilegu þjóðarmorðinu á Gaza. Ísrael hefur rétt á að verja sig fylgir alltaf með af hennar hálfu þegar vikið er að ofbeldinu og mannréttindabrotunum þar. Þetta er sammerkt með öllum viðhlæjendum morðingjanna.

Þykjast vera í áfalli en klykkja svo út með þessu. (sjá einnig grein Hjálmtýs Heiðdal á vefritinu Neistum).

Þá hefur Úrsúla lýst skilningi á árásum Ísraels á Íran því vissulega hefði Ísrael rétt á að verja sig. Því hefur ekki verið haldið mjög á loft að í árásunum var fjöldinn allur drepinn og særður, hinn 24. júní síðastliðinn drápu Ísraelar þannig tæplega þúsund manns og særðu þúsundir Írana. Ursula von der Leyen var með svipaða formúleringu þegar Trump Bandaríkjaforseti sendi bandarískar drápsvélar til árása á Íran. Það væri sannarlega ástæða til að óttast Íran sagði hinn ótrúlega hæfi stjórnmálaleiðtogi.

Þarna skar Ursula von der Layen sig ekki úr hópi annarra evrópskra ótrúlega hæfra leiðtoga. Upp til hópa voru þeir meðmæltir árásum Ísraels og tóku í sama streng þegar Trump fyrirskipaði þátttöku Bandaríkjamanna í morðárásunum á Íran. Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATÓ, þakkaði Bandaríkjaforseta fyrir hugrekkið, árásirnar hefðu sannarlega verið hetjudáð, “eitt­hvað sem eng­inn ann­ar hef­ur þorað að gera.”

Ruddinn og viðhlæjendur hans

Þetta eru nýjustu dæmin um hina ótrúlega hæfu leiðtoga sem ríkisstjórn Íslands er að stilla sér upp með og mæra. Trump Bandaríkjaforseta, sem utanríkisráðherra Íslands segir afar sjarmerandi mann, gagnrýna Evrópumennirnir svona til að þóknast almenningi sem er furðu lostinn yfir ruddaskap forsetans bandaríska, en svo hneigja þeir sig fyrir honum og hlýða honum að hætti viðhlæjandans. Ekki veit ég hvor er verri, ruddinn eða undirlægjan. Sjá nánar.

Einari Ólafssyni þarf að svara

En hvað með spurningu Einars Ólafssonar, rithöfundar? Skyldu þær Kristrún Frostadóttir og Þorgerður Katrín hafa rætt um yfirlýstan vilja utanríkisráðherrans, væntanlega fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, að Íslendingar muni taka þátt í aðgerðum gegn Ísrael? Hverning orðuðu þær þetta við Úrsúlu þær Kristrún og Þorgerður Katrín?

Einar spurði og bíður svars.

Grein hans má lesa hér.

Enn sem komið er hefur ekki komið neitt fram um sameiginlegar aðgerðir gegn Ísrael í viðræðum við hinn ótrúlega hæfa leiðtoga?

Greinin birtist áður á heimasíðu höfundar, ogmundur.is.