Rússland vill «uppræta meginorsakir deilunnar»

23. maí, 2025

Donald Trump og Vladimir Pútín ræddu Úkraínudeiluna í tvo og hálfan tíma í síma þann 19. maí. Báðir lýstu síðan stuðningi við endurupptöku diplómatískra viðræðna milli Rússlands og Úkraínu.

«Nokkur árangur náðist… Rússland og Úkraína munu strax hefja samningaviðræður um vopnahlé og, enn mikilvægara, um lok stríðs» skrifaði Donald Trump eftir samtalið. «Þetta er ekki okkar stríð» staðhæfði hann. «Það hefði átt að vera áfram evrópskt vandamál. En við tókum þátt..» 

Eftir að hafa – gegnum utanríkisráðherra sinn – kallað stríðið «staðgengilsstríð milli Bandaríkjanna og Rússlands – kynnti hann sig um og tíma sem «milligöngumann» milli aðila í stríðinu og loks heldur hann því fram að hann eigi enga aðild að þessu stríði og vill draga sig út úr friðarviðræðunum! Sjónhverfingamaður!

Pútín sagði að sínu leyti að samtalið hefði verið «hreinskilið og mjög gagnlegt». Síðan bætti hann við: «Ég vil taka fram að afstaða Rússlands er almennt ljós. Aðalatriðið fyrir okkur er að uppræta meginorsakir deilunnar.»

Sérfræðingar RÚV greina stöðuna

RÚV ræddi málið við sérfræðinga sína, Erling Erlingsson og Jón Ólafsson í Silfrinu sama dag (19. maí). Þeim finnst «allt óbreytt» í Úkraínudeilunni, af því að «ekkert bendi til samningsvilja Rússa».  Þeir óttast samt að nú geti hallað á Úkraínu í viðræðunum, tala um «lélega frammistöðu Trump-stjórnarinnar» sem hafi «aldrei sett raunverulega pressu á Pútín», hins vegar spyrji menn nú «hvaða þrýstingi Evrópuríkin ákveða að beita Rússa». Jón Ólafsson segir Pútín hafa ákveðin yfirtök í samskipotunum með því að auðsýna Trump virðingu og spila á hégómagirnd hans, beina máli sínu eingöngu til hans: «Við erum með, hvað á maður að segja, hégómlegan mann í Hvíta húsinu sem fellur fyrir þessu. Það er eitthvað samband milli þeirra sem er virðingarsamband,“ 

Erlingur Erlingsson hefur í Úkraínudeilunni verið mikill talsmaður hernaðarstuðningsins við Úkraínu, því að í honum liggi eina hugsanlega lausn deilunnar. Fyrir aðeins þremur mánuðum trúði hann ennþá á sigurmöguleikana og skrifaði grein: «Mýtan um óum­flýjan­legan rúss­neskan sigur”. Þar segir hann hann «Ljóst er að Rússum gengur mjög erfiðlega á vígvellinum og stríðið hefur til þessa verið mikil hrakför…»   Rúmu ári áður ræddi Erlingur við Boga Ágústsson um þessa deilu og gagnrýndi Vesturlönd fyrir slælegan vopnastuðning: «Erlingur telur að vestræn ríki verði að vera staðföst í stuðningi við Úkraínumenn. Þau hafi verið of treg og sein til að senda Úkraínumönnum nauðsynleg hergögn, sumir hafi sagt að Úkraínumenn hafi fengið nægilega mikið af hergögnum til að tapa ekki en ekki nóg til að geta unnið stríðið.» Erlingur er fyrrum starfsmaður NATO og hann er frjálslynda útgáfan af vetrænni hernaðarhyggju. Það segir nokkuð um upplýsingastöðu okkar hér til lands að hafa slíka ráðgjafa í utanríkismálum.

Donald Trump er sá maður sem Erlingur hefur ennþá minna dálæti á en á Pútín. Þess vegna er þessi stríðsbjarti NATO-sagnfræðingur samt svartsýnn. Í greininni «Mýtan um ..» segir hann: «Trump-stjórnin tekur þannig, að því er virðist, afstöðu með Rússlandsforseta… Það er því áhyggjuefni að meðan þróun stríðsins er Rússum alls ekki í hag, þá virðist sem Bandaríki Trumps ætli að skera þá úr snörunni og færa þeim einhvers konar sigur við samningaborðið.» Þetta segir maðurinn sem telur að Úkraína geti unnið ef bara stuðningsveldin standa sig. 

En einn þátt málsins minntust þeir Jón og Erlingur ekkert á, þátt sem skiptir þó líklega ansi  miklu um friðarviðræður og niðpurstöðu þeirra: stöðuna á vígvellinum í Úkraínu. Nema hvað eftirfarandi kom fá Erlingi: «Ekkert gefur manni ástæðu til að ætla að það sé kominn samningsvilji hjá Rússum, þó að þeir séu eins og Úkraínumenn komnir að niðurlotum.» Samkvæmt því er þá jafnt á með stríðsaðilunum komið. Þetta heitir óskhyggja.

Greining sérfræðinganna er röng

Það er ekki rétt sem sérfræðingarnir segja: það er ekki «allt óbreytt» í Úkraínudeilunni. Þegar fulltrúar stríðsaðilanna tveggja hittust í Istanbul fyrir viku höfðu þeir ekki hist til viðræðna síðan í mars 2022, þá líka í Istanbul. Hvað þá að forsetarnir Rússlands og Bandaríkjanna hafi talast við á því tímabili, aldrei. Ekki af því Moskva vildi ekki, Washington vildi það ekki. En þeir talast nú við og segja að samningaviðræður (ótímasettar) séu væntanlegar, svo það er veruleg breyting.  

 Meðan Rússar héldu upp á 80 ára afmæli sigursins mikla 1944 – og sem svar við hátíðarhaldinu í Moskvu – stormuðu leiðtogar Frakklands, Þýskalands, Bretlands og Póllands (Macron, Merz, Starmer, Tusk) til Kiev. Þeir eru foringjar nýstofnaðs «Bandalags hinna viljugu» til stuðnings Úkraínu. Í diplómataerindum sögðust þeir vera, og friðflytjendur. Vildu samt ekki ræða við Rússa. Í staðinn ferðuðust þeir í hópi til Kíev til að sýna styrk og fumlausan stuðning við Zelenskí. Nú vildu þeir koma á vopnahléi, 30 daga skilyrðislausu vopnahléi. Þeir boðuðu nýjar ennfremur hertar refsiaðgerðir gegn  Rússlandi, og biðluðu jafnframt til Bandaríkjanna um hernaðarleg nærveru til að tryggja vopnahléð. Tillagan um 30 daga vopnahlé er þó ekki alveg ný, heldur er hún tillaga sem Trump haldið á loft frá því í mars.

Þetta er samt vissulega breyting hjá Evrópuríkjum NATO. Hingað til hafa þau alls ekki viljað að samið væri við Rússa. Bandaríkin undir Biden vildu það ekki heldur. Fyrir rúmum þremur árum, á fyrstu vikum innrásar Rússa, fóru fram friðarviðræður í Istanbul og samningur var nánast tilbúinn, en þá fékk Zelensky þau skýru skilaboð frá NATO (gegnum Boris Johnson) að «Pútín sé stríðsglæpamaður, það eigi að beita hann þrýstingi, ekki semja við hann», samkvæmt Ukrainska Pravda í Kiev. Davyd Arakhamia, formaður í flokki Zelenskys „Þjóni fólksins“sem fór fyrir úkraínsku sendinefndinni í Istsanbul staðfesti seinna þessa frásögn blaðsins:

Þeir [Rússar) raunverulega vonuðu alveg fram á síðustu stundu að þeir myndu þvinga okkur til að undirrita þannig samkomulag að við myndum velja hlutleysi. Það var aðalatriðið fyrir þá… En síðan, þegar við komum frá Istanbúl, kom Boris Johnson til Kiev og sagði: „Við undirritum ekki neitt. Við skulum heyja stríð.” 

Boris Johnson meinti: Þið skuluð heyja stríð, til síðasta manns. Jón Ólafsson segir það vera «hreinar sögufalsanir Rússlandsforseta» að Vesturlönd hafi hindrað samning í apríl 2022, en þetta var tilvitnun í formann Úkraínsku samninganefndarinnar, ekki í Pútín. Lesa má nýlega góða yfirferð yfir þessar samningaviðræður hjá Ted Snyder á Antiwar.com. 

Semja eða semja ekki?

Stefna NATO hefur síðan verið að «hjálpa» skuli Úkraínu, þ.e.a.s. vígvæða Úkraínu, af því eina lausn deilunnar sé hernaðarlegur sigur á Rússum. Uppgjafastefna og friðkaupastefna urðu hin fordæmdu hugtök með eilífri tilvísun til Chamberlains 1938, «samninga» hefur lengst af ekki mátt nefna í hinum vestrænu herbúðum, af því «friður er hættulegri en stríð» (Mette Frederiksen). Zelenskí að sínu leyti hlýddi svo vel þessu banni að hann lét setja í landslög að bannað væri að semja við Rússa. Þess vegna er krafa Vestursins nú um að semja skuli um vopnahlé strax heilmikil breyting.

Hvað veldur þeirri breytingu? Því er fljótsvarað: Það blasir við að Rússar hafa unnið stríðið – og síðustu vikur og mánuði er það svo augljóst að meginstraumsmiðlar kjósa að fjalla ekki um það. Bandaríkin viðurkenndu þetta fyrst. „We just have to be realistic about the fact that Ukraine has lost” sagði Marco Rubio utanríkisráðherra strax 30. janúar. Og hann tilkynnti að Bandaríkin myndu draga sig út úr Úkraínu, hafandi mikilvægari hnöppum að hneppa annars staðar (Kína). Þennan veruleik vill evrópska “hjálparlið Úkraínu”  ekki viðurkenna af pólitiskum heimilisástæðum, en grátbæna pabba Trump: ekki fara! Og minna nokkuð á höfuðlausar hænur.

Næstu tíðindi í málinu urðu 11. maí, við lok hátíðarhaldanna í Moskvu og daginn eftir heimsókn «hinna viljugu» til Kiev. Þá stakk Pútín upp á friðarviðræðum Rússlands og Úkraínu, strax 15. maí. Og að þær skyldu haldnar í Istanbul. Hann vísaði þá til áðurnefndra viðræðna í upphafi stríðsins, einmitt í þeirri borg. Pútín taldi að nú mætti halda áfram þar sem frá var horfið.

Donald Trump fagnaði uppástungunni strax, hann veit að stríðið í Donbas er tapað og þráir pásu, og hann hvatti Úkraínumenn eindregið til að mæta til Istanbul.  

Viðbrögð «Bandalags hinna viljugu» voru áhugaverð: Þeir ítrekuðu sína úrslitakosti til Rússa: þeir verði að ganga að tillögunni um 30 daga skilyrðislaust vopnahlé, og vopnahlé verði að koma fyrst, á undan friðarviðræðum. Bandalagið barði sér á brjóst eins og górillur. Þegar engar fréttir bárust af því að Pútín yrði sjálfur í samninganefndinni lýsti Kaja Kallas utanríkismálastjóri ESB yfir að Pútín myndi líklega «ekki þora» að mæta til Istanbul.

Viðbrögð Zelenskys voru í sama takti. Engar viðræður án vopnahlés, sagði hann. Eftir eindregin tilmæli frá Trump sagðist hann þó vera til í að mæta til Istanbul, en aðeins ef Pútín mætti sjálfur, annars ekki. Fór svo og hitti Erdógan í Ankara, talaði nokkrum sinnum við Trump í síma og leyfði að lokum sendinefnd sinni að fara til Istanbul. Hélt síðan til Albaníu á frekari fund með “Bandalagi hinna viljugu».

Rússar kjósa öfuga röð

Afstaða Rússa liggur fyrir: Hún er þveröfug við afstöðu NATO: Ekkert vopnahlé án friðarviðræðna. Ekkert vopnahlé nema tekið sé á rótum deilunnar fyrst.

Bakmenn Úkraínu hafa fá tromp á hendi til að setja Rússum skilyrði eða ákveða friðarskilmála, hvorki Trump né Bandalag hinna viljugu. Tapandi aðili í stríði ákveður ekki friðarskilmála. Í stríðslokasamningi um Úkrínudeilu eru það því Pútín og Kremlverjar sem sitja við stjórnvölinn. «Aðalatriðið fyrir okkur er að uppræta meginorsakir deilunnar» sagði Pútín eftir símtalið.

Og hverjar eru þá «meginorsakir deilunnar» að mati Rússneskra stjórnvalda? Það eru hinir frægu «talpunktar Pútíns», atriði sem Rússar hafa endurtekið svo oft í málflutningi sínum að hver sem tekur ser þá í munn er umsvifalasut stimplaður «pútínisti»: 1. Útþensla NATO 2. staðsetning herja og eldflauga NATO í Rúmeníu og Póllandi. 3. NATO-væðing Úkraínu og vígvæðing hennar sem staðgengils gegn Rússlandi. 4. Valdaskiptin 2014 í trássi við stjórnarskrá, áhrif nýnasista sem af því leiddu og árásir á rússneskumælandi íbúa í austurhéruðunum.  Sjá hér.  Þessa hluti þarf að leysa, a.m.k. byrja að leysa þá, áður en gert er vopnahlé, það er hin rússneska afstaða..

Útþenslustefna eða trygging öryggis?

Rússar gerðu innrás í febrúar 2922 og hún var ólögleg. Það er ljóst. En hvert var stríðsmarkmið þeirra? Út á hvað gengur stríðið af þeirra hálfu? Fyrsta krafa hefur alltaf verið hlutleysi Úkraínu. Að NATO haldi sig frá næsta nágrenni Rússlands. Rússar heimta öryggistryggingar.

Þegr spennan byggðist upp á landamærum landanna tveggja í vetrarbyrjun 2021 þögðu vestrænir miðlar dyggilega yfir að Rússar væru með einhverjar kröfur í málinu, en Jens Stoltenberg viðurkenndi tilveru þeirra seinna: 

Bakgrunnurinn var sá að Pútín forseti lýsti yfir haustið 2021, og m.a.s. sendi hann samningsuppkast sem þeir vildu að við undirrituðum, um að lofa engri frekari NATO-útvíkkun. Það var það sem þeir sendu okkur, og var skilyrðið fyrir því að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu.

Áður var minnst á friðarviðræðurnar «Istanbul1» í blábyrjun rússnesku innrásarinnar. Þar kom líka fram að krafan um hlutleysi Úkraínu var algjör höfuðkrafa Rússa: «Þeir [Rússar) raunverulega vonuðu alveg fram á síðustu stundu að þeir myndu þvinga okkur til að undirrita þannig samkomulag að við myndum velja hlutleysi. Það var aðalatriðið fyrir þá» rifjaði aðalsamningamaður Úraínuanna upp.

Út á þetta gengur innrásin («sérstaka hernaðaraðgerðin») að sögn Kremlverja. Vestræna skýuringin er auðvitað önnur. Á innrásardaginn 24. febrúar 2022 sagði Joe Biden eftirfarandi og lagði fram sitt “narratíf”, vestrænu skilgreininguna á stríðinu:

Þetta snerist aldrei um raunverulegar öryggisáhyggjur af þeirra hálfu. Það snerist alltaf um nakta árásarhneigð, um löngun Pútíns í heimsveldi með öllum hugsanlegum meðulum, um að kúga nágranna Rússlands gegnum þvingun og spillingu, um að breyta landamærum með ofbeldi og, að síðustu, að kjósa stríð án neins tilefnis.

Liður í sama málflutningi er að stilla Pútín eilíflega upp sem Hitler okkar daga, Hitler í Munchen 1938, og sérhver minnsta eftirgjöf er því “friðkaupastefna” og tilræði við lýðræði okkar daga. Innrás Rússa var samkvæmt þessari vestrænu greiningu a) útþenslu- og heimsvaldastefna Rússa og b) “stríð án tilefnis”. Skoðum þau tvö atriði aðeins.

Landvinningar eða útþensla hafa aldrei verið mjög áberandi í kröfugerð og stríðsmarkmiðum Rússa – að undanteknum Krímskaga. Landakröfur Rússa hafa engu að síður aukist eftir því sem á Úkraínustríðið líður. Árið 2014 snérist Pútín gegn beiðni Donbasfylkja um þjóðaratkvæðagreiðslu og inngöngu þeirra í Rússland. Samkvæmt Minsksamkomulaginu 2015 skyldu fylkin tvö fá ákveðna sjálfstjórn innan Úkraínu. Samkvæmt samningsdrögunum í Istanbul í mars 2022 var staða Donbassfylkjanna tveggja óljós og lausn málsins skotið á frest. En í september sama ár, eftir að samningsdrögunum frá Istanbul hafði verið hent í ruslið, lýsti Rússland yfir innlimun fjögurra rússneskumælandi fylkja – Donetsk, Kherson, Luhansk, and Zaporizhzhia.

Og núna? Samtvæmt Kyiv Independent o. fl. var það ein krafa Rússa í Istanbul í maí 2025 að Úkraína léti þeim eftir umrædd fjögur fylki þó að Rússar hafi enn ekki stjórn á þeim í heild sinni. Og Rússar munu hafa gert það ljóst að ef stríðið dregst enn á langinn muni þeir bara hertaka meira land, í Suður-Úkraínu. Þannig að landsvæði er nokkuð sem hægt er að semja um – á meðan ekki verður gefinn þumlungur af grunnkröfunum, kröfum þeim sem varða «öryggi Rússlands».

Tilefnislaust stríð – var engin hætta fyrir Rússland?

Svo er hin spurningin: Var/er þetta «stríð án tilefnis»? Höfðu Rússar einhverja mögulega ástæðu til að óttast um öryggi sitt? Það er ómögulegt að skilja Úkraínustríðið nema átta sig eitthvað á rótum þess og sögulegum kringumstæðum. Hvaða ógnir gátu steðjað að Rússlandi?

Það skaðar ekki, til að byrja með, að hafa bak við eyrað þann sögulega bakgrunn að Rússar búa að reynslu frá árásum evrópskra stórvelda: Frá Pólverjum, í Pólsk-Rússneska stríðinu (1609–1618) sem komust svo langt að hersitja Moskvu í tvö ár. Og bara eftir 1800 hafa Frakkar einu sinni ráðist á Rússland (Napóleon), Bretar einu sinni (Krímstríðið) og Þjóðverjar tvisvar (27 milljón drepnar í seinni heimsókninni). Framantalin fjögur ríki eru einmitt þau fjögur sem í þessari grein hefur verið nefnd «Bandalag hinna viljugu». Að tryggja vesturlandamærin hefur verið þungvægasta atriði í rússneskri varnarmálastefnu, hreint ekki að ástæðulausu.

Þá þrengjum við sjónarhornið í tíma og fókusum á tímann eftir lok Kalda stríðsins (1991). Ég ætla að minnst á fimm atriði í þróuninni á því tímabili sem Rússar hafa upplifað sem ógnun, líklega Rússar almennt jafnt sem rússnesk stjórnvöld. Þegar hér var komið hét ógnvaldurinn NATO.

Fimm ógnir

1) NATO-væðing Austur Evrópu. Lok Kalda stríðsins afnámu ekki skiptingu Evrópu heldur færðu bara skiptinguna austar, með útvíkkunum NATO í nokkrum hrotum allt austur að Rússlandi. Það var andstætt loforðum gefnum leiðtogum Sovét 1990 og gegn áköfum mótmælum leiðtoga Rússlands í hvert sinn, en Rússland var veikt og mátti sín lítils. George Kennan helsti hugmyndafræðingur Bandarískrar utanríkisstefnu á fyrri hluta Kalda stríðsins varaði sterklega við fyrstu austurstækkun NATO sem varð 1999, af því slík stefna ógnaði örggi Rússlands, og hann spáði:

Ég held að þetta sé byrjunin á nýju köldu stríði… Það var yfir höfuð engin ástæða til þessa. Enginn ógnaði neinum öðrum. (T. L. Friedman, “Foreign Affairs; Now a Word From X”, The New York Times, 2. maí 1998).

2) NATO-væðing Úkraínu. Bandaríkin/NATO unnu að því frá 10. áratug að gera Úkraínu að NATO-meðlim í reynd. Fyrstu NATO-æfingar með þátttöku Úkraínu voru árið 1995. Eftir 2000 varð þó NATO-væðing Úkraínu miklu hraðari og áhyggjusamlegri frá rússneskum sjónarhól. Larry Johnson fyrrverandi starfsmaður bandarísku leyniþjónustunnar og utanríkisráðiuneytisins og sérfræðingur í baráttu gegn hryðjuverkum skrifar um þetta:

Fyrsti áratugur 21. aldar markar upphaf þess að Úkraína yrði de facto NATO-ríki. Landið tók ekki aðeins þátt á öllum helstu heræfingunum heldur var það gestgjafi margra NATO-æfinga. Satt að segja, frá 2000 til 2010 er Úkraína eitt sex ríkja sem er oftast gestgjafi fyrir æfingar NATO eða USEUCOM (Evrópuherstjórn Bandaríkjahers). Georgía kemur númer sjö í þeirri röð, en hvorki Úkraína né Georgía voru NATO-meðlimir…

Aðeins tvennt skildi Úkraínu frá aðildarlöndum NATO, að landið hafði ekki efnahagslegar skyldur við NATO og það heyrði ekki undir 5. grein bandalagsins. Að öðru leyti kom Úkraína fram sem de facto NATO-meðlimur fyrir 2010.

Stór liður í NATO-væðingu Úkraínu var svo þegar leiðtogafundur NATO í Búkarest í apríl 2008 sló föstu: “Við samþykktum í dag að þessi lönd [Úkraína og Georgía] munu verða aðilar að NATO.”  William Burns, þá bandaríski sendiherrann í Moskvu og seinna yfirmaður CIA sendi  tveim vikum fyrir Búkarestþingið minnisblað heim til Washington, sem innihélt sterka aðvörun. Hann sagði beinlínis að útþensla NATO til Úkraínu gæti  leitt til hernaðarafskipta Rússlands. Sjá minnisblaðið: 

Innganga Úkraínu í NATO er skærast allra rauðra strika fyrir rússnesku elítuna (ekki bara Pútín). Í meira en tveggja og hálfs árs samtölum mínum við rússneska lykilþátttakendur, frá dólgakjöftum í dimmum skotum Kremlar til skörpustu frjálslyndu gagnrýnenda Pútíns, á ég eftir að finna nokkurn sem lítur á Úkraínu í NATO sem neitt annað en beina ögrun við rússneska hagsmuni … Það mun skapa frjóan jarðveg fyrir rússneska íhlutun á Krím og í Austur-Úkraínu.

3) Ráðandi staða Bandaríkjanna í NATO. NATO-væðing Austur Evrópu og Úkraínu var liður í heimsvaldaprósékti Bandaríkjanna, hinu drottnandi afli í NATO. Bandaríkin fylgdu eftir lok Kalda stríðsins hnattrænni yfirráðastefnu. Samkvæmt Zbigniev Brzezinski, áhrifaríkasta strategista bandarískrar utanríkisstefnu, voru yfirráðin yfir Evrasíu úrslitaatriði um bandarísk heimsyfirráð. Í bókinni The Grand Chessboard (1997) lagði hann fram “samþætta geóstrategíu fyrir Evrasíu”. Í henni var frumskilyrði að hindra Rússland í að verða evrasískt stórveldi. Og NATO hafði hlutverk: „Evrópa er helsta geópólitíska fótfesta Bandaríkjanna í Evrasíu… NATO rótfestir pólitísk áhrif og hernaðarlegt vald Bandaríkjanna á meginlandi Evrasíu. ”

Bandaríkin stóðu á þessu tímabili í miklum stríðsrekstri, innrásum og valdaskiptaaðgerðum vítt um heim, ekki síst í Austurlöndum nær og á áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna. Rússar mátu/meta hættuna frá NATO eðlilega í ljósi hlutverks bandalagsins sem verkfæri Bandaríkjanna.

4) Bandarískt drifið valdarán varð í Úkraínu árið 2014, í formi “litabyltingar” (kennd við Maidan-torg) ásamt með valdbeitingu andrússneskra öfgahægriafla sem hröktu lýðræðislega kjörna stjórn og forseta frá völdum. Fyrstu lög sem nýtt þing eftir valdaránið samþykkti voru lög sem afnámu réttindi rússnesku sem önnur þjóðtunga í hlutum landsins, og Maidanstjórnin efndi þannig til ófriðar í landinu, og tvö fylki sögðu sig úr lögum við Kiev en Rússland brást við með innlimun á Krím (raunar eftir atkvæðagreiðslu Krímverja).   

Ástæður þess að vestrænir strategistar settu valdarán á dagskrá í Úkraínu 2013 var trúlega það að hið mikla áhersluatriði, NATO-væðing landsins, gekk treglega. Litabylting hafði fleytt mjög vestrænt sinnuðum öflum til valda árið 2004 (“Appelsínugula byltingin”) en þau féllu í kosningum 2010 og miklu meiri Rússlandsvinur, Janukovitsj, var kosinn forseti í Kiev.  Strax vorið 2010 staðfesti hann lög um hlutleysi Úkraínu, og framlengdi líka samning við Rússland um rússneska Svartahafsflotann á Krím.

Það er athyglisvert að óskin um NATO-aðild Úkraínu var ekki frá þjóðinni komin. Skoðanakannanir í Úkraínu framkvæmdar á tímanum1991-2014 sýndu aldrei meira en um 20% stuðning við NATO-aðild fyrir landið í heild.  Sem dæmi má nefna Gallup-könnun í maí 2008, einum mánuði eftir að leiðtogafundar NATO í Búkarest hafði samþykkt: “Úkraína mun verða aðili að NATO.” Það þurfti valdarán til.

5) Vígvæðing Úkraínu eftir Valdaránið. Valdaránið skapaði nýja stöðu fyrir NATO-væðingu og vígvæðingu Úkraínu. Innan mánaða var Kievstjórnin (Maidanstjórnin) komin í borgarastríð við íbúa Donbasshéraðanna. Her hennar gekk hins vegar mjög illa að berja niður uppreisnarmenn í Donbass sem fengu vopnaaðstoð frá Rússlandi, og hann beið marga ósigra. Herinn reyndist illa á sig kominn 2014, ekki síst hlýddu menn illa skipunum í að skjóta á samlanda sína. Úr því var leyst með því að skipuleggja herflokka sjálfboðaliða sem voru tilbúnir í slík störf. Út úr því komu m.a. öflugar herdeildir skipaðar fyrst og fremst andrússneskum hægriöfgamönnum. Að hinu leytinu var smám saman byggður upp voldugur her undir leiðsögn og með stuðningspökkum frá NATO og NATO-veldum. Sjá t.d. þennan samþættaða NATO-stuðningspakka frá 2016.   

Árið 2014 sagði varnarmálaráðherra nýju stjórnarinnar í Kiev að herinn (landherinn) hefði aðeins á að skipa 6000 manna virkum mannafla. Sjá hér. Í janúar 2022, rétt fyrir innrásina hafði Úkraína hins vegar virkan herafla á bilinu 200-250 þúsund manns en þjálfað varalið upp á 900.000. Sem sagt með stærstu herjum í Evrópu og vel útbúinn. Sjá hér.   

Árið 2021 undirrituðu Bandaríkin og Úkraína samning, “Bandarísk-úkraínskur samningur um varnarsamstarf“ (U.S.-Ukraine Charter on Strategic Partnership) sem skuldbatt Bandaríkin til að byggja upp úkraínska herinn og tryggja Úkraínu “fulla sameiningu við evrópskar og evró-atlantískar stofnanir”. Sama ár gerði Bretland flotasamning við Úkraínu, m.a. um byggingu tveggja flotastöðva, við Svartahaf og Azovhaf.

Desember 2021. Rússland krefst öryggistrygginga

Í árslok 2021 ákvað Rússland að draga rautt strik með hótun um að beita hervaldi ef farið væri yfir það. Moskva sendi Washington í desember 2021 samningsuppkast sem dró upp skilmálana fyrir því að koma aftur á öryggi og stöðugleika í Evrópu. Uppkastið krafðist þess að NATO útvíkkaði sig ekki frekar til austurs og að Washingon skuldbyndi sig til að stofna ekki til herstöðva í Úkraínu. Í seinna uppkasti krafðist Moskva þess líka að NATO drægi tilbaka hermenn og herbúnað sem það hefði flutt inn í Austur-Evrópu eftir 1997 (Glenn Diesen, The Ukraine War & the Eurasian World Order, 234.)

Seinna staðfesti Jens Stoltenberg framkvstjóri NATO sendingu þessa samningsuppkasts frá Moskvu eins og áður var til vitnað, hann staðfesti að Pútín: «sendi samningsuppkast sem þeir vildu að við undirrituðum, um að lofa engri frekari NATO-útvíkkun. Það var það sem þeir sendu okkur. Og var skilyrðið fyrir því að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu.»

Bandaríkin og NATO höfnuðu þessum kröfum, vitandi að þær voru úrslitakostir Rússa, eini valkostur við hernaðaraðgerðir. Þau höfnuðu þeim m.a.s. að ræða þær, hvað þá koma til móts við þær.

Að vera eða vera ekki

Stórnvöld í Russlandi töldu sig komin upp að vegg. Að þau stæðu frammi fyrir tveimur valkostum og báðum vondum og hættulegum. Annars vegar að horfa áfram á Úkraínu gerða upp sem mikið NATO-virki við vesturlandamærin þaðan sem skammt var (fyrir skotflaugar) inn að hjartastað Rússlands (tilvistarógn) eða gera ólöglega innrás í Úkraínu, fara í stríð sem fær þá sérstæðu einkunn að vera “árásarstríð í varnarskyni”. Og vona að slík innrás myndi, helst fyrr en seinna, þvinga Úkraínu ásamt bandamönnum til samninga um að uppræta meginorsakir deilunnar.

«Að vera eða ekki vera þarna er efinn/ hvort betur sæmi að þreyja þolinmóður/ í grimmu éli af örvum ógæfunnar/ eða vopn grípa móti bölsins brimi.» Þetta er vissulega ekki eftir Vladimir Pútín en gæti hugsanlega túlkað einhverjar hugrenningar hans eða annarra ráðamanna Rússlands í ársbyrjun 2022.

Pútín valdi seinni kostinn, taldi hann hættuminni þrátt fyrir allt.. Ef horft er út frá hagsmunum Rússlands er erfitt að halda fram að matið hafi verið rangt.

Eftir þrjú ár – rússneska afstaðan óbreytt

Þrjú ár af sprengingum, reyk, blóði og dauða eru liðin. Mikil er ógæfa þessa lands. Þá um síðir koma loks einhverjir af andstæðingum Rússa til að tala við þá um samninga. Af stopulum og takmörkuðum fréttum frá þessum þreifingum er að sjá að Rússar ætli ekki að gefa þumlung eftir. Stríðsmarkmið þeirra hafa lítið breyst frá 2021. Ekkert meiri háttar vopnahlé verður gefið fyrr en meginorsakir deilunnar hafa verið fjarlægðar. En þar sem samningsvilji um «grundvallarorsakirnar» er lítill á báða bóga eru horfur á að deilan verði leyst á vígvelli. Og vesturvígstöðvarnar molna hraðar með hverri viku.