Kína er framtíðin og það virkar – George Galloway

4. október, 2024 George Galloway

Fyrirfram hljóðritað framlag George Galloway á ráðstefnunni Friends of Socialist China í London í tilefni af 75 ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína. Ráðstefnan fór fram 28. september 2024. George Galloway er reynslumikill stjórnmálamaður og vinur Kína. Hann hefur sex sinnum setið á þingi og er leiðtogi Vinnumannaflokks Bretlands (Workers Party of Britain).


Yðar hátignir, dömur og herrar, félagar og vinir, það er mikill heiður að ávarpa ykkur í tilefni 75 ára afmælis Alþýðulýðveldisins Kína, sem er eitt afdrifaríkasta afrek heimssögunnar. Það hefði verið enn meiri heiður að vera með ykkur í eigin persónu en fyrri skuldbindingar í Rochdale hafa gert það ómögulegt. Vinsamlegast takið við afsökunarbeiðni minni fyrir það og takið við innilegustu bróðerniskveðju flokks míns, Verkamannaflokks Bretlands, sem leitast við að byggja upp sósíalisma með breskum einkennum í okkar eigin landi. 

Við þökkum Friends of Socialist China fyrir að skipuleggja þessa mikilvægu samkomu og fyrir óþreytandi viðleitni þeirra í gegnum árin til að byggja upp vinsamleg samskipti milli landanna tveggja og félaga okkar, Keith Bennett, sérstaklega fyrir áratuga starf á þessu sviði. En umfram allt hyllum við kínversku þjóðina sem hefur dregið sig upp úr ánauðinni, úr erlendu hernámi og afturhaldi til að verða ljós heimsins á þessum myrku tímum. 

Það er ekki hægt að útlista afrek Kína í eins stuttri ræðu og þessari né í hundrað ræðum: að frelsa milljónir Kínverja úr fátækt, sameining Hong Kong við móðurlandið, rafvæðing stafræna þjóðvegarins, háhraðajárnbrautir, uppbygging innviða með stórkostlegu hugviti og færni, hækkandi lífskjör, vaxandi lífslíkur, Belti og brautarverkefnið sem tengir saman fólk og staði til bóta fyrir mannkynið allt, og að verða öflug rödd í alþjóðamálum sem ekki er hægt að horfa fram hjá. SCO (The Shanghai Cooperation Organization), BRICS, Belti og braut eru allt fyrirboðar hins nýja heims sem liggur rétt handan sjóndeildarhringsins. 

Kínverska kerfið er orðið fyrirmynd alls skynsams fólks sem leitar eftir því að land þeirra verði eins og Kína. Kína er framtíðin og það virkar og allt þetta hefur tekist á ævi minni eða svo gott sem. Þetta er eins konar kraftaverk en það er kraftaverk sem er unnið með erfiðisvinnu og tárum og mikið er enn eftir að gera. Við göngum með Kína á veginum til fullrar sameiningar landsins. Við hvetjum kínversku þjóðina til enn frekari sigra: sigurs yfir heimsvaldastefnunni og afturhaldi alls staðar, höfnun ofurvalds (hegemony), höfnun umburðarlyndis fyrir spillingu, fyrir Kína og heim jafningja þar sem hver leggur af mörkum eftir getu og ber úr býtum eftir þörfum. 

Þessi ævagamla og sígræna hugsjón er það sem veitti hetjunum sem stofnuðu Kommúnistaflokk Kína innblástur í aðstæðum mikils mótlætis, til að ganga gönguna löngu til sigur yfir andstæðingum sínum, til stofnun Alþýðulýðveldisins, og till að knýja hið nýja Kína inn í 21. öldina þar sem Kína verður hin skínandi borg á hæð til innblásturs hvers sem horfir til hennar. 

Lengi lifi Alþýðulýðveldið Kína, dýrð sé kínversku þjóðinni, lengi lifi Kommúnistaflokkur Kína og hinn vitri leiðtogi hans Xi Jinping, dýrð sé hugmyndinni um sósíalisma, uppbyggingu heims friðar, gnægðar, og jafnréttis og lengi lifi vinátta milli fólks okkar landa.