Afléttið viðskiptabanni á Sýrland – tafarlaust

7. febrúar, 2023 Jón Karl Stefánsson

Kirkjuráð Mið-Austurlanda hefur gefið út yfirlýsingu til þjóðarleiðtoga heimsins um að aflétta viðskiptabanni sem enn ríkir á Sýrlendinga tafarlaust. Risa jarðskjálftarnir sem riðu nú yfir landið hafa valdið ómælanlegri eyðileggingu. Ekki er ljóst hversu margir hafa þegar látist eða slasast í þessum miklu hörmungum, en ljóst er að neyðin nú er gríðarleg. En vegna viðskiptabanns Vesturlanda sem Sýrlendingar þurfa enn þann dag í dag að búa við geta hjálparsveitir ekki flutt inn nauðsynlegan tækjabúnað, vistir, læknagögn né annað sem fólk í neyð í Sýrlandi þarf á að halda. Bannið kemur í veg fyrir að jafnvel brýnustu lífsnauðsynjar berist í landið. Kirkjuráð Mið Austurlanda, mikilvægasta stofnun elstu kirkna heims, gaf nú út yfirlýsingu þar sem segir:

  1. Við skorum á alþjóðasamfélagið og alþjóðlegt samfélag kristinna manna að veita Sýrlendingum brýna neyðaraðstoð, í samráði við Kirkjuráð Mið Austurlanda, kirkjurnar og tengdar stofnanir þeirra.
  2. Við hvetjum til þess að aflétta tafarlaust refsiaðgerðum gegn Sýrlandi og leyfa aðgang að öllum nauðsynjum, þannig að refsiaðgerðir breytist ekki í glæpi gegn mannkyninu.

Kirkjurnar í Mið Austurlöndum styðja alltaf sitt fólk og engu verður til sparað í að gera allt til að lina sársauka þeirra sem eiga um sárt að binda og leiða það í átt til framfara og velmegunar.

Í byrjun árs bættu ríkisstjórnir Bretlands og Bandaríkjanna, í samvinnu við Evrópusambandið, við nýjum refsiaðgerðum gegn Sýrlandi. Þessar beindust sérstaklega gegn heilbrigðiskerfi landsins. Þessar bættust við refsiaðgerðir sem hafa verið í gildi í meira en áratug og hafa smám saman lamað efnahag landsins og valdið almenningi þar miklum hörmungum. Árið 2020 samþykkti ríkisstjórn Donalds Trumps mjög umfangsmiklar efnahagsþvinganir í lögum sem nefnd voru „Caesar Act“ beinlínis til þess að valda almenningi miklum skaða. Yfirskyn aðgerðanna var að einhvern vegin myndi þetta leiða til afsagnar ríkisstjórnarinnar, en samtímis hefur Bandaríski herinn tekið þátt í aðgerðum um að beinlínis leggja halda á gríðarlegt magn olíu úr landinu, flytja það yfir landamæri til Íraks og selja hana á opnum markaði. Sjá nánar umfjöllun hér.

Ríkisstjórnir Vesturlanda brugðust við ákalli Tyrklands um neyðaraðstoð vegna jarðskjálftanna sem dundu yfir Tyrkland og Sýrland nú á dögunum, en hafa ekki gert hið sama í Sýrlandi. Frá mannúðarsjónarmiði er þetta óskiljanlegur tvískinnungur. Enn alvarlegra er það að refsiaðgerðir eru nú beinlínis að koma í veg fyrir hjálparstörf í þessu fátæka stríðshrjáða landi.

Taka verður undir ákall Kirkjuráðs Mið Austurlanda. Ríkisstjórn Íslands er hvött til þess að hætta þátttöku í refsiaðgerðum gegn Sýrlandi og koma þeim sem eru í neyð til hjálpar.