Zelensky vill reka æðsta hershöfðingja sinn vegna friðarviðræðna – Seymour Hersh
—
Mynd: Valery Zaluzhny, yfirhershöfðingi Úkraínuhers. © Press Office Úkraínu forseta í gegnum AP.
Vladimir Zelensky, forseti Úkraínu, vill reka æðsta hershöfðingja sinn, Valery Zaluzhny, úr starfi vegna leynilegra viðræðna sem hann hefur átt við Vesturlönd til að binda enda á átökin við Rússland, að því er Seymour Hersh – Pulitzerverðlaunahafi í blaðamennsku – hefur eftir heimildarmönnum sínum. Hann upplýsti einnig að sumir bandarískir embættismenn vildu hjálpa Zaluzhny í „valdabaráttu“ hans við Zelensky.
Fjölmargar skýrslur hafa haldið því fram að forsetinn hafi lent í deilum við hershöfðingjann síðastliðið haust eftir að Zaluzhny lýsti því yfir í viðtali að hin margumrædda gagnsókn Úkraínu gegn Rússum væri komin í „pattstöðu“ á vígvellinum. Þeir tveir eru einnig taldir hafa átt í margvíslegum öðrum ágreiningi um hernaðarleg málefni.
Á meðan úkraínskir embættismenn hafa neitað fréttum um yfirvofandi uppsögn Zaluzhnys, í kjölfar mikills fréttaflutnings í þá átt í vestrænum fjölmiðlum, greindi CNN frá því á miðvikudag að það gæti jafnvel gerst strax í þessari viku.
Í grein sem birt var á Substacksíðu Hears s.l. föstudag bauð hann upp á aðra útgáfu af því hvers vegna Zelensky var að reyna að reka æðsta hershöfðingjann sinn.
Að sögn Hersh stafar löngun Úkraínuforseta til að reka herforingjann, af „vitund hans um að Zaluzhny hafi haldið áfram að taka þátt… í leynilegum viðræðum síðan í haust við bandaríska og aðra vestræna embættismenn um hvernig best væri að ná vopnahléi og samkomulagi um að um að binda enda á stríðið við Rússland.“
Samkvæmt grein Hersh styðja jafnframt sumir meðlimir bandaríska hersins og leyniþjónustusamfélagsins friðarumleitanir Zaluzhnys og vilja umbætur á úkraínsku ríkisstjórninni.
Hersh benti á að samkvæmt hugmyndinni, sem fjöldi bandarískra embættismanna hafa lagt drög að, sé þess krafist að Úkraína ráðist í fjármálalegar umbætur, uppræti spillingu og bæti efnahag og innviði landsins. Hins vegar, hélt blaðamaðurinn áfram – og vitnaði í einn embættismanninn – væri hin raunverulega áætlun „mun metnaðarfyllri“ þar sem hún „geri ráð fyrir viðvarandi stuðningi við Zaluzhny og endurbótum sem myndu leiða til endaloka Zelensky-stjórnarinnar“.
Af þessum sökum, að sögn Hersh, skaut talið um að reka Zelensky sumum talmönnum áætlunarinnar skelk í bringu. Hins vegar, að sögn blaðamannsins, lýsti einn embættismannanna spennunni milli Zelensky og Zaluzhny sem „gamaldags valdabaráttu“. Þeir héldu jafnframt áfram og staðhæfðu að „við hefðum ekki getað tekið á loft án viljugs og hugrakks flugmanns“ og vísuðu þar til hershöfðingjans.
Hersh benti á að þessi áætlun hafi verið þróuð án aðkomu Hvíta hússins, sem hefur opinberlega lýst því yfir að það muni styðja Úkraínu „eins lengi og til þarf“. Hins vegar sagði ónefndur bandarískur embættismaður við blaðamanninn að Vladimír Pútín Rússlandsforseti væri einnig að „leita að leið út úr átökunum“.
Moskva hefur ítrekað sagst reiðubúin til viðræðna við Úkraínu, að því tilskildu að þeir viðurkenni landfræðilegan veruleika á vettvangi. Pútín lýsti því einnig yfir á síðasta ári að til þess að einhver þátttaka yrði staðfest yrði Zelensky að falla frá tilskipun sinni um að banna samningaviðræður við núverandi rússneska forystu.