Vinstri sveiflan í Noregi – og Rauðir
—
Það er stundum sagt að ekki sé mikill munur á hægri stjórn og vinstri stjórn, allavega í landi þar sem peningar eru til í upphæðum sem erfitt er að nefna og enn erfiðara er að átta sig á. Heyrði því fleygt að í sjóðum Noregs séu á milli 11 og 12 þúsund milljarðar króna. Samt alast tugir þúsunda barna upp við fátækt í Noregi.
Á þeim átta árum sem hægri stjórnin hefur ráðið ríkjum hafa 400 ríkustu einstaklingar Noregs hagnast um meira en 300 milljarða króna – allir eru þeir svo milljarðamæringar og sitja margir á tugum milljarða. Af þeim eitt hundrað ríkustu eru 70 erfingjar. Átta ár með hægri stjórn hefur sem sagt fært þeim ríku enn meiri auðæfi og ekki síður aukin völd í samfélaginu. Allir þessir auðmenn studdu við bakið á hægri flokkunum í s.l. kosningum með veglegum greiðslum í kosningasjóði.
Það var sem sagt kominn tími á að skipta út hægri stjórninni. Niðurstaða kosninganna var nefnilega sú að hægrið beið afhroð og tapaði verulega. Hægri flokkurinn (Sjálfstæðisflokkur Norðmanna) missti tæp 5 % af fyrra fylgi og 9 fulltrúa. Kristilegi flokkurinn féll undir 4 % mörkin og fékk enga jöfnunarfulltrúa, fékk aðeins 3 fulltrúa en tapaði 5. Hægri frjálshyggjuflokkurinn (Fremskrittspartiet) tapaði 3,4 % og 6 fulltrúum.
Það sitja 169 fulltrúar á Stórþinginu. Hægri blokkin, sem hafði 88 fulltrúa datt nú niður í 68 fulltrúa. Vinstri blokkin öll er nú með 100 fulltrúa, en að væntanlegri ríkisstjórn munu standa þrír flokkar með samanlagt 89 fulltrúa eða nægan meirihluta. Þessir flokkar eru Verkamannaflokkurinn (ísl. Samfylkingin) með 48 fulltrúa, Miðflokkurinn (ísl. Framsókn) með 28 fulltrúa og Sósíalíski vinstri flokkurinn (ísl. VG) með 13 fulltrúa. Vinstra megin við þá eru svo Rauðir (Rødt), sósíalistar (ísl. Sósíalistaflokkurinn?) með 8 fulltrúa, en Rauðir höfðu aðeins einn fulltrúa á síðasta þingi. Þar sem Rauðir náðu að komast yfir 4 % markið (fengu 4,7 %) og þar með fá jöfnunarfulltrúa bætti flokkurinn verulega stöðu sína. Umhverfisflokkurinn hinir grænu teljast venjulega til vinstri blokkarinnar en fengu heldur lakari útkomu en búist var við og náðu ekki 4 % markinu, fengu 3 fulltrúa kjörna.
Báðir síðastnefndu flokkarnir verða ekki með í ríkisstjórn en munu væntanlega veita nýrri rauðgrænni ríkisstjórn stuðning og aðhald. Fyrir þau sem hafa gaman að tölum: Kosningaþátttaka var 77,2 % – 57,9 % kusu utan kjörstaða. Alls kusu rúmlega þrjár milljónir. Kosningarétt eiga allir norskir ríkisborgarar eldri en 18 ára og þeir sem verða 18 ára á árinu.
Þegar þetta er skrifað hafa þrír flokkar sest niður til að leita leiða til samstarfs. Það er ekki alveg víst að leitin leiði til lausnar þar sem talsvert ber á milli. Verkamannaflokkurinn (Ap) er staðfastur stuðningsflokkur aðildar að ESB og EES og leggur ekkert annað til. Miðflokkurinn (Sp) og Sósíalíski vinstriflokkurinn (SV) eru báðir andstæðingar aðildar að ESB og vilja segja upp eða endurskoða EES samninginn. SV vill Noreg úr NATO en hinir ekki.
Um þessar mundir er verð á raforku á hraðri leið upp. Því er um kennt að lítið vatn sé í uppistöðulónum og svo kallar hátt verð á raforku á meginlandi Evrópu og í Bretlandi á stórfelldan útflutning raforku. Í Evrópu er raforkuframleiðsla slök. Dregið hefur verið úr raforkuframleiðslu með kolum og svo hefur vindorka ekki skilað því sem vonast var eftir. Það eru því uppi háværar kröfur um að minnka eða stöðva útflutning á raforku. Hátt verð á raforku skaðar samkeppnisstöðu iðnaðarins og leggst verulega íþyngjandi á kostnað heimilanna. Þarna eru flokkarnir alls ekki samstíga. Ap vill halda áfram að selja orku á meðan hinir flokkarnir vilja leita leiða til að stöðva þá sölu.
Annað ágreiningsmál sem snertir marga er verð á bensíni og dísel og svo útbreiðsla hleðslustöðva fyrir rafbíla, eða heldur vöntun á stöðvum. Sp vill lækka verð á bensíni á landsbyggðinni og sér ekki hvernig rafbílar geti komið í staðinn fyrir bensín- og díselbíla víða um land á næstu árum.
Þetta eru stór mál sem snerta marga og þess vegna viðkvæm í samningaviðræðum. Á mörgum sviðum eru flokkarnir samstíga, þó áherslur og leiðir séu mismunandi. Þetta á við um landsbyggðarmálin, en hægri stjórnin setti í gang margar og stórar skipulagsbreytingar sem miðuðu að aukinni samþjöppun valds og verkefna. Það hefur ekki farið milli mála að landsbyggðinni hefur blætt undanfarinn áratug. Þetta varð til þess að Sp fékk verulega uppsveiflu í fylgi í síðustu sveitarstjórnarkosninum (2019) og mældist á tímabili stærri flokkur en Ap, sem vaknaði of seint til þess að ná að stýra þeirri miklu mótmælaöldu sem skall á og fleytti Sp langt uppávið. Sp, sem er hefðbundinn flokkur landbúnaðar, varð allt í einu stærsti flokkurinn í Norður-Noregi, þar sem Ap hafði alltaf átt gríðarlegt fylgi. Allir þrír flokkarnir sem nú ræða stjórnarmyndun eru sammála um að það þurfi að snúa við samþjöppunarstefnu hægri flokkanna, að það þurfi að færa völd og áhrif aftur heim í héruð.
Niðurstöður kosninganna voru mikill sigur fyrir vinstriflokkana. Samanlögð aukning Rauðra og SV er meiri en aukning Sp. Rauðir sem áttu aðeins einn fulltrúa koma nú sterkir inn með átta fulltrúa og verulega sterkari flokk. Á annað þúsund manns sóttu um flokksaðild í Rauðum á fyrstu dögum eftir kosningarnar. Á síðasta kjörtímabili hefur flokkurinn meira en fjórfaldast. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum (2019) fengu Rauðir fulltrúa í öllum Fylkisþingum og 193 fulltrúa í sveitarstjórnum í stað 80 áður.
Kosningarnar nú í september eru þess vegna mikilvægur áfangi fyrir Rauða sem sögðu fyrir kosningarnar: Sjáið hverju við komum til leiðar með einum fulltrúa, hvað getur gerst ef þið kjósið 8 – 10 inn á þingið!