Viðbrögðin við Covid opinberar djúpstæða stéttskiptingu og rasisma

1. júní, 2020 Jón Karl Stefánsson



Viðbrögðin við Covid 19 hafa nokkrar félagslegar og pólitískar víddir. Nokkrar þær mikilvægustu opinbera stéttskiptingu, hnattræna misskiptingu og rasisma.

Árið 2018 létust rúmlega 1.451.000 manns af völdum berkla, þar af 205 þúsund börn. Nærri öll þessi dauðsföll hefði verið hægt að fyrirbyggja ef hinir sýktu hefðu haft aðgang að læknisþjónustu og lyfjum sem vitað er að virka á móti sjúkdómnum (Tbfacts, 2020). Fólkið sem lést var of fátækt og stjórnir aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna komu þessu fólki ekki til hjálpar. Nánast engir deyja af völdum berkla í heimi hinna ríku.

Inflúensa dregur um 650 þúsund manns til dauða ár hvert samkvæmt tölum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO, 2020b). Nærri því öll börn sem látast af flensu búa í fjárhagslega fátækari ríkjum heimsins. Um 770 þúsund manns létust af völdum eyðni árið 2018. Langflest þeirra voru fátæk og bjuggu í “þriðja heiminum” (WHO, 2020). Ár hvert deyja meira en 400 þúsund manns af malaríu, flest þeirra eru börn úr Afríku sunnan Sahara (CDC, 2020). Kólera, gulusótt og margir fleiri sjúkdómar eru enn veruleiki víða um heim. Þetta eru samt ekki hættulegustu sjúkdómar sem hrjá hina fátæku. Á hverjum einasta degi látast meira en 2000 börn af völdum niðurgangs, en langflest tilfelli má rekja til mengaðs drykkjarvatns, en einnig má rekja mörg tilfelli til rota-vírussýkingar sem hægt er að bólusetja við (CDC, 2020b).

Frá Nóvember 2019 til dagsins í dag (21. maí 2020) er áætlað að um 330 þúsund manns hafi látist af völdum covid-19 á heimsvísu. Miðað við íslenskar tölur er dánartíðni vegna sjúkdómsins ekki meira en 0,5% smitaðra. Nærri því engin börn látast af sjúkdómnum, hann herjar einkum á hina öldruðu, fólk í mikilli ofþyngd og fólk með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma á borð við krabbamein. Líkurnar á því að þeir sem eru ekki í áhættuhópi deyji af völdum sjúkdómsins eru hverfandi (fjölmiðlar gefa blekkjandi mynd af þeirri áhættu með því að grafa uppi hvert einasta tilvik af fólki undir 65 ára sem deyr af völdum sjúkdómsins og setja það á forsíðu). Það er við þessum sjúkdómi sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur hvatt heimsbyggðina til að loka sjálfa sig inni, ekki einungis fólk í áhættuhópum, heldur einnig frískt fólk sem er í lítilli sem engri hættu á því að deyja af þessum sjúkdómi, og notar allt tiltækt fé og starfsorku til að vinna gegn honum. Efnahag milljóna hefur verið stefnt í voða og gríðarlegur ótti hefur gripið um sig um allan hinn ríka heim.

Ástæðan er ekki sú að covid-19 sé sérstaklega hættulegur sjúkdómur í samanburði við aðra. Það tvennt sem gerir þennan sjúkdóm sérstakan er annars vegar að hann er nýr, og allt nýtt virkar sérlega ógnvekjandi, og hins vegar að hann herjar einkum á hinn ríka heim; heiminn þar sem hár aldur og lífsstílssjúkdómar ríkja. Nú höfum við andlit á þeim sem við eru hrædd um að deyji af völdum sjúkdómsins; afar okkar og ömmur, frændur og frænkur með undirliggjandi sjúkdóma. Margir sem eru í nánast engri hættu á því að deyja af völdum þessa sjúkdóms eru hræddir um að deyja sjálfir. Þetta erum við, ekki þau þarna í “þriðja heiminum”.

Óttafréttir um að Covid-19 sé að berast til “þriðja heimsins” eru hættar að birtast. Það er einfaldlega ekkert að frétta um covid-19 í “þriðja heiminum”. Í Nígeríu, þar sem hundruð þúsunda deyja ár hvert af völdum berkla, inflúensu og niðurgangs, hafa 200 manns látist af völdum covid-19. Í Afganistan, þessu fátæka stríðshrjáða ríki, hafa 123 látist, í Eþíópíu hafa fimm (!) látist af völdum covid þrátt fyrir útbreitt smit, og í Bangladesh, 160 milljón manna ríki sem er lítið stærra en Ísland að flatarmáli, hafa 408 manns látist af völdum covid-19 hingað til.

Samkvæmt hinum heimsfræga indverska rithöfundi og samfélagsrýni Arundhati Roy eru afleiðingar af viðbrögðum indverskra stjórnvalda við Covid 19 ( mjög víðtækar samfélagslokanir) ekkert minna en „social catastrophe“. Opinber dánartala í landinu vegna þessa sjúkdóms var þann 23. maí um 3000. En Arundhati Roy bendir að á sama tíma sé dánartala í landinu vegna annars öndunarfærasjúkdóms, berklanna, 50 sinnum hærri eða 150.000! Fyrir lokunina miklu var atvinnuleysið í Indlandi hið mesta í áratugi, en með henni bættust skyndilega við 135 milljón atvinnuleysingjar í viðbót!

Svona er þetta í nærri öllum fátækari ríkjum heims. Þessi faraldur mun koma og fara þar og fáir myndu muna eftir henni í þessum ríkjum ef ekki kæmi til áróður frá ríka heiminum og þessi hnattrænu „viðbrögð“. Fáir deyja í þessum löndum af völdum Covid-19, því aldurssamsetningin er önnur en hér í ríka heiminum (mjög margir ungir, fáir ná háum aldri) og lífsstílssjúkdómar á borð við ofþyngd þekkjast varla í þessum ríkjum. Þó að covid-19 herji sérlega illa á fátæka innan ríka heimsins, þar sem nóg er af ódýrum en óhollum mat og einungis hinir ríku hafa efni á hollum mat, þá herjar hann miklu síður á fólk í ríkjum í þriðja heiminum. Því er það enn satt sem sagt hefur verið víða um heim, að covid-19 sé sjúkdómur ríka mannsins.

Vegna sjúkdóms ríka mannsins skal heimurinn lagður á hliðina og fólk lokað inni. Niðurgangur, berklar og malaría halda áfram göngu sinni, og sennilega verður lítið fé eftir til að vinna gegn þeim. Sennilega munu því fleiri deyja af völdum þessara sjúkdóma næstu ár vegna þess að sjóðir alþjóðastofnana sem eiga að hamla smitsjúkdómum verða uppurnir. Enn og aftur munu ríkisstjórnir heims gæta hagsmuna yfirstéttanna frekar en hagsmuna þjóða “þriðja heimsins.”


Heimildir

CDC [Centers for Disease Control and Prevention]. 2020. Malaria's impact worldwide. Sótt þann 21.05.2020 frá https://www.cdc.gov/malaria/malaria_worldwide/impact.html

CDC, 2020b. Global diarrhea burden. Sótt þann 21.05.2020 frá https://www.cdc.gov/healthywater/global/diarrhea-burden.html

WHO. 2020. Number of deaths due to HIV/AIDS. Sótt þann 21.05.2020 frá https://www.who.int/gho/hiv/epidemic_status/deaths_text/en/

WHO. 2020b. Up to 650 000 people die of respiratory diseases linked to seasonal flu each yearv.

Arundhati Roy: after the lockdown, we need a reckoning. https://www.ft.com/content/442546c6-9c10-11ea-adb1-529f96d8a00b?fbclid=IwAR1D8PEdOFXLLxQBFwmZMrQeNQ-GJYKazT9jtZnBfJ82650rFEgNoDQMcF4