Valdaránstilraunin í Venesúela

30. janúar, 2019 Þórarinn Hjartarson



JUAN GUAIDO, NÝKJÖRINN FORSETI LJÖGGJAFARÞINGS VENESÚELA lýsti yfir miðvikudaginn 23. jan, að hann væri forseti landsins. Hann fékk samstundis stuðning Bandaríkjanna, síðan stuðning þeirra ríkja í Rómönsku Ameríku sem handgengin eru Bandaríkjunum, síðan helstu NATO-velda og fleiri. Þessir aðilar kalla á „valdaskipti“ (regime change) í landinu.

KREPPAN Í VENESÚELA ER RAUNVERULEG. Alls ekki er þar hungursneyð en vöruskortur á mörgum og mikilvægum sviðum, á ýmsum nauðsynjum og meðulum. Einnig er pólitísk kreppa frá 2015 eftir að þingkosningar og forsetakosningar hafa skilað ólíkum fylgishlutföllum vinstri sinnaðarar stjórnar og hægri sinnaðrar stjórnarandstöðu.

STJÓRNAÐ UTANLANDS FRÁ. Kreppan breytir ekki því að í Venesúela erum við vitni að valdaránstilraun sem stjórnað er utanlands frá. Kreppuna í landinu má einnig skilgreina sem efnahagslegt stríð gegn landinu af hálfu hins volduga granna í norðri auk skipulegrar herferðar vestrænna auðhringa og fjármálavalds – sem hafa 1000 leiðir (á sviði viðskipta, fjármála og gjaldeyrismála, lánaþjónustu, diplómatís…) til að þjarma að einu „óþægu“ landi. Þetta bættist við skuldir og snöggversnandi viðskiptajöfnuð eftir að verð á seldri olíu landsins lækkaði snögglega úr 110 dollurum fatið í 28 dollara vegna skipulegra aðgerða Sádi-Arabíu sem kýlt hefur niður olíuverð með offramleiðslu frá 2014.

BANDARÍKIN STANDA FYRIR EFNAHAGSLEGUM REFSIAÐGERÐUM, og hafa rekið skipulegar þvingunaraðgerðir gegn Venesúela um árabil Sjá nánar. Kverkatakið er nú enn hert með frystingu á sölutekjum og innistæðum Venezúelska ríkisolíufyrirtækisins PDVSA m.m.

BANDARÍKIN LEGGJA STÓRFÉ TIL HARÐSVÍRAÐRAR STJÓRNARANDSTÖÐU innan Venesúela. Stofnanir eins og National Endowment for Democracy og USAID (báðar tengdar bandaríska utanríkisráðuneytinu og CIA) fjármagna USA-sinnaða fjölmiðla í landinu og veita alhliða stuðning stjórnarandstöðuflokkum og fjölmörgum „frjálsum félagsamtökum“ í Venesúela. Meginverkefni þeirra er að „grafa undan“, valda óstöðugleika (destabilise) með mikilli mælskulist um valdníðslu, mannréttindabrot og neyðarástand.

BANDARÍKIN HAFA ÁÐUR STAÐIÐ AÐ VALDARÁNUM og valdaránstilraunum í um 20 löndum Rómönsku Ameríku (löndin í heimshlutanum eru 27 alls!). Sjá nánar

BANDARÍKIN HAFA TILEFNI: Venesúela býr yfir stærstu olíubirgðum á plánetunni, sem sósíalistar hafa leyft sér að þjóðnýa! Sjá nánar Heimsvaldasinnar reiða þeim mun hærra til höggs sem meira er í húfi, sbr „stríðið langa“ í hinum olíuríku Stór-Miðausturlöndum, óslitið frá 2001. Venesúela er alveg „eðlilegt framhald“ af „stríðinu langa“. Valdaránstilraunin snýst öðru fremur um olíu. „Stríðið langa“ hefur gengið illa en með Venesúela í vasanum hefðu Bandaríkin og olíuauðhringarnir m.a.s. mun minni þörf fyrir olíuna í Miðausturlöndum! Aukatilefni til valdaráns: Venesúela hefur síðan 1998 (er Hugo Chavez kom til valda) skipað sér með „andspyrnuöxlinum“ (Kína, Rússland, Íran m.m.) gegn hnattrænum yfirráðum USA og Vestursins.

WALL STREET JOURNAL, einn voldugasti bandaríski meginstraumsmiðillinn, birti grein 25. janúar með yfirskrift: "Pence [varaforseti BNA] lofaði stuðningi Bandaríkjanna áður en leiðtogi stjórnarandstöðu Venesúela steig skrefið." Þar stendur m.a. um Juan Guaido: "kvöldið áður en hann lýsti sig bráðabirgðaforseta Venesúela fékk [hann] símhringingu frá Mike Pence varaforseta.“ Sjá nánar Trumpstjórnin gaf augljóslega grænt ljós kvöldið fyrir, og leppurinn Guaido lýsti sig forseta næsta dag! (Juan var í Washington í desember) Samdægurs viðurkenndi Trump svo Juan Guaido sem forseta! Fljótlega hafði Trump einnig lýst yfir að af hálfu Bandaríkjanna væru allar aðgerðir „á borðinu“ og hernaðarinnrás þar með ekki útilokuð.

VESTRÆNA BRÆÐRALAGIÐ STENDUR SAMAN. Frammi fyrir svona áríðandi heimsvaldaíhlutun stendur bræðralag vestrænna heimsvaldasinna (NATO-veldanna) sameinað, bandalag sem þjáðst hefur af sundurlyndi um skeið (sbr. mótmæli evrópskra leiðtoga við bandarískri heimkvaðningu frá Sýrlandi). Allir helstu bandamennirnir: Kanada, ESB og Bretland, Frakkland, Þýskaland, Spánn lýsa yfir stuðningi við valdatöku Guaido, ef ekki verður boðað til kosninga í Venesúela innan 8 daga. Þýskaland, Frakkland og Spánn settu fram úrslitakosti sem voru nákvæmlega samhljóða eins og kópíur sendar frá einum sameiginlegum yfirmanni!

MUNSTUR ATBURÐANNA ER KUNNUGLEGT, afar líkt og í fyrri valdaskiptaaðgerðum: í Júgóslavíu, Írak, Líbíu og Sýrlandi. Allt „óþæg“ ríki með stefnu sem samræmdist ekki hagsmunum Vestursins (sem drottnað hefur með stefnu á heimsyfirráð frá 1990). Áður en ráðist var á þau var beitt pólitískri og diplómatískri einangrun síðan var beitt efnahagslegum refsiaðgerðum og auðvitað leitað að veikleikum innanlands (verðbólga, vöruskortur, trúardeilur, þjóðernisdeilur…) og ekki síst: fjölmiðlaherferð.

Umfram allt annað er „skrímslagerðin“ ómissandi, þar sem viðkomandi þjóðarleiðtoga er lýst sem harðstjóra og illmenni sem níðist á þjóð sinni og ógni umheimi (Milosevic, Saddam, Gaddafi, Assad, Janúkóvitsj í Úkrínu, Madúró..). Skrímslagerðin er meginþáttur í heimsvaldasinnaðri árás. Ef vel er leitað finna íhlutunarsinnar tilefni til „mannúðaríhlutunar“. Meginstraums-fjölmiðlun á Vesturlöndum er afskaplega miðstýrð, ekki síst þegar kemur að „átakasvæðum“. Sú mötun drottnar í hinum vestræna „hugarheimi“ og hefur enn gríðarlegt hnattrænt vald. Ekki nóg með það: Fjölmiðlarnir eru meginverkfæri valdbeitingar og stríðs.

FORASETAKOSNINGARNAR Í VENESÚELA 2018 VORU UMDEILDAR, með undir 50% þátttöku, þar sem stjórnarandstaðan hundsaði þær. Þátttakan var samt ekki minni en í mörgum vestrænum lýðræðisríkjum, og Nicolás Maduro hefur t.d. hærra hlutfall kjósenda á bak við sig en Donald Trump. Aðlatriðið er þó að það er ekki Bandaríkjanna eða annarra erlendra heimsvaldasinna að skera úr um framkvæmd kosninga í Venesúela. Það er málefni heimamanna. Aðgerðir Maduros gegn þinginu má gagnrýna alvarlega. En það eru ekki áhyggjur af lýðræðinu sem stýra ákvörðunum í Washington (eða Bussel). Umhyggjuna þar á bæ fyrir lýðræði og mannréttindum erum við farin að þekkja. Hún er nákvæmlega eins mikil og hún var gagnvart Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi eða Úkraínu. Hvaða umhyggja er það? Hún heitir heimsvaldastefna.

HVAÐ GERIR ÍSLAND? Enginn hefur tekið upp málið á Alþingi Íslendinga. Guðlaugur Þór Þórðarson segir „óstjórn, meingallaða hugmyndafræði og ofbeldi“ einkenna stjórnarfar Venesúela: „Ástandið í Venesúela er algerlega ólíðandi og við höfum tjáð okkur um það á vettvangi mannréttindaráðs Sam-einuðu þjóðanna.“ (Mbl. 24. jan) Tónninn boðar ekkert gott. Og hjá frjálslyndum vinstrimönnum er hvorki fullveldi né heimsvaldastefna tískuorð.

VIÐ ÞURFUM EKKI AÐ ELSKA MADÚRÓ. En við þurfum að sjá að Jan Guaido er lítið verkfæri voldugri afla. Hagsmunirnir bak við valdaránstilraunina eru hagsmunir olíuauðhringa og vestrænnar fjölþjóðlegrar fjármálaelítu. Mestu ræningja heimsins.