Valdaránið í Chile 11. september 1973, aðdragandi og eftirmál

14. september, 2023 Einar Ólafsson

Þegar hugað er að aðdraganda valdaránsins í Chile 11. september 1973 er eðlilegt að líta fyrst til Monroe-kenningarinnar. Hún er kennd við James Monroe forseta Bandaríkjanna sem kynnti hana árið 1823. Þá voru helstu evrópsku nýlenduveldin Bretland, Frakkland, Holland, Spánn og Portúgal búin að stofna nýlendur sínar í Asíu, Afríku og Ameríku, en nýlendur Spánar og Portúgals í Rómönsku Ameríku höfðu þá flestar öðlast eða voru í þann veginn að öðlast sjálfstæði. Kenningin gekk út á að litið yrði á allar tilraunir Evrópuríkjanna til að hafa áhrif í þessum heimshluta sem ógn við öryggi Bandaríkjanna en á móti mundu Bandaríkin viðurkenna yfirráð Evrópuríkjanna í nýlendum þeirra utan Ameríku og ekki skipta sér af málefnum þeirra.

Þessi kenning átti eftir að þróast áfram en á grundvelli hennar töldu Bandaríkin sig eiga rétt til íhlutunar í málefni ríkja Rómönsku Ameríku ef þau töldu hagsmunum sínum eða sinnar auðstéttar ógnað, ekki síst á tímum kalda stríðins. Þannig varð byltingin á Kúbu til þess að kenningin var rifjuð upp og John F. Kennedy vísaði til hennar árið 1962 þegar stjórn hans brást við tilraunum Sovétríkjanna til að koma eldflaugum fyrir á Kúbu.

Á sjötta áratugnum, í forsetatíð Eisenhowers, fóru Bandaríkin að styrkja diplómatísk tengsl við ríki Rómönsku Ameríku og 1961 kom Kennedy á fót því sem kallaðist Alliance for Progress, sem var tíu ára áætlun um efnahagslega samvinnu milli Bandaríkjanna og ríkja Rómönsku Ameríku, ekki síst til að verjast hinni kommúnísku ógn vegna byltingarinnar á Kúbu. Þau ríki sem tóku þátt í þessu framfarabandalagi fengu talsverða efnahagslega aðstoð frá Bandaríkjunum sem skilaði nokkrum framförum meðal annars í mennta- og heilbrigðismálum, en á móti skuldbundu þessi ríki sig til að skapa skilyrði fyrir auknum erlendum fjárfestingum, það er fjárfestingum bandarískra fyrirtækja. Áætlunin átti líka að styrkja lýðræðið, en valdastéttin í þessum ríkjum var ekki sérlega samvinnufús í þeim efnum, og reyndar tók herinn völdin í nokkrum löndum á sjöunda áratugnum. Á endanum þótti áætlunin ekki sérlega vel heppnuð og arftakar Kennedys á valdastóli, fyrst Lyndon B. Johnson og svo Richard Nixon sýndu henni ekki verulega áhuga og hún lognaðist svo út af um 1970.

Hins vegar var þá farin að þróast önnur áætlun, sem var formlega sett af stað í nóvember 1975 undir nafninu Operation Condor. Víkjum þá aðeins til baka.

Í júní á næsta ári verður tilefni til að halda aðra samkomu þegar sjötíu ár verða liðin frá valdaráninu í Guatemala sem bandaríska leyniþjónustan, CIA, skipulagði, meðal annars til að verja hagsmuni bandaríska stórfyrirtækisins United Fruit Company. Það er önnur saga en vert er að minnast lýðræðislega kjörins forseta landsins, Juan José Arévalo, sem seinna skrifaði áhugaverða bók, eiginlega skyldulesningu fyrir okkur,  sem Hannes Sigfússon þýddi á íslensku, Hákarlinn og sardínurnar. Sonur Arévalos, Bernardo Arévalo, var reyndar kosinn forseti í Guatemala nú í ágúst og tekur við embætti í janúar. Arévalo var þó ekki forseti þegar herinn rændi völdum heldur eftirmaður hans, Jacobo Árbenz Guzmán, sem tók við af honum árið 1951. Þessir menn voru reyndar engir byltingarsinnaðir kommúnistar heldur bara frjálslyndir lýðræðissinnar menn með hóflega félagshyggju að leiðarljósi en ofbauð yfirgangur bandaríska bananafyrirtækisins. Þegar ég segi að þetta sé önnur saga er það ekki alveg rétt, þetta er hluti af sömu sögu og þessi atburður vakti allmikla athygli hérlendis og að minnsta kosti tvö skáld véku að honum í ljóðum: Jakobína Sigurðardóttir í kvæðinu „Brást þér værð?“ og Jón Óskar í ljóði sem hann nefndi „Ljós tendruð og slökkt í Guatemala“.

Condor-áætlunin fór að þróast í kjölfar annarra valdarána í Rómönsku-Ameríku: Paraguay 1954, Brasilíu 1964, Bólívíu 1971, Uruguay í júní 1973, í Chile 11. september það ár, og Perú og Argentínu 1975 og 1976. Það voru þessi sjö ríki sem stóðu meira og minna að áætluninni ásamt Bandaríkjunum eftir að hún var formlega sett í gang í nóvember 1975 en hún var í gangi til 1989. Samkvæmt alfræðivefritinu Wikipedíu má hugsanlega rekja 50-60 þúsund dauðsföll til þessarar áætlunar, 30 þúsund mannshvörf og 400 þúsund fangelsanir. En nú erum við sem sagt komin nokkuð fram úr okkur þar sem þessi áætlun fór formlega í gang rúmum tveimur árum eftir þá atburði sem við minnumst í dag. Ég kem að henni aftur seinna.

Og hvað var þetta þá með Chile? 

Það gekk á ýmsu í stjórnmálum í Chile framan af síðustu öld. 1920 var kosinn frjálslyndur forseti, Arturo Alessandri í óþökk valdastéttarinnar og 1924 framdi herinn valdarán. Alessandri varð aftur forseti 1932 til 1938 en frá 1958 voru íhaldsmenn við völd þar til kristilegi demókratinn Eduardo Frei Montalva var kosinn forseti 1964. Stjórn hans stóð fyrir ýmsum umbótum á sviði landbúnaðar, félagsmála, húsnæðismála og menntunar. En hann lenti í klemmu milli vinstri manna sem fannst hann ekki ganga nógu langt í umbótunum og hægri manna sem þótt hann ganga of langt. 

1970 bauð Salvador Allende úr Sósíalistaflokknum sig fram og hafði á bak við sig kosningabandalag fleiri flokka undir nafninu Alþýðufylkingin, Unidad Popular. Allende fékk rúmlega 36% atkvæða en þingið kaus svo milli hans og Jorge Alessandri úr hinum hægri sinnaða Þjóðernisflokki, Partido Nacional, sem var næstur með tæplega 36% atkvæða og hafði verið forseti 1958 til 1964. Þess má geta að ég veit ekki til að Arturo Alessandri og Jorge Alessandri hafi verið neitt skyldir. Kristilegi demókrataflokkur Eduardos Freis hafnaði stuðningi við Alessandri og Allende vann kosningarnar í þinginu með yfirburðum.

Forseti Chile gegndi í raun hlutverki forsætisráðherra eins og forseti Bandaríkjanna og fleiri ríkja. Ef ég skil það rétt var forsetinn kosinn sérstaklega og hann skipaði ríkisstjórn og þingið var svo kosið sérstaklega eins og í Bandaríkjunum, þannig að stjórn studdist ekki endilega við þinglegan meirihluta. Þingkosningar höfðu verið í mars 1969 og voru næst í mars 1973. Forsetakosningar voru á sex ára fresti en þingkosningar á fjögurra ára fresti. 

Allende hafði tvisvar áður verið í framboði. 1958 bar íhaldsmaðurinn Alessandri sigur út býtum með tæplega 32% atkvæða en Allende kom næstur með litlu færri atkvæði, tæplega 29%. Stefna Alessandris einkenndist af efnahagslegri frjálshyggju og hann naut stuðnings bandarískra stjórnvalda. Að þeirra ráði stóð hann fyrir tollalækkunum sem gögnuðust bandarískum framleiðendum mjög vel og bandarískar vörur streymdu inn í landið. 

Í kosningunum 1964 hlaut Allende 39% atkvæða en Eduardo Frei hlaut hreinan meirihluta, 56%. 

Það var reyndar engin nýlunda að bandarísk stjórnvöld reyndu að hafa áhrif í Chile. Fram að fyrri heimsstyrjöld höfðu Bretar haft talsverð áhrif í Chile en þá fóru áhrif Bandaríkjanna að færast í aukana og efnahagsleg umsvif færðust æ meira í hendur bandarískra fyrirtækja. Tvö fyrirtæki í koparvinnslu hafa verið hvað umsvifamest, Anaconda Copper og Kennecott Utah Copper, sem tilheyrir víst Rio Tinto grúppunni. Fram á áttunda áratuginn réðu þessi fyrirtæki milli 7 og 20% af landsframleiðslu Chile. Með vaxandi kröfum verkalýðshreyfingarinnar um kjarabætur fóru áhrif vinstrihreyfingarinnar vaxandi upp úr miðri öldinni eins og sjá má af árangri Allendes í forsetakosningunum 1958 og 1964. Lengi vel höfðu bandarísk stjórnvöld þó ekki verulegar áhyggjur af Chile, en þessi þróun olli þeim vaxandi áhyggjum. Þau studdu Eduardo Frei í kosningunum 1964 og fékk hann mikinn fjárhagsstuðning í kosningabaráttunni fyrir milligöngu CIA. Frjálslynd umbótastefna hans kom vel heim við hugmyndir Kennedys með fyrrnefndu framfarabandalagi, Alliance of Progress, sem átti að hamla gegn áhrifum róttækra vinstriafla. Þess er reyndar rétt að geta að Alþýðufylkingin fékk einhvern fjárstuðning frá Sovétríkjunum.

Bandarísk stjórnvöld höfðu miklar áhyggjur af velgengni Allendes og Alþýðufylkingarinnar og er allmikil saga af fundarhöldum ráðamanna í Washington dagana fyrir kosningarnar 4. september 1970 og fram til 24. október þegar þingið kaus milli Allendes og Alessandris. Settar voru upp tvær áætlanir sem kallaðar hafa verið Track I og Track II. Það var utanríkisráðuneytið sem stóð að þeirri fyrrnefndu, en hún gekk út að styðja Eduardo Frei. Þegar hún gekk ekki upp var sett upp ný áætlun, Track II eða Project FUBELT, en hún var unnin í samstarfi öryggisráðgjafa forsetans, Henry Kissingers, og yfirmanna í CIA. Hún gekk út á að skapa valdaránsandrúmsloft, coup-climate, sem var reyndar fyrirskipað af forsetanum, Richard Nixon. Það var um miðjan september og þá fór CIA að skipuleggja efnahagslegar, pólitískar og sálrænar aðgerðir til að skapa þetta andrúmsloft. Yfirhershöfðingi Chile, René Schneider, var þarna til nokkurra vandræða, en hann hafði um sumarið sett fram það sem kallað hefur verið Schneider-kenningin og gekk út á að herinn ætti ekki að hafa pólitísk afskipti, en pólitískt hlutleysi hersins átti sér reyndar talsverða hefð. Það þykir ótvírætt að CIA stóð á bak við tilraunir til að ræna Schneider, sem mistókust tvisvar, en þriðja tilraunin endaði með því að Schneider var skotinn til bana og lést hann af skotsárum 25. október, daginn eftir að þingið kaus milli Allendes og Alessandris. Áætlunin gekk út á að ræna Schneider, koma honum til Argentínu, koma fylgismanni valdaránshugmynda í hans stað, búa til þá sögu að fylgismenn Allendes hefðu rænt Schneider og í kjölfarið yrðu sett herlög. Þetta þurfti því að gerast áður en Allende tæki við völdum. Nokkuð ljóst er að CIA átti hlut að þessu og flest bendir til að áætlanir um að ræna Schneider hafi verið gerðar með vitund æðstu manna eins og Kissingers og Nixons. Morðið olli reyndar mikill reiði í Chile og auknum stuðningi við Allende. 

Eduardo Frei, sem enn sat á forsetastóli, skipaði Carlos Prats sem hershöfðingja, en hann var dyggur fylgismaður Schneider-kenningarinnar. Hann átti svo eftir að gegna ráðherraembætti tvisvar sinnum í stjórn Allendes þar til hann lét af störfum 23. ágúst 1973.  Næstur honum að tign var Augusto Pinochet. Hann tók við enda benti þá ekkert til annars en honum væri treystandi, en fljótlega átti þó annað eftir að koma í ljós. Eftir valdaránið flúði Prats til Argentínu þar sem hann var myrtur haustið 1974, en seinna kom í ljós að það tengdist Operation Condor. Þess má geta að Frei snerist síðar algerlega gegn Allende og studdi valdaránið 1973.

Eftir þessa misheppnuðu aðgerð tók bandaríska utanríkisráðuneytið þá stefnu að viðurkenna Allende og reyna að stuðla að ósigri Alþýðufylkingarinnar í næstu kosningum, þingkosningum 1973 og forsetakosningum 1976. Kissinger kom því hinsvegar á framfæri við Nixon forseta að Allende væri alvarlegasta ógnin í þessum heimshluta og ákvörðunin um hvernig skyldi bregðast við henni væri mikilvægasta ákvörðun þessa árs í utanríkismálum, en nokkur veginn þannig orðaði hann það. Nú var sett fram ný áætlun Covert Operation Program for Chile, leynileg aðgerðaáætlun fyrir Chile. Hún gekk út á að grafa pólitískt undan stjórn Allendes með ýmsum ráðum og jafnframt styrkja tengslin við herinn í Chile. Síðar hafa komið fram skjöl sem sýna að Kissinger, Nixon og yfirmenn CIA stefndu þá þegar að valdaráni.

Stjórn Allendes setti fram áætlun sem kölluð var La vía chilena al socialismo eða „Chileanska leiðin til sósíalisma“. Hún fól meðal annars í sér þjóðnýtingu stóriðju, einkum koparvinnslu, bankastarfsemi og heilbrigðiskerfisins og framhald á umbótum stjórnar Eduardos Freis í menntamálum og uppskiptingu jarða en misskipting eignarhalds á jarðnæði var mikið vandamál víða í Rómönsku Ameríku. Líka voru áætlanir um að bæta kjör hinna fátækustu með ýmsum aðgerðum og stöðu frumbyggja og svo framvegis, meðal annars skyldi börnum verða tryggð ókeypis mjólk

Stjórn Freis hafði reyndar þegar hafið þjóðnýtingu kopariðnaðarins með því að taka yfir 51% í erlendum fyrirtækjum en starfsemi bandarískra fyrirtækja var mest á því sviði. Sumt af þessu var svo líka í stefnuskrá frambjóðanda Kristilegra demókrata, Radomiro Tomic, sem var ætlað taka við af Frei. Til að byrja með hafði stjórn Allendes stuðning Kristilegra demókrata í ýmsum málum en þar kom að þeir snerust gegn honum. 

Á fyrstu misserum stjórnarinnar varð talsverður efnahagsvöxtur, landlæg verðbólga minnkaði, atvinnuleysi minnkaði, misskipting minnkaði og laun hækkuðu, þar á meðal til eftirlaunafólks og öryrkja. Strax á árinu 1970 fékk helmingur barna í Chile ókeypis mjólk sem minnir okkur kannski á tal um fríar skólamáltíðir nú hálfri öld seinna á Íslandi. En allt þetta kostaði þó sitt og svo fór að verðbólga jókst aftur, verð á matvörum hækkaði og þar með fór kaupmáttur að dragast saman. Chile hafði líka þau einkenni vanþróaðs lands að helmingur útflutningstekna byggðist á einni vöru, kopar, og lækkandi heimsmarkaðsverð milli 1970 og 72 hafði alvarlegar afleiðingar. Vonir um að þjóðnýtingarnar og landbúnaðarumbæturnar skiluðu bættri afkomu rættust ekki, en hafa verður í huga að hér er verið að tala um víðtækar aðgerðir og afar stuttan tíma. Chile hafði fengið efnahagsaðstoð frá Bandaríkjunum á valdatíma Eduards Freis, en nú var lokað fyrir hana auk þess sem Bandaríkin beittu ýmsum öðrum ráðum til að grafa undan efnahagsmálum í Chile. Þannig fengu andstæðingar stjórnarinnar fjárframlög og aðstoð til að skapa óróa og vandræði. Þótt Frei hafi tekið upp frekar vinsamleg samskipti við Sovétríkin, sem Bandaríkin umbáru, fékk Allende-stjórnin mjög takmarkaða aðstoð þaðan. 

Hér gefst ekki tími til að fara nákvæmlega í stefnu eða aðgerðir ríkisstjórnar Allendes. En stjórnin átti í höggi við öfluga andstöðu og má þar nefna landeigendur, fjáraflamenn, hluta millistéttarinnar, rómversk-kaþólsku kirkjuna og inni á þingi Þjóðernisflokkinn sem fékk svo Kristilega demókrata til liðs við sig. Innan Alþýðufylkingarinnar voru skiptar skoðanir en Allende lagði ríka áherslu á lýðræðislega leið hinnar byltingarsinnuðu þróunar. Haustið 1972 stóð stjórnin frammi fyrir vaxandi mótmælaaðgerðum og vörubílstjórar fóru í verkfall. Hér var þó frekar um að ræða vörubílaeigendur sem fengu ríkulegan stuðning frá Bandaríkjunum fyrir tilstilli CIA. Það er rétt að hafa það í huga þegar fréttir berast af verkföllum vörubílstjóra gegn vinstrisinnuðum stjórnum í Rómönsku Ameríku.

Flokkar Alþýðufylkingarinnar höfðu samtals rúmlega 41% þingmanna í báðum deildum þingsins og Kristilegir demókratar 39% þegar Allende var kosinn þannig að stjórn Allendes studdist ekki við meirihluta þingsins en hafði þó traustan meirihluta í þeim málum sem kristilegir demókratar studdu. Í þingkosningunum í mars 1973 bauð Alþýðufylkingin ekki fram sameiginlega frekar en 1969 en nú bættu Kommúnistaflokkurinn og Sósíalistaflokkur Allendes talsvert við sig, samtals 22 þingsætum, en Alþýðufylkingin tapaði þó í heild einu þingsæti. Samanlagt voru þá 200 þingmenn í báðum deildum þingsins. Staða ríkisstjórnarinnar hafði nú versnað nokkuð þar sem Kristilegir demókratar voru nú komnir í bandalag með Þjóðernisflokknum og það bandalag hafði töluverðan meirihluta. En hvað atkvæðatölur varðar verður ekki sagt annað en stjórnin hafi komið allvel út úr þessum kosningum þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og tilraunir til að grafa undan henni.

Eins og fyrr segir var áratuga hefð fyrir því að herinn léti stjórnmál afskiptalaus, en nú var að verða breyting á því. Árið 1946 kom bandaríski herinn upp þjálfunarbúðum í Panama, Latin American Training Center-Ground Division, sem frá 1963 hét The U.S. Army School of the Americas, Ameríku-skóli bandaríska hersins, og mun enn vera starfandi undir enn öðru nafni. Þarna erum við komin að mikilli sögu um þjálfun og aðstoð fyrir hernaðarlegar alræðisstjórnir í Rómönsku Ameríku þar sem ýmis óvönduð meðul hafa verið kennd meðal annars, svo sem pyndingar og önnur andstyggilegheit. Herir og lögregla margra ríkja Rómönsku Ameríku, ekki bara alræðisríkja, hafa nýtt sér þjónustu þessa skóla. Þar á meðal nýtti herinn í Chile sé þjónustu hans á þessum árum.

Bandarísk stjórnvöld bjuggu sem sagt yfir ýmsum leiðum til að hafa áhrif. Og það var svo snemma morguns 11. september sem hersveitir tóku forsetahöllina og aðra mikilvæga staði og stöðvar. Ég ætla ekki að lýsa því frekar. Forsetinn, Salvador Allende, lét lífið, opinber skýring er sjálfsvíg en margir efast um það og margt er óljóst um það. En fleiri áttu eftir að láta lífið. 40 þúsund manns voru voru læstir inni á íþróttaleikvangi í Santiago og margir drepnir, þar á meðal söngvaskáldið Victor Jara eins og frægt er. En eitt nafn segir lítið. Nafn hans er þó táknrænt fyrir það hversu mjög stjórnin naut stuðnings listamanna og hversu mikinn sess tónlistin hefur í þessari sögu.

Hershöfðinginn Augusto Pinochet sat á valdastóli frá valdaráninu 11. september 1973 til 11. mars 1990. Eftir að lýðræði komst aftur á hafa komið út skýrslur um mannréttindabrot á tímum herforingjastjórnarinnar, en allar tölur eru þó á reiki. Þó er ljóst að tugþúsundir voru fangelsuð, flest sættu einhverjum pyndingum og þúsundir voru drepin eða hurfu. Auk þess flúði fjöldi fólks land og margir komu aldrei aftur til Chile.

Stjórn Allendes sat í þrjú ár. Hún stóð fyrir ýmsum umbótum, sumt mistókst en margt var ógert. Stjórnin hafði sósíalíska stefnuskrá en það má heita alveg ljóst að hún hafði engin áform um að takmarka eða afnema lýðræði. En þegar henni var steypt var lýðræðið afnumið í sautján ár.

Allar líkur eru á að þetta valdarán hefði aldrei verið gert án tilstillis bandarískra stjórnvalda þar sem leyniþjónustan, CIA, lék aðalhlutverkið en tveir menn báru meginábyrgðina, forsetinn Richard Nixon og öryggisráðgjafi hans og síðar utanríkisráðherra, hinn af mörgum mjög svo virti stjórnmálamaður Henry Kissinger. Sá sem framdi skítverkið, hershöfðinginn Augusto Pinochet, naut síðan á efri árum vináttu breska forsætiráðherrans, Margaretar Thatcher. 

Og svo naut herforingjastjórnin efnahagslegrar ráðgjafar ungra hagfræðinga sem hafa verið kallaðir The Chicago Boys, Cicago-strákarnir, flestir menntaðir í University of Chicago en sumir í öðrum skólum í Bandaríkjunum. Helstu lærifeður þeirra voru bandarísku hagfræðingarnir Milton Friedman og Arnold Harberger og Friedman talaði um þá sem „Chicago Boys“ í endurminningum sínum 1998 en nafnið mun þó vera öllu eldra. Þennan hóp má reyndar rekja til verkefnis sem bandaríska utanríkisráðuneyti setti á fót í Chile á sjötta áratug síðustu aldar í tengslum við svokallað Point Four Program sem Bandaríkin komu af stað í forsetatíð Harrys Trumans til ráðgjafar þróunarlöndum í efnahagsmálum. Þetta var svona hliðarverkefni við Marshall-aðstoðina. Það skilaði sér til Chile í svonefndu Chile Project sem unnið var í samstarfi hagfræðideildar Chicago-háskólans og Kaþólska háskólans í Chile. Um hundrað stúdentar fóru þaðan í framhaldsnám, aðallega í Chicago þar sem Friedman og Harberger voru kennarar. Eftir valdaránið í Chile fengu þeir hver af öðrum góðar stöður heima fyrir, aðallega sem ráðherrar og bankastjórar og stóðu þar fyrir chileanska kraftaverkinu, The Chilean miracle, með nýfrjálshyggju sem fól meðal annars í sér afregluvæðingu og einkavæðingu og hleypti fjöri í efnahagslífið en jók líka mjög á misskiptingu. Það var mjög litið til þessa þegar nýfrjálshyggjan fór á fullt í Bandaríkjum og Bretlandi á stjórnartímum Ronalds Reagans og Margaretar Thatcher. Chile varð sem sagt sem alræðisríki tilraunastofa í nýfrjálshyggu eftir að lýðræðislegri leið Allendes til sósíalisma var lokað.

En hvað fylgdi annað í kjölfar valdaránsins í Chile? Ég get eiginlega ekki nema stiklað á stóru. Áður var nefnd Condor-áætlunin, Operation Condor, sem fór formlega af stað árið 1975 í samstarfi hernaðarlegra valdaránsstjórna í Rómönsku Ameríku og Bandaríkjanna. Þar kom mjög við sögu fyrrnefndur hernaðarskóli, School of the Americas. Það var svo á sextugsafmæli Pinochets í nóvember 1975 sem leiðtogar leyniþjónusta Argentínu, Bólivíu, Chile, Paraguay og Uruguay komu saman í Santiago og komu þessu formlega á laggirnar. Isabel Perón var þá forseti í Argentínu en 1976 tók Jorge Rafael Videla við í kjölfar valdaráns. Það valdarán var þó ekki sambærilegt við valdaránið í Chile enda var Isabel Perón engin sósíalískur og lýðræðislegur engill. En skítuga stríðið svokallaða í Argentínu, Guerra sucia, stóð frá 1974, meðan hún var enn við völd en þó kannski ekki með hennar vilja, og fram til 1983, tveim árum eftir að Videla fór frá, og hefur gjarnan verið talið hluti af Condor-áætluninni ásamt valdaráninu 1976. Grimmdarverkin í Argentínu voru jafnvel enn andstyggilegri en í Chile, en Videla-stjórnin naut alltaf stuðnings Bandaríkjanna.

En nú fækkaði beinum valdaránum að undirlagi Bandaríkjanna, í staðinn var farið að grafa undan lýðræðilegum og vinstrisinnuðum stjórnmálaöflum þannig að erfiðara er að henda reiður á því sem er að gerast. Við getum leitt hugann að El Salvador 1979 til 1992, Nicaragua frá sjöunda áratugnum til 1990, Guatemala 1954 til 1996 svo fátt eitt sé talið. Varðandi Chile höfum við þennan dag, 11. september, til að minnast, og júní 1954 í Guatemala, ekki alveg víst hvaða dag ber að velja, en víða annars staðar höfum við engan einstakan atburð, enga dagsetningu, við vitum varla hvað hefur gerst. Og samt hefur svo mikið gerst sem við ættum að minnast.

Í byrjun þessarar aldar hugsaði ég: Hvað er þetta með Bandaríkin, ætla þau bara að láta þetta viðgangast með Lula í Brasilíu, Hugo Chaves í Venesúela, Morales í Ekvador? En nú hef ég áttað mig á að það er bara beitt öðrum aðferðum. Þótt Lula sé aftur orðinn forseti í Brasilíu og Daniel Ortega í Nigaragua verður þeim aldrei leyft að komast upp með neitt, á endanum verða þeir, eða þau, sama hvers kyns þau eru, bara úthrópuð sem vonlausir harðstjórar ef í harðbakkann slær, öfugt við Pinochet í Chile eða Videla í Argentínu. Bandarísk stjórnvöld virðast hafa lært á sinn heimshluta hversu vel sem þau hafa lært á aðra heimshluta. 

Og það er ágæt regla að taka fréttum og fréttaskýringum meginstraumsfjölmiðlanna með svolitlum fyrirvara.

Erindið flutti Einar Ólafsson rithöfundur 10. september 2023 á samkomu í Húsi Máls og menningar í tilefni af að 50 ár eru liðin frá valdaráninu í Chile 11. september 1973.