Uppreisn suðursins – getur BRICS veikt yfirdrottnun Alþjóðabankans og AGS?
—
Þann 24. ágúst sl. var haldinn heimssögulegur fundur BRICS landanna (Brasilíu, Rússlands, Indlands, Kína og Suður Afríku) í Jóhannesarborg í Suður Afríku þar sem 6 ný lönd bættust í hópinn. Þessi nýju lönd eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Argentína, Íran og Eþíópía.
Lítið hefur sést um þennan fund á meginstraumsfjölmiðlum Vesturlanda og er RÚV og aðrir skyldir íslenskir miðlar meðtaldir. Gott dæmi um undantekningu frá þessari meginreglu er pistill Kristins Hrafnssonar sem hann skrifaði á fésbókarsíðu sinni þann 24. ágúst sl.
Í pistli sínum fjallar Kristinn um heimssögulegt mikilvægi þessa fundar og grípur m.a. í því samhengi til líkingar við jarðsögulegar flekahreyfingar, hann skrifar:
„Gríðarlegur áhugi á BRICS klúbbnum endurspeglar að hluta þessar flekahreyfingar en nú stendur yfir leiðtogafundur ríkjanna fimm sem standa að sambandinu (Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka). Um 40% af íbúum Jarðar tilheyra þessum 5 ríkjum og um fjórðungur af landsframleiðslu heimsins er í þessum löndum. Þessi ríkjahópur er rísandi og ef fram fer sem horfir stækkar hópurinn á næstu árum. Alls hafa 40 ríki lýst áhuga á að verða meðlimir BRICS og hafa 23 lönd þegar sótt um aðild.“
Og hann bætir við stuttu síðar: „Bandaríkin eru að missa tökin og hvert sem litið er, til Rómönsku Ameríku, Afríku og rísandi ríkja í Asíu sprettur fram einhver feginleiki við að losna undan þeim ofurtökum.“
Norski rannsóknarblaðamaðurinn Pål Steigan fjallar einnig um fundinn í Suður Afríku á vefsíðu sinni, fyrirsögn greinar hans er „BRICS skrifar veraldarsöguna“. Steigan skrifar m.a.:
„Með fjölgun BRICS landanna um hin sex nýju aðildarlönd mun hópurinn hafa stjórn á um 80% af olíuframleiðslu heimsins og standa fyrir 31,7% af landsframleiðslu heimsins (á móti 30% G7 landanna) sem svarar til um 30.000 milljarða Bandaríkjadollara. BRICS+ mun jafnframt ná til 46% af íbúum jarðarinnar.
Hinir nýju meðlimir eru Sádi-Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Argentína, Íran og Eþíópía. Með þeim löndum sem fyrir voru verða þannig 11 lönd aðilar að BRICS sem þýðir jafnframt að 3 lönd í Afríku verða aðilar að hópnum. Þetta er í góðu samræmi við þær spár að árið 2050 muni fjórðungur íbúa jarðar búa í Afríku.“
En Róm varð ekki til á einum degi og sama gildir um þann magnaða árangur sem kynntur var til sögunnar þessu sinni á 15. fundi BRICS í Jóhannesarborg þann 24. Ágúst sl.. Það hefur verið markvisst unnið að þessum nýja valkosti við einráða Hegemony Bandaríkjanna eða frá því um og upp úr síðustu aldamótum einkum til mótvægis við fjármálastofnanirnar sem BNA hefur komið á fót eins og Alþjóðabankanum og AGS Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og sem haldið hafa heiminum í heljargreipum hátt í hálfa öld eða allt frá lokum kaldastríðsins.
Til þess að gefa mynd af þessu magnaða ferli á fyrsta fjórðungi 21. aldarinnar deila Neistar hér grein af Pressenza fréttaveitunni frá því í mars sl. eftir Dr. Ramzy Baroud sem áður hafði verið birt á Countercurrents. Í þessari grein rekur Dr. Baroud tildrög og ástæður þess að upphafslöndin 5 hófu sína vegferð og hvert þau stefna.
Uppreisn suðursins – getur BRICS veikt yfirdrottnun Alþjóðabankans og AGS?
Hver hefði búist við því að BRICS-ríkin gætu risið upp sem hugsanlegur keppinautur G7 ríkjanna, Alþjóðabankans og AGS til samans? En sá möguleiki, sem áður virtist fjarlægur, hefur nú raunverulegar horfur sem gætu breytt pólitísku jafnvægi í heimspólitíkinni.
BRICS er skammstöfun fyrir Brasilíu, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríku. Hún var talin búin til af aðalhagfræðingi Goldman Sachs árið 2001, sem tilvísun í vaxandi hagkerfi heimsins. Fyrirbrigðið var þá þekkt sem BRIC, en „S“ bætt við síðar, þegar Suður-Afríka gekk formlega í hópinn árið 2010.
Fyrsti opinberi leiðtogafundur BRIC fór fram árið 2009. Þá virtist umræðan að mestu leyti óhlutbundin. Það var hins vegar ekki fyrr en árið 2014 að BRICS fór að taka alvarleg skref í átt að aukinni sameiningu, þ.e. þegar upphafsbandalagið, þá ásamt Suður-Afríku, setti af stað Nýja þróunarbankann með stofnfjármagni upp á 50 milljarða dollara. Þessi ákvörðun þýddi að hópurinn væri nú tilbúinn að stíga sín fyrstu raunverulegu skref í átt til þess að ögra yfirráðum Vesturlanda yfir alþjóðlegum peningastofnunum, nánar til tekið Alþjóðabankanum og AGS.
Hin heimspólitísku hnattrænu átök færðust síðar til, breyting sem stafaði af stríðinu milli Rússlands og Úkraínu, en þau átök reyndust hins vegar verða drifkrafturinn á bak við hina miklu stækkun sem var í gangi hjá BRICS, sérstaklega eftir því sem fjársterk lönd tóku að sýna framtakinu áhuga. Meðal þessara landa eru Argentína, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Mexíkó, Alsír og sérstaklega Sádi-Arabía.
Nýlegar fjárhagsskýrslur benda til þess að BRICS standi nú þegar fyrir mestri þjóðarframleiðslu á heimsvísu, þar eð það leggur nú 31,5% til heimsframleiðslunnar, eða meira en G7, sem leggur til 30,7%.
Eitt af stærstu tækifærunum og áskorunum sem BRICS stendur frammi fyrir núna er hæfni þess til að stækka aðildargrunn sinn á sama tíma og það viðheldur núverandi vexti. Markmiðið um að hjálpa nýjum meðlimum að viðhalda efnahagslegu og pólitísku sjálfstæði er sérstaklega mikilvægt.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eru alræmdir fyrir að byggja peningalegan stuðning sinn við lönd, sérstaklega í hnattræna suðurhlutanum, á pólitískum skilyrðum. Þessi afstaða er oft sett fram og réttlætt undir yfirskyni mannréttinda og lýðræðis, þó að hún sé í raun algjörlega tengd einkavæðingu og opnun markaða fyrir erlenda fjárfesta – lesist vestræn fyrirtæki.
Eftir því sem BRICS styrkist mun það hafa möguleika á að hjálpa fátækari löndum án þess að ýta undir sjálfhverfa pólitíska dagskrá eða óbeina ráðskun og stjórn á staðbundnum hagkerfum.
Þar sem verðbólga er að herja á mörg vestræn ríki, sem aftur leiðir til minni hagvaxtar og félagslegar ólgu, nota þjóðir í hnattræna suðurhlutanum þetta sem tækifæri til að þróa eigin efnahagslega valkosti. Þetta þýðir að hópar eins og BRICS munu hætta að vera eingöngu efnahagslegar stofnanir. Baráttan er nú mjög pólitísk.
Í áratugi hefur stærsta vopn Bandaríkjanna verið dollarinn sem með tímanum hætti að vera venjulegur gjaldmiðill sem slíkur, en varð raunveruleg verslunarvara. Stríð hafa verið háð til að tryggja að lönd, eins og Írak og Líbýa, haldi áfram að skuldbinda sig við dollara. Eftir innrás Bandaríkjanna í Írak í mars 2003 fór Bagdad aftur að selja olíu sína í Bandaríkjadölum. Þessi barátta um yfirráð dollars var einnig sársaukafull í Venesúela, sem hefur stærsta olíubirgðaforða heims, en var samt sem áður færð niður í sára fátækt fyrir að reyna að ögra yfirburðum Washington sem gjaldmiðils.
Þó það taki tíma er ferlið við að draga úr þeirri stöðu að vera háður Bandaríkjadollara nú í fullum gangi.
Þann 30. mars tilkynntu Brasilía og Kína um viðskiptasamning sem myndi gera þeim kleyft að nota innlenda gjaldmiðla landanna tveggja, júan og reais, gagnkvæmt. Þetta skref mun reynast afdrifaríkt, því það mun hvetja önnur Suður-Ameríkuríki til að fylgja í kjölfarið. En þessi aðgerð var hvorki fyrsta skrefið né það síðasta sinnar tegundar.
Ein helsta ákvörðun fjármálaráðherra og seðlabankastjóra Samtaka Suðaustur-Asíuríkja (ASEAN) í kjölfar fundar þeirra 30.-31. mars í Indónesíu er, að dregið verði úr því hve háð ríkin eru Bandaríkjadal. Þeir voru sammála um að „efla fjárhagslegt viðnám … með því að nota staðbundinn gjaldmiðil til að styðja við viðskipti og fjárfestingar yfir landamæri á ASEAN svæðinu. Þetta breytir líka leiknum.
Einkum eru það BRICS löndin sem leiða baráttuna og hafa sett sér að þjóna sem fyrirgreiðsluaðilar (facilitors) við að endurskipuleggja efnahags- og fjármálakort heimsins.
Á meðan Vesturlönd eru upptekin við að reyna að halda eigin hagkerfum gangandi, eru þau enn á varðbergi gagnvart breytingunum sem eru í gangi á hnattræna suðurhlutanum. Washington og aðrar vestrænar höfuðborgir hafa áhyggjur. Þær ættu að hafa þær.
Eftir fund Joe Biden Bandaríkjaforseta og 40 leiðtoga Afríku í Hvíta húsinu í desember síðastliðnum var ljóst að Afríkuríkin höfðu engan áhuga á að taka afstöðu í yfirstandandi stríði í Úkraínu. Í ljósi þessa flaug Kamala Harris varaforseti Bandaríkjanna til Afríku 26. mars til að hitta leiðtoga í Afríku, í þeim eina tilgangi að ýta þeim burtu frá Kína og Rússlandi. Líklegt er að sú viðleitni mistakist.
Fullkomið dæmi um neitun Afríku á að yfirgefa hlutleysi sitt er blaðamannafundur Harris og forseta Gana, Nana Akufo-Addo, þann 28. Mars sl.; „ það kann að ríkja þráhyggja í Bandaríkjunum varðandi athafnir Kína í okkar heimsálfu, en það ríkir engin þráhyggja hér“, sagði Akufo-Addo við fréttamenn.
Að halda því fram að BRICS sé eingöngu efnahagslegur hópur er að hunsa stóran hluta sögunnar. Tímasetning útþenslu BRICS, harðorð pólitísk umræða meðlima þess, mögulegir nýir meðlimir og bandamenn, endurteknar heimsóknir háttsettra rússneskra og kínverskra stjórnarerindreka til Afríku og annarra svæða í hnattræna suðurhlutanum, o.s.frv., benda til þess að BRICS sé orðið hinn nýji vettvangur í suðurhlutanum, vettvangur fyrir geopólitík, hagkerfi og diplómatíu.
Því farsælli sem BRICS verður, þeim mun veikari verða yfirráð Vesturlanda yfir ríkjunum í suðri. Þó sumir vestrænir stjórnmálamenn og fjölmiðlar kappkosti við að gera lítið úr hlutverki BRICS í mótun hinnar nýju heimsskipunar, virðist breytingin vera raunveruleg og óafturkræf.
Dr. Ramzy Baroud er blaðamaður, höfundur og ritstjóri The Palestine Chronicle. Hann er höfundur sex bóka. Síðasta bók hans, gefin út ásamt Ilan Pappé, er “Our Vision for Liberation: Engaged Palestinian Leaders and Intelectuals Speak Out“. Meðal annarra bóka hans eru “My Father was a Freedom Fighter“ og “The Last Earth“. Baroud er “a Non-resident Senior Research Fellow“ við The Center for Islam and Global Affairs (CIGA). Heimasíða hans er ramzybaroud.net