Undirskriftalisti um að Akureyrarbær hætti með Rapyd. Bæjarstjórn „fordæmir árásir gegn almennum borgurum“

10. júní, 2024 Ritstjórn

Hópurinn Samstaða með Palestínu á Akureyri og nágrenni hóf fyrir nokkru baráttu fyrir því að Akureyrarbær hætti að nota ísraelska fyrirtækið Rapyd sem færsluhirði. Undirskriftarsöfnun var hafin um þetta mál.


Vaxandi andstaða hefur komið fram hérlendis við að skipta við fjártæknifyrirtækið Rapyd í ljósi grasserandi þjóðarmorðs á Gaza. Fjöldi fyrirtækja hefur nú þegar skipt um færsluhirði, og umrædd undirskriftasöfnun varðandi Akureyrarbæ er merki um eld í grasrótinni nyrðra, samstöðueld fyrir Palestínu.


Textinn sem fylgir undirskriftarsöfnuninni er þessi:
„Við krefjumst þess að Akureyrarbær hætti að nota Rapyd sem færsluhirði. Færslu­hirðir­inn Rapyd er ísra­elskt fyr­ir­tæki með úti­bú á Íslandi, forstjóri fyrirtækisins hefur opinberlega yfirlýst stuðning sinn við aðgerðir Ísraelsmanna á Gaza og Vesturbakkanum. Þá hafa fjöl­miðlar í Ísra­el flutt frétt­ir af beinni þátt­töku Rapyd í stríðinu því fyr­ir­tækið hef­ur sett á stofn sér­staka stríðsstofu eða „war room“ til að aðstoða Ísraelska herinn.“


Síðla dags 9. júní voru undirskriftir orðnar 551 (ekki bundnar við Akureyringa).


Bæjarstjórn fordæmir árásir og krefst vopnahlés


Baráttan í grasrótinni nyrðra skilaði einnig árangri á vettvangi bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar 4. júní var samþykkt með 10 atkvæðum á móti einu tillaga sem hefst svo:
„Bæjarstjórn Akureyrarbæjar fordæmir árásir gegn almennum borgurum á Gaza og önnur ofbeldisverk fyrir botni Miðjarðarhafs sem brjóta gegn alþjóðlegum mannúðarlögum, með tilheyrandi þjáningu og eyðileggingu borgaralegra innviða.“


Tillagan var samþykkt með 10 atkvæðum en einn sat hjá. Málshefjandi var bæjarfulltrúi Framsóknar, Gunnar Már Gunnarsson.

Lesa má tillöguna í heild á vef Akureyrarbæjar: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir/baejarstjorn/12359