Um efnahagsþvinganir
—
Efnahagsþvingana í pólitískum tilgangi eru ætíð árás á velferð almennings í öðrum ríkjum. Refsiaðgerðir af hálfu öflugustu efnahagslegu og hernaðarlegu stórvelda geta lamað hagkerfi þeirra ríkja sem þau beinast að. Efnahagsþvinganir í refsiskyni auka efnahagslegan ójöfnuð og lífskjarabil og koma harðast niður á þeim fátækustu í landinu sem fyrir verður (Afersorgbor & Mahadevan, 2016; Mulder, 2016). Helstu áhrif þeirra eru jafnan að auka enn á skort hjá fátæku fólki í landinu og auka á ójöfnuð (Suk 2018).
Refsiaðgerðir sem lagðar voru á Júgóslavíu árið 1993 höfðu til dæmis eyðileggjandi afleiðingar fyrir almenning og gerði meira en helming þjóðarinnar fátækan og atvinnulausan eða rak hann á flótta (Garfield. R, 2003). Í Írak leiddu refsiaðgerðirnar sem lagðar voru á landið 1990, og var haldið áfram í kjölfar Persaflóastríðsins, til samdráttar í vergri landsframleiðslu frá 38 milljörðum dollara árið 1989 niður í 10,8 milljarða árið 1996. Þjóðarframleiðsla á mann dróst saman um 75% með eyðileggjandi afleiðingum fyrir almenning. Samkvæmt skýrslu Bossuyt (2000) voru samgöngukerfi, orkukerfi og samskiptainnviðir ekki endurreistir á þessu tímabili, iðnaðargeirinn var í molum og landbúnaðarframleiðslan leið mjög vegna refsiaðgerða. „Kaupgeta írakskra launa á miðjum tíunda áratugnum var um 5% af því sem hún var fyrir 1990“ og eins og skrifstofa Þróunarsviðs SÞ viðurkenndi: „landið hefur upplifað umsnúning frá hlutfallslegri velsæld til gríðarlegrar fátæktar… Fyrri framfarir í menntun og læsi hafa algjörlega snúist við á síðustu 10 árum“ (s.st.). Efnahagslegar refsiaðgerðir hafa því að jafnaði hroðalegar afleiðingar fyrir efnahag þeirra landa sem fyrir verða og íbúa þeirra.
Angelo Codevilla (2018) sagði að í raun væru efnahagsþvinganir hernaðaraðgerðir sem ættu rætur sínar að rekja til þeirrar hugmyndafræði að svelta andstæðinga til hlýðni. Í sögulegu samhengi hefðu slíkar aðgerðir valdið mun meiri þjáningu og dregið mun fleiri til dauða en beinar hernaðaraðgerðir. Áhrifin af þeim aðgerðum sem nú væru mest í deiglunni eru nú að valda hungri og fátækt í Íran, Norður Kóreu og fleiri löndum. Sum ríki myndu aldrei ná sér aftur á strik.
Wang (2011) komst að þeirri niðurstöðu að raunverulegan tilgang viðskiptaþvingana væri að finna heima fyrir. Slíkar aðgerðir væru sýndarmennska sem léti leiðtogana heima fyrir koma fyrir sem sterkari og ákveðnari en ella. Raunverulegur ávinningur þeirra væri því einungis táknrænn heima fyrir.
Hér á Íslandi mætti sennilegast bæta við því að raunverulegur tilgangur væri að koma sér í mjúkinn hjá sterkum og mikilvægum viðskiptaríkjum. Með því að styðja í verki aðgerðir þeirra væri hægt að kaupa áframhaldandi vinskap við þessi ríki. Eins og síðar verður vikið að er sú taktík ekki bara siðlaus, heldur getur fljótt snúist upp í andhverfu sína.
Hufbauer o.fl. (2008) komust að því að langalgengasta markmið efnahagsþvingana voru að knýja fram stjórnarskipti í því landi sem aðgerðirnar beindust gegn. Átti þetta við í 80 af þeim 204 dæmum sem rannsókn þeirra tók til skoðunar.
Þar eð raunverulegur tilgangur efnahagsþvingana er einmitt að þvinga almenning og stjórnmálamenn annarra ríkja að taka ákveðnar ákvarðanir eru þær í trássi við mikilvæg alþjóðalög. Grunnregla allra alþjóðasamþykkta felst í reglu til fullra yfirráða innan landamæra sinna og bann við afskiptum annarra ríkja af þessum málum. Efnahagsþvinganir sem hafa beinlínis þann tilgang að fá almenning í öðru ríki til að kjósa á ákveðinn hátt eða að gefast upp fyrir pólitískum kröfum þeirra ríkja sem beita þvingununum er brot á þessari grunnreglu.
Þessi tegund alþjóðasamskipta, að reyna að kúga þjóð til hlýðni með þvingunum, hamlar um leið eðlilegum samskiptum milli ríkja og getur því beinlínis eyðilagt fyrir viðleitni til að finna friðsamlega lausn á milliríkjadeilum á grundvelli gagnkvæmrar virðingar. Rétt eins og í samskiptum milli einstaklinga er ekki hægt að líta á það sem tilraun til að finna lausn sem hentar báðum aðilum að sá sterkari reyni að beita yfirburðastyrk sínum til að fá sínu framgengt.
Efnahagsþvinganir eru tegund hernaðar gegn þjóðríki. Þær eru arfleið þeirrar aðferðar innrásarherja að svelta almenning þess ríkis sem á að sigra þangað til hann gerir eins og innrásarherinn vill. Þessi tegund hernaðar hefur kostað fleiri dauðsföll og vanlíðan en vopnaskak venjulegra herliða í aldanna rás og er því jafnvel verri kostur en beinn hernaður. Efnahagsþvinganir hljóma ef til vill ekki eins illa og beinn hernaður, en þær bitna samt jafnvel meira á almenningi landsins en hitt.
Efnahagsþvinganir eru vopn sem eru einungis á færi hinna auðugustu og valdamestu. Ríki eins og Bandaríkin og ríki Evrópusambandsins eru í algjörri sérstöðu til að beita þessu vopni og því beinist það fyrst og fremst gegn ríkjum sem á einhvern hátt eru þeim þyrnir í augum og standa um leið þegar veikt fyrir efnahagslega. Vegna þess að efnahagsþvinganir bitna sjaldan á þeim sem búa í ríkari og valdameiri hluta heimsins hafa stjórnmálamenn getað reiknað með hljóðu samþykki almennings um að beita annað ríki efnahagsþvingunum án þess að þeirri spurningu sé varpað hver raunverulegur tilgangur þeirra er og hvaða afleiðingum má búast við.
Þessari tegund alþjóðlegrar kúgunar verður að linna.
Heimildir
Afersorgbor, S. K. & Mahadevan, R. 2016. The impact of economic sanctions on income inequality of target states. World Development, 83, p. 1-11.
Bossuyt, M. (June 21, 2000). The adverse consequences of economic sanctions. Global Policy Forum; Economic and Social Council. Má nálgast á https://www.globalpolicy.org/global-taxes/42501-the-adverse-consequences-of-economic-sanctions.html#case-a.
Codevilla, A. M. 2018. Do economic sanctions work? Strategika, 49. Hoover institution. Sótt af https://www.hoover.org/research/do-economic-sanctions-work
Garfield, R. (2003, June). Sanctions and the Federal Republic of Yugoslavia: assessing impacts and drawing lessons. Humanitarian Practice Network (HPN). Má nálgast á https://odihpn.org/magazine/sanctions-and-the-federal-republic-of-yugoslavia-assessing-impacts-and-drawing-lessons/
Hufbauer, G. C., Schott, J. J., Elliot, K. A. og Oegg, B. (2008). Economic sanctions reconsidered (þriðja útgáfa). Washington, DC: Colombia University Press. Bls. 67.
Marcus, J. 2010. Analysis: Do economic sanctions work? BBC. Sótt af https://www.bbc.com/news/world-middle-east-10742109
Neuenkirch, M. 2015. The impact of UN and US economic sanctions on GDP growth. European Journal of Political Economy, 40, p. 110-125.
Pape, R. A. (1998). Why economic sanctions still do not work. International security, 23, bls. 66-77. Sótt af https://www.mitpressjournals.org/doi/10.1162/isec.23.1.66
Suk, L. Y. (2018). International isolation and regional inequality: Evidence from sanctions on North Korea. Journal of Urban Economics, 103, bls. 34-51.
Wang, T. (2011). Playing to the home crowd? Symbolic use of economic sanctions in the United States. International Studies Quarterly, 55, bls. 787-801.