Trump segir NATO og Biden bera ábyrgð á Úkraínustríðinu
—
Í viðtali á hlaðvarpinu All-In Podcast sagði Donald Trump forsetaframbjóðandi að NATO beri ábyrgð á stríðinu í Úkraínu. Það hafi verið stefnan að stækka NATO inn í Úkraínu sem hafi ögrað Rússum og fengið þá til að ráðast inn í landið. Trump segir jafnframt að þetta hafi verið stefna Joe Biden Bandaríkjaforseta. Hann hafi viljað stækka NATO inn í Úkraínu og þar með sé Biden einnig ábyrgur fyrir stríðinu. Trump vill meina að ef hann hefði verið við völd þá hefði stríðið aldrei brotist út.
Hér er hægt að sjá viðtalið þar sem Trump sagði þetta (á 22 mínútu og 55 sekúndu í myndbandinu):
„Ég hef heyrt það í 20 ár að ef NATO fer inn í Úkraínu þá er það mikið vandamál fyrir Rússland. Ég hef heyrt það í langan tíma. Og ég held að það sé raunverulega ástæðan fyrir þessu stríði. Ég er ekki viss um að þetta stríð hefði brotist út [ef NATO hefði ekki farið inn í Úkraínu]. Biden var með ranga stefnu í öllum málum. Í þessu máli var hann [Biden] að segja að Úkraína muni ganga í NATO. Það er eitt af mörgu sem hann sagði. Þegar ég hlustaði á hann tala, þá hugsaði ég með sjálfum mér: „Þessi gæi er að fara að starta stríði.““
Eftir þetta bætti Trump við að ekkert nýtt stríð hefði átt sér stað í hans stjórnartíð, og að Úkraínustríðið hefði aldrei brotist út ef hann hefði verið við völd.
Í fyrra (febrúar 2023) sagði Trump jafnframt að „[bandaríska] utanríkisráðuneytið hafi stutt við uppreisnir í Úkraínu.“ Þarna var hann væntanlega að vísa til Maidan-byltingarinnar árið 2014. Sumir hafa túlkað þessi ummæli Trump þannig að þarna hafi hann sagt að Bandaríkin hafi átt þátt í (eða beri jafnvel ábyrgð á) þeim stjórnarskiptum sem urðu í Úkraínu í febrúar 2014 (sem sumir hafa kallað „valdarán“).
Þetta segir Trump þrátt fyrir að hafa í sinni ríkisstjórn aukið verulega vopnasendingar til Úkraínu. En árið 2017 (á fyrsta árinu í hans stjórnartíð) var byrjað að senda „Javelin anti-tank missiles“ í stórum stíl til Úkraínu. Þá beitti Trump ýmsum ráðum til að reyna að koma í veg fyrir Nord Stream 2 gasleiðsluna á milli Rússlands og Þýskalands, en hann lögfesti refsiaðgerðir gegn fyrirtækjum sem tóku þátt í uppbyggingu gasleiðslunnar. Bandaríkin beittu jafnframt ýmsum refsiaðgerðum gegn Rússlandi í stjórnartíð Trump, og Trump-stjórnin státaði sig af því að hafa verið „tough on Russia“. Þá dró Trump-stjórnin sig einnig til baka úr INF samningnum svokallaða árið 2019 (samningnum um bann við meðaldrægum kjarnavopnaeldflaugum), sem Ronald Reagan hafði undirritað með Míkhaíl Gorbatsjov árið 1987. Þessar aðgerðir Trump-stjórnarinnar voru ekki beint vinalegar gagnvart Rússlandi, heldur höfðu þau áhrif að stigmagna spennuna og samkeppnina á milli stórveldanna.
Greinin birtist fyrst á Samstöðinni 24. júní. 2024