Þjóðfrelsis- og andheimsvaldastríð – undir íslamískum merkjum

8. febrúar, 2024 Þórarinn Hjartarson

Fyrir einum og hálfum mánuði síðan (19/12) birtum við hér á Neistum greinina “Palestína – þjóðfrelsisstríð og breytt umhverfi”. Þar var á það bent að Gazastríðið væri ekki aðeins þjóðernishreinsun og slátrun á palestínsku þjóðinni af hálfu Ísraels og heldur væri það jafnframt þjóðfrelsisstríð Palestínumanna.

Í greininni kom fram að Gazastríðið og hin tengdu átök í Miðausturlöndum  snerust líka um bakmann Ísraels, Bandaríkin, um svæðisbundin yfirráð bandaríska “einpóla” hnattveldisins í  Miðausturlöndum gegnum gríðarlega hernaðarnærveru þess. Og þarna kom fram eftirfarandi spádómur:

“Streð Bandaríkjanna eftir fullum yfirráðum í Miðausturlöndum sem staðið hefur frá 1990 er á leiðinni að tapast.“ 

Eftirfarandi grein er beint framhald fyrrnefndrar greinar, og rekur aðeins atburðarásina sem síðan hefur orðið. 

Í fyrri grein var m.a. fjallað um þann hernaðarlega stuðning sem Palestínumenn hefðu fengið frá öðrum löndum í þessum heimshluta eftir aðgerðina Al-Aqsa 7. október.  Stuðningurinn er fyrst og fremst frá þeim aðilum í Miðausturlöndum sem saman ganga undir nafninu Andspyrnuöxullinn, og margt í þeirri harkalegu andspyrnu hefur komið umheiminum á óvart. Um þetta vitnuðum við í Pepe Escobar: 

Það sem við höfum til þessa eru dreifðar, stakar árásir: Hizbollah sem eyðileggur fjarskiptaturna Ísraels sem snúa að suðurlandamærum Líbanons, andspyrnuhreyfing Íraks sem gerir  árásir á bandarískar herstöðvar í Írak og Sýrlandi, og Ansar Allah í Jemen sem áþreifanlega lokar Rauða hafinu fyrir ísraelskum skipum. Allt þetta myndar þó ekki samtaka og samtillta sókn – ennþá.

Hvað hefur síðan gerst? Fyrst og fremst meira af því sama. Þessar „dreifðar stakar árásir“ gegn Ísrael, sem Escobar nefndi svo, hafa einfaldlega færst rækilega í aukana, og eru orðnar nálægt því að mynda einmitt «samtaka og samtillta sókn“ eins og hann spáði. Það blasir við heiminum að andspyrnuöflin í Miðausturlöndum hafa stórlega eflst, pólitískt og hernaðarlega, og þau samstilla sig.

Þær fréttaskýringar sem nú verður bornar á borð eru mikið sótt í vefritið The Cradle (Vögguna) sem er fárra ára gamall fréttamiðill, rekinn af fjölþjóðlegum hópi blaðamanna sem fæst öðru fremur við geópólitík Vestur-Asíu og hefur fylgst náið með nýlegum átökum. Í þeirri fylgd skulum við fara hratt yfir vígstöðvarnar, eina af annarri.

Líbanon og Hizbollah

Eftir því sem þjóðarmorðsstríðinu gegn Gaza vindur fram hafa samtökin Hizbollah hert árásir sínar yfir suðurlandamæri Líbanons, að Ísrael. Í fyrri stríðum hefur Ísrael þvingað „öryggissvæðum“ upp á nágrannalönd sín, m.a. Líbanon. Nú hefur staðan breyst. „Í fyrsta sinn í 76 ára sögu sinni hafa öryggisráðstafanir Ísraels snúist við: hernámsríkið má nú koma sér upp öryggissvæðum buffer zones innan Ísraels. Í fyrri stríðum kom Tel Aviv sér jafnan upp öryggissvæðum innan landamæra andstæðinga sinna. Sér til skelfingar finnur Ísrael nú að það má hörfa frá  beinum átakalínum við erkióvinina.“ (sjá nánar hér).

The Cradle segir í grein að kreppa ríki í Norður-Ísrael vegna aðgerða Hizbollah:

Á myndgrafi sem útlistar árásirnar á ísraelskar stöðvar handan landamæranna segjast Hizbollah hafa gert að jafnaði átta árásir á dag…

43 ísraelsk landnámssvæði hafa verið rýmd, með 230 þúsund landnema burt flutta, greina Hizbollah frá. Skotið var á tvær vopnaverksmiðjur og tvo Iron Dome skotpalla, og fjölmargar aðrar bækistöðvar.

 Alls 56 hernaðarökutæki, þ.á.m. skriðdrekar og liðsflutningabílar voru hæfðir. Hvað mannfall varðar meta Hizbollah það svo að a.m.k. 2000 Ísraelsmenn hafi annað hvort verið drepnir eða særðir. 

Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, bendir á að viðbrögð Ísraels við árásum Hizbolla séu nú allt önnur en áður. Áður hefði – segir hann – einfaldri aðgerð af okkar hálfu verið svarað með umfangsmikilli eyðileggingu um allt Suður-Líbanon.

Þessi reynsla – segir Nasrallah – sýnir okkur að ef þú ert veikur þá mun veröldin ekki viðurkenna þig, ekki vernda þig. Það sem verndar þig eru þín eigin vopn.

Jemen

Það er Jemen sem undanfarnar vikur og mánuði hefur lagt þyngstu lóðin á vogarskál átakanna, í þágu Gaza. Húta-hreyfingin kallast opinberlega Ansar Allah og situr í ríkisstjórninni í Sanaa, þ.e.a.s. fjölmennasta hluta hins uppskipta lands Jemen. Hreyfing sú fór í nóvember síðastliðinn að ráðast á skip á Rauðahafi, skip með varning til eða frá Ísrael eða með tengingu við Ísrael. Hútarnir kváðust mundu halda árásum áfram allt þar til innleitt væri vopnahlé á Gaza. Þeir vitnuðu m.a. í sáttmála SÞ um ráðstafanir gegn þjóðarmorði og skyldur aðildarríkja til að hindra það (Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur svo sem kunnug er staðfest að grundvöllur sé fyrir því að rétta yfir Ísrael vegna ásakana um þjóðarmorð).

Árásir Húta á Ísraels-tengd skip urðu svo til þess að Bandaríkin stofnuðu til bandalags um frjálsar siglingar, en aðeins 10 ríki hafa opinberlega tekið þar þátt í því, flest ríki í léttvikt, sem bendir til að nú sé óheppilegt á heimsvísu að leggja nafn sitt við Ísrael. Í nafni þess bandalags hófu svo Bandaríkin og Bretland loftárásir á jemenskar borgir og bæi. Þau tvö ríki eru í stöðu til að beita Ísrael þrýstingi, en kusu í staðinn að bombardera Jemen. Eftir að þær loftárásir hófust hafa Hútar lýst yfir að bandarísk og bresk skip séu nú lögmæt skotmörk sín líka. Opinber skotmörk eru sem sagt skip tengd Ísrael, Bandaríkjunum og Bretlandi.

Jemenski herinn – beint og óbeint undir forsjá Ansar Allah – hefur síðan aðeins orðið enn staðfastari í að meina þjóðarmorðingjum og helstu vinum þeirra siglingu um Rauðahaf en hleypa hins vegar öðrum skipum óáreittum. Fyrir vikið senda vestræn skipafélög nú að miklu leyti skip sín suður fyrir Afríku en t.d. Kína, Rússar og fv. höfuðóvinir Jemena Sádi-Arabar líka, sigla óáreittir. Skipaflutningar til einu hafnarborgar Ísraels til suðurs, Eilat, eru stopp. Sjá má tvær greinar á The Cradle um stríðið í og við Jemen hér og hérThe Cradle greindi þann 1. febrúar frá nýjustu samskiptunum á þessa leið.

Í viðtali við ritið Al-Mayadeen sagði fulltrúi pólitíska æðstaráðs Jemens í vikunni að aðgerðirnar til stuðnings Palestínumönnum á Gaza „munu halda áfram, það er engin leið að telja heraflann af þeirri grundvallarskyldu að styðja Gaza.“

Breskar og bandarískar flugvélar svöruðu næstu nótt með að varpa sprengjum á jemensku borgina Hodeidah, og 3. febr. vörpuðu sömu stríðsaðilar sprengjum á 36 skotmörk í Jemen. Sama dag skrifaði al-Bukhaiti, opinber fulltrúi stjórnvalda í Sanaa, á X:

“Hernaðaraðgerðir okkar gegn síonísku einingunni munu halda áfram þangað til árásirnar gegn Gaza eru stöðvaðar, sama hvaða fórnir það kostar okkur.“ (RT 3. febrúar)

Írak/Sýrland.

Regnhlífarsamtökin Íslamska andspyrnan í Írak (IRI) hefur haldið áfram árásum sínum á bandarískar herstöðvar í Írak og Sýrlandi sem hófust í október. Árásirnar eru  yfirlýstar stuðningsaðgerðir við Gazabúa, og jafnframt er markmið þeirra að hrekja bandaríska heri brott frá Írak, og frá Sýrlandi. Þegar fyrri grein mín var skrifuð voru  árásirnar orðnar 76 frá miðjum október. Í byrjun febrúar eru þær orðnar yfir 160, þ.e.a.s. nálægt ein áras á dag.

Einna áhugaverðust í okkar samhengi eru viðbrögð írakskra stjórnvalda við þessum árásum. Þegar Íslamska andspyrnuhreyfingin gerði harða eldflaugaárás á helsta herflugvöll Bandaríkjanna í Írak,  Ain al-Assad-völlinn þann 20. janúar, þar sem margir bandarískir hermenn særðust, brást Íraksstjórn við með að krefjast þess að bandarískir herir hyrfu sem skjótast á brott, viðvera þeirra raskaði stöðugleika í landinu. Það rímar við samþykkt írakska  þingsins frá 2020, eftir að Bandaríkjamenn myrtu áhrifamesta herforingja Írans, Qasseom Soleimani í heimsókn til Bagdad, að Bandaríkjaher skyldi hverfa úr landi. Eftir það eru bandarísku herstöðvarnar í Írak ólöglegar, rétt eins og í Sýrlandi. Sjá hér.

Þess ber að geta að hersveitir Íslömsku andspyrnunnar  (IRI) og – nátengdar þeim –  Popular Mobilization Units (PMU), eru sjálfstæð en samt hálfopinber þjóðvarðlið í Írak eftir að þau voru mikilvægir þátttakendur í stríðinu gegn ISIS árin 2014-19.

Vitað var að fram höfðu farið viðræður Írakskra yfirvalda við bandarísk hernaðaryfirvöld um skjóta brottför bandarískra herja frá Írak, sem einnig tengist viðveru þeirra í Sýrlandi. En eftir árásina 28. jan gerði bandaríska Central Command (herstjórnin fyrir Austurlönd nær) árásir á hernaðarleg skotmörk í Sýrlandi og Írak aðfararnótt 3. febrúar. Að sögn bandarískra hermálayfirvalda voru það yfir 85 skotmörk í sjö herbækistöðvum, fjórum í Sýrlandi og þremur í Írak.  Stjórnvöld bæði í Írak og Sýrlandi fordæmdu árásirnar og sögðu þær gróft brot á fullveldi landanna.

Með þeim harkalegu gagnviðbrögðum sem hófust 3. febrúar vilja Bandaríkin sanna vald sitt en vekja með því aukna andúð og hrekja frá sér ríki sem staðið hafa tvíátta – svo sem Írak og Líbanon – jafnframt því að auka hættuna á stórstríði á svæðinu.

Íran

Íran  styður Hamas efnahagslega og hernaðarlega, þó sá stuðningur sé dvergvaxinn miðað við þann stuðning sem Ísrael nýtur frá sínum voldugu vinum. Teheranstjórnin hefur gert stuðning við Palestínu að grundvallaratriði í utanríkisstefnu sinni allt frá íslömsku byltingunni 1979. 

Íran styður líka alla hina aðilana í Andspyrnuöxlinum. Efnahagslega, hernaðarlega og hugmyndafræðilega. Hitt skiptir meira máli að tilvera Írans með sinn öfluga her (einnig vinskapur þess við Rússland) hefur mikinn fælingarmátt fyrir Bandaríkin, að þau hagi sér ekki eins og þau þó vildu helst. Það er hættulegt fyrir Bandaríkin á svæðinu og hættulegt fyrir Ísrael að draga Íran með einhverjum hætti beint inn í átökin.

Hamas

Hamas er (skilgreinir sig sem) þjóðfrelsishreyfing sem berst gegn hernámi palestínsks lands (þ.e.a.s. hernumins lands utan landamæranna frá 1967) og vísar til réttar Palestínsku þjóðarinnar til sjálfsvarnar, jafnvel með vopn í hönd. 

Stríðið sem hófst með Al-Aqsa Flood 7. okt er pólitískt stríð umfram allt annað. Þjóðfrelsisstríð. En hvaða rök lágu til aðgerðarinnar 7. október?

Í fyrsta lagi: Með Al-Aqsa aðgerðinni sprengdi Hamas sig út úr herkví sem var hernaðarleg og þó enn frekar pólitísk. „Hamas vildi rjúfa 17 ára herkví um Gaza og setja málefni  Palestínu aftur upp á borðið á alþjóðavettvangi“ sagði einn helsti talmaður Hamas nýlega. Í öðru lagi: Við völd í Ísrael sitja öfgasíonistar þverir gegn eigin ríki Palestínu og öllum réttindum þjóðarinnar. Í þriðja lagi: Á bak við Ísrael standa Bandaríkin. Taktík þeirra undanfarin ár hefur verið „normalíseringar-ferli og innleiðing Ísraels í Vestur-Asíu svæðið á kostnað palestínsku þjóðarinnar“ eins og annar talsmaður Hamas orðar það – nefnilega að loka Palestínuvandamálið nógu vel inni í herkví hernumdu svæðanna svo áköll og andvörpin heyrist ekki út.

Í því að sprengja hina pólitísku herkví var Al-Axa aðgerðin vel heppnuð. Pólitíkin, þjóðfrelsismástaður Palestínu færðist inn að miðju heimsmála á ný. Nú er engin leið lengur að loka augum fyrir málstað Palestínu.

En stríð verður aldrei háð með slagorðunum einum, síst gegn Ísrael. Vopnin tala líka. Um það vitna um 30 þúsund drepnir almennir borgarar á Gaza, meirihlutinn konur og börn, og tilraunin til að þjóðernishreinsa svæðið.

Yfirlýst höfuðmarkmið Ísraels með hernaði sínum var að eyða Hamas, slá út vígstöðvar samtakanna og ekki síst jarðgangakerfið. Nú eru fjórir mánuðir liðnir og þetta markmið færist undan. Netanyahu sagði fyrir skömmu að verkið myndi teygjast inn á árið 2025. Vitnum aðeins í The Cradle um gang stríðsins.  

Ísrael hefur ekki eyðilagt nema um 20% af jarðgöngum Hamas á Gaza síðan stríðið við Hamas og palestínsku andspyrnuna hófst fyrir nærri fjórum mánuðum síðan, skrifaði The Wall Street Journal (WSJ) þann 28. janúar.

Ístaelskur yfirhershöfðingi, Itzak Brik, segir eftirfarandi:

Stríðsmenn koma út úr gangaopunum til að koma sprengjum fyrir… Herinn á enga skjóta lausn í baráttunni við Hamas en flestir meðlimir samtakanna leynast í jarðgöngunum.“ 

Mikilvægi jarðgangakerfisins minnir mikið á Víetnamstríðið. Einnig það sem Yaakov Amidror fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Ísraels sagði: „Amidror sagði að embættismenn vissu nú að megnið af vopnum samtakanna [Hamas] væru framleidd innan Gaza, ekki smyglað inn. Þau eru þróaðri og stórvirkari en við héldum“ sagði hann um vopnabúaðinn.“ Þetta hefur The Cradle eftir BNN Bloomberg.

Svo er það grasrótarstuðningurinn. Þegar stríðið hafði staðið í tvo mánuði gerði Palestinian Center for Policy and Survey Research (PSR) könnun á vinsældum pólitískra afla á Vesturbakkanum (líklega erfitt að framkvæma slíka á Gaza). Útkoman (birt 13. desember) var sláandi.

Stuðningur við Hamas hefur meira en þrefaldast á Vesturbakkanum frá því fyrir þremur mánuðum síðan” samkvæmt skoðanakönnun PCPSR. „Niðurstaðan gefur í skyn að Ísrael muni ekki takast að uppræta Hamas, eða valda öðru palestínsku Nakba, né hrekja íbúana af Gazasvæðinu. Raunar telur mikill meirihluti að Hamas muni vinna sigur í þessu stríði. Krafan um upplausn Heimastjórnarinnar hefur vaxið upp í um 60% og krafan um að Abbas segi af sér hefur vaxið upp í um 90%.“ 

Tengja saman frelsun Palestínu og Miðausturlanda

Myndin af stríðinu er af litlum og heldur léttvopnðum skæruliðaher sem stendur samt uppi í hárinu á einum harðvítugasta her heims. Myndin af stríðinu er jafnframt af viðureign herja Bandaríkjanna/Ísraels og nánustu vina og hins vegar Andspyrnuöxulsins í Miðausturlöndum sem beitir eins konar „nálastunguhernaði“ á mörgum vígstöðvum í senn. Með þeim hernaði tekur Andspyrnuöxullinn beinan þátt í stríðinu á Gaza, og býður Bandaríkjunum og Ísrael þá kosti að stöðva sitt stríð eða “yfirteygja sig“ að öðrum kosti, dragast út í hernaðarlegt kviksyndi sem skaðar þau bæði efnahagslega og einangrar þau pólitískt.

Þjóðfrelsismálstaður Palestínu á miklu öflugri stuðning meðal almennings í arabalöndum en hjá stjórnvöldum. Þrýstingur „frá götunni“ hefur vaxið mjög eftir 4. október en stuðningur við „normalíseringu“ gagnvart Ísrael horfið. T.d. sýndi skoðanakönnun í Sádi Arabíu í byrjun desember að jákvæð afstaða til Hamas hafði fjórfaldast á þessum vikum, en 96% þjóðarinnar vildi rjúfa öll diplómatísk og efnahagsleg tengsl við Ísrael.

Andspyrnuöflin í Palestínu og Andspyrnuöxullinn í Miðausturlöndum ná að tengja saman þjóðfrelsi Palestínu og frelsun Miðausturlanda úr hernámi heimsvaldastefnunnar svo úr verður einn sameiginlegur málstaður. Og þess vegna verður sá málstaður að öllum líkindum sigursæll að lokum.

Einfaldur ofbeldisspírall? Nei

Það er ábyrgðarhlutur að reita granna sinn til reiði þegar granninn er  ofbeldisfullur stríðsmaður grár fyrir járnum og skotfærum. En það er líka mergur málsins, granninn sækir kúgunargetu sína til vopnanna – líkt og hinn voldugi bakmaður hans hefur alltaf gert – og hefur auk þess vottorð upp á refsileysi frá þeim voldugu.

Hvernig eiga fylgjendur friðar og réttlætis að líta á þetta stríð? Sem ofbeldisspíral, þar sem eitt ofbeldi vekur annað og allt ofbeldi er sama eðlis og fordæmanlegt? Það er gjarnan afstaða einfaldrar friðarhyggju. En hún er röng.

Auðvitað er krafan um tafarlausa samninga og frið grundvallarkrafa. Fyrir andspyrnuöflin í Palestínu er samt önnur krafa enn ofar kröfunni um frið: krafan um réttlæti. Krafa um frelsi og tilverurétt palestínsku þjóðarinnar.

Kúgun leiðir af sér mótspyrnu, það eru grundvallarsannindi. Mikil kúgun leiðir af sér mikla mótspyrnu. Stríð andspyrnuaflanna í Palestínu er þjóðfrelsisstríð. Í Indó-Kína studdum við þann aðilann sem barðist fyrir fullveldi og þjóðfrelsi. Borgaralegir firðarsinnar sögðu árið 1970 „Frið í Víetnam strax!“ en andheimsvaldasinnar sögðu „Styðjum Þjóðfrelsisfylkinguna til sigurs!“

Árið 2023 krefjumst við varanlegs friðar á Gaza. Sá friður verður þó aldrei nema hann feli í sér afnám hernámsins og viðurkenningu á fullveldi og þjóðfrelsi Palestínu.