Þjóðarmorð og akademískt frelsi

Einar Ólafsson
14. ágúst, 2025

Það bar til tíðinda 5. ágúst síðastliðinn að mótmælendur komu í veg fyrir að prófessor við ísraelskan háskóla héldi erindi á vegum íslenskrar fræðastofnunar, Pension Research Institute Iceland (PRICE). Þetta er öllum í fersku minni sem fylgjast með og þarf ekki að rifja það frekar upp.

En í kjölfarið stigu fram nokkrir háskólamenn, flestir frjálslyndir og vel meinandi og gagnrýnir á framferði Ísraels á Gasa, og gagnrýndu þetta á þeim forsendum að þarna hefði verið vegið að akademísku frelsi. Mér finnst ástæðulaust að telja upp þá sem hafa tekið til máls varðandi þetta. Ég vil þó nefna Ingólf Gíslason lektor sem fyrstur vakti gagnrýna athygli á fyrirhuguðum fyrirlestri ísraelska prófessorsins og hefur setið undir ámælum fyrir það, og einnig Finn Dellsén prófessor í heimspeki sem birti á Facebook athugasemd við þessar ásakanir um skerðingu á akademísku frelsi, athugasemd sem litlu er við að bæta og hefði í rauninni átt að slá botninn í þessa umræðu.

En umræðan hélt áfram. Auðvitað er akademískt frelsi mikilvægt. Og tjáningarfrelsi er almennt mikilvægt. Það er sannarlega ekki ástæðulaust að ræða það nú þegar fólk getur lent í vandræðum í löndum, sem hafa talið sig í fararbroddi lýðræðis og tjáningarfrelsis, vegna mótmæla gegn þjóðarmorði.

Það er eitthvað frekar óviðkunnanlegt við þessar aðstæður, þegar daglega berast fréttir um hversu margir hafi verið drepnir eða soltið í hel undanfarinn sólarhring á Gasa, að háskólamenn fari að tapa sér í umræðum um akademískt frelsi í kjölfar mótmæla gegn því að prófessor við ísraelskan háskóla haldi hér fyrirlestur, jafnvel þótt þau mótmæli hafi orðið til þess að fyrirlestrinum var aflýst.

En það er reyndar líka svolítið sérstakt hvað þessir frjálslyndu og upplýstu og víðsýnu háskólamenn átta sig illa á þessari friðsamlegu baráttuleið almennings sem fellst í sniðgöngu. Viðleitni almennings til að berjast gegn þjóðarmorði, sem ráðamenn ríkja sem helst gætu haft einhver áhrif bregðast ekki við nema í besta falli með innantómum orðum. Átta sig ekki á að sniðgangan er ekki aðeins til að refsa þeim sem sannanlega bera ábyrgð heldur er hún hugsuð sem þrýstingur á bæði ísraelsk stjórnvöld og ísraelsku þjóðina. Ísrael er, vel að merkja, lýðræðisríki þar sem stjórnvöld eru þjóðkjörin.

Einn skrifaði í athugasemd við umræður á Facebook:

„Réttlætingin hlýtur að velta á því hvort viðkomandi einstaklingur ber persónulega ábyrgð á siðlausum ákvörðunum eigin háskóla og ríkisstjórnar. Ef sýnt hefur verið fram á slíkt (ég þekki ekki málavöxtu) þá er sniðgangan réttlætanleg, ella siðlaus.“

Annar skrifaði:

„Eitt er að vera á móti þátttöku Ísraels í Eurovision – þar er „þjóðin“ að senda lið. Það er öðruvísi, finnst mér.“

Og enn annar skrifaði:

„Engin haldbær rök hafa komið fram sem sýna fram á tengsl fyrirlesarans við ísraelsk yfirvöld nema það að hann starfar við ríkisháskóla. Það geri ég líka. Er ég þá ábyrgur fyrir spillingu fyrrum forsætisráðherra?“

Nei, að sjálfsögðu ekki. Munurinn er bara sá að þeir atburðir sem þarna er um að ræða eru svo hrikalegir og skelfilegir að það er ekki í boði að vera hlutlaus.

Það sjónarmið hefur líka komið fram að akademískt frelsi sé prinsipp og allar undantekningar feli í sér hættu, færi út mörkin og eitthvað svoleiðis. Það er auðvitað einfaldast að halda sig við prinsippin, að hafna öllum undantekningum, en hvernig eigum við að bregðast við þegar ástandið sjálft er orðið að undantekningu? Þá reynir kannski einmitt á hina akademísku þekkingu, hina akademísku hæfni til að greina.

Það virðist líka vera að sumir háskólamenn sem hafa tekið til máls líti svo á að starfsemin innan háskólanna sé á einhvern hátt heilagri en önnur starfsemi. Þótt berjast þurfi gegn ódæðum ísraelskra stjórnvalda, meðal annars með sniðgöngu á ýmsum sviðum, þá verði að undanskilja starfsemi háskólanna í nafni hins akademíska frelsis. Þó ættu háskólamennirnir að vita það manna best að háskólarnir og aðrar vísindastofnanir eru samofnar gangverki samfélagsins, og þar á meðal hinum hernaðarlega þætti þess sem aldrei fyrr. Háskólarnir eru ekki lítilvægasti hlutinn af hernaðarmaskínu Ísraels

Stundum er talað um fílabeinsturn. Mér kom það orð í hug: í hinum akademíska fílabeinsturni sitja akademískir menn og ræða akademískt frelsi meðan blóðið flýtur niðri á grundinni.

En vel að merkja, það eru ekki allir háskólamenn á einu máli um þetta. Líklega eru þeir ekki svo margir sem sitja í þessum fílabeinsturni hér á landi. Sem betur fer.