Þing Norðurlandaráðs – hvað með Gasa?
—
Yfirskrift þings Norðurlandaráðs 2024 var „Friður og öryggi á norðurslóðum“.
Það er kannski eðlilegt að það sé til umræðu á þingi Norðurlandaráðs á þessum viðsjárverðu tímum, en það er umhugsunarvert að aðalefni þingsins hafi verið hernaðarlegs eðlis. Ekki verður betur séð en það sé grundvallarbreyting á stefnu og störfum ráðsins og því full ástæða til að skoða þá umræðu og greina hana þótt það verði ekki gert hér.
Hins vegar var ástandið á Gasa og í Miðausturlöndum lítið til umræðu. Þó kom það lítillega til tals í umræðum forsætis- og utanríkisráðherranna og þá helst í svörum þeirra við fyrirspurnum þingmanna, en ekki verður sagt að þar hafi verið talað skýrum rómi.
Hin sameiginlega rödd Norðurlanda?
Í svari sínu við fyrirspurn lagði danski utanríkisráðherrann, Lars Løkke Rasmussen, áherslu á rétt Ísraels til sjálfsvarnar um leið og hann þó taldi Ísrael hafa gengið of langt, en nefndi samt tvisvar að hann væri vinur Ísraels sem skapaði vissulega ákveðinn vanda en reyndar væri málið mjög flókið. Spurður um rauð strik nefndi hann ákvörðunina um að banna UNRWA og lýsa framkvæmdastjóra SÞ persona non grata, en fjöldamorðin og eyðilegginguna, þjóðarmorðið, nefndi hann ekki.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Maria Malmer Stenergard, sagði að mikilvægi samstarfs Norðurlandanna varðandi þetta fælist helst í því að greiða fyrir norrænum borgurum á átakasvæðunum. Og í svari sínu við fyrirspurn notaði hún sama frasa og Lars Løkke Rasmussen að Ísrael hefði rétt til að verja sig.
Samstarfsráðherra Finnlands var fámáll um þetta en flokkssystir hans var þó heldur skýrari um að „við eigum að gegna ákalli forsætisráðherra Noregs til kollega sinna“.
Norsku ráðherrarnir höfðu þó nokkra sérstöðu, einkum forsætisráðherrann, Jonas Gahr Støre, fyrir miklu skeleggari málflutning en aðrir ráðherrar.
Fáeinir þingmenn í flokkahópum vinstri grænna og græningja voru líka nokkuð skeleggir í fyrirspurnum.
Utanríkisráðherra Íslands nefndi „styrjöld í Miðausturlöndum“ bara í þessum þrem orðum rétt meðal annarra átaka í heiminum. Reyndar nefndi hún líka Afríku, sérstaklega Súdan, ásamt fáeinum öðrum ráðherrum og vert að halda því til haga. Hins vegar er afdráttarlaust svar hennar varðandi viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi athyglisvert í ljósi þess að nú liggur fyrir Alþingi tillaga um viðskiptaþvinganir gagnvart Ísrael.
Mikið var talað á þinginu um samvinnu Norðurlandanna, sameiginlega rödd og sameiginlega sýn á hvers konar samfélög við viljum skapa, „þar sem hver og ein manneskja fær að njóta ávaxta hæfileika sinna og þar sem einstaklingnum er frjálst að láta að sér kveða þar sem hann eða hana lystir án þess að eiga hættu á að sæta ofsóknum vegna kyns, uppruna, litarháttar, trúar eða kynhneigðar,“ eins og utanríkisráðherra Íslands orðaði það.
Vissulega stóðu Norðurlöndin saman um gagnrýni á bann ísraelska þingsins við starfsemi UNRWA nú nýlega en að öðru leyti er einhver mishljómur í þessari sameiginlegu rödd og eitthvað er hún fölsk og rám þegar kemur að jafn augljósri skelfingu og þjóðarmorðinu á Gasa.
Hér á eftir verður nánar greint frá ávörpum ráðherranna og svörum þeirra við fyrirspurnum.
Forsætisráðherrarnir: Jonas Gahr Støre einn á báti
Þriðjudaginn 29. október héldu forsætisráðherrarnir stutt erindi og eftir hvert erindi gafst fundarmönnum kostur á stuttri fyrirspurn eða athugasemd. Sjálfsagt réð efni fundarins miklu um áherslur ráðherranna, en það var „Hvernig tryggjum við best frið og öryggi á norðurslóðum og Norðurlöndum?“ Það skýrir kannski að ástandið í Miðausturlönd og á Gasa kom ekki mikið til tals.
Forsætisráðherra Noregs, Jonas Gahr Støre (Arbeiderpatriet), vék þó að Miðausturlöndum og Gasa í sínu máli. Hann sagði að um leið og Norðurlöndin ættu að sýna fordæmi varðandi stuðning við Úkraínu og lýðræðisleg gildi okkar, verði þau líka „að bregðast við þegar brotið er á réttlætinu í Miðausturlöndum. Árásin 7. október í fyrra, það sem nú er að gerast á Gasa og það sem gerðist í Ísrael í gær, þar sem Ísrael setti lög gegn mannúðarstarfi fyrir Palestínumenn, við því verðum við að bregðast. Það er hluti af okkar gildum.“
Þingkona sænska Vinstriflokksins (Vänsterpartiet), Lorena Delgado Varas, tók til máls og benti á að Norðurlöndin hefðu löngum verið leiðandi varðandi frið og samfélagslegt öryggi. „Það er ekki svo langt síðan talað var um frið sem vörumerki norrænu landanna.“ Mikilvægt sé að halda því á lofti, bæði varðandi samstarf í alþjóðlegum stofnunum, svo sem Sameinuðu þjóðunum, og samstöðu þegar kemur til dæmis að þjóðarmorðinu í Palestínu. Hún spurði ráðherrann hvernig hann teldi Norðurlöndin geta einum rómi talað fyrir rétti Palestínu.
Í svari sínu sagði ráðherrann að þegar Noregur viðurkenndi Palestínu hafi það verið á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar, að bæði Ísraelsmenn og Palestínumenn hefðu rétt á sínum ríkjum. En núverandi ríkisstjórn í Ísrael sé andvíg tveggja ríkja lausn, andvíg því að Palestínumenn eigi rétt á eigin ríki. Stríðsreksturinn á Gasa eftir hryðjuverkaárásina 7. október í fyrra sé brot á þjóðarétti og það sé álit Noregs varðandi það sem er að gerast á Vesturbakkanum að með viðurkenningu á Palestínu sé það gert ljóst að Palestínumenn eigi rétt á að komið sé fram við þá með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir að vera ríki samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ef Palestína fær ekki viðurkenningu sé ofbeldisfullum hryðjuverkasamtökum gefið sviðið. Palestína verði að komast með sína rödd inn í Sameinuðu þjóðirnar. Norðurlöndin verði að standa saman og tala einni rödd um kröfu um vopnahlé og mannúðarhjálp.
Svíþjóð: réttur til sjálfsvarnar
Miðvikudaginn 30. október utanríkisráðherrarnir skýrslur sínar.
Utanríkisráðherra Svíþjóðar, Maria Malmer Stenergard (Moderaterna), talaði aðallega um Úkraínu og spennuna varðandi innrás Rússa þar en nefndi það að átökin í Miðausturlöndum valdi enn miklum þjáningum. Og nefndi mikilvægi diplómatísks samstarfs milli Norðurlandanna sem skipti miklu máli við að gæta hagsmuna norrænna borgara þar sem hættuástand væri, svo sem núna í Miðausturlöndum.
Veronika Honkasalo þingkona fyrir finnska Vinstrabandalagið (Vasemmistoliitto, Vänsterförbundet) spurði ráðherrann hvers vegna Svíþjóð hefði setið hjá við afgreiðslu ályktunar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna 18. september síðastliðinn, þar sem Ísrael var skipað að „binda tafarlaust enda á ólögmæta veru sína á hernumdu svæði Palestínumanna“. Finnland, Ísland og Noregur greiddu atkvæði með ályktuninni en Svíþjóð og Danmörk sátu hjá. Hún sagði að mikilvæg rök fyrir afstöðu Finnlands hafi verið að taka afstöðu innan ramma þjóðaréttar og Alþjóðadómstólsins. Hún spurði ráðherrann hvort rödd Norðurlandanna hefði ekki meira vægi ef þau öll fylgdu dæmi Noregs og gagnrýndu saman brot Ísraels á þjóðarrétti. Hvað segir þetta um Norðurlöndin ef þau sýna tvískinnung varðandi mannréttindi og telja að ekki séu allir jafngildir.
Ráðherrann svaraði því til að Svíþjóð styddi Alþjóðadómstólinn en þessi ályktun hefði gengið lengra. Svíþjóð styddi tveggja ríkja lausnina til langs tíma. Svíþjóð tæki ástandið í Miðausturlöndum alvarlega, ekki síst hinar miklu mannlegu þjáningar. Þess vegna hefði Svíþjóð aukið framlag sitt til mannúðarhjálpar á Gasa síðan 7. október. Ísrael hefði rétt til að verja sig en það yrði að vera innan alþjóðalaga. „Við reynum að beita rödd okkar í öllu mögulegu samhengi og það gera líka norrænu ríkin sameiginlega til að auka mannúðaraðstoð og draga úr þeim hræðilegu þjáningum sem við horfum upp á.“
Danmörk: vinur Ísraels
Lars Løkke Rasmussen utanríkisráðherra Danmerkur (Moderaterne) minntist ekkert á Miðausturlönd.
Alireza Hossaini félagi í æskulýðssamtökum sænska Umhverfisflokksins (Miljöpartiet de gröna) og fulltrúi Norðurlandaráðs æskunnar benti á að næstum allir töluðu um innrás Rússa í Úkraínu, sem væri auðvitað sjálfsagt, en um leið talaði næstum enginn um stríð Ísraels gegn Gasa. Hann spurði ráðherrann hvort ekki væri tímabært að stöðva það stríð og hvort ekki væri einhver rauð strik að finna þar sem ráðherrann gæti sagt að komið væri að því algerlega síðasta sem Ísrael gæti gert áður en Norðurlöndin brygðust við.
Þessari spurningu svaraði ráðherrann: „Jú.“ En jafnframt sagði hann að afstaða Dana væri að Ísrael hefði rétt til sjálfsvarnar en bætti við að annars vegar yrði það að vera innan ramma alþjóðalaga og hins vegar yrði að gera greinarmun á hryðjuverkasamtökum og almennum borgurum. Hann sagði það áhyggjuefni að í kjölfar hræðilegrar hryðjuverkaárásar Hamas hefði staða Palestínumanna versnað mjög, meðal annars á Vesturbakkanum. Það hafi verið bakgrunnur þess að norrænu utanríkisráðherrarnir hefðu fyrir nokkrum dögum í sameiningu gert ísraelska þinginu, Knesset, grein fyrir áliti sínu vegna áforma um löggjöf gegn Flóttamannahjálp Palestínu, UNRWA. „Það er jú dæmi um, að þótt við lítum á okkur sem vini Ísraels, erum við mjög, mjög meðvituð um að það eru nokkrar reglur sem á að virða.“ Hann sagði að til lengri tíma þyrfti að vinna að tveggja ríkja lausn og til þess þyrfti vopnahlé. Jafnframt þyrfti að styðja við palestínska sjálfstjórn í Ramallah. Vissulega séu rauðar línur og bæði ákvörðun Knesset um UNRWA og yfirlýsingin um að framkvæmdastjóri SÞ væri persona non grata væri áhyggjuefni. Sömuleiðis sá skaði sem UNIFIL (friðargæslusveitir SÞ) í Líbanon hefði orðið fyrir. Allt séu þetta því miður dæmi um að Ísrael taki alþjóðasamfélagið ekki nógu alvarlega „og sem gerir það raunverulega erfitt, verð ég í einlægni að segja, fyrir okkur sem erum vinir Ísraels að koma þeim til varnar“. Þetta sé virkilega flókið en hann voni að það þetta hafi komist til skila.
Finnland: fámáll ráðherra
Anders Adlercreutz, sem er samstarfsráðherra fyrir Finnland (Svenska folkpartiet i Finland), talaði aðallega um mikilvægi NATO en sagði í lok ræðu sinnar að samvinna Norðurlanda væri líka mikilvæg hvað varðaði Miðausturlönd, vaxandi spenna þar væri áhyggjuefni, þar þyrfti meiri diplómatíska vinnu og minni hernaðaraðgerðir og Finnland styddi tveggja ríkja lausnina. En það hafði reyndar komið fram í fyrirspurn þingkonu í stjórnarandstöðu að hin hægri sinnaða ríkisstjórn Finnlands hafði séð sóma sinn í að greiða atkvæði með ályktun SÞ í september þar sem Danir og Svíar sátu hjá.
Noregur: frumkvæði á vettvangi SÞ
Anne Beathe Tvinnereim, sem er samstarfsráðherra fyrir Noreg (Senterpartiet), gerði Úkraínu og stöðuna á Norðurslóðum að umtalsefni en vék síðan að Miðausturlöndum og Gasa og skelfingarástandinu þar. „Við höldum áfram að standa saman á Norðurlöndum um kröfurnar um tafarlaust vopnahlé á Gaza og í Líbanon, um lausn gíslanna og að dregið verði úr spennunni á svæðinu. Allir aðilar verða að virða sínar skyldur. Þegar bál geisa í veröldinni eru svæði eins og Norðurlönd mikilvæg, lönd sem standa með þjóðarrétti, friði og stöðugleika. Við höfum meiri slagkraft saman en við hefðum hvert fyrir sig.“
Lorena Delgado Varas þingkona Vinstriflokksins í Svíþjóð tók nú aftur til máls, hrósaði Noregi fyrir málflutning varðandi Palestínu og spurði ráðherrann hversu mikilvægt hún teldi að Norðurlöndin stæðu saman um fordæmingu á banni ísraelska þingsins á UNRWA.
Ráðherrann svaraði að það væri mikilvægt að Norðurlöndin hefðu grundvallaratriði í huga varðandi fordæmingu þegar brotið væri á þjóðarrétti. Það sem við sæjum í Miðausturlöndum í dag væri að eitt land, Ísrael, hefur skipulega brotið reglurnar sem varða stríð, meðal annars varðandi það að hleypa mannúðaraðstoð inn til almennra borgara á Gasa auk annarra brota á þjóðarétti. Enn sem komið sé hefði alþjóðasamfélagið náð afar skammt með diplómatískar lausnir og það yrði að leggja allan þann þunga sem hægt væri til að fá stríðsaðila, líka Ísrael, til að virða leikreglur stríðsins. Þess vegna hefði Noregur tekið frumkvæði að ályktun á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um að biðja Alþjóðadómstólinn að gera nákvæma grein fyrir hvaða skyldur eigi að leggja á Ísrael varðandi mannúðarrétt. (Sjá fréttatilkynningu frá 29. okt.)
Ísland: tökum fullan þátt í viðskiptaþvingunum – eða hvað?
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands talaði um mikilvægi norræns samstarfs, við deilum sýn á hvers konar samfélög við viljum skapa, hvers konar samfélögum við viljum búa í og hvernig við álítum að heimurinn eigi að vera með áherslu á mannréttindi og lýðræði og alþjóðlegt samstarf og svo framvegis. „Þetta samtal hefur sennilega aldrei verið eins mikilvægt og nú þegar við horfum upp á þá heimsmynd sem við okkur blasir. Mjög mikil vaxandi spenna í samskiptum stórveldanna í austri og vestri, styrjöld í Miðausturlöndum, ólöglegt innrásarstríð Pútíns í Úkraínu og hræðileg borgarastyrjöld í Súdan.“
Anna Starbrink þingkona fyrir Frjálslynda flokkinn (Liberalerna) í Svíþjóð spurði ráðherrann um viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi, hvað hún teldi að Norðurlöndin gætu gert saman hvað þær varðar. Í svari sínu sagði ráðherrann meðal annars: „Mín skoðun er mjög skýr. Það minnsta sem við getum gert er að taka fullan þátt í viðskiptaþvingunum.“
Að loknum ræðum ráðherranna fluttu fimm aðrir þingmenn ávörp. Einn þeirra, Eva Biaudet, þingkona Sænska þjóðarflokksins í Finnlandi (Svenska folkpartiet i Finland), vék stuttlega að Miðausturlöndum í lok ávarps síns: „… við verðum að stöðva ofbeldið í Miðausturlöndum og setja í gang pólitíska þróun fyrir tveggja ríkja lausn. Og við eigum að gegna ákalli forsætisráðherra Noregs til kollega sinna um að við verðum virkilega að gera meir til að stöðva stríðið þar.“ Og Veronika Honkasalo þingkona fyrir finnska Vinstrabandalagið, sem áður hafði spurt utanríkisráðherra Svíþjóðar um hjásetu Svíþjóðar á allsherjarþinginu, vék líka að Ísrael, en þar sem ræða hennar hefur enn aðeins birst á finnsku verður ekki vitnað til hennar að sinni.
Dönsk framleiðsla í íraelskum orrustuþotum
Á þinginu fluttu varnarmálaráðherrar ríkjanna stuttar skýrslur. Þegar þetta er ritað er aðeins að finna skýrslu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á vef þingsins. En þar fjallaði hún aðeins um vaxandi varnarsamstarf Norðurlandanna, NATO, sterkt og traust samstarf Íslands við Bandaríkin og uppbyggingu hernaðaraðstöðu á Íslandi.
Í þessum dagskrárlið gafst eins og í hinum tækifæri til fyrirspurnar. Kathy Lie, þingkona fyrir Sósíalíska vinstriflokkinn (Sosialistisk Venstreparti) í Noregi, kom þar með fyrirspurn til, að því er virðist, varnarmálaráðherra Danmerkur og gerði að umtalsefni að dönsk yfirvöld hafa árum saman leyft dönskum fyrirtækjum að selja Ísraelum hluti í F-35 orrustuflugvélar. Það hefur komið fram að þessar flugvélar hafa verið notaðar í árásum á Gasa. Hún spurði ráðherrann hvort þessi útflutningur yrði leyfður áfram og hvort Danmörk bryti meðvitað alþjóðlegar reglur um vopnaviðskipti. Því miður er hvorki skýrsla ráðherrans né svar hans við fyrirspurninni enn sem komið er aðgengileg á vef þingsins.
Hér eru tenglar á þær ræður sem hér hafa verið til umræðu:
Dagskrá þingfundar – ÞRIÐJUDAGUR 29. október (3. liður 14:35-16:35)
https://www.norden.org/no/node/89510
Dagskrá þingfundar – MIÐVIKUDAGUR 30. október (6. liður 09:10-10:10 og 9. liður 14:00 – 14:25)