Þetta er ekki erfitt: Samstaðan skiptir alþýðuna öllu

4. febrúar, 2023 Jón Karl Stefánsson

Mikil áróðursherferð hefur verið sett í gang til þess að sverta nýjustu baráttu stærsta stéttafélag landsins, Eflingu, í kjölfar samþykktar á löngu tímabærum kjaraaðgerðum nokkurra verst launuðu stétta samfélagsins. Almannatenglar stóru fyrirtækjanna í ferðamannaiðnaðinum hafa sent frá sér ýmsar fréttatilkynningar þar sem reynt er að gera þessa kjarabaráttu hinna fátækari tortryggilega og þetta virðist hafa skilað árangri í að hafa áhrif á Ríkisstjórn og skrifstofuvaldið. Þar fór fremstur í flokki Ríkissáttasemjari, Aðalsteinn Leifsson, sem lagði fram miðlunartillögu án samráðs við Eflingu þann 26. janúar. Miðlunartillagan er vond fyrir félagsmenn, ef ekki niðurlægjandi. Miðlunartillaga þessi er beinlínis tillaga Samtaka Atvinnulífsins, óbreytt. Samkvæmt lögum verður meira en helmingur þeirra sem greiða atkvæði, þ.e. starfsmanna í Eflingu sem vinna á hinum almenna markaði, að hafna henni, og mótakvæðin þurfa að vera meira en fjórðungur atkvæðisbærra félaga, meira en 6000 manns. Þetta er gríðarlega erfitt.

Það að leggja fram slíka tillögu algerlega án þess að ræða við stéttafélagið er beinlínis dónaleg framkoma sem hunsaði algerlega sjónarmið stéttafélagið og Efling fordæmdi því skiljanlega þessi vinnubrögð. Efling krafðist, einnig skiljanlega, að fá að sjá gögn um samskipti ríkissáttasemjara við aðila hjá Samtökum Atvinnulífsins. Er eðlilegt að „miðlun“ milli tveggja aðila sé einungis höfð með sjónarhóli annars aðilans? En í stað þess að verða við þeirri kröfu sendi Ríkissáttasemjari fyrirmæli um að afhenda upplýsingafyrirtæki í einkaeigu, Advania, kjörskrá sína, væntanlega svo hægt væri að þvinga samninginn í gegn ef félagsmenn sem greiddu atkvæði á móti „miðlunartillögunni“ væru örugglega ekki nógu margir. Sá gjörningur hefði reyndar stangast á við Persónuverndarlög, en degi eftir að þessi tilmæli voru send til Eflingar rumpaði embætti sáttasemjarans saman persónuverndarsamningi við Advania, svo fagleg voru þau vinnubrögð.

Þessi framkoma ríkissáttasemjara er ef til vill nógu slæm. En hann var ekki einn um að standa þétt að baki auðmagninu svo hægt væri að niðurlægja alþýðufólk. Forsætisráðherra og formaður Vinstri-grænna, flokks sem auglýsir sig sem róttækan vinstriflokk sem „leggur höfuðáherslu á jöfnuð og sjálfbærni“, sagðist ekki taka „efnislega afstöðu“ til miðlunartillögu og framkomu ríkissáttasemjara. Síðar lýsti hún því yfir að hún hefði fengið ráðgjöf frá „sérfræðingum“ sem tjáðu henni að miðlunartillaga ríkissáttasemjara hefði verið lögleg. Hún hafði ekki fyrir því að leita til sérfræðinga mótaðilans, Eflingar. Þetta heitir að taka afstöðu og formaður Eflingar krafðist eðlilega afrits af þessum samskiptum hennar við sérfræðinga þessa.

Nú hljótum við öll að spyrja, ætlar flokkur sem markaðssetur sig sem „vinstri“ og flokk „jöfnuðar“ að umbera þessa hegðun gagnvart fólki sem hefur verið skilið eftir? Ef svo er verður að krefja þennan flokk um að endanlega taka burt öll slík slagorð og kalla sig það sem hann er í raun. Annars væri eðlilegt að leita til Neytendasamtakanna. Þetta er auglýsingasvindl.

Hvað allt annað varðar er þetta ekki erfitt. Stöndum ætíð með alþýðufólki þegar það berst fyrir rétti sínum. Samtakamátturinn er enn okkar sterkasta og mikilvægasta vopn. Andstæðingurinn gerir því allt til að slá það vopn úr hendi.