Það sem allir friðarsinnar þurfa að vita um umhverfismál og kapítalisma

16. desember, 2020 Þorvaldur ÞorvaldssonFriðar- og umhverfisbaráttan fléttast saman á margvíslegan hátt, sem vert er að gefa gaum. Umhverfisvandinn og stríðshættan kynda hvort undir öðru og því væri ástæða til að baráttan á þessum sviðum tvinnaðist meira saman en raun ber vitni.

Helstu þættir umhverfisvandans eru loftslagsbreytingar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti, súrnun sjávar, eyðing auðlinda og vistkerfa, uppsöfnun eiturefna og útrýming tegunda.

Undanfarna áratugi hefur nýting auðlinda verið næstum tvöföld á við það sem þær geta endurnýjað sig, þ.e. þær sem eru endurnýjanlegar. Ferskvatnsnotkun nálgast hámark þess sem vatnshringrás jarðarinnar ræður við, sem eru um 4.000 rúmkílómetrar á ári. Átök um auðlindir eru samofin sögu kapítalismans og þau hafa tilhneigingu til að skerpast eftir því sem sneyðist um þær. Undanfarna áratugi hefur ákafi heimsvaldaríkjanna í að leggja undir sig allar olíulindir jarðar, haldið uppi stríðsástandi í heilu heimshlutunum. Þar má nefna Miðausturlönd, Líbíu og Venesúela er ógnað af sömu örlögum. Sókn eftir sjaldgæfum málmum og fleiri auðlindum hafa haldið Kongó í gíslingu hernaðarátaka og á nokkrum svæðum hafa átök um vatnslindir grafið undan stöðugleika, og þar gæti orðið aukning á í náinni framtíð.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig hvernig umhverfisvandinn kyndir undir hernðarumsvifum, sem aftur auka á umhverfisvandann. Það á ekki síst við um loftslagskreppuna þar sem öll hernaðarumsvif leiða af sér gríðarlega losun gróðurhúsalofttegunda.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru stærsti umhverfisvandi okkar tíma. Þrátt fyrir Parísarsamkomulagið er ekki útlit fyrir að takist að halda hlýnun jarðar frá upphafi iðnvæðingar innan við 2 gráður, hvað þá 1,5. Auk þess gætu vítahringsáhrif leitt til enn frekari hlýnunar á fáum áratugum. Þó að kreppa, eins og sú sem nú er í uppsiglingu leiði til samdráttar, sem skilar sér um tíma í minni losun, sýnir reynslan að í kjölfar kreppu gera stjórnvöld og fjármagnseigendur hvað sem er til að koma „hjólum atvinnulífsins“ aftur af stað. Þá er líklegt að losunin fari á tvöfaldan snúning í þeim yfirlýsta tilgangi að „auka hagvöxt og skapa störf“ og áhrif samdráttarins verði étin upp til agna á augabragði.


Sameiginleg orsök

Það er ekki nóg með að stríðshættan og umhverfisvandinn kyndi hvort undir öðru, heldur eiga þau sameiginlega orsök. Hún er ekki siðferðisleg heldur sprettur beint af því samfélagkerfi sem ræður ríkjum í heiminum í dag. Kerfi kapítalismans krefst hagvaxtar. Hagkerfið verður að þenjast út langt umfram fólksfjölgun ár hvert. Til að standa undir aukinn veltu í hagkerfinu þarf aukna framleiðslu og neyslu. Því fylgir aukið vistspor, aukin losun og fleiri afleiðingar. Samdráttur í hagkerfinu hefur hins vegar í för með sér aukið atvinnuleysi og fátækt hjá verkafólki. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að það nægi að draga úr framleiðslu, því um leið verður að frelsa hana úr höndum auðmagnsins setja hana undir félagslegar forsendur. Þannig og aðeins þannig er hægt að laga framleiðsluna að þörfum fólksins og skipta ávinningnum réttlátlega.

Krafa kapítalismans um hagvöxt og útþenslu leiðir einnig til þess að átök um auðlindir, markaði og áhrifasvæði verða að styrjöldum. Stundum staðbundnum og tímabundnum. En stundum verða stórstyrjaldir sem spanna flesta heimshluta og skipa öllum heiminum í stríðsblokkir. Þetta er saga kapítalismans í hnotskurn. Fyrst fór heil öld í baráttu nýlenduríkjanna um nýlendur. Í byrjun 20. aldarinnar þróaðist kapítalisminn yfir á stig heimsvaldastefnunnar, þar sem einokunarkapítalismi og fjármálaauðvaldið ræður ríkjum. Með breyttum styrkleikahlutföllum milli heimsvaldaríkjanna koma fram kröfur um endurskiptingu heimsins með nýju stríði. Margt bendir til að vaxandi hætta sé á þeim aðstæðum næstu árin. Kína stefnir framúr Bandaríkjunum, ekki aðeins efnahagslega, heldur einnig bæði tæknilega og hernaðarlega. Bandaríkin gætu reynt að koma í veg fyrir það með því að blása til allsherjarstríðs gegn Kína.

Hvort sem til þess kemur eða þróunin tekur aðra stefnu er það ljóst, að kapítalisminn leiðir af sér kreppur, styrjaldir, ófrið og eyðileggingu umhverfis. Því er nauðsynlegt að við gerum upp við okkur hvernig við viljum móta framtíðina á næstu áratugum. Sættum við okkur við að vera ofurseld hagsmunum auðvaldsins, umhverfisvá og vaxandi ófriði? Eða getum við stuðlað að því að leiða umhverfis- og friðarhreyfinguna í einn farveg, sem beitir sér fyrir afnámi auðvaldskerfisins og uppbyggingu nýs samfélags á sósíalískum grunni? Það gerir mögulegt að skapa jafnvægi í samskiptum mannsins og náttúrunnar, og einnig milli fólks og þjóða.


-Þorvaldur Þorvaldsson