Tamila Gámez Garcell: 2. sæti á lista Alþýðufylkingar til borgarstjórnarkosninga
—
Ég hef búið á Íslandi frá 2002, og af þeim hef ég í 13 ár starfað sem uppeldismenntaður starfsmaður fyrir Reykjavíkurborg. Ég tel að sú reynsla sem ég hef aflað mér við leikskólakennslu og víðar geti komið að góðu gagni í þeim verkefnum sem framundan eru. Í starfi með börn reynir á liðsvinnu, árvekni í starfi og ekki síst að vera úrræðagóður þegar vanda ber að höndum.
Að búa á höfuborgarsvæðinu hefur kosti og galla, en að búa í Reykjavík er ótrúlega mikil reynsla.
Ég kem frá Kúbu þar sem búa cirka 13 milljónir manna og mér finnst erfitt að skilja hvernig almenningssamgöngur í stærri borgum ganga betur fyrir sig heldur en í Reykjavík. Ég tek fram, fyrir þau sem vita það ekki, að á Kúbu er mikill skortur á öllu sem þykir sjálfsagt hérna. En hér snúast almenningssamgöngur um hagnað og eru ekki álitnar grunnþjónusta. Ég vil að það viðhorf víki, að öll starfsemi borgarinnar eigi að skila hagnaði, og fólki sé veitt almenn þjónusta, eins og á það skilið. Það er fyrir utan minn skilning að ákveðinn hópur í samfélaginu fái endurgreitt fyrir að aka norður-suður, en almenning skorti almenna samgönguþjónustu. Ef kerfið væri í lagi myndu margir ekki virkilega þurfa einkabíl til að koma sér frá A til Ö, og það væri ekki bara almenningur sem mundi spara sér fullt af peningum, heldur líka borgin. Og loftgæðin mundu líka batna. Strætókerfið verður því að komast í lag í okkar borg.
Í öldrunarmálum þykir mér það áríðandi að breyta Reykjavík úr borginni þar sem er gott að vera meðan maður er ungur og hress, en þegar maður fer á eftirlaun sé farið með mann út á land. Borgir eins og Reykjavík eiga að fara vel með eldri borgara sína, þau eru gosbrunnur af reynslu og þekkingu sem borgin getur nýtt sér betur en hún gerir í dag. Það snýst ekki um heitt veður og golf. Bestu staðir til að eldast vel eru borgir þar sem er að finna mikið af störfum, góðar samgöngur og virk samfélög. Stór borg eins og Reykjavík þarf fleiri valkosti fyrir umhyggju aldraðra.
Háar nýbyggingar sem rísa í hjarta miðbæjarins koma í veg fyrir að Reykjavík sé græn borg. Skrítið að gera átak í að minnka umferðina í borginni á sama tíma og fjöldi hótela eru byggð í hjarta boragrinnar. Hvar á að koma fyrir görðum og göngugötum?
Neikvætt jafnvægi í fólksflutningum er af völdum ýmissa þátta sem oftast hafa neikvæð áhrif á lífsgæði og lífskjör eldri borgara og barnafjölskyldna. Lág laun, húsnæðisskortur, slæmar samgöngur og allt þetta háa verð… hvar endar þessi listi? Reykjavíkurborg á að standa sig betur í málefnum þessara viðkvæmu hópa.
Allt er tengt, vandamálin flækjast fyrir okkur því á eyju hefur allt áhrif á alla, alls staðar.
Reykjavík þarf að betrumbæta gönguleiðir í borginni, skapa betri samgöngur og skapa tækifæri til íbúa, eldri sem yngri, til að vera virkir borgarar og taka þátt í samfélagsverkefnum.
Ég ber hagsmuni leik- og grunnskólakennara fyrir brjósti.
Kennarastéttin hefur verið svelt í mörg ár og hærri kröfur til menntunar kennara hafa ekki skilað sér að fullu. Þetta er langt og erfitt nám sem um er að ræða, en það bætir ekki launakjörin mikið. Munur á milli ófaglærðum starfsmanni og kennara er ekki mikill og oftast eru launin hjá báðum undir viðmiðum um meðaltekjur á Íslandi.
Skerðingar eftir hrun bættu gráu ofan svart og stéttin fór í meðvirkniham, skorið niður hér og þar, litlar kröfur til ríkisins, sætti sig við lélegar vinnuaðstæður, aukinn barnafjölda á hvern kennara, aukið álag og aukna vinnu fyrir minna en 20% launahækkun. Þetta er ekki í lagi, það er til skammar að svo dýrmæt vinna sé lítið sem ekkert metin. Fyrir utan það hefur skapast neikvæð ímynd um kennarastarfið, sem mun taka langan tíma að snúa við ef ekkert er gert. Fjölmargir kennarar fara á eftirlaun á næstu 10 árum og stéttin mun klárlega deyja út fljótlega ef ekki verður gripið til aðgerða til að fá fólk í námið.
En menntamálin eiga að halda áfram að vera fjarri einkaraðilum. Menntakerfið á að vera í höndum hins opinbera, en þar er margt sem má bæta og gera betur. Menntun á að skila til samfélagsins þeim verkfærum sem þarf til að búa til samfélag sem getur þróast í áttina að betra lýðræði og jöfnuði.
Sama gildir um heilbrigðisþjónustu, sem er ein af grunnstoðum samfélagsins og á að vera á ábyrgð þess. Óeðlilegt er að krefjast hagnaðar og taka arð út úr heilbrigðiskerfinu.