Stóriðjumartröðin á Húsavík

19. júlí, 2020 Björgvin Leifsson



Þótt rekja megi stóriðjudrauma á Húsavík aftur til síðustu aldar urðu þeir ekki áberandi fyrr en eftir síðustu aldamót. H-listinn, kosningabandalag Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, náði meirihluta í sveitastjórnarkosningum 1998 og aftur 2002, þá sem bandalag Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (VG). Undirritaður minnist þess ekki að stóriðja hafi sérstaklega borið á góma í undirbúningi málefnasamstarfs fyrir kosningarnar 2002.

Annað var uppi á teningnum fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2006 en þá slitnaði upp úr samstarfi ofangreindra flokka vegna álversdrauma Samfylkingarinnar (og raunar líka Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks). Eina framboðið í Norðurþingi fyrir kosningarnar 2006, sem vogaði sér að vera á móti uppbyggingu orkufrekrar og mengandi stóriðju í sveitarfélaginu var framboð VG en á þessum tíma reis sá flokkur enn undir nafni. Þrátt fyrir stóriðjubrjálæðið, sem þá tröllreið öllu samfélaginu á Húsavík náði VG samt ágætri kosningu og betri en margir stóriðjusinnarnir bjuggust við.

Til að gera langa sögu stutta má segja að stóriðjusinnaðir Húsvíkingar hafi sest niður næstu árin og ekki gert mikið annað en að bíða eftir álveri – sem aldrei kom. Raunar má halda fram að álversliðið hafi verið dregið á asnaeyrunum í amk heilt kjörtímabil. Þegar ljóst mátti verða að lítið, snoturt álver væri ekki á næstu grösum mætti ætla að stóriðjusinnar hefðu lært eitthvað og færu að sinna annarri atvinnuuppbygginu. Það var nú öðru nær.

Þegar þarna var komið sögu var VG í óðaönn að afhjúpa sig sem íhaldssinnaður vinstrikrataflokkur. Flokkurinn tók fullan þátt í og ber mikla ábyrgð á endurreisn hins kapítalíska hrunkerfis á Íslandi í krataríkisstjórninni 2009 til 2013. Æ síðan hefur nafngiftin, VG, verið skólabókardæmi um pólitísk öfugmæli og er raunar til skammar að jafn stóriðjusinnaður íhaldsflokkur skuli voga sér að bera enn þetta nafn.

Skömmu eftir að álversdraumurinn hrundi varð umræða um annars konar stóriðju smám saman meira áberandi í samfélaginu á Húsavík. Nú skyldu Þjóðverja fá að reisa kísilver á Bakka, jafnvel enn meira mengandi stóriðju per framleiðslueiningu en nokkurt álver. Og hver skyldi nú hafa verið aðal bakhjarlinn í krataríkisstjórninni annar en þáverandi formaður VG, Steingrímur J. Sigfússon, maðurinn sem var alfarið á móti allri stóriðju frá stofnun flokksins 1999 – þar til hann komst í ríkisstjórn 2009. Heil 10 ár, vel að verki staðið eða hitt þó heldur.

Kísilverið tók til starfa árið 2018 og tóku þá við "byrjunarerfiðleikar" (svona svipað og í Helguvík), sem hafa verið viðvarandi í tvö ár og heita víst enn þá byrjunarerfiðleikar hjá heittrúuðum stóriðjusinnum á Húsavík. Nægir þar að nefna mun meiri reyksleppingar en okkur hafði verið lofað, bruna, vandræði með ofnana (og sérstaklega annan þeirra sem hefur víst lítið verið í gangi) og slæman móral á vinnustað með tilheyrandi mannaskiptum.

Og nú er búið að loka.

Byrjunarerfiðleikar? NEI! Stóriðjudraumurinn er einfaldlega orðinn að martröð. Fullt af fólki hefur misst vinnuna, þar af þó nokkrir, sem í góðri trú höfðu sagt upp öruggri vinnu á Húsavík til að fara að vinna fyrir PCC á Bakka. Búið er að reisa virkjun uppi á Reykjaheiði og leggja línur til Bakka með tilheyrandi spennuvirki. Hvað á nú að gera við þessa raforku? Búið er að grafa göng gegnum Höfðann á kostnað skattgreiðenda. Kannski má leiða þangað kindur til að leita skjóls undan óveðrum? Í stuttu máli: Það er engan veginn víst að þeir opni aftur.

Hvað ætla húsvískir stóriðjusinnar að gera núna, hvort sem þeir eru innan raða VG eða annarra stóriðjusinnaðra íhakdsflokka? Kannski að setjast niður og bíða milli vonar og ótta eftir því að kísilverið verði gangsett aftur? Kannski að væla út aðra stóriðju? Eða sem betra er: Að fara að snúa sér að annarri uppbyggingu atvinnulífs á Húsavík og í Norðurþingi en stóriðju?

Við skulum rifja upp gamalt plagg frá kosningabaráttunni í Norðurþingi 2006. Oddviti lista VG, Ásbjörn Björgvinsson, þáverandi forstöðumaður hvalasafnsins á Húsavík, tók þennan lista saman. Listinn kallaðist einfaldlega "Eitthvað annað". Nafngiftin er komin frá húsvískum stóriðjusinnum og átti að vera okkur í VG til háðungar þegar við bentum á að hægt væri að gera ýmislegt annað til atvinnuuppbyggingar í héraðinu en að einblína á stóriðju. Listinn var tvískiptur:

Í fyrsta lagi var listi yfir fyrirtæki, sem höfðu sprottið upp á síðustu 10 árum fyrir kosningarnar 2006. Mörg þessara fyrirtækja eru enn starfandi í sveitarfélaginu:

Norðursigling og Hvalaferðir á Húsavík.

  • Ný veitingahús.
  • Fjörfiskur, Búbót og Viðbót í húsnæði gömlu mjólkurstöðvarinnar.
  • Kaldbakskot, 12 ný gistihús.
  • Hvalasafn.
  • Reðursafn.
  • Umtalsverð stækkun og endurbætur á Hótel Húsavík vegna fjölgunar ferðamanna.
  • Kaðlín, handverkshús á Húsvík.
  • Kryddjurta og te framleiðsla að Sandi II í Aðaldal.
  • Handverkshópar í Öxarfirði og Raufarhöfn.
  • Norðlenska, ný og aukin verkefni í fullvinnslu kjöts.
  • Garðarsstofa, fræðslusetur um náttúru og landsnámssögu.
  • Fjallalamb, sérhæfing og frekari fullvinnsla á kjöti.
  • Þekkingarsetur Þingeyinga.
  • Hausaþurkun GPG, stækkun og útrás GPG innanlands og erlendis.
  • Náttúrustofa Norðausturlands.
  • Fiskeldisstöðvar, stækkun og nýungar í framleiðslu.
  • Saltvík, hestaferðir, ferðaþjónusta.
  • Snow Magic, ný tækifæri í vetrarferðamennsku.
  • Gljúfrastofa.
  • Háskólasetur Háskóla Íslands á Húsavík.
  • Lífræn ræktun gulróta í Öxarfirði.
  • Heimskautagerði við Raufarhöfn.

Í öðru lagi var svo listi yfir ýmislegt sem mætti gera eða amk íhuga. Sumt af þessu kann að vera úrelt en þarna má finna atriði, sem hafa orðið að veruleika:

  • Vetnisframleiðsla sem byggir á nýtingu vistvænnar orku.
  • Matvælaþróunar- og hönnunarstofa íslenskra matvæla á Kópaskeri
  • Lifandi safn og sýning í loðnuverksmiðjunni á Raufarhöfn tengt árlegri loðnuhátíð.
  • Áframeldi á Þorski í lýsistönkum loðnuverksmiðjunnar á Raufarhöfn.
  • Sjóstangaveiði fyrir ferðamenn frá Kópaskeri, Húsavík og Raufarhöfn.
  • Nýja möguleika í lífrænni ræktun grænmetis á söndunum í Öxarfirði.
  • Frekari fullvinnsla landbúnaðar og sjávarafurða.
  • Saltfiskréttaverksmiðja í tengslum við saltfiskverkun G.P.G.
  • Stóraukin handverksframleiðsla og námskeið í því sambandi.
  • Endurbætur á golfvöllum munu draga að fleiri ferðamenn,
  • Merkingar á fuglaskoðunarstöðum, skoðunarhús, fuglaskoðunarferðir, merkingar gönguleiða,
  • Ný skíða- og brettaaðstaða.
  • Uppbygging sundlauga.
  • Fjölmenningarhús á Húsavík.
  • Fjölmenningarhátíð á Raufarhöfn.
  • Örnefnaskráning og merkingar á merkilegum náttúrufyrirbærum og stöðum.
  • Stórátak í grunnrannsóknum á lífríki lands og sjávar.
  • Námskeiðahald af ýmsum toga sem tengist sérstöðu og náttúru svæðisins.
  • Bygging reiðhallar og kennsla í hestamensku.
  • Staðbundnir fisk- og grænmetismarkaðir yfir sumartímann.
  • Andlegar- og líkamlegar endurhæfingarbúðir að Ási í samvinnu við eigendur og heilsugæslu.
  • Fræðslusetur Einars Ben og fl.
  • Stóraukin starsemi Heilbrigðistofnunar Þingeyinga s.s. endurhæfing og læknisaðstöð fyrir ýmsa sérhæfða sjúkdóma sem nýtt geta heilsuvatnið okkar.
  • Og fl……

Nú ætla ég ekki að segja Húsvíkingum fyrir verkum. Ég er hins vegar viss um að einhverjar þessara hugmynda eru enn nýtanlegar eða amk skoðunar virði og enn fremur ættu heimamenn að geta fundið upp á einhverju öðru en þarna er talið upp. Sumt kann að kosta nokkra orku en það ætti ekki að vera vandamál með virkjun á Þeistareykjum og línum til Bakka og ætti sveitarstjórinn að geta laumast í spennuvirkið með framlengingarsnúru ef á þarf að halda.

Góðir Húsvíkingar! Nú er einstakt tækifæri til að rífa sig upp úr stóriðjumartröðinni og fara að gera "eitthvað annað"! Kærar kveðjur til ykkar allra frá Portúgal.

Kísilverið kolsvart spjó

kolaryki um loft og mó

og reykjarmekki í röðum.

Vil ég kynna kappann þann

(kolamokstur stundar hann):

Garp frá Gunnarsstöðum.