Stéttabarátta, ekki stéttasamvinna!


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018.

Frá stofnun hefur Alþýðufylkingin tekið fortakslausa afstöðu með verkafólki, fólkinu sem vinnur við undirstöðustörf þjóðfélagsins á lægstu laununum.

Hnignunarsaga ASÍ frá því er hagfræðingarnir náðu þar völdum sýnir svo ekki verður um villst að árangur í kjarabaráttu launafólks næst ekki með stéttasamvinnu. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum kjarabótum er stéttabarátta.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar haldinn 6.-7. október 2018 krefst þess að ný forysta ASÍ standi þétt upp við bakið á stéttarfélögum sambandsins í komandi kjarabaráttu þeirra í vetur og skorar á forystu félaganna að hvika hvergi í þeirri baráttu.

Koma verður í veg fyrir félagsleg undirboð og niðurrif á réttindum verkafólks, þar sem erlent verkafólk og ungt fólk verður harðast úti. Skammtímaráðningar og starfsmannaleigur, sem ekki lúta lögum íslensks vinnumarkaðar eru meðal verkfæra auðvaldsins í þessu skyni. Uppræta verður starfsmannaleigur, sem ekki lúta íslenskum lögum og -kjarasamningum, og hafa það eina hlutverk að lifa sníkjulífi á erlendu verkafólki og halda því í ómanneskjulegum aðstæðum. Þetta verður að setja að skilyrði í samningum á vinnumarkaði í vetur.