Sögur prófessorsins
—
![](https://neistar.is/wp-content/uploads/2024/11/Hannes.jpg)
Þann 22. okt. s.l. svaraði Hannes Hólmsteinn Gissurarson grein minni um „Sögur ísraelska hermannsins“ sem birtist á visir.is 19. október s.l. Hannes segir sér ljúft og skylt að svara grein minni. Í svari Hannesar eru svo margar rangfærslur að það tekur pláss og tíma að svara og leiðrétta það sem hann „leiðréttir“ í minni grein. Svar mitt verður því í lengra lagi og vona ég að lesendur fyrirgefi mér, en eins og máltækið segir: „Hafa skal það sem sannara reynist.“
Hver er ég?
Hannes varpar hann fram spurningunni: „Hver er Hjálmtýr Heiðdal?“ Lýsingin er mögnuð og á greinilega að setja mig endanlega á hliðarlínuna, enda er ég og mínir líkar „hættulegir stjórnarskrárbundnum réttindum okkar, málfrelsi og fundafrelsi“. Það er meira í kúnni. Samkvæmt Hannesi hata ég „vestræna menningu með einstaklingseðli sínu, fjölbreytni, umburðarlyndi, réttarríki, viðskiptafrelsi, einkaeignarrétti, lífsgleði og lífsnautnum.“ Þetta er fremur stór skammtur að meðtaka, en Hannes vill ekki skilja eftir nein skúmaskot fyrir mig til að leynast í – allt skal upp á borð. Jafnvel lífsgleðin er orðin pólitísk í meðförum prófessorsins.
Hannes rifjar upp ýmislegt sem ég skrifaði á sjöunda áratug 20. aldar þegar ég var félagi í s.k. Maóistasamtökum og ritstjóri Stéttabaráttunnar, málgagns KSML. Hannes er ekki einn um að rifja þessa tíma upp í þeim tilgangi að vara við fólki eins og mér. Skoðanabróðir hans, Stefán Einar Stefánsson blaðamaður Morgunblaðsins, segir mig vera vera „ofbeldismann“ og „hættulegan gyðingahatara“.
Baráttan gegn heimsvaldastefnunni
Á þessum tíma var baráttan gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna stór þáttur í lífi margra ungmenna og var barátta Víetnama gegn herliði Bandaríkjanna í brennidepli.
Ég var virkur í Víetnamhreyfingunni og skoðaði heiminn í því ljósi. Kína var helsta stuðningsríki Víetnama og í augum okkar í hreyfingunni því jákvætt afl.
Í stuttu máli studdi ég baráttu þjóðanna í S-A Asíu gegn heimsvaldastefnu Bandaríkjanna. Í þeim málum var mörg lygin matreidd og má m.a. minnast á árásarinar á Tonkinflóa, afhjúpanir Daniels Ellsberg, Pentagon skýrslurnar ofl. Þegar málefni Kambódíu voru í forgrunni þá var megin málið að sumra okkar mati að styðja þá á þeirra forsendum. Þar á meðal var í fararbroddi um tíma þjóðhöfðinginn Shianouk og aðrir sem börðust fyrir frelsi landsins.
Lofther Bandaríkjanna stundaði leynilegar loftárásir á Kambódíu (Operation Menu 1969) og fór 230.000 árásarferðir og vörpuðu um 500.000 tonnum af sprengjum – sem er álíka mikið og Bandaríkin notuðu í seinni heimsstyrjöldinni á Kyrrahafssvæðinu.
Síðar voru það Rauðu Khmerarnir sem náðu völdum eftir að USA herinn hrökklaðist frá svæðinu. Hugmyndir Pol Pots og annarra leiðtoga hreyfingarinnar um þjóðfélagsbreytingar reyndust vera sprottnar m.a. úr jarðvegi sem má líkja við Sturlungaöld þeirra þar sem tíðkaðist að útrýma heilu ættunum ef embættismenn féllu í ónáð hjá konungum landins á fyrri tíð.
Það voru einnig áhrif frá Menningarbyltingunni í Kína sem m.a. birtust í hrottalegum aðferðum Rauðu Khmeranna, andstaða gegn menntun og morð á menntafólk.
Á þessum árum var, ólíkt því sem nú er, erfiðara að afla sér upplýsinga um það sem var á seyði. Í Kambódíu voru örfáir fréttamenn sem komust til landsins og margir þeirra áttuðu sig ekki á ástandinu frekar en við hér uppi á Íslandi. Allan tímann voru til staðar efasemdir um frásagnir vestrænna fjölmiðla m.a. vegna fyrrgreindra blekkinga um stríðsátökin í S-A Asíu.
Ástandið í Palestínu er hinsvegar engum dulið þótt margir, líkt og ég fyrrum varðandi ástandið í Kambódíu, neiti að viðurkenna hver hin raunverulega staða er. Ég hef komið tvisvar til Ísraels og á Vesturbakkann og einu sinni á Gazaströndina. Ég hef því kynnst fólkinu sem býr við ofríki Ísraelsstjórnar og hersins sem henni hlýðir. Að auki hef ég skrifað bók um tilurð ástandsins sem þarna ríkir og þátt Íslendinga í þeirri sögu. Bókin ber titilinn Íslandsstræti í Jerúsalem.
Hver er höfundurinn?
Árið 1968 skrifaði vel þekktur Íslendingur þennan rasíska texta: „Ég vil telja mjög aukna blóðblöndun manna af þeldökkum kynstofni og Íslendinga [vera ágalla]. Ég tel sem sé að slík blöndun sé vægast sagt mjög óæskileg og óheilbrigð. Afleiðing mistaka sem óvitar fremja í þessum efnum geta orðið hroðalegar. Það er nægilegt að sjá það sem þegar er orðið. Ég er á móti því að negrum sé veittur íslenskur ríkisborgararéttur, eða þeim hleypt inn í landið. Það væri óskemmtilegt að heyra og sjá allskyns blökku- og múlattalið tala móðurmál vort og telja sig til vorrar þjóðar.“ Höfundurinn átti eftir að sjá að sér og ná ýmsum metorðum, t.d. sem formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra.
Hannes hefur stutt þennan stjórnmálamann án þess að reyna að skilgreina hann út frá þessum rúmlega hálfrar aldar gömlu orðum.
Stofnun Ísraelsríkis
Ísraelski hermaðurinn Ely Lassman og Hannes Hólmsteinn flytja okkur báðir sígilda söguskýringu síonista á stofnun Ísraelsríkis. Goðsaga sem allir þekkja um að gyðingar hafi samþykkt skiptingu Palestínu en Palestínumenn hafnað. Þeir segja söguna eins og ekkert sé eðlilegra en að frumbyggjar landsins samþykki að missa ríflega helming ættjarðar sinnar í hendur aðkomumanna. Í grein minni benti ég á hversu fáránleg skiptingin var eftir að Allsherjarþing SÞ lagði til skiptingu. Gyðingarnir, sem flestir höfðu flust til landsins á fyrstu áratugum 20. aldar, og voru 31% landsmanna, áttu að fá 54% landsins en 69% landsmanna áttu að fá 44%. Hannes misskilur reyndar og skrifar að ég telji þetta eðlilega skiptingu: „Geri ég enga athugasemd við þá staðhæfingu hans“ enda er hann hlyntur þessari skiptingu þótt misréttið blasi við.
Hannes telur brottrekstur Palestínumanna frá heimahögum ekki vera stórmál og bendir á að: „Þetta er ekki í fyrsta sinn á tuttugustu öld, að fjölmennir hópar hafa flúið undan nýjum valdhöfum í heimahögum sínum.“ Það er þó lítil huggun fyrir fólkið sem fyrir því verður að það eru fleiri hafi hlotið svipuð örlög. Síst fyrir Palestínuþjóðina sem hefur verið hrakin og myrt í sjö áratugi og er enn ofsótt og drepin í stórum stíl með hjálp Vestrænna ríkja.
Hannes bendir á að „856.000 gyðingar [flýðu] frá Arabaríkjum til Ísraels“ og á það að segja okkur að það sé e.k. jöfnuður í þesum fólksflutningum. En það sem vantar í sögu Hannesar er að gyðingar, sem höfðu búið meðal araba í alda raðir, urðu mjög óvinsælir meðal araba vegna meðferðar síonista á Palestínumönnum. Þessa gyðinga má því telja meðal fórnarlamba síonismans eins og fjöldi frásagna gyðinga frá Íran, Írak, Egyptalandi ofl. löndum sýna. Annað sem vantar í frásögn Hannesar er að síonistastjórnin í Ísrael vann ötullega að því að fá gyðingana í arabalöndunum til að flytja til Ísraels. Það var m.a. gert með hryðjuverkum. Útsendarar Ísraels sköpuðu ótta meðal gyðinga á löndum araba og gerðu m.a. árásir á bænahús gyðinga í Írak og Egyptalandi. Nokkrir þessara útsendara voru gripnir og hengdir. Um þetta má lesa í bók ísraelska sagnfræðingsins Tom Segev 1949, The first Israelis og bók Avi Shalim Three Worlds – Memories of an Arab-Jew. Avi Shalim er gyðingur sem rekur ættir sínar til Írak.
Forsagan
Það er mikil íþrótt meðal síonista og stuðningsmanna Ísraels að lýsa Palestínumenn sem aðkomufólki. Síonistinn Hannes er auðvitað á þeim buxunum og fullyrðir að:
„Gyðingar hafa búið í Ísrael í 3.500 ár, en arabar komu ekki þangað fyrr en 637 e. Kr.“ Hér flytur Hannes enn eina goðsögnina um gyðinga og tilkall þeirra til Palestínu á sögulegum grundvelli. Hér lendir prófessorinn fyrrverandi í mótsögn við helsta forystumann síonista sem stóðu að stofnun Ísraels 1948. Sjálfur Ben-Gurion, ásamt Ben-Zvi (sem síðar varð forseti Ísraels), rannsökuðu sögu Palestínumanna sem voru fyrir í landinu þegar síonistar gerðu tilkall til landsins.
Þessir forystumenn komust að þeirri niðurstöðu að bændur Palestínu væru ekki neinir aðkomumenn eins og Hannes reynir að segja okkur. Niðurstaða þeirra eftir rannsóknir sýndu að „Fellahin [bændur í Palestínu] eru ekki afkomendur arabísku herranna sem hertóku Ísrael og Sýrland á sjöundu öld e.kr. Arabísku sigurvegararnir útrýmdu ekki bændum og búaliði sem byggðu landið. Þeir ráku eingöngu byzantísku yfirstéttina á brott en létu aðra íbúa í friði. Arabarnir settust ekki að í landinu né hófu þeir búskap, ekki frekar en á öðrum svæðum sem þeir bjuggu á, arabarnir ástunduðu ekki landbúnað … Þeir sóttust ekki eftir jarðnæði fyrir arabíska bændur, þeir fyrirfundust varla. Áhugi þeirra á nýlendum var pólitískur, trúarlegur og efnislegur: þeir vildu stjórna, boða íslam og innheimta skatta. Það var ekki létt verk að slíta gyðingabóndann frá landi sínu. Þetta gildir um alla bændur hvarvetna, bændur sem hafa vökvað jörðina með svita sínum kynslóðum saman … Þrátt fyrir kúgunina og þjáningarnar fór sveitafólkið hvergi.“
Skýrara getur það varla verið; frumbyggjarnir fóru hvergi og Ben-Gurion og Ben-Zvi sögðu að þetta væru gyðingabændur. Af hagkvæmnisástæðum gerðust þeir múslimar, m.a. til þess að borga lægri skatta. Það sama gerðu gyðingar á Spáni þegar Spánarkonungur vildi reka þá úr landi. Gyðinganir skiptu einfaldlega yfir í kristni og bjuggu áfram á Spáni.
Annar foringi síonsia, Chaim Weizmann (fyrsti forseti Ísraels) vissi að frumbyggjar Palestínu áttu sér langa sögu. Aðspurður um fólkið sem bjó í Palestínu sagði Weizmann að „Bretar sögðu okkur að það væru nokkur hundruð þúsund negrar (Herbreska: Kushim), í þeim eru engin verðmæti“
Þessi niðurstaða helstu foringja síonista passar ekki við söguna sem Hannes og Ely segja okkur. Rannsókn Ben-Gurion stemmir vel við aðrar rannsóknir á uppruna Palestínumanna, má nefna bókina „Palestine – A four Thousand Year History“ eftir sagnfræðinginn Nur Masalha. Hann á ættir aðrekja til Palestínu en nú prófessor við St. Mary háskólann í London.
Hver réðist á hvern?
Prófessor emeritus Hannes Hólmsteinn og ísraelski hermaðurinn Ely Lassman eru sammála um að „Gyðingar samþykktu tillögu SÞ, en arabar höfnuðu henni, og Arabaríkin gerðu árás á hið nýstofnaða Ísraelsríki í maí 1948.“ Þetta er grundvallaratriði í málflutningi þeirra og síonista um allan heim enda einfalt mál, Ísrael fórnarlambið sem fyrr.
Öll saga síonismans byggir á blekkingum, slæmur málstaður býður ekki annan valkost. Hver var hin raunverulega atburðarás 1948? Alexander Cadogan, (1884 – 1968) sem gegndi stöðu aðstoðarutanríkisráðherra í bresku stjórninni, sagði á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í janúar 1948 „að sögur gyðinga um að það séu arabar sem eru árásaraðilinn eru ekki trúverðugar.“ Staðreyndin er sú að hryðjuverkasveitir síonista hófu árásir 1947.
Þegar eftir samþykkt SÞ um skiptingu Palestínu 29. nóvember, áður en Ísraelsríki var stofnað, réðust hryðjuverkasveitir síonista á íbúa Haifa og Jaffa og náðu að flæma Palestínumenn burt. Áður en herir arabaríkjanna komu á vettvang (í maí 1948) voru hryðjuverkasveitir, Haganah, Irgun og Stern, búnar að hrekja hátt í 300,000 íbúa út fyrir landamæri hins fyrirhugaða Ísraelsríkis.
Þann 14. maí 1948 lýsti David Ben-Gurion yfir stofnun Ísraelsríkis og þá sendu arabaríkin heri á vettvang. Þannig liðu fimm og hálfur mánuður frá upphafi átakanna þar til að stjórnir arabaríkjanna brugðust við til þess að freista þess að verja þau svæði sem Sameinuðu þjóðinar höfðu úthlutað Palestínumönnum.
Þessi atburðarás hefur ekki hlotið mikla umfjöllun. Sagan, sem flestir trúðu, er sú að hið upprennandi Ísraelsríki hafi verið umsetið óvinum sem réðust til atlögu gegn því strax í upphafi til þess að gjöreyða því. Það var ekki fyrr en daginn sem David Ben-Gurion lýsti yfir stofnun Ísraels, að herir fimm arabaþjóða réðust til atlögu.
Stjórnarskráin sem ekki er til
Hannes skrifar „Hjálmtýr fer þó rangt með, þegar hann vitnar í ísraelsk lög frá árinu 2018 eins og þau séu stjórnarskrá ríkisins… Þau eru það ekki, heldur viðbót við hana.“
Var Hannes ekki prófessor við Háskóla Íslands árum saman? Veit hann ekki að Ísrael hefur enga stjórnarskrá? „Viðbót“ við stjórnarskrá sem er ekki til skrifar hann og „Hæstiréttur Ísraels komst að þeirri niðurstöðu árið 2021, að lögin stönguðust ekki á við stjórnarskrána, enda má segja, að þau feli í sér hið augljósa, að Ísrael sé heimkynni gyðingaþjóðarinnar.“ Hann sleppir að nefna að lagaviðbótin frá 2018 segir „…Rétturinn til að iðka þjóðlegt sjálfræði í ríkinu Ísrael er eingöngu fyrir gyðingaþjóðina.“ Hæstiréttur Ísraels var þar að fjalla um viðbót við svokölluð grunnlög Ísraels sem eru ígildi stjórnarskrár en eru frábrugðin stjórnarskrá lýðræðisríkja því grunnlögunum má breyta með einföldum meirihluta á þingi. Um þetta ástand sagði ísraelski prófessorinn Mordechai að þessi lagasetning sé gerleg; „Vegna þess að við höfum ekki neina stjórnarskrá, við höfum ekki gulltryggð grundvallarréttindi, það eru engin skýr ákvæði um jafnrétti og tjáningarfrelsi.“
Fullyrðingar Hannesar um stjórnarskrá sem er ekki til er í stíl við annað hjá honum; hann slengir fram fullyrðingum sem eru eingöngu bull og blekking.
Nóbelsverðlaun
Andúð Hannesar á Palestínumönnum (og aröbum) byggir á rasisma. Hann segir að „Barátta Ísraelsmanna við þessi hryðjuverkasamtök er barátta milli menningar og villimennsku.“ Það er viðtekin venja að stimpla hópa sem berjast gegn nýlendustefnu bæði Bandaríkjanna og Ísraels sem hryðjuverkahópa, og það jafnvel þótt þessir hópar komist ekki með tærnar þar sem Ísrael hefur hælana þegar manndrápin og eyðileggingin er talin. Þetta er mjög hentugt og einnig það að segja frelsisbaráttu undirokraðra vera villimennsku. Til að undirstrika „villimennskuna“ bregður Hannes upp tölum um nóbelsverðlaunahafa: „Af þeim 965 einstaklingum, sem hafa fengið Nóbelsverðlaun, hafa 216 verið gyðingar.“ Þessi lýsing, sem á að sýna yfirburði gyðinga gagnvart aröbum, er auðvitað hreinn rasismi í ætt við hugmyndir nasistanna um übermenschen – ofurmanneskjur, að gáfur og geta séu bundnar við uppruna og ættir og séu í blóðinu. Gyðingar eru ekki kynþáttur, þeir eru upprunnir frá ýmsum stöðum en eiga sameiginlega ýmsa siði líkt og kristið fólk með sín jól ofl. Síonistar og nasistar eru upphafsmenn þess að skilgreina gyðinga sem kynþátt. Nasistar gerðu það til þess að aðgreina þá, síðan ofsækja og útrýma. Síonistar gerðu það til þess að undirstrika sérréttindi þeirra gagnvart fólkinu sem bjó í Palestínu.
Bæði Hannes, Stefán Einar ofl. styðja með ráðum og dáð þjóðarmorð Ísraels í Palestínu sem fer fram í beinni útsendingu um allan heim. Þeir munu sitja uppi með þá skömm svo lengi sem þeir halda áfram þeirri iðju – og lengi eftir að morðunum linnir.