Skilaboðum Ísraelskra Pyndingarklefa er beint til okkar allra, ekki aðeins til Palestínumanna

28. maí, 2024 Jonathan Cook

Höfundur: Jonathan Cooke.

Þýðandi: Anna Jonna Ármannsdóttir

Mynd frá dómssalnum í Nurnberg-réttarhöldunum: Vladimir Viktorovich

Formáli þýðanda

Árið 1930 byggði Breska heimsveldið dýflissu í Palestínu sem Bretar hersátu. Dýflissan varð þekkt sem Mannvirki 1391 og tilgangur hennar var að bæla niður andspyrnu við hersetu þeirra í Palestínu. Undir stjórn Ísraela, varð þessi dýflissa að pyntingamiðstöð sem afmennskaði fórnarlömbin og braut þau niður sem manneskjur. Fórnarlömbin fengu Ísraelar með mannránum og mansali með vitund og vilja Bretlands og Bandaríkjanna. Í marga áratugi hafði Ísrael leynilega í haldi að mestu leyti erlenda ríkisborgara af arabískum uppruna, án vitundar ísraelskra dómstóla, Rauða Krossins og mannréttindasamtaka. Þeir voru notaðir sem tilraunadýr við þróun pyntingatækni, sem Bandaríkin nýttu sér til að pynta Íraka og aðra í Abu Ghraib og Gegnumlýsingar¬búðunum í Gvantanamó. Samsekt vestrænna stofnana í þjóðarmorðinu í Ísrael er ekki frávik. Hún stafar ekki af misskilningi eða ruglingi. Stjórnmála- og fjölmiðlastétt vestrænna ríkja sér þjóðarmorðin á Gaza jafn skýrt og við hin. En fyrir þeim er það réttlætanlegt, jafnvel nauðsynlegt. Það verður að kenna hinum hernumdu og frelsissviptu að andspyrna er fánýt. Svartholin þjóna tilgangi sínum, líkt og dauðabúðirnar á Gaza. Þar er verið að brjóta niður mannlegan anda. Þar er verið að breyta Palestínumönnum í fúsa samstarfsmenn í eigin eyðileggingu sem þjóð, í eigin þjóðernishreinsun.

Anna Jonna Ármannsdóttir

Skilaboðum ísraelskra pyndingarklefa er beint til okkar allra, ekki aðeins til Palestínumanna

Jonathan Cooke

Greinin birtist upphaflega á vefnum www.middleeasteye.net/

„Svarthol“ hafa þann tilgang að minna þau, sem hafa verið hertekin og frelsissvipt, á einfalda lexíu: Andspyrna er fánýt

Þokuvafinn nóvembermorgun fyrir 21 ári síðan, faldi ég mig örvæntingarfullur. Falinn í laufi appelsínulundar, í ísraelsku héraði Galíleu, tók ég í flýti, myndir af drungalegri steinsteyptri byggingu sem ekki var merkt á neinu korti.

Jafnvel upprunalegt skilti, sem merkti staðinn sem Mannvirki 1391, hafði verið fjarlægt eftir að rannsókn dagblaðsins Haaretz leiddi í ljós að þar var leynilegt fangelsi.

Ég var fyrsti erlendi blaðamaðurinn til að hafa uppi á Mannvirki 1391, sem að mestu var falið innan í rammlega víggirtri byggingasamstæðu sem byggð var árið 1930 til að bæla niður andspyrnu gegn breskri hersetu í Palestínu.

Í marga áratugi á þessum stað, hafði Ísrael leynilega í haldi að mestu leyti erlenda ríkisborgara af arabískum uppruna, án vitundar ísraelskra dómstóla, Rauða Krossins og mannréttindasamtaka. Margir voru líbanskir ríkisborgarar sem Ísrael hafði rænt, meðan Ísrael hertók suður Líbanon í 18 ár. Einnig voru það jórdanir, sýrlendingar, egyptar og íranir.

Þessi staður varð brátt þekktur sem „Black Site“, eða svarthol, nafnorð sem varð frægt að endemum með innrás Washingtons í Írak um árið.  Í mannvirki 1391 þróaði Ísrael pyntingatækni, sem Bandaríkin nýttu sér komandi mánuði og ár til að pynta Íraka og aðra í Abu Ghraib og Gegnumlýsingarbúðunum í Gvantanamó.

Enginn vissi hve margir voru í haldi í Mannvirki 1391, hversu lengi þeir höfðu verið þar eða hvort það væru fleiri slíkar dýflissur.

Fyrstu vitnisburðir vistmanns, afhjúpuðu hryllilegar aðstæður. Mest allan tímann sem þeir voru í haldi, var sett lok fyrir augu þeirra og eyru í þeim tilgangi að loka fyrir skynjun þeirra, þeir voru látnir bera svert hlífðargleraugu, nema þegar þeir voru pyntaðir. Í einu máli sem síðar fór fyrir dóm hafði „Major George“, yfirmaður pyntinga búðanna, nauðgað líbönskum manni með kylfu í endaþarminn.

Major George varð síðar yfirmaður Ísraelsku lögreglunnar í samskiptum við palestínska íbúa í Jerúsalem.

Aðrar leynilegar fangabúðir

Ekki var komist hjá því að minnast Mannvirkis 1391 í þessum mánuði, þegar CNN birti rannsókn á nýjum Ísraelsku leynilegum fangabúðum, Sde Teiman.

Þessar fangabúðir voru settar upp mörgum mánuðum fyrr, ekki fyrir erlenda ríkisborgara, heldur þúsundir karla og drengja sem voru fórnarlömb ísraelskrar hersetu, sem rænt var af götum Gaza og Vesturbakkanum eftir að Hamas framdi eins dags árás þann 7 október. Um 1,150 Ísraelar voru drepnir og 250 voru tekin höndum og færð til Gaza sem gíslar.

Eins og með Mannvirki 1391, höfðu afhjúpanir hryllingsins sem á sér stað í hinu nýja svartholi Ísraels, varla vakið neina athygli hjá fjölmiðlum vestanhafs.

CNN, sem er þekkt fyrir að fjarlægja grimmdarverk Ísraela úr umfjöllun samkvæmt fyrirmælum stjórnenda, ætti að fá lófaklapp fyrir að sinna loks því hlutverki sem fjölmiðlar vestanhafs standa sjaldnast undir: draga valdhafa til ábyrgðar.

Undir fyrirsögninni „Niðurnjörvaðir, með bundið fyrir augun, í bleyjum“, afhjúpar löng grein  niðurlægjandi, hrottalegar aðstæður sem þeir palestínumenn eru látnir sæta, sem Ísraelar rændu frá Gasa og Vesturbakkanum.

Fjöldi þeirra Palestínumanna sem sendir eru í leynilegu fangabúðirnar, staðsettar í Negev-eyðimörkinni, er óþekktur. Gervihnattamyndir sýna þó að staðurinn er ört vaxandi, væntanlega til að taka móti stöðugt fleiri „föngum“.

Nokkrir Palestínumenn sem hafa birst, algerlega niðurbrotnir eftir veruna í þessum fangabúðum – þar sem heimurinn sá karlmenn og drengi dregna í hlekkjum næstum nakta um götur Gaza og á leikvöngum í nóvember og desember  – byrjuðu að segja frá reynslu sinni fyrir mörgum mánuðum.

Fyrirsjánanlega, hunsuðu vestrænir fjölmiðlar að mestu þessa vitnisburði.

Jafnvel þegar starfsfólk frá Sde Teiman fangabúðunum hóf að uppljóstra hryllingssögum, geispuðu fjölmiðlar vestanhafs – burtséð frá CNN.

Hnignunarmynstur fjölmiðla

Þetta mynstur hnignunar hefur verið annálað á síðum Middle East Eye í marga mánuði.

Sem dæmi má nefna að ríkjandi vestrænir fjölmiðlar hafa viljandi lokað augum sínum fyrir ísraelskum skýrslum um að hluti þeirra sem drepnir voru 7. október voru ekki fórnarlömb Hamas, heldur hinnar alræmdu „Hannibal aðferðar“, hers Ísraelsmanna, siðareglu þeirra um að drepa aðra Ísraela frekar en að láta þá vera tekna til fanga.

Vestrænir blaðamenn forðast að mestu að varpa ljósi á þá staðreynd að Ísrael er viljandi að neita öllum íbúum Gaza um mat og vatn, sem er óumdeilanlegur glæpur gegn mannkyni.

Þess í stað herma blaðamenn eftir eigin ríkisstjórnum með því að kalla þessa manngerðu hungursneyð af völdum Ísraels, mannúðarkrísu, eins og um væri að ræða náttúruhamfarir.

Fjölmiðlar hylja einnig þá staðreynd, að Vesturveldin, sérstaklega Bandaríkin og Bretland, beinlínis aðstoða Ísrael við að svelta íbúa Gaza – bæði með því að stöðva fjármögnun helstu flóttamannahjálpar S.Þ., Unrwa, og með því að neita að setja nokkurn verulegan þrýsting á Ísrael til að leyfa aðstoð.

Fjölmiðlar hika enn við að kalla voðaverk Ísraels réttu nafni, en bergmála afstöðu bandarísku ríkisstjórnarinnar, en taka öðru hvoru undir hálfvolgt álit um að hætta sé á að Ísrael sé að fremja stríðsglæpi. Engir þeirra benda á samhengið, að allir þessir „hugsanlegu stríðsglæpir“ séu óyggjandi sönnun um þjóðarmorð.

Því rugli hefur orðið jafnvel erfiðara að halda á lofti þegar saksóknari Alþjóða Sakamáladómstólsins (ICC) gaf út handtökuskipun í þessari viku fyrir grun um stríð glæpi og glæpi gegn mannkyninu, framið af forsætisráðherra Ísraels Benjamin Netanyahu og varnarmálaráðherra Yoav Gallant, ásamt þremur Hamas leiðtogum.

Engu að síður hafa fjölmiðlar lagt áherslu á gremju Ísraela og Bidens i garð ICC, frekar en innihald ákæranna, þar á meðal þeirri ásökun að Ísrael sé að útrýma Palestínumönnum í Gasa með skipulögðum hungurdauða.

Fjölmiðlar forðast skýra og auðskilda umfjöllun um þessi mál vegna þess að auðskilið væri óhentugt. Hvers vegna? Vegna þess, eins og við munum sjá, er hlutverk vestrænna fjölmiðla að búa til frásögn sem þjónar vestrænum ríkisstjórnum við að ná markmiðum sínum í utanríkismálum gagnvart hinum  olíuríku Mið-Austurlöndum, með því að stöðva ekki takmarkalausar þjáningar í Gaza eða láta Ísraela standa fyrir máli sínu fyrir Alþjóða Glæpadómstólnum.

Notaðir sem tilraunadýr

Nokkrir uppljóstrarar opinberuðu fyrir CNN, að Palestínumenn eru fangelsaðir í margar vikur í Sde Teiman þar sem þeir eru pyntaðir – bæði við formlegar yfirheyrslur og við þau skilyrði þeim er haldið í.

Þeir eru neyddir til að sitja með bundið fyrir augun úti á þunnri dýnu í eyðimerkurhitanum á daginn og sofa í kaldri eyðimörkinni á næturnar. Stöðugt hlekkjaðir eru þeir neyddir til að vera kyrrir og hljóðir. Á kvöldin er hundum sigað á þá. Hver sá sem bærir á sér eða talar, er í hættu á að verða barinn svo grimmilega að bein hans brotna.

Hendur og fætur þeirra eru svo fast bundin með plastböndum, að samkvæmt skýrslu hefur stundum þurft að fjarlægja útlimi vegna þessarar meðferðar.

Eins og einn Ísraelskur uppljóstrari sagði við CNN, ekkert af þessu ofbeldi snýst um upplýsingaöflun. „Þeir voru bara að hefna sín,“ viðurkenndi hann. Vistmenn eru boxpúðar fyrir Ísraelska hermenn og lífverði.

Þetta snýst þó um meira en einfalda hefnd. Með skilningi á hvað er að gerast í Sde Teiman birtist skýrari mynd af því sem er að gerast á miklu stærri mælikvarða, jafnvel iðnaðar mælikvarða á Gaza.

Sérstaklega afhjúpandi eru aðstæður á bráðabirgðasjúkrahúsi í fangabúðunum, sem hýsir Palestínumenn sem eru annaðhvort limlestir í villimannslegri eyðileggingu Ísraels á Gasa eða eru slasaðir eftir barsmíðar Ísraelskra hermanna.

Þeir eru hlekkjaðir við sjúkravagna, naktir í fullorðinsbleyju, í röð eftir röð, með bundið fyrir augun. Þeim er bannað að tala.

Þar liggja þeir dag eftir dag og kvöld eftir kvöld, með skerta skynjun, með enga leið til að leiða hugann frá sárum sínum og sársauka. Mitt í þessu geta Ísraelskir læknanemar notað berskjaldað hold þeirra sem striga fyrir tilraunir.

Samkvæmt einum uppljóstrara, fengu fangabúðirnar fljótlega orðspor fyrir að vera „paradís læknanema“. Þar er þeim leyft að nota Palestínumenn sem tilraunadýr, líkt og rottur og þeir hvattir til að framkvæma meðferðir sem þeir eru ekki hæfir til að framkvæma.

Uppljóstrari CNN sagði: „ég var beðinn um að læra hvernig á að gera hluti á sjúklingunum, framkvæma minniháttar læknismeðferðir sem eru algerlega utan míns sérsviðs.“

Slíkar aðgerðir voru iðulega gerðar án deyfingar. Ólíkt læknum á Gaza hafa ísraelskir læknar greiðan aðgang að verkjalyfjum. Það er val að nota þau ekki.

Ísraelskir hermenn smöluðu saman palestínskum körlum og sviptu þá klæðum áður en þeir voru fluttir til óbirtar staðsetningar, sem líklegast eru Sde Teiman fangabúðirnar.

Starfsfólk sjúkrahúsa hverfur

Þar sem fjölmiðlar vestanhafs eiga svo auðvelt með að taka þátt í að afmennska Palestínumenn er mikilvægt að muna hverjir þessir „fangar“ eru.

Ísraelar vilja að við trúum því að þeir séu að beina spjótum sínum að Hamas-samtökunum og þeir sem þeir „handtaka“ – sem er viðurkennt mildandi orð sem CNN notar í þessari grein, fyrir þá sem Ísraelar taka í gíslingu – eru Palestínumenn sem grunaðir eru um tengsl við samtökin.

Einn af mikilvægustu vitnisburðum um misnotkun Sde Teiman, sem CNN greinir frá, er hins vegar frá Mohammed al-Ran, gráhærðum yfirlækni skurðlækninga á indónesíska sjúkrahúsinu á Gaza sem nú er í rúst.

Honum var rænt eða „handtekinn“ eins og Ísrael kallar það, í desember og fluttur til Sde Teiman. Ekkert bendir til þess að al-Ran hafi tekið þátt í vopnaðri baráttu gegn innrás ísraelskra hermanna eða tengst Hamas á neinn annan hátt. Hann var tekinn höndum ásamt öðru heilbrigðisstarfsfólki þegar hann vann þriggja daga vaktavinnu á annarri sjúkramiðstöð, al-Ahli al-Arabi Baptist Hospital.

Hann hafði neyðst til að flýja indónesíska sjúkrahúsið eftir að Ísraelar sprengdu það og starfsfólk þar var barið harkalega.

Ótal margir heilbrigðisstarfsmenn hafa verið myrtir eða horfið í kerfisbundnum Ísraelskum árásum á sjúkrahús á Gaza. Eyðilegging heilbrigðisgeirans á svæðinu er enn einn bersýnilegur glæpur gegn mannkyninu sem fjölmiðlar vestanhafs hafa forðast að viðurkenna.

Mótsetningin við ósveigjanlega vissu fjölmiðla um stríðsglæpi Rússa í Úkraínu fyrir skömmu er sannarlega helber.

Mannréttindasamtök reyna í örvæntingu að hafa uppi á þessum palestínsku gíslum með habeas corpus skrifum, eftirlýsingum, rétt eins og þau reyndu að finna erlendu ríkisborgarana sem haldið var föngnum í Mannvirki 1391. Ísraelskir dómstólar hafa tafið það vísvitandi.

Í einu tilviki hafa ísraelsku mannréttindasamtökin HaMoked, sem voru í lykilhlutverki við að bera kennsl á Mannvirki 1391, farið þess á leit við hæstarétt Ísraels – hvers dómarar eru nokkrir búsettir í ólöglegum gyðingabyggðum á Vesturbakkanum – að leita að palestínskum röntgenlækni sem hefur verið týndur síðan í febrúar.

Ísraelskir hermenn tóku hann höndum á Nasser-sjúkrahúsinu á suðurhluta Gaza. Grunur leikur á að hann sé í haldi í Sde Teiman.

Samkvæmt HaMoked er yfir 1.300 Palestínumanna frá Gaza saknað, þar af 29 kvenna, sem talið er að séu gíslar í haldi Ísraelsmanna.

Annar skurðlæknir, Adnan al-Bursh, er vitað að er á meðal rúmlega tuttugu Palestínumanna sem hafa látist við dularfullar aðstæður í haldi Ísraela. Hann hefur líklegast verið pyntaður til dauða eða hugsanlega drepinn í misheppnaðri læknisaðgerð.

‚Fordæmalausar’ misþyrmingar

Til að sýna enn frekar fram á að þessi ofbeldisalda gegn föngum sé algerlega ótengd grunsemdum um að þeir tilheyri Hamas-samtökunum eða hafi tekið þátt í árásinni 7. október, birtust um helgina upplýsingar um vægðarlausar og grimmilegar misþyrmingar á þekktasta palestínska gíslinum í haldi Ísraela.

Marwan Barghouti, úr þjóðfrelsishreyfingu Palestínumanna undir forystu Mahmoud Abbas, forseta Palestínumanna, er erkiandstæðingur Hamas-samtakanna, hefur verið lokaður inni undanfarin 22 ár. Barghouti er stundum kallaður „Palestínski Mandela“ og er talinn vera framtíðarleiðtogi palestínsku þjóðarinnar.

Barghouti er varla þekkjanlegur eftir fjölda barsmíða, að sögn samfanga hans og mannréttindasamtaka, en hann hefur átt í erfiðleikum með að sjá út úr hægra auganu.

Hann er sagður vera með stöðuga verki í öxl sem fór úr lið, sem rekja má til einnar líkamsárásar, áverka sem ekki hefur verið meðhöndlaður.

Ísraelskur lögmaður hans segir að hann hafi verið dreginn handjárnaður og nakinn yfir gólfið fyrir framan aðra fanga í Ayalon fangelsinu.

Barghouti hefur horast verulega vegna strangra matvælatakmarkana sem settar hafa verið á alla palestínska fanga frá því í október og hefur verið meinaður aðgangur að bókum, dagblöðum og sjónvarpi.

Tal Steiner, ísraelsku mannréttindasamtökunum ”Public Committee Against Torture in Israel”, sagði í viðtali við Guardian að Barghouti væri beittur „fordæmalausum“ misþyrmingum og að slíkar pyntingar væru orðnar „staðlaðar“ fyrir þá 8.750 Palestínumenn sem vitað er að hafa verið fangelsaðir frá því í október.

Ráðherra fangelsismála í Ísrael, Itamar Ben Gvir, tilheyrir flokki fasista sem nefnist Jewish Power, en hugmyndafræði hans með rót í söguhyggju er sú að Palestínumenn séu lítið annað en meindýr.

Skiptimynt í samningaviðræðum

Fjölmiðlar vestanhafs hafa endalaust beint sjónum sínum að þjáningum þeirra 100 eða fleiri ísraelskra gísla sem enn eru í haldi á Gaza, þótt ekki sé minnst á að stór hluti þeirra þjáninga megi rekja til aðgerða Ísraels.

Gíslarnir eru, líkt og Palestínumenn á Gaza, undir sprengjuregni Ísraela. Og líkt og Palestínumenn standa þeir frammi fyrir viðvarandi matarskorti vegna aðgerða Ísraela gegn matvælaaðstoðinni. Allsherjar ofbeldi gegn Gaza hefur áhrif á bæði Ísraelska gísla og Palestínumenn.

En miðað við fréttir CNN og ísraelskra fjölmiðla virðist líklegt að margir þeirra þúsunda Palestínumanna sem Ísraelar hafa rænt síðan í október eigi að hljóta mun grimmilegri örlög en ísraelsku gíslarnir á Gaza.

Hamas-samtökin leggja áherslu á að halda ísraelsku gíslunum eins öruggum og mögulegt er vegna þess að þeir eru verðmæt skiptimynt í samningum um að koma Ísraelsher frá Gaza og frelsa Palestínumenn frá pyntingarstöðum eins og Sde Teiman.

Ísrael finnur ekki fyrir neinum slíkum þrýstingi. Sem hernámsveldi og eftirlætis viðskiptaríki Bandaríkjanna, getur það beitt Palestínumenn hvaða refsingum sem það kýs, án þess að það hafi mikil áhrif.

Það er enn ein hliðin á síðustu sjö mánuðum sem fjölmiðlar vilja ekki viðurkenna.

Eyðilegging matvælaaðstoðar

Á sama tíma er almenningur á Vesturlöndum smeykur ef hann reynir að nefna glæpi Ísraels sem þjóðarmorð eða segja hvernig þjóðarmorðin eru framin. Þetta rímar við grunsemdir yfirgnæfandi meirihluta dómara við Alþjóðadómstólinn í janúar og var gefið í skyn þegar aðalsaksóknari Alþjóðlega sakadómstólsins í Haag fór fram á handtökuskipun í vikunni.

Nýleg, siðlaus og sjálfmiðuð endurskilgreining Vesturlanda á rasisma – sigur fyrir þrýstihópa sem hlynntir eru Ísrael – leggja gyðingahatur að jöfnu við gagnrýni á Ísrael frekar en við raunverulegt hatur á gyðingum.

Samkvæmt nýrri skilgreiningu Alþjóðasamtaka um endurminningar um helförina er það gyðingahatur að draga upp hliðstæðu milli aðgerða Ísraels annarsvegar og hinsvegar þjóðarmorðsins sem Vesturlandabúar þekkja best: Helförin.

Það virðist henta Ísrael vel, að leyfa vestrænum stofnunum að þvo hendur sínar af þessari allt of augljósu lexíu úr sögunni og sálfræði mannsins: Þolendur ofbeldisverka eru sjálfir fullfærir um að fremja slík ofbeldisverk.

Í endurgerð CNN á bráðabirgðasjúkrahúsinu, á Sde Teiman má sjá afmennskaða Palestínumenn – bundna, blindaða og nakta – í röðum á sjúkravögnum sem eru tilbúnir til tilrauna. Af hverju ætti það ekki að vekja upp minningar fyrir áhorfendur vestanhafs um Josef Mengele, hinn alræmda nasistalækni sem leit á fanga í fangabúðum sem undirmennska og einungis sem efnivið fyrir tilraunir sínar?

Hvaða bergmál ættu Vesturlandabúar að finna fyrir þegar þeir horfa á öfgamenn gyðinga frá ólöglegum landtökubyggðum Ísraels sitja fyrir flutningabílum með hjálpargögn á leið til Gaza eyðileggja þær vistir sem sveltandi almenningur þarf nauðsynlega á að halda, brenna bílana og berja bílstjórana – allt á meðan ísraelskir hermenn og lögregla standa hjá og leyfa eyðileggingunni að eiga sér stað?

Hvernig getur verið rangt – hvað þá gyðingahatur – að velta fyrir sér hvort álíka hrottalegur rasismi hafi knúið öfgamenn í Þýskalandi til hópmorðs árið 1938 þegar þeir réðust gegn gyðingum á Kristalsnóttinni?

Og hvað með þá sem hafa líkt Gaza við útrýmingarbúðir í 17 ára umsátri Ísraelsmanna á landi, í lofti og á legi, þar sem Palestínumenn voru sviptir grundvallarfrelsi og lífsnauðsynjum? Eða þá sem kalla Gaza nú dauðabúðir þegar Ísraelar svelta íbúana?

Er slíkt álit í raun sönnun fyrir hatri á gyðingum? Eða eru þær sönnun þess að þessir áhorfendur hafi í raun og veru skilið lærdóma sögunnar og helfararinnar? Kerfisbundin niðurlæging og ofbeldi gegn þjóð ætti alltaf að teljast glæpur gegn  mennsku okkar.

Sú siðferðilega skylda sem við berum öll er að stöðva slík voðaverk, að nota dómgreind í stað þess að vera áhorfandi að endalokunum.

Pyndingarklefar

Hryllingurinn sem Ísraelar beita fangana í Sde Teiman og í enn stærra samhengi Palestínumenn í dauðabúðunum á Gaza snýst um miklu meira en einfalda hefnd fyrir 7. október.

Sde Teiman er litli pyntingarklefinn sem endurspeglar mun stærri pyntingarklefa í sjálfu Gaza, þar sem sprengjur og hungur hafa nákvæmlega sama markmið.

Allt þar til fyrir sjö mánuðum var markmið Ísraels að halda Palestínumönnum sem hernumdu og frelsissviptu undirokuðu, þrælkuðu og vonlausu fólki, sem var lokað inni í fjölda fangabúða á Gaza, Vesturbakkanum og Austur-Jerúsalem. Ætlast var til að þeir yrðu þöglir í þjáningum sínum og ósýnilegir umheiminum.

Til lengri tíma litið var talið að Palestínumenn myndu frekar flýja eymd sína í þessum landtökulöndum sem voru varanlega hernumin.

Þrælauppreisnin 7. október – eins hrottaleg og ljót og slíkar uppreisnir hafa verið í gegnum tíðina – var hrikalegt áfall. Ekki aðeins fyrir það Ísrael sem er nátengt nýlenduverkefni sínu sem er að undiroka palestínsku þjóðina. Það var einnig áfall fyrir nýlenduverkefni Vesturlanda í víðara samhengi, sem Ísrael er svo fastlega innlimað í.

Þegar Washingtons talar um „reglubundið skipulag“ („rules-based order“) er eina raunverulega reglan sú að Bandaríkin og skjólstæðingsríki þeirra fá það sem þau vilja. Heimsveldið lítur á plánetuna, auðlindir hennar og þjóðir sem lítið annað en leikmuni.

Uppreisnir gegn þessari skipan – hvort sem Hamas-samtökin á Gaza, Hezbollah í Líbanon, Hútar í Jemen eða Íslamska byltingarvarðliðið í Íran standa fyrir þeim – mega ekki verða öðrum fyrirmynd. Endurheimta þarf regluna um „reglubundið skipulag“ með þeirri grimmd sem nauðsynleg er til að sýna hinum hernumdu og frelsissviptu hver þeirra staður sé.

Það voru skilaboðin frá svartholum Washingtons sem þurfti fyrir hið gagnslausa „stríð gegn hryðjuverkum“ frá Abu Ghraib til Guantanamo – staðir sem byggðu á reynslu Ísraela af því að „brjóta niður“ fanga í Mannvirki 1391.

Samsekt vestrænna stofnana í þjóðarmorðinu í Ísrael er ekki frávik. Hún stafar ekki af misskilningi eða ruglingi. Stjórnmála- og fjölmiðlastétt vestrænna ríkja sér þjóðarmorðin á Gaza jafn skýrt og við hin. En fyrir þeim er það réttlætanlegt, jafnvel nauðsynlegt. Það verður að kenna hinum hernumdu og frelsissviptu að andspyrna er fánýt.

Sde Teiman þjónar tilgangi sínum, líkt og dauðabúðirnar á Gaza. Þar á að brjóta niður mannlegan anda. Þar á að breyta Palestínumönnum í fúsa þátttakendur í eigin eyðileggingu sem þjóð, í eigin þjóðernishreinsun.

Og á sama tíma er verið að senda hinum vestræna almenningi óskiljanleg skilaboð: Þetta gætu líka verið örlög þín ef þú tekur ekki þátt í að fagna grimmdarverkum Ísraels á Gaza.

Athugasemdir þýðanda (AJÁ):

1. orðfæri réttarríkis, á ekki við um mannlegar verur sem hafa verið frelsissviptar án dóms og laga. Þetta á við um orðin fangi, fangelsi, varðhald, refsingu og svo framvegis.

2. ekki má gera greinarmun á gíslum eftir því hvort um er að ræða gísla Hamas eða gísla Ísraels, fólk sem er rænt og haft í haldi án dóms og laga eru gíslar og aðgerðin er gíslataka.

3. fyrirvari er um rétt orðfæri varðandi ICC og ICJ.