Sigur baráttuafla innan Starfgreinasambandsins

29. mars, 2022 Björgvin Leifsson

Hinn 25. mars sl. var Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, kjörinn formaður Starfsgreinasambandsins. Með sigrinum, þótt naumur sé, er enn höggvið skarð í vígi þeirra, sem vilja miðlæga kjarasamninga undir merkjum SALEK, þ.e. merkjum atvinnurekenda.

"Verkalýðshreyfingin hefur of lengi verið í klóm sérfræðingaveldis ASÍ, þar sem að áherslur og raddir þeirra sem vilja raunverulegar breytingar fyrir vinnandi fólk í samfélagi okkar eiga ekki upp á pallborðið. Það er kominn tími á að kjósa til formennsku í Starfsgreinasambandinu leiðtoga sem lokar sig ekki inn í skrifstofuvirkinu heldur berst af sjálfstæði, hugrekki og styrk fyrir hagsmunamálum vinnandi fólks. Sá leiðtogi er Villi Birgis. Ég lýsi yfir fullum og einlægum stuðningi við framboð hans hans til formanns SGS […]"

Ofanskráð er sótt í stuðningsyfirlýsingu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, nýkjörins formanns Eflingar, á Fésbók við framboð Vilhjálms Birgissonar, formanns Verkalýðsfélags Akraness, til formanns Starfsgreinasambandsins.

Vilhjálmur Birgisson sigraði í formannskjörinu með 70 atkvæðum af 130 eða 53,85% atkvæða en mótframbjóðandinn fékk 60 atkvæði eða 46,15%. Þetta er ekki mikill munur en þó gríðarlega mikilvægur því að þetta þýðir að stéttasamvinnuöflin urðu undir í þessu formannskjöri til lang stærsta landssambandsins innan ASÍ.

Vitnum aftur í Sólveigu Önnu á Fésbók:

"Ég hef fylgst með málflutningi Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness á opinberum vettvangi í mörg ár. Þar hefur hann ávallt talað hátt og skýrt um þau réttlætismál sem hann brennur fyrir og verið þar eilíflega trúr og samkvæmur sjálfum sér. Þau eru til dæmis: Leiðrétting kjara verka- og láglaunafólks í gegnum krónutöluhækkanir. Aðgerðir gegn skuldpíningu alþýðufólks vegna hins grimmilega okurs vaxta og verðtryggingar innan bankakerfisins. Uppbygging í húsnæðismálum til að almenningur geti haft þak yfir höfuðið fremur en að lifa á eilífum hrakhólum í ótryggu leiguhúsnæði. Höfnun á gerspilltri stéttasamvinnu við atvinnurekendur og undirgefni við ríkisvaldið í gegnum SALEK eða Grænbók. Öflugur vörður um sjálfstæðan samnings- og verkfallsrétt stéttarfélaga. Sú sjálfsagða krafa að vinnandi fólk hafi raunveruleg áhrif á stjórnun lífeyrissjóðanna sem þau eru skikkuð til að greiða í. Opin og lýðræðisleg vinnubrögð innan verkalýðshreyfingarinnar í stað pukurs og baktjaldamakks. Ég er sammála Villa í öllum þessu stóru málum og er þakklát fyrir að hafa haft hann sem bandamann í þeim, og þakklát fyrir hans baráttu fyrir hönd verka og láglaunafólks á Íslandi."

Hinn 5. nóvember 2018 birtu Neistar frétt um sigur yfir stéttasamvinnuöflunum á ASÍ þingi (https://neistar.is/greinar/sigur-yfir-stettasamvinnuoflunum-a-asi-thingi/) og 28. maí 2020 birtist grein eftir undirritaðan um stéttabaráttuna á tímum Covid-19 (https://neistar.is/greinar/stettabarattan-a-timum-covid-19/). Eins og allir vita hafa verið blikur á lofti innan ASÍ undanfarið og hafa nokkrir SALEK sinnar hreiðrað þar rækilega um sig. Það hefur verið ágreiningur milli nokkurra verkalýðsfélaga, sem hafa ekki orðið SALEKinu að bráð og forystu ASÍ eins og hún er núna skipuð. Vilhjálmur Birgisson lét hafa eftir sér að ákveðið uppgjör eigi sér nú stað innan verkalýðshreyfingarinnar. Vonandi verður kjör Vilhjálms til formanns Starfsgreinasambandsins til þess að þjappa saman þeim, sem hafna kratískri leið stéttasamvinnunnar og tryggja þeim sæti í miðstjórn ASÍ á komandi þingi, sem vilja fara leið stéttabaráttunnar – því að það er eina leiðin sem bítur.