Siðrof Evrópu – samstarf NATO og ESB við Ísrael
—

Það þarf ekki að hafa mörg orð um ástandið á Gasa nú eða þá skelfilegu glæpi sem Ísraelsríki er að fremja þar. Um það vita allir. Það ættu líka allir að vera sammála um að í siðmenntuðum heimi myndu öll önnur ríki taka höndum saman um að reyna að stöðva þetta þjóðarmorð. Ef slíkt er ekki í boði er eðlilegt að spyrja um þau lönd sem einhvers mega sín gagnvart Ísrael.
Þjóðarleiðtogar rifja upp glæpaverk fortíðar, þ.e.a.s. sum glæpaverk fortíðar, og tala um hversu hörmulegt það sé að ekki hafi tekist að stöðva þau. Þrungnir alvöru koma þeir saman við hlið Auschwitz og segja: Aldrei aftur! Bill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna hefur sagt að eitt af því sem hann sjái mest eftir sé að hafa ekki beitt sér meir til að stöðva fjöldamorðin í Rúanda árið 1994.
Raunin er sú að það var ekki hægt að stöðva helförina fyrr en eftir fimm ára heimsstyrjöld og Bandaríkjastjórn gat sáralítið gert til að stöðva fjöldamorðin í Rúanda, hefði í mesta lagi getað dregið eitthvað úr þeim.
Hér er hins vegar um allt annað að ræða. Bandaríkin eru helsta stuðningsríki Ísraels og styðja aðgerðir þess á Gasa í verki og fullum fetum þrátt fyrir einstaka meiningarlaus umvöndunarorð. Bandaríkin taka í raun þátt í þessu þjóðarmorði.
Glæpaverk Ísraels mæta andstöðu margra ríkja víða um heim – utan Norður-Ameríku og Evrópu. Flest þessi ríki hafa haft lítil samskipti við Ísrael og raddir þeirra mega sín lítils. Þau lönd sem helst mega sín einhvers gagnvart Ísrael og Bandaríkjunum eru þau sem eiga aðild að Evrópusambandinu og NATO.
NATO og Ísrael
NATO er að vísu undir forystu Bandaríkjanna, en það er þó bara af eitt af 32 aðildarríkjum, öll hin eru í Evrópu að undanskildum Kanada og Tyrklandi. NATO hefur lengi haft mikið samstarf á ýmsum sviðum við Ísrael, sem hefur farið vaxandi á undanförnum árum. Og það eru nær eingöngu NATO-ríki sem sjá Ísrael fyrir vopnum en tvö skera sig reyndar úr, Bandaríkin og Þýskaland. Samkvæmt grein eftir tvo sérfræðinga hjá sænsku friðarrannsóknarstofnuninni SIPRI 10. apríl 2025 var 99% af hergagnainnflutningi Ísraels á árunum 2020 til 2024 frá þessum tveimur löndum, 66% frá Bandaríkjunum og 33% frá Þýskalandi. Ísrael flytur reyndar líka út mikið af vopnum til allmargra landa víða um heim, samkvæmt sömu grein var Ísrael á þessu árabili í áttunda sæti yfir þau ríki sem flytja út hergögn og fór 27% af þeim útflutningi til Evrópu.
Ísrael hefur frá árinu 2016 haft skrifstofu og þar með sendifulltrúa í höfuðstöðvum NATO í Brussel, reyndar ásamt fleiri ríkjum utan NATO. 11.-12 október 2023 var haldinn fundur varnarmálaráðherra NATO-ríkja og ávarpaði varnarmálaráðherra Ísraels, Yoav Gallant, fundinn. Á fundinum fordæmdi Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO hryðjuverkaárás Hamas harðlega og bætti við: „Ísrael stendur ekki eitt.“ Aðrir fundarmenn tóku undir með honum og viðurkenndu rétt Ísraels til sjálfsvarnar og lofuðu stuðningi. Ekki er að sjá að neitt hafi breyst í þeim efnum. Í yfirlýsingu leiðtogafundar NATO í Washington í júlí 2024 var ekki minnst einu orði á Ísrael, Palestínu eða Gasa. Í september næstkomandi eru fyrirhugaðar heræfingar á vegum NATO í Búlgaríu og stóð til að Ísrael tæki þátt í þeim. Það er þó óvíst hvort af því verði þar sem Tyrkland hefur sett sig upp á móti því. Tyrkland og Ísrael hafa um alllangt skeið eldað grátt silfur, en það hefur þó lítið að gera í raun með Palestínumenn eða íbúa á Gasa.
Viðskipti og samstarf ESB og Ísraels
Evrópusambandið fordæmdi harðlega „ofbeldisfullar og handahófskenndar árásir Hamas á Ísrael 7. október 2023“, lýsti yfir samstöðu sinni með Ísrael og lagði áherslu á rétt þess til að verja sig innan alþjóðalaga. Þessi afstaða hefur í raun ekkert breyst nema hvað orðin „innan alþjóðalaga“ hafa reynst orðin tóm. Vissulega má finna gagnrýnar yfirlýsingar frá leiðtogum Evrópusambandsins og Evrópuríkja varðandi einstaka atburði í árásum Ísraels á Gasa, en Evrópusambandið hefur í rauninni aldrei tekið afgerandi afstöðu gegn þjóðarmorðinu. 20. mars 2025, tveim dögum eftir að Ísrael gerði árásir á Gasa sem drápu 400 manns og bundu enda á vopnahléið, kom leiðtogaráð sambandsins (Europan Council) saman og sendi frá sér ályktanir um ýmis mál. Í kaflanum um Mið-Austurlönd er vikið að þessu. Ráðið harmar endalok vopnahlésins, „sem hefur valdið miklu mannfalli í nýlegum loftárásum“, og að Hamas neiti að skila þeim gíslum sem eftir eru. Það hvetur til að vopnahléi verði tafarlaust komið aftur á og minnir á mikilvægi óhindraðs aðgangs að mannúðaraðstoð. Lýsir svo yfir að það hafi áfram mikinn áhuga á að komið verði á varanlegum friði á grundvelli tveggja ríkja lausnarinnar. Kurteislegra gæti það varla verið.
Evrópusambandið hefur lengi haft mikið og náið samstarf við Ísrael. Evrópusambandið er stærsti viðskiptavinur Ísraels, með 28,8% vöruviðskipta Ísraels árið 2022. 31,9% af innflutningi Ísraels kom frá ESB og 25,6% af útflutningi fór til ESB. Þessu viðskipti hafi hins vegar miklu minna vægi á hinn veginn þar sem þau eru aðeins 0,8% af heildarviðskiptum ESB, sem þýðir að viðskiptabann hefði sáralítil áhrif á ESB miðað við það sem það hefði á Ísrael. Gegnum „nágrannasamstarf ESB“ (European Neighbourhood Policy) hefur Ísrael fengið bæði pólitíska og efnahagslega aðstoð frá ESB, að jafnaði um 1,8 milljón evrur á ári. Á þeirri vefsíðu ESB þar sem þessar upplýsingar eru fengnar kemur ekki fram að neinar breytingar hafi orðið á þessu. Nýjasta uppfærsla er maí 2024.

Kaja Kallas utanríkismálastjóri ESB meðal vina í Tel Aviv
Og ESB og Ísrael hafa alls konar önnur samskipti, meðal annars samstarf varðandi menningu og vísindi og fleira. Árið 2000 tók gildi samstarfssamningur ESB og Ísraels (EU-Israel Association Agreement). Í sambandi við hann eru haldnir reglulegir fundir annars vegar á ráðherraplani og hins vegar á plani háttsettra embættismanna. Í desember 2024 tók fyrrum forsætisráðherra Eistlands Kaja Kallas við embætti utanríkismálastjóra ESB af Spánverjanum Josep Borrell. Hann hafði verið gagnrýninn á ofbeldi Ísraels á Gasa við litla ánægju sumra leiðtoga Evrópuríkja. Þannig fékk hann ofanígjöf frá könslurum Þýskalands og Austurríkis, Olof Schultz og Karl Nehammer, á leiðtogafundi í mars 2024. Nýi utanríkismálastjórinn virðist ætla að taka annan pól í hæðina. 24. febrúar síðastliðinn var í Brussel 13. ráðherrafundur (Association Council) samstarfssamningsins, sá fyrsti síðan 2022, að viðstöddum Gideon Sa’ar utanríkisráðherra Ísraels, Kaja Kallas utanríkismálastjóra ESB og utanríkisráðherrum tuttugu aðildarríkja.
Kurteisleg gagnrýni og dásemd samstarfsins
Fyrir áðurnefndum leiðtogafundi ESB 24. febrúar lá greinargerð frá aðalskrifstofu ráðherraráðsins um tengslin við Ísrael. Þetta er allmikil greinargerð í 57 liðum og býsna athyglisverð.
Í upphafi er lögð áhersla á mikil og margvísleg og náin samskipti ESB og Ísraels og tækifærin til að þróa þá samvinnu enn frekar en um leið minnt á að samstarfssamningurinn byggist á mannréttindum og lýðræðislegum gildum. Þá er ítrekuð af hinum mesta þunga fordæming á hinni „ruddalegu og handahófskenndu“ hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október 2023, árásir Hezbollah á Ísrael 8. október 2023 og 27. nóvember 2024, árásir Írans á Ísrael 13. apríl og 1. október 2024 og nýlegar árásir Húta á Ísrael. Lýst er yfir fullri samstöðu og stuðningi við Ísrael og ísraelsku þjóðina og samúð með fjölskyldum gíslanna og fórnarlamba Hamas. Og svo minnt á að rétturinn til sjálfsvarnar gildi innan alþjóðalaga og rifjað upp að í janúar 2024 samþykkti ESB refsiaðgerðir gegn Hamas, en þær voru framlengdar í janúar 2025. Og vopnahlénu var fagnað.
Það hefur alltaf verið stefna Evrópusambandsins að viðurkenna ekki breytingar á þeim landamærum sem voru fyrir 1967. Það hefur líka stutt stjórnvöld í Palestínu, það er að segja önnur en Hamas, og gagnrýnt landránsbyggðirnar og framferði Ísraels á hernumdu svæðunum. Þetta hefur alltaf valdið vissum ágreiningi sem enn er óbreyttur. Aðildarríkin að undanskildum fyrrum austantjaldsríkjum hafa þó ekki viðurkennt ríki Palestínu fyrr en Svíþjóð gerði það 2015 og síðan Írland, Spánn og Slóvenía 2024. Kýpur hafði líka viðurkennt Palestínu áður en landið gekk í Evrópusambandið.
Í ljósi þessarar afstöðu er í greinargerðinni lýst yfir andstöðu og jafnvel fordæmingu á landráni landránsbyggða, sem er kallað landnám (settlement), og framferði Ísraels á Vesturbakkanum. Það er eina fordæmingin á pólitík Ísraelsríkis sem ég sé frá ESB.
Þá er nokkru máli eytt í gagnrýni á Íran og innrás Rússlands í Úkraínu og nýjustu vendingum í Sýrlandi fagnað. Og lýst er yfir stuðningi við Alþjóðaglæpadómstólinn. Mikilvægi baráttu gegn gyðingaandúð er tíunduð og hún fordæmd og síðan farið yfir mikilvægi þess að alþjóðalög séu virt og mannúðaraðstoð tryggð og lýst yfir áhyggjum af áhrifum átakanna (conflict) á Gasa á börn og innviði.
Annars er lítið fjallað um ástandið eða hernaðinn á Gasa og orðin „fordæma“ og „fordæming“ hvergi notuð í því sambandi nema þegar vikið er að framferði Hamas. Greinargerðinni lýkur með því að fara yfir mikilvægi og ágæti samstarfs Evrópusambandsins og Ísraels og ýmislegt sem gott þykir týnt þar til.
Og 24. mars fór Kaja Kallas utanríkismálastjóri í heimsókn til Ísraels, fáum dögum eftir að Ísrael gerði árás á Gasa sem rauf vopnahléð og drap 400 manns. Þar ávarpaði hún Gideon Sa’ar utanríkisráðherra. Hún fordæmi árás á rabbía nokkurn í Frakklandi daginn áður og sagði að í Evrópu væri ekkert rúm fyrir antisemítisma. Hún fordæmdi líka harðlega ofbeldi Hamas. Hún tók fram að hernaðaraðgerðir yrðu að vera hófstilltar (proportionate). Að öðru leyti sagði hún að Evrópusambandið stæði með Ísrael eftir hinar hræðilegu árásir 7. október 2023, að öryggi Ísraels væri ákaflega mikilvægt fyrir ESB, Ísraelar yrðu að finna sig örugga heima og Ísrael hefði rétt á að verja sig gegn hryðjuverkaárásum. Það væri ljóst að milli Ísraels og ESB væri gott samstarf og Ísrael skipti miklu máli fyrir ESB sem samstarfsaðili í viðskiptum og fjárfestingum.
Skiptar skoðanir innan ESB – en skipta þær einhverju máli?
Þótt Evrópusambandið hafi látið vera að fordæma þjóðarmorð Ísraels á Gasa og haldið áfram samstarfi og stuðningi við Ísrael hafa aðildarríkin þó ekki verið alveg samstíga. Þýskaland, Austurríki, Tékkland og Ungverjaland hafa verið áköfust í stuðningi við Ísrael en Spánn, Írland, Lúxemburg, Belgía og Slóvenía hafa haft gagnrýnni afstöðu. Í október 2024 lögðu Spánn og Írland til að samstarfssamningur ESB og Ísraels yrði endurskoðaður og Slóvenía og Belgía hafa líka ýjað að því og nú hefur Holland tekið undir það.
7. maí síðastliðinn kölluðu utanríkisráðherrar fjögurra aðildarríkja Evrópusambandsins, Írlands, Lúxemborgar, Slóveníu og Spánar og tveggja Evrópuríkja utan sambandsins, Íslands og Noregs, eftir því í sameiginlegri yfirlýsingu að ísraelsk stjórnvöld hverfi frá áformum um að víkka út hernaðaraðgerðir sínar á Gasa og hafa þar varanlega viðveru. Þessi yfirlýsing er góð svo langt sem hún nær en þó felst ekki í henni nein fordæming á aðgerðum Ísraels fram að þessu.
Það er líka ljóst að ráðamenn í Ísrael láta öll orð sem vind um eyru fjúka. Evrópuríkin og einkum Evrópusambandið eru í aðstöðu til aðgerða sem gætu látið Ísrael svíða. En meðan kurteisleg gagnrýni er látin duga samfara áframhaldandi samstarfi og vinsamlegum samskiptum verður ekki annað sagt en Evrópa styðji Ísrael og beri fulla ábyrgð á þjóðarmorðinu á Gasa.
Og „aldrei aftur“ eru innantóm orð. Hafi Evrópa einhvern tíma getað kallað sig siðmenntaða verður afstaða og aðgerðarleysi hennar gagnvart þjóðarmorðinu á Gasa ekki kallað annað en siðrof.
Forsíðumynd: Gaza 2023 og 2025