Scott Ritter: Búist við allsherjarstríði

15. júní, 2025

Aðfararnótt föstudags 13/6 gerðu Ísraelar mjög óvænt afar víðtækar flug- og loftskeytaárásir á Íran. Netanyahu segir þær hafa verið fyrirbyggjandi, til að stöðva kjarnorkuáætlun Írans – á meðan Bandaríkin voru í virkum samningaviðræðum við Írani um þessa sömu áætlun. Kringumstæðurnar minna mjög á árás Bandaríkjanna á Írak 2003 með mjög líku, fölsku, yfirvarpi.

Hafi Trump verið hikandi hefur Ísrael altént sannfært hann um að rétti tíminn væri nú kominn fyrir uppgjörið við Íran. Eftir að Marco Rubio utanríkisráðherra hafði sagt að Ísrael hefði verið alveg á eigin vegum í árásinni skrifaði Donald Trump á Truth Social snemma á föstudagsmorgun, nokkrum klukkustundum eftir að árásin hófst, og viðurkenndi að Ísrael hefði haft samráð við sig („we knew everything“), sagði að Íran hefnist nú fyrir að hlíta ekki úrslitakostum hans. Sjá hér.

Þetta verður ekki lesið neitt öðru vísi en sem fullur stuðningur við aðgerðir Ísraels, enda getur Ísrael ekki ráðist gegn Íran nema hafa þann stuðning. Skömmu seinna sagði Trump í viðtali að árásin hefði „gengið frábærlega“.

Times of Israel skrifaði á föstudag að Bandaríkin hefðu með samningaviðræðunum „hjálpað til við að sefa og róa Íran inn í falskt öryggi.”  

Þannig er um að ræða sviksamlegt herbragð af hálfu Bandaríkjanna, að beita diplómataleiðinni á þann hátt að Ísrael gæti komið Íran „í opna skjöldu“.

Á eftirfarandi myndbandi ræðir prófessor Glenn Diesen um upphaf stríðsátakanna við Scott Ritter sem er bandarískur fyrrum leyniþjónustu-yfirmaður og einnig vopnaeftirlitsmaður á vegum Sameinuðu þjóðanna. Ritter gerir grein fyrir umfangi leifturárásanna og líklegum afleiðingum þeirra.

Nokkur áhersluatriði úr frásögn Ritters má nefna:

  • Árásin var þrautskipulögð og lengi í undirbúningi og sýnist um margt hafa verið árangursrík fyrir Ísrael. Hún náði greinilega út yfir það að vera árás á kjarnorkuáætlun Írans. Hún ber merki þess að vera upphaf valdaskiptaaðgerðar og beinist að stjórnvöldum Írans, með afhöfðun leiðandi einstaklinga, að hætti Ísraels.
  • Hann telur að Ísrael hafi tekist að slá út mikið af loftvörnum Írans og veikt varnargetu landsins verulega.
  • „Það er alveg ljóst að Bandaríkin voru rækilega innblönduð í þetta, ekki bara í áformin, við skipulögðum þetta“ (we set this thing up). Við þóttumst vera að semja við þá en það var bara «til að kaupa tíma og sefa og róa Írani inn í falskt öryggi». Þetta er Pearl Harbour atburður.
  • Þetta eyðir trúverðugleika Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA), segir Ritter. Hann fullyrðir að tímasetning árásar og útmiðun margra skotmarkanna séu fengin út frá upplýsingum og í samráði við IAEA – líkt og margt af því sem Scott Ritter kynntist sjálfur í Írak 2003.
  • Íran er BRICS-ríki og t.d. mjög miðlægt í gróandi efnahagsmunstri og flutningsleiðum Kína, Rússlands og BRICS-ríkja. Og Íran er líka strategískur bandamaður Rússlands. Þetta, með öðru, veldur því að stríðið ber í sér gríðarmikinn eldsmat, í heimshlutanum og hnattrænt séð: Búist þess vegna við allsherjarstríði. Sjá viðtalið.

Birtist á Substack reikningi Glenn Diesen 13. júní.