Róttæk samvinnufélög

4. apríl, 2020 Jón Karl Stefánsson



Samfélagið sem við búum í og hagkerfið sem við notum til að deila gæðum þess er stéttskipt, bæði hvað varðar áhrifasvið ákvarðana og það hvernig afrakstri framleiðslunnar er skipt. Þetta er augljóst í öllum hefðbundnum fyrirtækjum, bæði þeim sem eru í einkaeign og þeim sem eru í eigu hins opinbera. Það stjórnarfyrirkomulag sem við erum alin upp við og þekkjum best er stigveldisstjórn þar sem skipanir fara einungis í eina átt; frá „yfirmönnum“ til „undirmanna“. Því neðar sem hver og einn er staðsettur í þessum pýramída, þeim minna vægi hafa hagsmunir, vilji og ákvarðanir hans eða hennar. Undirmönnum ber skylda að hlýða skipunum yfirmanna sinna, ekki öfugt.

Yfirmenn þurfa ekki að taka við skipunum og geta tekið stærri ákvarðanir og mótað stefnu og markmið. Í einkafyrirtækjum njóta þessir sömu einstaklingar efnahagslegra yfirburða með því að hafa einkarétt á ráðstöfun hagnaðar auk þess að hafa möguleika á því að ákveða laun sín eða þóknun sjálf eða sjálfir, að því marki sem landslög leyfa.

Fjármagnsvaldið og ríkisvaldið eru ekki andstæðingar. Ríkisvaldið, sem við fengum í arf frá Danmörku, varð til út frá tilraunum fjármagnseigenda, aðalsins og kirkjunnar til að koma sér saman um leikreglur um hvað ætti að gera ef hagsmunaárekstrar yrðu á milli einhverra úr þessum hópum. Konur og eignarlausir karlmenn fengu hvorki að taka þátt í að móta lagaumhverfi ríkisins né heldur að kjósa framan að. Skipulag ríkisins var því hannað af eignafólki, aðli og klerkum eftir hagsmunum þeirra sjálfra og þær stofnanir sem ríkisvaldið tók að sér voru þessu marki brenndar. Þetta á við um allar opinberar stofnanir, hvort sem það er almenna skólakerfið eða lögreglan. Þegar eignalaust fólk fékk loks atkvæðisrétt voru grunnstoðir ríkisins þegar komnar upp, í þágu auðvalds, kirkju og aðals.

Stjórnarskráin og þær alþjóðareglur sem hafa verið samþykktar síðustu áratugi eru sem klæðskerasaumaðar fyrir fjármagnseigendur. Einkarétturinn (sem er mjög misskilið fyrirbæri og ber ekki að skilja sem rétturinn til að eiga hluti, heldur snýst um eignarhald á landi og framleiðslutækjum) er friðhelgur samkvæmt stjórnarskrá og ríkið getur beitt löggæslu til að verja fjármagnseigendur ef svo stendur á. Þar sem þetta fyrirkomulag er á margan hátt grundvöllurinn fyrir stjórnun alls samfélagsins, ná umsvif fjármagnseigenda langt út fyrir fyrirtækið, eða fyrirtækin sem þeir eiga. Þeir geta, eins og undirmenn, bundist hagsmunasamtökum sem vinna að enn meiri mætti auðmagns og unnið með öðrum fjármagnseigendum til að ná fram sameiginlegum markmiðum og sigrast á sameiginlegum hindrunum.

Staða fólks í þessu þrepaskipta kerfi er ákveðin og lögbundin. Það er í mörgum tilfellum refsivert að óhlýðnast fyrirmælum yfirboðara og það eru ríkisstofnanir sem sjá um að handsama og dæma hina seku. En það eru ekki einungis fastmótuð lög sem tryggja að þetta kúgandi fyrirkomulag haldist í sessi. Það hefur verið meitlað í vitund okkar sem eðlilegt á svo árangursríkan máta að það þarf ekki að beita þvingunum til að viðhalda því nema í undantekningartilvikum. Við lærum frá barnæsku þau hegðunarmynstur sem þarf til að halda grunngerð stigveldisins. Börn eiga að hlýða kennurum sínum, breyta um hegðun þegar bjalla glymur og gera hluti gegn eigin vilja. Við eigum að hlýða einkennisklæddum, sætta okkur við heimskulegar ákvarðanir og fyrst og fremst að halda okkur frá því að taka þátt í mótun samfélagsins. Þetta lærum við á vinnustaðnum og í samskiptum við hið opinbera. Okkar hlutverk er að vinna og neyta; hlýðni kunnum við. Þetta höfum við lært svo rækilega að þegar í harðbakkann slær og kreppa skellur á dettur fæstum okkar annað í hug en að mótmæla og biðla til yfirvaldsins. Við kvörtum til alþingis og viljum önnur andlit í sömu stöður. Að breyta um strúktúr eða taka málin í grundvallaratriðum í eigin hendur er ekki það fyrsta sem lagt er í.

Við mótmælum kónginumog setjum nýjan í hans stað þó að við vitum það, innst inni, að grundvallarstrúktúrinn í þessu stéttskipta, stigveldisstýrða auðvaldssamfélagi, stendur eftir sem fyrr.

Áhrifin af því að skipta um flokka eða fólk á þingi getur í besta falli leitt til smávægilegra fegrunaraðgerða á sjúkri samfélagsgerð. Til að skapa mannúðlegt samfélag þarf meira til. Það krefst smíði nýrrar samfélagsgerðar og hugsunarmáta.

Enginn vill láta kúga sig, ræna sig lífsverki sínu og tilveru eða vinna til að þjóna hagsmunum annarra á meðan eigin hagsmunir sitja á hakanum. Líf undir slíkum kringumstæðum er líf þrælsins. En í réttlátu samfélagi getur hver og einn haft áhrif á sitt nánasta umhverfi að svo miklu leyti sem ákvörðunin hefur áhrif á viðkomandi og að hver og einn getur valið sjálf eða sjálfur hvað vinnuaflið er notað í. Réttlátt samfélag er samfélag frjálsra jafningja.


Hversvegna róttæk samvinnufélög?

Að mynda róttækt, byltingasinnað samvinnu- og sameignarfélag er en leið til þess að koma á fót réttlátara samfélagi. Kannski dettur einhverjum í hug kaupfélögin og Samband samvinnufélaga (Sambandið) í hug þegar minnst er á slík félög. En þó margt ágætt megi segja um þau, var Sambandið hvorki byltingarafl né róttækt. Kaupfélögin héldu eftir sama kúgunarstrúktúr og ríkir annarsstaðar í samfélaginu. Þau voru með stigveldisformgerð, launa- og valdamisræmi og þeim var stórkostlega miðstýrt í bákninu SÍS. Slík stofnun er ekki það sem við þurfum. Við þurfum félög sem er stýrt á sama máta og það samfélag sem við óskum okkur að verði til. Þessi félög þurfa að verða grunnstoð samfélagsins svo að hugtakið „samfélag“ beri nafn með rentu.

Verkefni samvinnufélags geta verið af hvaða tagi sem er. Hvað félagið starfar við er ekki það sem greinir það frá einkareknum gróðafyrirtækum eða opinberum stofnunum. Hér verður hugtakið róttækt samvinnufélag skilgreint á eftirfarandi hátt: Í þeim eru allir meðlimir bæði eigendur og hafa jafnan atkvæðisrétt innan félagsins. Félagið notast við einhverja tegund af einróma ákvörðunarferli; þ.e. þess er bæði gætt að minnihlutinn geti ekki kúgað meirihlutann, en einnig að meirihlutinn geti ekki kúgað minnihlutann. Oft er það þannig að þó að einungis fáir séu andsnúnir einhverri hugmynd eru það einmitt þessir fáu sem verða fyrir mestum áhrifum af ákvörðuninni. Í róttækum samvinnufélögum er þess einnig gætt að ábyrgðarsviðum sé dreift jafnt á meðlimi; sum málefni eru þess eðlis að ekki þarf að funda um ákvarðanir sem gilda um þær. Þess þarf einnig að gæta að klíkur myndist ekki sem geta tekið að sér raunveruleg völd í félaginu og gert það að stigveldi í raun. Róttæk samvinnufélög þurfa svo að stunda samskipti við önnur félög á sama jafningjagrunni og stunduð eru innan félagsins.


Eitt dæmi um útfærslu

Ýmsar útfærslur eru til á vinnustað sem rekinn er eftir grundvallarreglum róttækra samvinnufélaga. Til að útskýra betur hvað róttæk samvinnufélög eru og hvaða áhrif þau geta haft er gott að notast við dæmi, og hér verður notast við fyrirtækjaform raunverulegs, lítils, samvinnufyrirtækis sem ég hef sjálfur tekið þátt í.

Hjá þessu tiltekna fyrirtæki var æðsta vald falið í starfsmannafundum þar sem ákvarðanir voru teknar með einróma samþykki. Þá hefur hver og einn meðlimur félagsins neitunarvald um tillögur sem settar eru fram. Einungis þeir sem starfa í fyrirtækinu taka þátt í þessum fundum. Þetta er vísvitandi gert, m.a. til að koma í veg fyrir ofurvald fárra einstaklinga á fyrirtækinu, en jafnframt ofurvaldi meirihlutans yfir minnihlutanum, eins og getur gerst við hefðbundið

kosningafyrirkomulag. Hvað verkskiptingu varðar hefur hver og einn ábyrgð á einhverjum ákveðnum hluta rekstrarins. Þar hafa menn fullt vald yfir ákvörðunartöku á sínu sviði og þurfa að jafnaði ekki að bíða eftir samþykki starfsmannafundar. Sameiginlegar ákvarðanir ná yfir heildarákvarðanir, en tefja ekki fyrir daglegum rekstri.

Meðal markmiða fyrirtækisins var að byggja upp athvarf fyrir samræður og samvinnu um samfélagsmál. Launamisrétti var afnumið algerlega. Allir eru á sömu tímalaunum og þau miðast einfaldlega við afkomu fyrirtækisins. Eftir miklar viðræður komumst við að því að í raun réttlætir ekkert beint launamisrétti. Leggir þú klukkutíma í þrif er það jafnmikils virði og að leggja klukkutíma í bókhald. Hlutverkin geta svo alltaf breyst. Best er að allir þekki sem flesta fleti á starfsemi félagsins. Það að afnema tímalaun og setja þess í stað greiðslu í beint samband við afkomu gerir alla um leið samofna afkomu fyrirtækisins. Þetta er raunverulegur hvati til að láta fyrirtækið ganga vel. Allir bera ábyrgð og það er í hag allra að fyrirtækinu í heild gangi vel. Þannig tvinnast saman hagsmunir heildarinnar og hagsmunir einstaklingsins. Starfsmenn / eigendur fyrirtækisins deila þá bæði góðum tíma og slæmum í rekstri. Þetta hafði víðtæk áhrif. Meðlimir urðu mjög meðvitaðir um að allar gjörðir þeirra höfðu bæði bein áhrif á afkomu fyrirtækisins og um leið þeirra sjálfra, persónulega. Hagræðing kom náttúrulega. Hver og einn meðlimur naut svo góðs af þátttöku sinni í sparnaði sem sameiginleg neysla nær fram yfir neyslu hvers í sínu horni.

Þegar allir sem starfa í fyrirtækinu eru jafnframt eigendur hafa þeir jafnmikið ákvörðunarvald og þar með jafn mikið að segja um rekstur og áherslur í fyrirtækinu. Bæði samheldnin og þræturnar voru mannbætandi til lengri tíma litið. Samheldnina þarf ekki að útskýra frekar, en hvað þræturnar varðar voru þær liður í því að þjálfa okkur öll upp í lýðræðislegum samskiptum milli jafningja.

Einn stærsti lærdómurinn af slíku starfi er að læra að temja sér persónulega, og sameiginlega ábyrgð. Hún kemur ekki að sjálfu sér. Ýmis vandamál komu upp, enda er rekstur sem þessi aldrei laus við persónulegan ágreining, bæði hvað varðar hluti sem ganga vel og illa. Fæstir virðast vera vanir því að bera sameiginlega ábyrgð og hafa tilhneigingu til þess að setja sig í annað hvort af tveim hlutverkum: annað hvort hlutverk fórnarlambsins, þess sem hlýðir skipunum og lætur aðra um að hafa ábyrgð, eða hlutverk stjórnandans, þess sem hefur ábyrgð. Það þurfti mikið átak til þess að afmá þessa hlutverkaskiptingu. Hefði þetta fengið að grassera hefði grunnhugmyndin af félaginu orðið að engu og við hefðum staðið uppi með ósköp venjulegt fyrirtæki. Það þarf að læra að skipuleggja hlutina á annan hátt en þann sem okkur er tamt eftir félagsmótunina. Þessi umbreyting yfir í homo cooperativus frá homo hierarchicus, ef svo mætti segja, var full af átökum. Þessi átök koma síður upp þegar samvinnufélagið þroskast. Allir sem ætla sér að stofna róttækt samvinnufélag verða samt að hafa í huga að þessi barátta er nánast óumflýjanleg.

Vinnustaðurinn var hinsvegar laus við ýmislegt sem má venjast í samskiptum í lagskiptum fyrirtækjum. Enginn er að sverta mannorð annarra til að koma betur fyrir hjá „stjóranum”, enda er enginn slíkur stjóri til; engin rifrildi eiga sér stað um launamisrétti, enda eru allir við sama borð þar (þ.e., svo lengi sem allir eru á sama tímakaupi eins og er hjá okkur), enginn er hræddur um vinnuna og enginn að leita að stöðuhækkun. Það er blessun fyrir bæði starfsfólk og „yfirmenn” að losna við þau skökku samskipti sem verða milli þeirra. Samkeppni milli starfsfólks hverfur og í staðin kemur tilfinningin um sameiginlega hagsmuni.

Í þessari tegund vinnustaðar hverfur svo annað sem fyrir marga á vinstri vængnum virðist vera hornsteinn baráttu þeirra, en er í samhengi samvinnufélags frumstætt: Kjarabarátta. Í raunverulegu, róttæku samvinnufyrirtæki verður að bregðast við bágum kjörum með sameiginlegu átaki. Slæmt árferði hefur jöfn áhrif á alla og það er enginn yfirmaður, eigandi eða ríki sem hægt er að krefja að borgi betur. Eigendur og starfsmenn eru einir og sömu aðilarnir. Eftir nógu langa reynslu af því að taka höndum saman ef illa gengur fara kröfugöngur að taka á sig nýja og óþægilegri mynd. Þegar einn hópur hrópar og krefur annan hóp um að gefa sér meira er eins og stéttamunurinn sem er á milli þessara hópa herðist og opinberist. Markmiðið ætti að vera að afmá þetta alveg, en ekki standa í endalausu betli við leiðtogana.


Í stærra samhengi

Samvinnufélag með lýðræðislegt ákvörðunarferli getur verið þýðingarmikið í stærra, þjóðhagfræðilegu samhengi. Eitt og sér er slíkt félag dropi í haf samfélagsins og breytir ekki miklu. En gott líkan sem virkar getur haft fordæmisgildi. Náist samkomulag um grundvallarstrúktúr sem sýnir virkni sína í verki hefur sjálf starfsemin möguleika til að gjörbreyta samfélaginu öllu. Þegar vel gengur bætir félagið líf þeirra sem að því standa. Þetta á bæði við um þann beina og óbeina fjárhagslega gróða sem hlýst af starfseminni, sem og þann félagslega gróða sem einnig fylgir. Það að starfa á jafningjagrundvelli og bera jafna ábyrgð á rekstrinum og aðrir er félagslega og andlega styrkjandi. Þessi gróði sem fylgir slíkri starfsemi er um leið innbyggður hvati fyrir því að aðrir vilji feta í sömu fótspor og finna eigin farveg fyrir myndun slíkra félaga. Þetta þýðir að starfsemin ber með sér innbyggðan hvata til að dreifa úr sér í samfélaginu. Þegar slíkum félögum fjölgar breiðast áhrif þeirra um samfélagið. Róttæk samvinnufélög hafa einnig möguleika á því að breyta samfélaginu með því að þau geta opinberað nokkra af mestu þversögnum þess kerfis sem nú er allsráðandi. Þeirra á meðal er krafa og þörf kerfisins fyrir vöxt: Hagvöxt, framleiðsluvöxt, framleiðnivöxt og verðvöxt.

Ímyndum okkur til dæmis að samfélaginu í heild tækist að finna einfaldar leiðir til að komast af með minni neyslu á orku og vörum en það gerir í dag. Þetta myndi þýða að samfélagið í heild þyrfti að kaupa margfalt minna og nýta mat og vörur betur. Þessi sparnaður gæti þýtt að við gætum öll unnið minna og héldum eftir meiru um leið og minna þyrfti að taka frá náttúrunni. Í öllum eðlilegum skilningi er þetta algerlega jákvætt. Svo er hinsvegar ekki með það kerfi sem nú ríkir. Þetta myndi leiða til neikvæðs hagvaxtar. Fyrirtæki myndu selja minna af vörum og fá minni tekjur. Þau gætu þá síður staðið skil á skuldbindingum sínum. Lánadrottnar myndu hakka í sig það sem þeir gætu, en þurft að verða fyrir fjárhagslegu tapi fyrir það sem ekki næðist. Gjaldmiðillinn myndi falla í verði og bankar myndu lenda í vandræðum. Það yrði ein heljarinnar efnahagskreppa sem ekki sæi fyrir endann á.

Er það ekki afbrigðilegt og afskræmt kerfi sem berst hreinlega gegn sparnaði og sjálfbærri nýtingu á náttúruauðæfum? Stæðum við frammi fyrir kringumstæðum þar sem betri nýting, sparnaður og samvinna myndi valda því að við þyrftum að neyta minna í heild og vinna minna og það aftur leiddi til efnahagskreppu þyrftum við að velja milli tveggja leiða: Annarsvegar þess að hætta þessum sparnaði; fara að eyða meiru og vinna meira og ganga æ hraðar á náttúruna. Hinsvegar að henda núverandi fjármálakerfi endanlega á haugana. Þetta væri nokkurt verk, en samt einungis vinna. Hvað myndum við velja?

Vinna í slíkum fyrirtækjum kennir eitt fremur en nokkuð annað. Það er að skipting manna í stéttir, og yfirvald innan fyrirtækja (sem og utan þeirra) er sjaldan eða aldrei nokkuð annað en aukaafurð lagskiptingarinnar. Það tekur langan tíma að læra að sumir hafa meiri völd og réttindi en aðrir, og að hlýða eigi skipunum yfirboðara án þess að hugsa of mikið um það. Við getum nöldrað og kvartað okkar á milli, en við hlýðum á endanum. Þetta er kallað félagsmótun og á sér stað í skólum og inni á heimilum. Það tekur hinsvegar styttri tíma að aflæra þessa hegðun. Það er beinlínis erfitt að byrja aftur að vinna í fyrirtæki með hefðbundnu sniði.

Útbreiðsla grundvallarreglna róttækra samvinnufélaga er enn mikilvægari en útbreiðsla sparnaðarins gegnum samvinnu og afnám efnahagskerfisins. Valdakerfið er byggt á þegjandi samþykki þegnanna. Þegar við hættum að taka því sem sjálfsögðum hlut að sumir hafi meiri réttindi en aðrir riðar þetta til falls. Við eygjum annað kerfi. Það byggðist á samkomulagi og samvinnu milli allra þeirra hópa og einstaklinga sem byggja samfélagið. Spurningar um þjóðhagsleg málefni væru spurningar um nýtingu tækni við að samþætta og miðla upplýsingum. Stjórnun samfélagsins færi eins fram og stjórnun hvers félags fyrir sig: Með því að leiða mál til lykta í samvinnu.

Við þurfum að læra að taka ábyrgð og fara með frelsi. Við þurfum að læra samvinnu og sameiginlega ákvörðunartöku og skilja að við berum öll ábyrgð á samfélaginu. Þetta lærum við best með því að æfa okkur og fá reynslu. Með tíð og tíma verða vinnuferli lýðræðislegra vinnustaða jafn sjálfsögð og yfirvaldshlýðni og goggunarröð er í dag.

Samfélagið er ekki einungis búið til úr alþingi eða sveitastjórnum. Grundvallareining efnahagskerfisins eru vinnustaðirnir. Þar eyða flestir drjúgum hluta ævi sinnar. Það er með ólíkindum að við látum þennan grunnhluta samfélagsins undan lýðræðislegri gagnrýni. Við ættum heldur að líta á vinnustaðina sem upphafsreit breytinga til réttlátara samfélags.