Rauði flokkurinn í Noregi

13. desember, 2021 Albert Einarsson

– Rødt – er sósíalískur flokkur í Noregi. Flokkurinn á sér sögu – langa eða stutta, fer eftir því hvað við er miðað. Í þingkosningunum í september 2021 fengu Rauðir 141 þúsund atkvæði, 4,7 % sem er það mesta sem flokkurinn og fyrirrennarar hafa fengið, og 8 þingmenn (af 169).

Saga

Rauðir voru stofnaðir sem flokkur 2007 þegar RV (Rauða kosningabandalagið), Rød Ungdom (Rauð æska) og AKP (Kommúnistaflokkur verkamanna) voru lögð niður. RV var upphaflega framboð AKP, þar sem AKP fékk ekki leyfi til að bjóða fram undir eigin nafni og var stýrt af forystu AKP. Seinna varð RV sjálfstætt framboð og flokkur þar sem flestir félagar AKP voru einnig félagar í RV en æ fleiri voru einungis félagar í RV. Árið 2007 voru svo bæði RV og AKP lögð niður þegar Rauðir voru stofnaðir.

Saga AKP er um margt athyglisverð. Flokkurinn var stofnaður 1973 eftir talsvert langan undirbúning sem má rekja til þess að ungliðahreyfing Sósíalíska flokksins (SF) sagði skilið við flokkinn og stofnaði SUF(m-l) (Sosialistisk ungdomsforbund (marx-leninister)). SUF(m-l) og MLG (Marxist-Leninistiske Grupper) unnu mikið starf við að byggja upp kommúnistahreyfingu í Noregi, m.a. stofnuðu Klassekampen sem flokksmálgagn og bókaforlagið Oktober. Hreyfing marx-lenínista í Noregi náði töluvert meira fylgi en hliðstæðar hreyfingar í öðrum löndum, og einkum þó meiri áhrifum, ekki síst í verkalýðshreyfingunni og í fjöldabaráttu. En áhrifin urðu ekki mikil á stjórnmálasviðinu og RV fékk oftast minna en eitt prósent í kosningum.

Áhrif AKP voru veruleg á mörgum sviðum. Félagarnir voru virkir í verkalýðshreyfingu, fjölmörgum baráttuhreyfingum, m.a. gegn aðild Noregs að ESB og EES og á menningarsviðinu voru bæði þekktir rithöfundar, tónlistarfólk, leikarar o.fl. félagar flokksins. En AKP náði aldrei fjöldafylgi, til þess voru stefnumál flokksins einstrengingsleg og starfsaðferðir sem gerður miklar kröfur til félaganna. Mikilli orku og kröftum var eytt í innantómar fræðilegar þrætur við önnur flokksbrot en oft líka í sjálfum flokknum. Baráttan um hina einu og réttu línu tók aldrei enda. Þetta er hluti skýringar þess að smáflokkar til vinstri náðu litlu fylgi. Aðrar skýringar eru að þessir byltingarsinnuðu flokkar áttu hvað mestan stuðning í ungu fólki, aðallega námsfólki, sem átti lítil ítök í samfélaginu stöðu sinnar vegna.

Fylgi RV, framboðs AKP, var lengst af undir einu prósenti og það er ekki fyrr en í kosningum 1993 að RV nær 1,3% fylgi og fékk einn þingmann í Osló. Þó svo að fylgið í næstu kosningum, 1997, færi í 1,9% missti flokkurinn þingmanninn í Osló, vantaði aðeins 600 atkvæði. Fylgið í þingkosningum breyttist ekki að ráði á meðan RV var til. RV náði fulltrúum í sveitar- og fylkisstjórnum víða um land.

Eins og áður sagði voru RV og AKP lagðir niður sem flokkar 2007 þegar Rauðir voru stofnaðir. Í sveitarstjórnarkosningum það árið fékk flokkurinn aðeins 1,9%. Það sama endurtók sig í þingkosningum 2009, 1,3% og 2013 1,1%. Það blés ekki byrlega. Í þingkosningum 2017 fengu Rauðir 2,4% og einn þingmann í Osló. Nú fór að blása og í fylkis- og sveitarstjórnarkosningum 2019 fengu Rauðir 3,9% í sveitarstjórnum og 3,9% í fylkisstjórnum. Þetta var verulegur ávinningur og merki um að eitthvað var að gerast. Í þingkosningum 2021 fengu svo Rauðir 4,7% og 8 þingmenn.

Hvað hafði gerst?

Það er margt. En það helsta og mest áberandi er að flokkurinn hefur náð trúverðugleika á mörgum sviðum og eignast stuðning langt út fyrir flokkinn. Þingmaðurinn sem flokkurinn fékk kosinn 2017, Bjørnar Moxnes, ungur maður og vel máli farinn, aflaði flokknum fylgis. Það sama átti sér stað í sveitarstjórnum víða um land þar sem félagar í Rauðum unnu vel og vandlega að hagsmunamálum almennings.

Það umbótastarf sem hófst við stofnun flokksins 2007 fór ekki að bera árangur fyrr en þetta. Mikil vinna var lögð í stefnuskrá og starfsskrá. Minni áhersla var lögð á fræðilegar umræður sem ekki höfðu skilað sér, en meiri áhersla á málefni dagsins. Þetta var ekki höfnun á því að flokkurinn byggði stefnu sína á hugmyndafræðilegum grunni, heldur að réttara væri að ræða hugmyndafræðina í ljósi daglegra málefna. Rauðir tóku skýra afstöðu til fortíðar flokksins og hafnaði starfsaðferðum og ýmsu í pólitískri stefnu AKP og RV.

Rauðir skilgreina sig sem lýðræðissinnaðan sósíalískan flokk. Ekki þó kratískan endurbótaflokk heldur í raun byltingarsinnaðan flokk, þ.e.a.s. hann hafnar hugmyndinni um að stjórna kapítalísku ríki til sósíalismans með þingræðislegum aðferðum einum og stjórnarsetum, heldur sé utanþingsbarátta meginþáttur starfsins. Það er líka mikilvægt að Rauðir byggja að talsverðu leyti á því starfi sem fyrirrennarar flokksins unnu, starfi innan margra róttækra fjöldahreyfinga og samstöðuhreyfinga, starfs innan verkalýðshreyfingarinnar og því starfi sem flokksmenn RV höfðu unnið árum saman í sveitarstjórnum. Rauðir voru ekki lengur flokkur ungmenna, námsfólks og stúdenta. Reynsla þessa fólks var ómetanleg í stefnumótun Rauðra, einkum að því er varðar uppgjör við fortíðina.

Hvers vegna var uppgjör við fortíðina mikilvægt?

Þegar Rauðir voru stofnaðir 2007 var það gert um leið og AKP og RV voru lagðir niður. Stofnun Rauðra var því tákn um breytingu og þá um leið uppgjör. Annars hefði stofnun flokksins verið óþörf. Það segir sig sjálft að uppgjör í stjórnmálum er ekki auðvelt og getur ekki gerst á stuttum tíma. Það var heldur ekki um að ræða að kasta öllu því gamla og búa til eitthvað nýtt. Enda þótt margir hafi farið illum orðum um AKP, stefnu og störf, var það alls ekki ríkjandi skoðun við stofnun Rauðra.

Sú hreyfing sem AKP kom af stað vann í reynd stórvirki. Þar má nefna að koma á laggirnar sjálfstæðu dagblaði, Klassekampen, sem náði talsverðri útbreiðslu og hélt velli og skilgreinir sig nú sem dagblað vinstrimanna í Noregi. Hreyfingin stofnaði bókaforlag og hljómplötuútgáfu. Þetta er hluti arfleiðarinnar sem Rauðir tóku yfir. Þess vegna var það ekki álitamál að AKP og RV yrðu lagðir niður og félagar flokkanna gengju í aðra starfandi flokka, eins og SV (Sosialistisk Venstreparti) eða Arbeiderpartiet. Rauðir voru stofnaðir til að halda áfram og til að halda áfram því uppgjöri og umbótastarfi sem var byrjað innan RV (og reyndar líka AKP). Það var heldur ekki álitamál að uppgjör við stefnu RV og AKP fæli í sér að kasta öllum gömlum stefnumálum og sækja ný eða ganga til liðs við aðra flokka eins og áður er sagt. En til marks um að um raunverulegt uppgjör við fortíð færi fram var nauðsynlegt að stofna nýjan flokk.

Staðan í dag

Rauðir eru ört vaxandi og hafa líklega fimmfaldað fjölda meðlima á síðustu árum. Þetta hefur gerst samtímis því sem Rauðir hafa fengið fleiri sæti í sveitarstjórnum og fylkisþingum og þar með orðið sýnilegra pólitískt afl. Eftir þingkosningarnar 2017 þegar flokkurinn fékk einn þingmann kjörin en þó ekki meira en 2,4% atkvæða á landsvísu fóru stærru hlutir að gerast. Þingmaðurinn og formaður flokksins, Bjørnar Moxnes, hefur aflað sér og flokknum fylgis langt út fyrir raðir hinna róttæku. Tölur í skoðanakönnunum fóru að sýna fylgi sem lyft gætu flokknum yfir 4% mörkin og þar með að fá mörg jöfnunarþingsæti. Skeleggur málflutningur, bæði á Stórþinginu og í sveitarstjórnum, þar sem Rauðir stóðu á sínu en gekk ekki endalaust inn í málamiðlanir aflaði kjósenda.

Flokkar sem eru málefnalega lengst til vinstri hafa oft mælst með meira fylgi en það sem kemur upp úr kjörkössunum. Það eru margir sem segjast kjósa en mæta síðan ekki á kjörstað. Bakgrunnsupplýsingar fóru að sýna að margir kjósendur stóðu með flokknum um lengri tíma. Fjölgun meðlima gerði það líka að verkum að kosningabaráttan fyrir þingkosningarnar í september 2021 gat hafist fyrr en ella og varð öflugri en áður. Tölur skoðanakannana sýndu flokkinn stöðugt yfir 4% mörkunum. Niðurstaða kosninganna urðu svo 4,7% og átta þingmenn. Þegar nú eru liðnir nokkrir mánuðir er staðan sú að Rauðir eru á góðri siglingu og síðustu tölur í skoðanakönnunum sýna 6,9%.

Það er ekki auðvelt að gera grein fyrir málefnum flokksins í stuttu máli. Flokkurinn er lengst til vinstri á þinginu og lýsti yfir stuðningi við það að fella hægristjórnina. Eftir að sitjandi ríkisstjórn Verkamannaflokksins og Miðflokksins (Framsókn), sem er minnihlutastjórn, samdi við Sósíalíska Vinstriflokkinn um fjárlagafrumvarp, en neitaði Rauðum um málefnasamning, er flokkurinn algerlega óbundinn. Þingmenn flokksins hafa þess vegna ekki hlíft sitjandi stjórn frekar en þeirri fyrrverandi við gagnrýni.

Undirbúningur er þegar hafinn fyrir sveitarstjórnarkosningar á næst ári. Flokkurinn ætlar sér stærri hluti bæði að fjölga fulltrúum í sveitarstjórnum og fylkisþingum og líka að fá fólk víðar inn í sveitarstjórnir. Sjá hér heimasíðu Rødt: roedt.no