Rússnesk öryggismálastefna frá Lenín til Pútíns 2
—
Hér heldur áfram rakning nokkurra dæma úr öryggismálastefnu Rússa. Hversu mikil ógn stendur okkur af þeim? Í fyrri grein var Úkraínustríðið skoðað í samhengi við strategíu BNA og NATO gegn Rússum/Sovétríkjunum, síðan var það einnig borið saman við fyrirstríðstímann um 1939. Niðurstaðan var að kalla mætti stefnu Rússa harða landvarnapólitík en ekki útþenslustefnu. Og að sú öryggismálastefna myndaði samfellu á löngu tímabili. Rekjum þá aðeins lengra.
Eystrasaltsríkin 1939
Síðast fjölluðum við aðeins um Mólotov-Ribbentropsamninginn og eftirmál hans. Næst í tímaröð voru þau eftirmál hans að Sovétmenn tryggðu sér herstöðvaréttindi í Eystrasaltslöndum. Þeir höfðu fengið það uppáskrifað í samningnum að þessi litlu ríki væru á þeirra «áhrifasvæði» svo að í framhaldinu voru samskiptin við þau hreint ekki á jafnræðisgrunni. Ég þekki illa sögu þessara ríkja. Þjóðernishyggja hefur verið sterk í þeim öllum, hún á sér djúpar rætur og beinist einkum gegn hinu svæðisbundna stórveldi, Rússlandi. Að einhverju leyti hefur sú þjóðernishyggja haft tilhneigingu til að leita sér fulltingis út fyrir svæðið. Árið 1918 fengu Eystrasaltslöndin beinlínis sjálfstæði sitt í gegnum herför Þýskalands gegn Sovétrússlandi, eftir að Þjóðverjar gáfust upp í stríðinu og bökkuðu út. Og árið 1939 voru stjórnvöld í öllum þremur ríkjunum Þýskalandssinnuð, og Þýskaland hafði þar mikil og vaxandi áhrif. Þau gerðu m.a. sameiginlegan griðasamning við Þýskaland í júní 1939, þremur mánuðum á undan Molotof-Ribbentrop samningnum. Sjá t.d. hér: https://www.e-ir.info/2018/12/19/moscow-and-the-baltic-states-experience-of-relationships-1917-1939/
Á flokksþingi 1934 benti Stalín á Þýskaland sem helstu stríðsógnina við Sovétríkin. Hann saknaði þá undangengins áratugs er Sovét hafði átt vinsamleg samskipti við Þýskaland, þegar gerðir voru mikilvægir samstarfssamningar milli ríkjanna tveggja o.s.frv. [Rapallo m.m.]. «Nýja» pólitíkin í Þýskalandi minnti hann hins vegar á «pólitík keisarans fyrrverandi, hans sem hertók Úkraínu um skeið, fór í herför gegn Leníngrad og notaði Eystrasaltslöndin sem uppstillingarsvæði fyrir slíka herför.» (J. Stalin, Spørsmål i Leninismen, Oslo 1976, 441) Stalín vísar hér til stöðunnar vorið 1918 þegar herir Þjóðverja völsuðu um Eystrasaltslönd og voru við það að ná Petrógrad þaðan. Árið 1936 töluðu hann og Mólotov aftur opinberlega um hættuna á að Hitlers-Þýskaland notaði landsvæði Eystrasaltsríkja til að ráðast á Sovétríkin.
Það er ekkert erfitt að réttlæta kröfu Sovétmanna um herstöðvar í Eystrasaltslöndum 1939 út frá landvarnahagsmunum þeirra. En innlimun landanna þriggja í Sovétríkin eftir svokallaðar «þjóðaratkvæðagreiðslur» ári síðar er pólitík sem varla verður kölluð annað en «útþenslustefna». Það er samt ljóst að rétt eins og krafan um herstöðvaréttindin 1939 var sú innlimun fyrst og síðast liður í landvarnarpólitík. Þetta varð ekki vænlegt til vinsælda meðal heimamanna og Wikipedia slær föstu um framrás Þjóðverja inn í Eystrasaltslönd í júní 1941: «The Baltic states, recently Sovietized by threats, force, and fraud, generally welcomed the German armed forces when they crossed the frontiers.» Og herstöðvaréttindin og innlimunin gátu þegar til kom ekki hindrað það að Þýski herinn notaði einmitt Eystrasaltslönd til árásar á Sovétríkin (og gekk þar fremur vel herkvaðningin í herförina Barbarossa) og komst með því að Leníngrad og umkringdu hana sumarið 1941.
Það má finna margar samsvaranir milli Eystrasalts-pólitíkur Kremlverja 1939 og stríðsins í Úkraínu 2022: Afskaplega harkaleg landvarnarpólitík sem augljóslega er þó fyrst og fremst varnarviðbrögð, af ótta um árás stórveldis og/eða hernaðarbandalags úr vestri. Þegar slíkt er í spilunum hafa stjórnvöld í Kreml 1940 og aftur 2022 ákveðið að horfa framhjá fullveldisréttindum granna sinna.
Vetrarstríðið í Finnlandi 1939-40
Þá kemur að Vetrarstríðinu í Finnlandi 1939-40. Það er stríð sem mér finnst að hafi á margan hátt verið nokkuð hliðstætt stríðinu í Úkraínu núna. Rússneskt landvarnastríð. Síðan er hitt að það stríð vakti viðlíka geðshræringu á Íslandi og á Vesturlöndum eins og stríðið í Úkraínu gerir nú um stundir.
Rauði herinn réðist yfir finnsku landamærin 30. nóvember 1939. Árásin kom mjög á óvart og almenn viðbrögð bæði þar og hér voru áfall, mikil hneykslun og reiði. Finnar voru «varðmenn lýðræðis» en Stalín og Sovétmenn náttúrlega óðir yfirgangsmenn, og mikið var bent á griðasamninginn við Hitler og «bróðerni» þeirra H og St. Málið átti sér samt sinn aðdraganda. Sovétmenn höfðu leitað samninga við Finna og farið fram á landamærabreytingar, fyrst haustið 1938 og svo aftur og af meiri þunga haustið 1939.
Ég skrifaði fyrir nokkrum árum ofurlítið um Vetrarstríðið, sem birtist á Friðarvefnum 10. september 2014 (er horfið þaðan) og leyfi mér að vitna í þau skrif hér
Aðalkrafa Sovétmanna var að færa finnsku landamærin á Karelska nesinu norðar og vestar – þau lágu aðeins 32 km frá Leníngrad svo skjóta mátti á borgina frá Finnlandi. Einnig fóru þeir fram á aðstöðu á skaganum Hanko í mynni Finnska flóa að norðan (áður flotastöð Pétus mikla) eða hugsanlega á nálægri eyju, svo verja mætti sjóleiðina að borginni. Boðið var annað svæði á móti því sem Finnar myndu missa, tvöfalt stærra. Ekki samdist og „Vetrarstríðið“ hófst 30. nóvember 1939.
Sovétmenn vanmátu hernaðarlegan styrk Finna og virðast ekki síst hafa byggt plön sín á röngu mati af pólitísku ástandi í Finnlandi, sbr þá diplómatísku bommertu að setja á fót Kuusinen-stjórnina á herteknu svæði skömmu eftir að stríðið hófst og reikna með að hún höfðaði til alþýðu Finnlands. Framan af sóttist sókn Rauða hersins seint og illa. Lengst var barist við Mannerheim-línuna, skammt frá landamærunum, sterka víglínu sem Finnar höfðu byggt upp með aðstoð Þjóðverja á 3. og 4. árataugnum. Það var ekki fyrr en í febrúar sem Mannerheimlínan var rofin og brotin, og Finnland lá opið fyrir Sovésku hernámi þegar friður var saminn 12. mars. En Finnland hélt sjálfstæði sínu og friðarskilmálarnir gegn landinu voru ekki hertir að miklum mun. Sovétmenn voru ekki í landvinningastríði heldur voru að hugsa um landvarnir sínar og þá einkum öryggi Leníngrad.
Ekki tókst samt að forða borginni frá voða stríðsins, í 1000 daga umsátri um hana dó um ein milljón borgarbúa (meira en t.d. Bretar og Bandaríkjamenn misstu samanlagt í stríðinu). Hitt varð ekki heldur fyrirbyggt að Finnar gengju í lið með Þjóðverjum í innrásinni í Sovétríkin 1941, sem í Finnlandi var nefnt «Framhaldsstríðið».
Þegar Sovétmenn komust gegnum Mannerheimlínuna áttu þeir alls kosta við Finna. Friðarskilmálarnir urðu samt litlu harðari en upphaflegar tillögur um landamærabreytingar. Það bendir til að landvinningar hafi ekki verið málið fyrir Sovétmenn, ekki heldur að sækjast eftir að ráða Finnlandi. Sagan endurtók sig í september 1944. Þá hafði stríðsgæfan fyrir löngu snúist með Sovétmönnum. Finnland var hernaðarlega brotið á bak aftur þegar samið var um frið milli ríkjanna. Þá var samið um nánast óbreytt landamæri frá 1940 (nema Finnar töpuðu Norðuríshafs-tengingu við Petsamó). Árið 1948 sömdu Finnar svo við Sovétmenn um varanlegt hlutleysi Finnlands.
En víkjum aðeins að Vetrarstríðinu á Vesturlöndum og á Norðurlöndum og á Íslandi. Ég vitna áfram í grein mína frá 2014:
Stuðningur Vesturveldanna við Finna
Vesturlönd sýndu ekki viðlíka „hlutleysi“ í Vetrarstríðinu eins og þau höfðu gert í Spánarstríðinu. Bretar og Frakkar voru formlega í stríði við Hitler (frá sept. 1939) en höfðu enn ekki tekið upp neinn hernað gegn framrás hans. Fyrsta aðild þessara ríkja að stríðsátökum urðu nú stuðningur við Finnland gegn Sovét. Stríð þetta stóð aðeins rúma þrjá vetrarmánuði og tölur um vopnaaðstoð eru ekki auðfengnar. Skýrsla innan Bandaríkjahers frá 1941 gerði eftirfarandi mat: „Hjálp veitt Finnum í hergögnum var veruleg. Rifflar, vélbyssur, loftvarnarbyssur og byssur gegn skriðdrekum, fallbyssur og stórkotaliðsvopn, skotfæri og flugvélar voru sendar frá Englandi, Frakklandi, Bandaríkjunum, Ítalíu og Svíþjóð. Bandaríski flotinn sendi 40 orustuflugvélar, Svíþjóð sendi 37 flugvélar og Ítalía sendi nokkrar sprengiflugvélar.“ http://www.ibiblio.org/hyperwar/ETO/Winter/USMA-Finnish/
Bretar og Frakkar undirbjuggu að senda herstyrk gegn Sovétmönnum á Petsamó-svæðið eða landleið gegnum Narvik í Noregi og Kiruna í Svíþjóð. Skandinavísku löndin voru formelga hlutlaus í stríðinu svo hér var í raun um að ræða plön um hernám norsku og sænsku norðurhéraðanna. Fyrir íhaldsliðið kringum Chamberlain og fyrir Daladierstjórnina frönsku var þetta einhvers konar framhald á Munchenstefnunni, málið var að veikja og einangra Sovétríkin og snúa stríðinu í austur. Þeir sömu aðilar sem beittu sér mest fyrir „ekki-íhlutun“ á Spáni gengu fram fyrir skjöldu í stuðningi við Finnland. Churchill, nýi varnarmálaráðherrann, var einnig mjög áfram um þátttöku í Vetrarstríðinu, en fyrir honum var hins vegar aðalmálið að stöðva stálútflutninginn mikla frá Svíþjóð til Þýskalands. En vopnahlé var samið í Finnlandi áður en innrásaráformin komust í framkvæmd. Hins vegar fóru miklar vopnasendingar breskra franskra og bandarískra vopna fram gegnum Noreg og Svíþjóð.
Þýskaland hafði gert griðasáttmála við Sovétríkin og gat ekki stutt Finna beint. Það hindraði Þjóðverja ekki í að selja Finnum vopn í verulegu magni í Vetrarstríðinu. Þetta var gert leynilega í samvinnu við sænsk hermálayfirvöld. Vopnin voru formlega seld til Svíþjóðar en Svíar skipuðu þeim svo áfram til Finnlands (norski stríðssagnfræðingurinn Lars Borgersrud hefur margt ritað um hjálpina við Finna, sjá „Den hemmeliga våpenhjelpen“, Materialisten, Tidsskrift for forskning, fagkritikk og teoretisk debatt, 1/2 1988. Sjá einnig: https://no.wikipedia.org/wiki/Internasjonal_st%C3%B8tte_til_Finland_under_vinterkrigen
Viðbrögð við Vetrarstríðinu á Norðurlöndum
Á Íslandi varð allmikil sefasýkisstemning út af Vetrarstríðinu, svonefndur „Finnagaldur“. Sósíalistaflokkurinn einn flokka varði aðgerðir Rússa, og naumlega þó því hann klofnaði um málið. „Undan ofurvaldi brjálæðisins sliguðust bráðlega þeir sem ekki höfðu af miklu að má. Þá varð ýmsum mest í mun að frýja sig ábyrgð á því að hafa farið með vopn á hendur Finnum, og sýndist þeim það liggja beinast við að taka undir galdurinn“ skrifaði Gunnar Benediktsson (Að leikslokum, 69). Ég hef áður skrifað um afstöðu íslenskra kommúnista og sósíalista til griðarsáttmála Hitlers og Stalíns og Vetrarstríðið m.m. https://www.mbl.is/greinasafn/grein/271056/
Frá Svíðþjóð fóru 9000 sjálboðaliðar til að berjast með Finnum, um 1000 fór frá Noregi og annað eins fór frá Danmörku en komst ekki í tæka tíð nema í æfingabúðir. Um vopnasendingar Svía skrifar ein heimild eftirfarandi: „Svíþjóð sendi til Finnlands megnið af stórskotaliðsvopnum sínum, öll vopn sín gegn skriðdrekum og mikið af loftvarnarbyssum. Svíþjóð sendi líka 135.000 riffla, 302.000 handsprengjur, 216 stórskotaliðsbyssur og þriðjung af lofthernum. Afleiðing þess var sú að 9. apríl 1940 vantaði Svíþjóð mikið af nýtískulegri hergögnum sínum. Þau höfðu verið brúkuð upp í Finnlandi í Vetrarstríðinu.“ (Jill Stephenson, John Gilmour (ritstj.), 2013, Hitler´s Scandinavian Legacy, 106).
Noregur sendi vopn í verulegu magni til Finna, vopn sem Noreg skorti tilfinnanlega í innrás Þjóðverja skömmu síðar (sjá grein Borgersruds, áður tilvitnaða). Noregur vígbjó sig líka eftir að Vetrarstríðið hófst. Norski og herinn var þá allur gíraður inn á stríð við Sovétríkin nyrst og austast, 7000 manns voru sendir upp í Finnmörku og Norður-Noreg. Stórskotaliðið frá Austfold og við Óslófjörðinn var að miklu leyti sent upp í Finnmörku. Og yfirmenn hersins fylgdu því. „…stóskotaliðið hafði verið veikt stórlega þegar fyrir innrásina vegna hjálparinnar við Finnland og að nokkru leyti vegna stríðsundirbúnings við Sovétríkin uppi í Norður-Noregi“ (Ottar Strömme 1977, Stille mobilisering, 32) Uppstilling norskra landvarna var m.ö.o. í þá veru að óvinarins væri að vænta úr austri þegar þýski herinn kom siglandi úr suðri 9. apríl 1940. Varnirnar urður eftir því. http://eldmessa.blogspot.com/2014/09/lisafnaur-i-ranga-att-ny.html
Það má sjá margar samsvaranir milli Vetrarstríðsins og Úkraínustríðs. Rússar/Sovétmenn fara fram á «tryggingar» við nágranna sína, fá þær ekki og gera árás. Þeir láta ekki staðar numið fyrr en þeir telja sig fá þær. Í hvorugu tilfellinu er fórnarlambið (Finnland 1939 eða Úkraína 2022) sá aðili sem þeir í Kreml telja vera hina eiginlegu ógnun við sig eða land sitt. Á Norðurlöndum og víðar í Vestur-Evrópu fór fram heilmikill viðbúnaður og liðssafnaður, en «í ranga átt».
Svo er hitt, að alveg eins og gagnvart Úkraínu núna fóru Sovétmenn fram á hlutleysi Finnlands árið 1948, sem varð niðurstaðan. Kringum Úkraínudeiluna hefur valkosturinn «finnlandíseríng» verið nefnd jafnvel af voldugum aðilum. Í febrúar sl. fór Macron Frakklandsforseti til Úkraínu og sagði þá einmitt að «finnlandísering» væri eitt af því sem væri «uppi á borðum» í deilunni. https://www.rferl.org/a/ukraine-finlandization-macron-zelenskiy-helsinki/31697728.html
Austur-Evrópa 1945-89.
Stefna Sovétríkjanna gagnvart Austu-Evrópu að lokinni Síðari heimsstyrjöldin er nokkuð stórt efni til að afgreiða í fáum setningum. Her Sovétríkjanna frelsaði austanverða Evrópu undan nasismanum. Hann gerði það að mestu upp á eigin spýtur án mikillar aðstoðar. Allt þetta svæði hafði búið við fasískt eða hálffasískt stjórnarfar í upphafi stríðs. Rúmenía, Búlgaría, Ungverjaland, Finnland höfðu verið í bandalagi við Hitler 1941 og tekið þátt í Barbarossa (Búlgaría sendi reyndar ekki her). Undan stríðinu komu gömlu valdastéttirnar og flokkar þeirra í Austur-Evrópu pólitískt veiklaðir. Kommúnistar höfðu víða verið sterkasta skipulagsafl í andspyrnunni. Sósíalismi og kommúnismi stóðu sterkt meðal alþýðu, hin sovéska tegund hans var ríkjandi og stjarna hans stóð hátt á himni
Stríðið við Hitler hafði verið Sovétmönnum dýrt, 27 milljón manns lá í valnum vesturhluti ríkisins var flag eitt. Stríðið hafði líka verið Austur-Evrópu í heild dýrt. Hún var illa á sig komin en svæðið var vanþróað fyrir. Eftir ósköp stríðsins gripu Sovétrússar til þeirra harkalegu ráðstafana að koma sér upp „stuðpúðabelti“/öryggisbelti vestan við sig, og var það meginskilyrði að í þeim ríkjum sætu „vinsamleg“ stjórnvöld, vinsamleg Sovétríkjnum. Þetta var rétt einu sinni fyrst og fremst einhvers konar «landvarnarpólitík» frá Moskvu í fjandsamlegum heimi. Ekki úþensla. Áður en nýtt skipulag hafði mótast eftir stríðið var Kalda stríðið skollið á frá vestri með gríðarsterkri drottnunarstöðu og pólitísri krossferð Bandaríkjanna, og «járntjaldið» reist í varnarskyni. Það mótaði auðvitað á sinn hátt andrúmsloft og pólitískar andstæður innan «austursamfélaganna».
Ég reyni ekki hér að skilgreina verðleika «austursósíalismans», en áreiðanlega einkenndi það hann mjög að «öryggishagsmunir» Sovétríkjanna skyldu vera svo ríkjandi viðmið. Það birtist m.a. í þeim tveimur pólitísku kreppum í austursamfélögunum sem leiddu til hernaðarlegrar íhlutunar frá Moskvu, atburðanna í Ungverjalandi 1956 Tékkóslóvakíu 1968. Bæling þeirra var fyrst og fremst til að verja «stuðpúðabeltið» en ekki merki um útþennsluhneigð.
Utanríkisstefna Sovéríkjanna í þessu ferli var ákveðin, jafnvel harkaleg, stjórnlynd en samt gætin. Í meginatriðum ekki útþenslusinnuð. Tel ég mig þar með hafa þar afgreitt býsna stórt svið í afar stuttu máli!
Afganistan aðfangadag 1979
Að lokum skal hér minnst á stríð Sovétmanna í Afganistan. Algengast er að skilgreina það sem árásarstríð, það hef ég jafnan gert sjálfur. Þjóðréttarlega var það stríð samt þannig að lögleg og viðurkennd stjórnvöld Afganistan báðu Sovétmenn um hernaðaraðstoð. Hvernig sem í því lá er hitt söguleg staðreynd að það stríð varð Sovétríkjunum afar dýrkeypt, eins og stríð í Afganistan hafa orðið stórveldum fyrr og síðar. Það er útbreitt álit að Afganistanstríðið flestu öðru fremur hafi stuðlað að kreppu og falli Sovétríkjanna.
Frá 1973 hafði Sovét-vinsamleg stjórn setið að völdum í Afganistan. En hún fékk með tímanum í fangið uppreisnir íslamískra trúarhópa og raunar hluta afganska hersins líka. Það leiddi til þess að afgönsk stjórnvöld óskuðu 1979 endurtekið eftir hernaðaraðstoð frá Sovétmönnum. Endurtekið höfnuðu Sovétmenn þessari ósk, en ekki endalaust af því á aðfangadag það ár hófst sovésk hernaðaraðstoð/innrás í Afganistan. Þetta er vel þekkt og verður ekki rakið hér.
Bandaríkin (ásamt Sádum, Pakistönum o.fl) brugðust skjótt við í aðstoð sinni við uppreisnaröflin sem nefndu sig m.a. mujahedin, og það fór sem það fór. En hvenær hófst sú aðstoð? Um það hafa fjallað jafn framúrskarandi menn eins og John Pilger í heimildarmyndinni 'Breaking the Silence: Truth And Lies In The War On Terror' og Max Blumenthal í bókinni Management of savagery. Þeir færa fyrir því rök að íhlutun CIA í Afganistan hafi hafist a.m.k. hálfu ári á undan sovésku íhlutuninni.
Áður var nefndur til sögunnar Zbigniew Brzezinski, líklega áhrifamesti arkítekt bandarískrar utanríkisstefnu báðum megin við tímamótin 1990/91. En á árunum 1977-81 voru þó formleg áhrif hans hvað mest en þá gegndi hann stöðunni þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, Jimmy Carter. Árið 1998 birtist viðtal við hann í frönsku tímariti, Le Nouvel Ob serva teu. Þar var Brzezinski spurður um bandarísku afskiptin af Afganistan 1979. Hann svaraði greiðlega.
"Samkvæmt opinberri útgáfu sögunnar byrjaði stuðningurinn við Mujahedin á árinu 1980, þ.e.a.s. eftir innrás sovéska hersins á aðfangadag 1979. En raunveruleikinn, vel hulinn þar til nú, er allur annar. Í reynd var það 3. júlí 1979 sem Carter forseti undirritaði fyrstu tilskipanir um leynilega aðstoð við andstæðinga hinna sovétvinsamlegu stjórnvalda í Kabúl."
Brzezinski hélt áfram: „Þennan sama dag skrifaði ég forsetanum orðsendingu þar sem ég útskýrði þá skoðun mína að þessi aðstoð myndi framkalla sovéska hernaðaríhlutun.” Þetta var áætlun Brzezinskis og hann var enn jafn ánægður með hana 1998 þegar hann svaraði: „Þessi leyniáætlun var stórsnjöll hugmynd. Hún hafði þau áhrif að draga Rússana inn í afgönsku gildruna.” Þegar svo Sovétmenn höfðu gengið í gildruna sagði Brzezinski við Carter: “Við höfum nú tækifæri til að gefa Sovétmönnum sitt Víetnamstríð.” Frammi fyrir sögulegum afleiðingum áætlunarinnar spurði Brzezinski spyrjanda sinn og var ekkert iðrandi: «Hvað er mikilvægara í mannkynssögunni, Talíbanar eða fall sovéska heimsveldisins? Nokkrir múslimar í uppnámi eða frelsun Mið-Evrópu og endalok Kalda stríðsins?” https://dgibbs.faculty.arizona.edu/brzezinski_interview
Ég ætla ekkert að hafa mörg orð um ummæli Brzezinskis. Hann var enginn “nóboddý”. Hann var öryggisráðgjafi Bandríkjafaorseta þegar þessir atburðir urðu. Hann var líka sagður mikilvægasti óformlegi ráðgjafi Obama forseta í utanríkismálum. Hann var mikilvægasti arkitekt bandarískrar utanríkisstefnu bæði fyrir og eftir lok Kalda stríðsins. Og tengingin við núverandi hernaðaraðferð strategistanna í RAND-Corporation sem veðja á þá meginaðferð að «teygja Rússa» (extending Russia), sú tenging er bein og áþreifanleg. Semsagt: Sömu stefnu er fylgt í Úkraínu eins og í Afganistan.
. . . . . . . .
Heildarniðurstaðan er að öryggismálapólitík Rússa verður illa skilin út frá einstökum dæmum um harkaleg samskipti þeirra við granna sína. Það er algerlega nauðsynlegt að skoða hana í samhengi við ágengni og árásarstgefnu vestrænna stórvelda og heimsvaldasinna í samskiptum við Rússland. Skoða hana í samhengi við heimsvaldastefnuna með örðum orðum.
Það er merkilegt hvað samfellan er mikil og rík í rússneskri utanríkispólitík í 100 ár. Líka merkilegt hvað sagan í þessum samskiptum við vestræn stórveldi hefur mikla tilhneigingu til að endurtaka sig. Það verður raunar hver að dæma fyrir sig hvort «útþenslustefna» hefur verið almennt einkenni á stefnu Rússa á þessari rúmu öld. Ég tel ekki að svo hafi verið þó þau dæmi séu vissulega til. Mögulega er slík sögurakning hjálpleg í því að skilja hlutskipti í Úkraínu í dag.