Nýr formaður kosinn í BSRB.

23. október, 2018 RitstjórnÍ liðinni viku var 45. þing BSRB haldið á Hilton Nordica í Reykjavík. Þingfulltrúar voru 199 og var sjálft þingið fremur átakalítið, en þó ekki laust við fréttir. Mesta athygli vakti trúlega að Elín Björg Jónsdóttir hætti sem formaður bandalagsins og kosið var um nýjan formann. Tvö voru í framboði: Sonja Ýr Þorbergsdóttir, lögfræðingur BSRB, og Vésteinn Valgarðsson, aðaltrúnaðarmaður fyrir SFR á Landspítala. Sonja var kjörin með yfirburðum og óska Neistar henni velfarnaðar í því starfi.

Þótt formannskjörið veki athygli, er ekki minna vert um niðurstöður í stefnumótun bandalagsins. Þar ber hæst kröfu um að vinnuvika verði lögfest í 35 stundum en vinnutími vaktavinnufólks verði 80% af vinnutíma dagvinnufólks. Það er í takti við kröfugerðir sem farnar eru að koma frá stéttarfélögum vegna komandi kjarasamninga. Þá var samþykkt að krefjast þess að fæðingarorlof verði samanlagt 24 mánuðir og deilist jafnt á foreldra. Sú krafa er einnig komin fram hjá sumum stéttarfélögum. Vænta má að þessar kröfur verði til hliðsjónar þegar aðildarfélög BSRB fara að móta sínar kröfugerðir, en kjarasamningar þeirra flestra renna út næsta vor.