Ný-Straussistar og stríðið í Austur Evrópu

21. apríl, 2025

Ný-Straussismi er ekki hugtak í mikilli almennri notkun, þrátt fyrir að eiga tilkall í þann titil að vera sú hugmyndafræði sem hefur haft mest áhrif á heimspólitík síðustu áratuga, ekki síst eftir að hafa þróast í hið betur þekkta fyrirbæri, „Ný-íhaldshyggju“ (Neo-conservatism). Nýjasta dæmið um stóra heimsviðburði sem hægt er að rekja að hluta beint til Ný-Straussistahreyfingarinnar eru þær hörmungar sem ríkja nú í Austur Evrópu. Til að skilja betur þessi tengsl er nauðsynlegt að skoða sögu þessarar hreyfingar.

Ný-Straussismi á rætur sínar að rekja til kenninga þýsk-bandaríska stjórnspekingins Leo Strauss (1899–1973), sem kenndi lengst af við University of Chicago. Hann lagði í kennslu sinni áherslu á fornklassíska heimspeki, siðferðilega raunsæishyggju og duldar merkingar í textum (“esoteric writing”). Strauss gagnrýndi sósíalisma, frjálslyndi og rökhyggju fyrir að brjóta niður siðferðilegan grundvöll Vesturlanda og hélt því fram að stöðugleiki og dyggð krefðust leiðtoga sem skildu æðri sannindi sem almenningur væri ófær um að meðtaka. 

Leo Strauss. Mynd frá greinasafni Thierry Meissan.
Leo Strauss. Mynd frá greinasafni Thierry Meissan.

Þessi heimspekilega nálgun lagði hugmyndafræðilegan grunn að bandarískri ný-íhaldsstefnu sem varð til sem pólítísk hreyfing meðal fyrrum frjálslyndra akademíkera á sjöunda og áttunda áratugnum, einkum gyðingættaðra fræðimanna, sem snerust gegn bæði vinstristefnu sjöunda áratugarins og raunsæishefð í alþjóðasamskiptum. Aðdáendur Strauss, á borð við Paul Wolfowitz, Abram Shulsky, William Kristol og Allan Bloom, fléttuðu heimspeki hans saman við hernaðarhyggju og siðferðilega tvíhyggju þar sem Bandaríkin voru talin bera siðferðilega skyldu til að beita hernaðarmætti sínum til að breiða út lýðræði og vernda vestræna siðmenningu. Þetta leiddi til mótunar ný-íhaldsstefnunnar sem áhrifamikils arms í bandarískri stefnumótun, sérstaklega eftir lok kalda stríðsins, og varð grunnstoð í afskipta- og íhlutunarstefnu Bandaríkjanna um heim allan (Drury, 2005; Kristol, 1995; Dorrien, 2004).

Tengsl ný-Straussisma við síonisma eru einnig mikilvæg í þróun þessarar hugmyndafræði. Strauss sjálfur tók virkan þátt í þýsku síonistahreyfingunni á millistríðsárunum og sýndi Ísraelsríki síðar dyggan stuðning, sem margir lærisveinar hans tóku upp. Í ný-íhaldsstefnunni varð stuðningur við Ísrael að einni af meginstoðum hennar, með áherslu á hernaðarlegt samstarf, sameiginlega andstöðu við íslamska öfgastefnu og mótstöðu gegn „sameiginlegum óvinum“ vestrænnar siðmenningar. Þessi tenging við síonisma mótaði bæði utanríkis- og öryggisstefnu ný-íhaldsmanna, einkum eftir stofnun hugveitunnar „Project for the New American Century“, þar sem stefnt var að því að vernda og efla vestræna áhrifasvæði með öllum ráðum, þar á meðal í gegnum bandalagið við Ísrael (Drury, 2005; Mann, 2004).

Richard Perle, sem fékk viðurnefnið „the prince of darkness“, var meðal annars helsti kennismiður skýrslunnar „A clean brake: A new strategy for securing the Realm“ sem unnin var til að móta framtíðarstefnu Ísraels árið 1996. Í henni er m.a. hvatt til árása og stjórnarskipta í Írak og Sýrlandi, að eyða vinstriöflum úr síonistahreyfingunni, að losa sig við PLO og hefja enn árásargjarnari stefnu gagnvart Palestínumönnum þar sem áhersla væri á „pre-emptive“ árásir.
Richard Perle, sem fékk viðurnefnið „the prince of darkness“, var meðal annars helsti kennismiður skýrslunnar „A clean brake: A new strategy for securing the Realm“ sem unnin var til að móta framtíðarstefnu Ísraels árið 1996. Í henni er m.a. hvatt til árása og stjórnarskipta í Írak og Sýrlandi, að eyða vinstriöflum úr síonistahreyfingunni, að losa sig við PLO og hefja enn árásargjarnari stefnu gagnvart Palestínumönnum þar sem áhersla væri á „pre-emptive“ árásir.


„Svo legg ég til að Moskva verði lögð í eyði“

Andstaða við Sovétríkin, og síðar Rússland, var önnur af algjörum grundvallarforsendum ný-straussískrar hugmyndafræði. Í þeirra augum táknuðu Sovétríkin ekki aðeins hernaðarlega ógn heldur líka hugmyndafræðilega andstöðu við þá siðferðilegu tvíhyggju og „miskunnarlausa raunhyggju“ sem þeir vildu sjá ríkja í alþjóðamálum. Ný-íhaldsmenn álitu að takmarkalaus trú á fjölmenningu, frið, og gagnkvæma virðingu hefði veikburða áhrif gagnvart óvinaríkjum, sem þeir kölluðu ætíð alræðisríki á opinberum vettvangi. Þeir sáu því réttlætingu, jafnvel skyldu, til að nýta vald og blekkingar í þágu hærra markmiðs: að knésetja keppinauta Vesturlanda með öllum tiltækum ráðum. Þar varð hugmyndin um „endalok Sovétríkjanna“ ekki aðeins stefnumarkandi – heldur siðferðilega nauðsyn. Þessi afstaða hélt áfram eftir hrun Sovétríkjanna og þróaðist yfir í áleitna óvild í garð Rússlands, sem talið var endurspegla sama hættulega vaxandi áhrifasvæði og ógna yfirburðastöðu Bandaríkjanna (Halper & Clarke, 2004; Fukuyama, 2006). Í þessu stríði var áróður því ekki einungis samþykkt aðferðarfræði, heldur lykilatriði; siðferðisleg nauðsyn. Og þeir urðu ákaflega færir í þeim vísindum.


Áróður, lygar og fyrsta staðgengilsstríðið

Á áttunda áratugnum hófst tilraun ný-Straussista til að móta beint stefnu Bandaríkjanna með virkri aðkomu að innri öryggis- og utanríkismálum. Árið 1976 náði hópurinn stórum áfanga þegar honum tókst að sannfæra ríkisstjórn Carters um að hverfa frá „containment“-stefnunni gagnvart Sovétríkjunum og taka upp mun árásargjarnari nálgun. Paul Wolfowitz gegndi þar lykilhlutverki sem einn af drifkröftunum að stofnun svonefnds starfshóps „Team B“, sem lagði fram ýktar og jafnvel upplognar greiningar á hervæðingu og stefnumiðum Sovétmanna. Þessar greiningar höfðu djúpstæð áhrif á stefnu Bandaríkjanna og leiddu til þess að vaxandi áhersla var lögð á að knésetja Sovétríkin með hernaðarlegum og efnahagslegum þrýstingi. 

Á níunda áratugnum einkenndist utanríkisstefna Bandaríkjanna því af auknum fjárframlögum til hermála, stuðningi við andkommúníska hópa og stöðugum áróðri sem beindist ekki aðeins gegn kommúnisma heldur einnig gegn rússneskum áhrifum sem slíkum. Næsta stóra inngrip í anda ný-Straussískrar hugsunar kom árið 1979, þegar þjóðaröryggisráðgjafi Carters, Zbigniew Brzezinski, beitti sér fyrir því að bandaríska leyniþjónustan styddu uppreisnarhópa gegn vinstrisinnuðu stjórninni í Afganistan. Markmiðið var ekki aðeins að veikja svæðisbundið bandalagsríki Sovétríkjanna heldur beinlínis að lokka Sovétmenn sjálfa í gildru – að draga þá inn í langvinnt þreytistríð sem myndi tæta niður bæði hernaðarmátt þeirra og pólitíska samstöðu. Brzezinski viðurkenndi síðar þessa afstöðu opinskátt og kallaði hernaðaraðgerðina „moral trap“ í þágu stærri heimsmarkmiða. Innrás Sovétríkjanna í Afganistan varð til þess að ný-Straussísk nálgun, sem gekk út á vísvitandi óstöðugleika og niðurrif keppinauta með staðgengilsstríðum, festi sig í sessi sem virk og viðurkennd aðferð í stefnu Bandaríkjanna.

Brzezinski ásamt Osama bin Laden í Afganistan árið 1979. Brzezinski stærði sig síðar af því að hafa átt þátt í því að kynda undir átökin þar í landi og valdaráninu þar í þeim tilgangi að veikja Rússlandi. Í viðtali við Le Nouvel Observateur sagði hann meðal annars: „Við létum Rússa ekki ráðast inn, en við jukum viljandi líkurnar á því að þeir myndu gera það“.
Brzezinski ásamt Osama bin Laden í Afganistan árið 1979. Brzezinski stærði sig síðar af því að hafa átt þátt í því að kynda undir átökin þar í landi og valdaráninu þar í þeim tilgangi að veikja Rússlandi. Í viðtali við Le Nouvel Observateur sagði hann meðal annars: „Við létum Rússa ekki ráðast inn, en við jukum viljandi líkurnar á því að þeir myndu gera það“.

Áróðurssagan sem sett var fram, að um væri að ræða fullkomlega heimasprottinnar andspyrnu almennings, studda af alþýðunni, gegn dólgshætti og yfirgangi Sovétríkjanna, ómaði um heimsbyggðina. Sú saga varð ofan á í umræðu á Vesturlöndum.


Dauðasveitirnar

Í stjórnartíð Ronalds Reagans kom þessi aðferðafræði; að dæla fé, vopnum og sérfræðikennslu til öfgasveita til að ná heimspólitískum markmiðum, kom einnig skýrt fram í stefnu Elliot Abrams, eins áhrifamesta ný-íhaldsmanns í utanríkisráðuneytinu. Abrams beindi athygli sinni að Mið-Ameríku, þar sem hann stóð fyrir stuðningi við dauðasveitir í El Salvador og Nicaragua. Þessar sveitir voru notaðar til að berja niður vinstrisinnaða andspyrnu, verkalýðshreyfingar og stjórnmálaandstæðinga með grimmilegum hætti. Þótt opinber réttlæting væri barátta gegn kommúnisma, þjónuðu inngripin einnig stærra markmiði: að hindra útbreiðslu sjálfstæðra stefna á meginlandi Ameríku og tryggja pólitísk áhrif Bandaríkjanna á svæðinu.

Elliot Abrams spilaði lykilhlutverk í hinu ótrúlega Iran-Contra máli og var þá sérstaklega viðriðinn við hinar svokölluðu „dauðasveitir“; þ.e. hægri-öfgasveitir sem myrtu þúsundir almennra borgara með vopnum sem voru keypt í nafni „mannúðarstuðnings“ í stríði þeirra við verkalýðshreyfingu landsins. Hann hefur undanfarin ár beint spjótum sínum að Venesúela í þeim tilgangi að knésetja vinstristjórnina þar. Sjá nánar hér.
Elliot Abrams spilaði lykilhlutverk í hinu ótrúlega Iran-Contra máli og var þá sérstaklega viðriðinn við hinar svokölluðu „dauðasveitir“; þ.e. hægri-öfgasveitir sem myrtu þúsundir almennra borgara með vopnum sem voru keypt í nafni „mannúðarstuðnings“ í stríði þeirra við verkalýðshreyfingu landsins. Hann hefur undanfarin ár beint spjótum sínum að Venesúela í þeim tilgangi að knésetja vinstristjórnina þar. Sjá nánar hér.

Þessi stefna hélt áfram inn í tíunda áratuginn, þegar ný-Straussistar náðu fótfestu í öflugustu stofnunum bandaríska öryggiskerfisins, meðal annars í varnarmálaráðuneytinu í tíð George H. W. Bush. Þar vann hópurinn að mótun nýrrar varnarstefnu sem gekk út á að viðhalda alræðislegum yfirburðum Bandaríkjanna eftir lok kalda stríðsins. Skýrsla sem lak í fjölmiðla árið 1992 lagði til að Bandaríkin skyldu hindra uppgang hvers kyns samkeppnisaðila á heimsvísu – hvort sem það væru þjóðríki eða bandalög. Þetta var formfesting heimsveldisstefnu ný-Straussista.

Skýrslan sem lak í fjölmiðla 1992 hét „Defense planning guidelines for 1994-1999“ varð þekkt sem Wolfowitz-kennisetningin og gekk út á það meginmarkmið eftir fall Sovétríkjanna að hindra og fyrirbyggja tilkomu mögulegra hnattrænna keppinauta við Bandaríkin.


Júgóslavía og samband óháðra ríkja knésett

Í tíð Bill Clintons var þessi stefna svo áfram rekin í gegnum áhrif ný-íhaldsmanna innan lobbýhópa og ráðgjafanetverka. Paul Wolfowitz og aðrir áhrifamenn lögðu þar línurnar með því að hvetja til vopnasendinga og hernaðaraðstoðar til þjóðernissinna í Króatíu, Bosníu og síðar Kósóvó. Slík íhlutun var réttlætt með mannúðarsjónarmiðum, en undirliggjandi markmið var að grafa undan ríkjum sem voru hluti af hreyfingu óháðra ríkja (Non-Aligned Movement) og viðhalda þeirri stefnu að útiloka hvers kyns sósíalíska eða sjálfstæða þróun í ríkjum sem áður höfðu tilheyrt áhrifasvæði Sovétríkjanna. Sérstaklega var lögð áhersla á að veikja Júgóslavíu, sem hafði rekið sjálfstæða og frjálslynda sósíalíska stefnu utan valdsviðs bæði Moskvu og Washington. Með því að stuðla að upplausn Júgóslavíu og styðja öfgafulla þjóðernishópa var lagður grundvöllur að niðurrifi síðustu sjálfstæðu bandalagsríkjanna í Evrópu utan NATO og ESB.


Ný öld Bandaríkjanna: Þúsundáraríkið í Vestri

Meðal öflugustu Ný-Straussistanna var Robert Kagan og seinna eiginkona hans, Victoria Nuland. Kagan og William Kristol skrifuðu grein í tímaritið Foreign Affairs þar sem þeir hvöttu til þess að koma á fót „góðu“ bandarísku hnattrænu yfirvaldi (hegemony) og ári síðar söfnuðust Straussistarnir saman og létu kné fylgja kviði. Úr urðu samtökin Project for a New American Century

Aðalhöfundur 90 bls. yfirlýsingar hópsins, Rebuilding America’s defenses: Strategies, forces, and resources for a new century árið 2000 var Paul Wolfowitz, en einnig komu þar við sögu nöfn á borð við Richard Cheney, Gary Schmitt og Abram Shulsky. Aðalefni skýrslunnar voru meint nauðsyn þess að tryggja ekki einungis yfirburði Bandaríkjanna í heimsmálum, heldur einnig að koma í veg fyrir að önnur öfl gætu á nokkurn hátt ógnað þessum ofuryfirburðum heimsveldisins. Með endalokum kalda stríðsins og Varsjárbandalagsins, sem ætíð hafði verið notað til að réttlæta umsvif Atlantshafsbandalagsins, hafði heimsbyggðin eflaust vonast til þess að heimurinn yrði friðsælli; en þessi hópur hafði önnur áform. Þetta var gullið tækifæri til að stíga á bensíngjöfina. Koma ætti á nýrri, varanlegri heimsskipan í krafti yfirburða á sviði hernaðarmála. Og þar dygðu engin vettlingatök. Nauðsynlegt væri meðal annars að hræða landsmenn með því sem þeir kölluðu „Nýja Pearl Harbour“. Slíkan atburð fengu þeir einmitt þann 11. september 2001. Hópurinn greip tækifærið og var leiðandi í því sem kallað var „stríðið gegn hryðjuverkum“. Þetta stríð hefur nú kostað milljónir mannslífa og eyðilagt allt sem kalla má stöðugleika í vöggu siðmenningarinnar.


„Óhefðbundið“ stríð gegn Rússlandi og Kína og lokaárásin á Samtök óháðra ríkja

Augljóst var að Rússland og Kína voru tekin innan sviga sem helstu ógnir við þessi áform um varanleg heimsyfirráð bandaríska heimsveldisins. En stefnan var ekki enn sú að ráðast beint á þau. Þess í stað skyldi ráðist á minni bandalagsríki þeirra. Þau ríki sem stunduðu mikilvæg viðskipti við þau, og sýndu ummerki um sjálfstæða utanríkisstefnu hvað Bandaríkin varðaði voru í hættu. Leppríki Bandaríkjanna í NATO myndu svo spila lykilhlutverk, auk staðgengilsstríðs. Í brýnustu neyð yrði Bandaríkjaher og stríðsvélar hans virkjaðar til að berja niður andspyrnuna.

Frá 1998 til 2001 var helsta skotmark þessarar nýju stefnu leifarnar af því sem áður var tilraun til að safna saman ólíkum þjóðarbrotum undir nafni frjálslynds kommúnisma: Júgóslavíu. Reyndar hafði efnahagsstríð gegn Júgóslavíu og stuðningur við öll þau öfl sem vildu liða hana í sundur varað í um áratug þegar þarna var komið. Ríkisstjórn Georges Bush eldri, með James Baker III í forystuhlutverki, hafði sett sem skilyrði fyrir góðum lánakjörum við Bandaríkin og IMF að hvert hinna sex lýðvelda sem myndaði Júgóslavíu yrði að kjósa um sjálfstæði. Gömul sár voru rifin upp og með hjálp þjóðernishyggju, efnahagsþvingana, vopna- og fjáraustri til valinna hópa og svo and-kommúnískum og svo and-serbneskum áróðri. 

Strax í kjölfar þess að Júgóslavía hafði algerlega liðast í sundur beindi hópurinn svo spjótum sínum að Evrasíu. Innrásin í Afganistan árið 2002 og svo í Írak árið 2003 voru byrjunin á hernaðarorgíu sem bar heitið „stríðið gegn hryðjuverkum“. Milljónir mannslífa voru eyðilögð í þessu stríði og helstu arkítektarnir af þeim hildarleik voru eins og fyrr þessir ný-Straussistar. En þeir voru bara rétt að byrja. Það hefði því átt að kveikja á viðvörunarbjöllum þegar sömu aðilar sáust grafast í innanríkismálum Úkraínu. 


Saga afskipta Bandaríkjamanna af málefnum Úkraínu er löng

Þann 28. Nóvember 2016 kom bókin The CIA as Organized Crime: How Illegal Operations Corrupt America and the World eftir Douglas Valentine. Þetta var þriðja bók Valentines um séraðgerðir CIA á heimsvísu, en bækurnar vann hann úr skjölum Leyniþjónustunnar sjálfrar og viðtölum við leyniþjónustumenn sem þáverandi yfirmaður leyniþjónustunnar, William Colby, hafði áður gefið honum leyfi fyrir. Þetta varð til þess að Valentine ljóstraði meðal annars upp um hið svokallaða Phoenix Program, umfangsmikið verkefni í Víetnamstríðinu þar sem notast var við pyntingar, aftökur án dóms og laga, ólöglegar handtökur, njósnir og aðrar ógeðfelldar aðgerðir sem réttlættar voru með því að þær myndu veikja Viet Cong.

Svipaðar aðferðir voru notaðar gegn Sovétríkjunum, og þá sérstaklega í Úkraínu. Strax eftir seinni heimsstyrjöld hóf CIA að vinna með fyrrverandi nasistasérfræðingum, eins og Reinhard Gehlen – fyrrverandi yfirmanni leyniþjónustu Þriðja ríkisins á austursvæðinu – sem fékk það hlutverk að skipuleggja andspyrnu gegn Sovétríkjunum í samstarfi við úkraínsk öfgasamtök. Þar nutu þeir aðstoðar Samtaka úkraínskra þjóðernissinna (OUN), stofnaðra árið 1929, sem höfðu meðal annars tekið þátt í útrýmingarherferðum nasista gegn gyðingum, kommúnistum og öðrum „óæskilegum“ hópum á hernámsárunum. Leiðtogi þeirra, Stepan Bandera, nýtur enn virðingar meðal margra úkraínskra þjóðernissinna í dag, og er nafn hans notað af svo kölluðum Banderistum.

Meira en 250.000 Úkraínumenn börðust með herdeildum Þriðja ríkisins í seinni heimsstyrjöld, og margar af þeim vígasveitum sem starfa í dag í Úkraínu eiga rætur að rekja til þessara samtaka. Á tímum kalda stríðsins hélt CIA áfram að veita þessum öflum stuðning á laun með það að markmiði að grafa undan stjórn Sovétríkjanna og undirbúa jarðveg fyrir framtíðarandspyrnu.

Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur hélt þessi stefna áfram – nú með Rússland, Belarús og Úkraínu í sigti. Samkvæmt Valentine beindist starf CIA nú að því að styðja áhrifamenn í Úkraínu sem væru hliðhollir stefnu Bandaríkjanna og NATO, og styrkja pólitísk samtök og fjölmiðla sem mótuðu almenningsálit í þá veru. Hann heldur því fram að stjórnarskiptin í Úkraínu árið 2014 hafi verið ávöxtur áratugalangs undirróðurs. Þeir sem tóku þátt í byltingunni höfðu margir hlotið þjálfun og fjármagn frá vestrænum ríkjum, meðal annars gegnum leyniþjónustuna og stofnunum eins og National Endowment for Democracy (NED).

Valentine lýsir því jafnframt að eftir 2014 hafi nýir valdhafar í Kænugarði tekið upp aðferðir sem minntu meira á mafíu en lýðræðisstjórn: stjórnmálaandstæðingum hafi verið bolað burt, fyrirtæki sem tengdust Rússum teknar yfir, fjölmiðlar þaggaðir niður og ógnarstjórn viðhöfð gegn óþægum gagnrýnendum. Hann bendir á að fjölmargir bandarískir aðilar, þar á meðal fjölskylda Joe Biden, hafi fjárfest grimmt í úkraínskum fyrirtækjum eftir byltinguna og tekið þátt í endurdreifingu eigna sem áður voru undir stjórn miðlægra stjórnvalda eða bandalagsríkja.


National Endowment for Democracy (NED) í Úkraínu:

Frá því Úkraína fékk sjálfstæði árið 1991 hefur National Endowment for Democracy (NED) haft mikil áhrif á pólitískt landslag Úkraínu, sérstaklega í gegnum fjármögnun og stuðning við ýmis félagssamtök, fjölmiðlastofnanir og stjórnmálahreyfingar. Árið 2004 átti NED t.d. þátt í að styðja við stjórnarandstöðuflokka og valda fjölmiðla á tímum appelsínubyltingarinnar, sem endaði með því að Viktor Janúkóvitsj, forseta, var steypt af stóli. NED hélt áfram að vera virkt á meðan á Euromaidan mótmælunum stóð árið 2014, sem einnig leiddu til brottvísunar Janúkóvitsjs. Hlutverk NED í þessum atburðum hefur vakið deilur, þar sem sumir líta á það sem mikilvægan stuðning við lýðræðishreyfingar, en aðrir sem tæki í utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Undanfarin ár hefur NED verið gagnrýnt fyrir skort á gegnsæi, sérstaklega varðandi fjármögnun verkefna í Úkraínu. Sérstaklega vakti athygli þegar í ljós kom að NED hafði fjarlægt upplýsingar um fjárstyrki til Úkraínu á árunum 2014 til 2022, sem leiddi til tortryggni um eðli þátttöku þeirra í landinu. Þetta hefur valdið áhyggjum um að NED reyndi að leyna stuðningi sínum við ákveðna þjóðernishópa og að grafa undan öðrum í Úkraínu.

Carl Gershman, formaður National Endowment for Democracy (NED) frá 1983 til 2021 skrifaði grein árið 2013 þar sem hann kallaði Úkraínu „the biggest prize“ þegar kom að því að knésetja áhrifamátt Rússlands. Undir hans forystu sendi NED í það minnsta 5 milljarða Bandaríkjadala í „stuðning við lýðræðisöfl“, sem leiddu Maidan-stjórnarskiptin árið 2014.


Ný-Straussistar áttu lykilþátt í valdaráninu 2014

Árið 2014 náði þessi stefna nýju hámarki með Maidan-uppreisninni í Úkraínu, þar sem meðal annarra Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra, og John McCain, öldungadeildarþingmaður, tóku þátt í að leggja grunninn að nýrri stjórn í Kiev, sem byggði á öfgafullum þjóðernissinnuðum hópum eins og Svoboda og Pravi Sektor. Þeir Úkraínumenn sem mótmæltu að kosinni stjórn var vikið burt voru málaðir sem handbendi Rússa í samstilltri áróðursherferð. Samhliða stóðu Bandaríkin fyrir fjármagns- og vopnaflutningum til Úkraínu, með það að markmiði að koma Rússlandi í langt, dýrt og blóðugt stríð—aðferðafræði sem minnir á þá sem ný-Straussistar beittu gegn Sovétríkjunum í Afganistan; Brzezinski-kennisetningunni.

Þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, átti fundi með stjórnarandstöðunni í Úkraínu í janúarmánuði 2014. Yfirlýstur tilgangur fundarins var að ná ró í landinu, endurræsa hið pólitíska ferli landsins og vinna að áætlunum um myndun nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Raunverulegur tilgangur var að taka þátt í valdaráni. Kerry var ekki einn. Á meðan Maidan-uppreisninni stóð mætti sjálfur John McCain, öldungadeildarþingmaður, til Kiev til að halda ræðu fyrir mótmælendur og stappa í þá stálinu. Hann átti einnig kvöldverði með stjórnarmönnum í þjóðernissinnaflokknum Svoboda og ráðlagði um næstu skref. 

Victoria Nuland, sem þá var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir Evrópu minni lýsti, strax í desember 2013, því yfir á fundi með samvinnustofnun Úkraínu og Bandaríkjanna að hún hefði ferðast til Úkraínu í þrígang frá því að mótmælin hófust til þess að styðja baráttuna gegn þáverandi stjórnvöldum í Úkraínu. Árið 2014 birtust svo upptökur af símtali sem Nuland átti við þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, Geoffrey Pyatt, á meðan Maidan mótmælunum stóð. Þar ræddu þau fjálglega um það hvaða aðilar væru bestir til að taka við stjórnartaumunum eftir að byltingunni lyki. Þau voru þar sammála um að rétti maðurinn innanlands væri Arseniy Yatsenuyk. Hann varð einmitt forsætisráðherra á milli 2014 til 2016. Á meðan samtali Nulands og Pyatt stóð var samt Yanukovych enn réttkjörinn og löglegur forseti landsins (Carpenter, 2017). Nuland og Pyatt fóru mjög vandlega í saumanna og ræddu um að Joe Biden, þá varaforseti Bandaríkjanna, væri rétti maðurinn til að stýra alþjóðaþætti byltingarinnar, enda vanur maður í stjórnarskiptaaðgerðum. Þegar tal barst að aðkomu Evrópusambandsins lét Nuland út úr sér hin fleygu orð: „Fuck the EU“. 

Victoria Nuland og John Kerry leggja úkraínskum stjórnmálamönnum línurnar á ráðstefnu í Munchen 1. febrúar 2014. Maidan-mótmælin voru þá í hámæli. Mynd, Wikimedia.
Victoria Nuland og John Kerry leggja úkraínskum stjórnmálamönnum línurnar á ráðstefnu í Munchen 1. febrúar 2014. Maidan-mótmælin voru þá í hámæli. Mynd, Wikimedia.


Staðgenglastríð í öndvegi

Strax í kjölfar Maidan byltingarinnar hélt sjálfur Zbigniev Brzesinski, þjóðaröryggisráðgjafi í stjórnartíðum Carters og Obama, erindi í “Woodrow Wilson Center for Scholars” í Washington DC., einni öflugustu hugveitu heims. Í erindinu hvatti Brzesinski bandarísk stjórnvöld að færa nýjum stjórnvöldum í Kiev vopn sem væru sérstaklega hönnuð fyrir andspyrnustríð í borgum. Ögra ætti Rússlandi að ráðast inn í Úkraínu og koma því í langt, dýrt og blóðugt stríð sem myndi veikja Rússland (Brzezinski, 2014). Þessi stefna varð að raun.

Þann 18. Júní 2019 tilkynnti bandaríska Varnarmálaráðuneytið að það hygðist gefa 250 milljónir Bandaríkjadala til kaupa á hergögnum fyrir úkraínsk stjórnvöld. Samtals hafði Varnarmálaráðuneytið þá gefið Úkraínu 1,5 milljarða Bandaríkjadala til að halda styrjöldinni gegn íbúum austur-Úkraínu gangandi (Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, 2019). Sú tala átti eftir að margfaldast.

Afskipti Bandaríkjanna af Úkraínu – bæði leynileg og opinber – eru hluti af þessari sögu. Þau voru ekki óvænt viðbragð við innrás, heldur áratugalöng viðleitni til að endurmóta yfirráðasvæði fyrrum Sovétríkja – og grafa undan Rússlandi með öllum tiltækum ráðum.


Kallað eftir því að Rússland liðist í sundur

Það hefur oft verið afgreitt sem samsæriskennd vænisýki þegar Rússar halda því fram að Vesturlönd hafi í hyggju að grafa undan fullveldi og landamærum Rússlands. Hins vegar hefur slíkt markmið ítrekað verið sett fram opinberlega af áhrifamiklum stefnumótendum í Bandaríkjunum, þar á meðal Zbigniew Brzezinski, sem lagði áratugum saman áherslu á að veikja Rússland með því að styðja sjálfstæðishreyfingar innan þess. Á síðustu árum hefur þessi stefna tekið á sig enn skýrari mynd: samtök og hreyfingar hafa beinlínis verið stofnuð með það yfirlýsta markmið að Rússland liðist í sundur í fjölda smáríkja.

Straussistar í Project for a New American Century áttu stóran þátt í að móta þá umræðu sem skapast hefur í kringum Úkraínustríðið. Robert Kagan (til vinstri), eiginmaður Victoriu Nuland, var leiðandi í að kalla átökin stríð milli frjálslyndra vestrænna gilda og rússnesk harðræðis; Eliot Cohen (fyrir miðju), hóf strax árið 2014 að breiða út þá skoðun að besta leiðin til að tryggja friðinn væri ef Úkraína sigraði Rússland í hernaði; og Max Boot hefur talað fyrir réttinum til þess að tengjast Atlantshafsbandalaginu og ESB sem grundvallarrétt.
Straussistar í Project for a New American Century áttu stóran þátt í að móta þá umræðu sem skapast hefur í kringum Úkraínustríðið. Robert Kagan (til vinstri), eiginmaður Victoriu Nuland, var leiðandi í að kalla átökin stríð milli frjálslyndra vestrænna gilda og rússnesk harðræðis; Eliot Cohen (fyrir miðju), hóf strax árið 2014 að breiða út þá skoðun að besta leiðin til að tryggja friðinn væri ef Úkraína sigraði Rússland í hernaði; og Max Boot hefur talað fyrir réttinum til þess að tengjast Atlantshafsbandalaginu og ESB sem grundvallarrétt.

Ein áhrifamesta af þessum nýju hreyfingum er Free Nations of Post-Russia Forum, sem hélt sína fyrstu ráðstefnu í Varsjá í maí 2022. Þar komu saman aðskilnaðarsinnar, álitsgjafar og stjórnmálamenn sem allir höfðu það meginmarkmið að hvetja til upplausnar Rússlands. Meðal áhrifamestu þátttakenda var Doku Umarov, sjálfskipaður Emír Téténíu, sem lengi hefur barist fyrir að koma á Sharía-lögum í lýðveldinu og hefur verið tengdur vígasveitum og hryðjuverkum. Í forystu fyrir hreyfinguna er einnig Dmytro Yarosh, sem jafnframt gegnir stöðu sem ráðgjafi hers Úkraínu. Yfirlýsingar þessara aðila benda ótvírætt til þess að í gangi séu alvarlegar tilraunir til að búa til pólitískan grundvöll fyrir formlega uppskiptingu Rússlands.

Þann 23. júlí 2022 gáfu tengd samtök út opinbera yfirlýsingu þar sem skorað var á öll 22 lýðveldi innan Rússlands að lýsa yfir sjálfstæði. Yfirlýsingin var kynnt í kjölfar ráðstefnu í Prag og bar með sér stuðning frá fjölmörgum áhrifamönnum á vestanverðum Balkanskaga og í austur-Evrópu. Slík þróun væri fordæmalaus og gæti leitt til gífurlegs ofbeldis og óstöðugleika – í versta fall borgarastríðs sem spannaði ógnvænlega víðfeðmt svæði.

Þegar vestrænir fjölmiðlar og stjórnvöld gera lítið úr þessum fyrirætlunum, er það ekki aðeins til marks um hræsni – heldur líka um vilja til að afneita eigin stefnumörkun. Hugmyndin um að ef aðskilnaður Krímskaga, Donetsk og Luhansk réttlæti átök, þá sé bútað Rússland framtíðarsýn friðar, er í besta falli órökstudd; í versta falli kaldhæðnisleg. Það sem fram fer hér er hvorki tilfallandi né ósýnilegt. Þetta eru meðvituð, samhæfð og sífellt sýnilegri áform um að umbylta valdajafnvægi heimsins – jafnvel þótt það kosti milljónir mannslífa.

Mynd: Áform samtakanna „Free Nations of Russia“ um skipan eftir að Rússland liðaðist í sundur. Mynd fengin frá Repulica.it.


Undirróður Ný-Straussista skiptir máli

Hið svokallaða „óhefðbundna“ stríð gegn Rússlandi, sem byggir á staðgenglum, efnahagsþvingunum og kerfisbundnum afskiptum af innanríkismálum, er ekki ný stefna. Hún á djúpar rætur í hugmyndafræði Leo Strauss og fylgjenda hans, sem vildu tryggja varanleg heimsyfirráð Bandaríkjanna og útrýma öllum hugsanlegum keppinautum. Í kjölfar 11. september 2001 voru ný-Straussistarnir í fararbroddi með „stríðið gegn hryðjuverkum“, sem gerði þeim kleift að framkvæma valdbeitingu án mikillar andstöðu heima fyrir eða á alþjóðavettvangi.

Aðferðir þeirra hafa haldist þær sömu: að skapa óstöðugleika, styðja öfgasinnaða hópa, grafa undan samkeppnisríkjum og nýta öll tæki – hernaðarleg, efnahagsleg og upplýsinga – í þágu vestrænna yfirburða. Úkraína er eitt nýjasta og skýrasta dæmið um þetta, en þróunin þar er ekki einangruð. Hún tengist viðbrögðum gegn óhlýðni Júgóslavíu, Írak, Líbíu, Sýrlands og Írans – og nú Rússlands og Kína.

Frá Balkanskaga til Donbass, frá Bagdad til Téténíu, er stefnan sú sama: stöðug átök, valdaskipti og enduruppbygging í krafti vopna og valds. Bandalag ný-Straussista og bandarískra stríðshauka hefur skapað heim þar sem vopnuð átök og undirokun eru kynnt sem mannúðarverk – og hver sá sem spyr spurninga er sakaður um að vera leppur keppinautanna.

Það er því ekki nóg að skoða ytri birtingarmyndir. Til að skilja samtímann verður að rýna í þá hugmyndafræði sem knýr verkin áfram. Ný-Straussismi er ekki aðeins heimspeki eða stefna – heldur virk, árásargjörn heimsvaldastefna, sem með hjálp öflugs netkerfis stjórnmálamanna, leyniþjónustu og hugveitna leitast við að endursmíða heiminn í eigin mynd. Og Úkraína er ekki síðasta stopp á þeirri vegferð.

Heimildir

Brzezinski, Z. 2014. The Ukraine Problem: Confronting Russian Chauvinism. The American Interest (27.06.2014). Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.the-american-interest.com/2014/06/27/confronting-russian-chauvinism/

Carpenter, T. G. 2017. America’s Ukraine Hypocrisy. Cato institute. https://www.cato.org/commentary/americas-ukraine-hypocrisy

Shapovalova, N. 2010. Assessing democracy assistance: Ukraine. FRIDE, project report. Sótt þann 03.01.2022 frá https://www.files.ethz.ch/isn/130779/IP_WMD_Ucrania_ENG_jul10.pdf

USAID. 2019. USAID Enterprise Fund Continues To Generate Growth. Sótt frá https://www.usaid.gov/europe-and-eurasia/newsletter/feb-2019/usaid-enterprise-fund-continues-generate-growth-wnisef

USAID. 2022. Where we work: Ukraine. Sótt 27.01.2022 frá https://www.usaid.gov/ukraine

Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (Department of Defense). 2019 (18. Júní). DoD Announces $250M to Ukraine. Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.defense.gov/News/Releases/Release/Article/1879340/dod-announces-250m-to-ukraine/

Valentine, D. 2016. The CIA as Organized Crime: How Illegal Operations Corrupt America and the World. Skyboat Media. Heimildir og nánari útskýringar á þessu má finna í bók Valentines, en ítarlegt viðtal við Valentine um bókina má nálgast á Youtube á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=vHpxdagNjwg