Nord Stream sprengjur og framtíð Evrópu

3. október 2022 — Jón Karl Stefánsson

Unnið að gaspípu

Fyrsti aðalritari Atlantshafsbandalagsins, Hastings Ismay, sagði eitt sinn „tilgangur NATO er að halda Rússlandi frá, Þýskalandi niðri og Bandaríkjunum inni“. Sprengingarnar við strendur Borgundarhólms munu þjóna þeim tilgangi mjög vel. Tekist hefur að etja Úkraínumönnum og Rússum saman, hleypa Evrópu með í stórhættulega stöðu og jafnvel friðarsinnar líta á það sem bestu hugmyndina að dæla vopnum í þau átök í stað þess að reyna að stilla til friðar. Er ekki kominn til þess að spyrja, qui bono?

Nord Stream 2 er risastór gasleiðsla milli Rússlands og Þýskalands og framhald af gasleiðslunni Nord Stream 1, sem hefur fært Evrópu ódýrt gas úr austri, en hefur legið ónotuð mánuðum saman vegna viðskiptaþvingana Evrópusambandsins gegn Rússlandi. Bæði ríkin, Þýskaland og Rússland, græða augljóslega á þessari framkvæmd, enda fá Þjóðverjar aðgang að ódýru náttúrugasi og Rússum tekst að skapa sér aukinn gjaldeyri. Þetta er gríðarlega umfangsmikil fjárfesting. Bygging þessarar 1234 kílómetra löngu leiðslu hefur staðið frá því árið 2011. Fjármögnun hefur að mestu komið frá rússneska olíufyrirtækinu Gazprom og svo evrópskum orkufyrirtækjum. Fyrir Rússa og Þjóðverja er þetta fjárfesting sem getur skilað báðum aðilum miklum gróða til lengri tíma.

Þetta verkefni hefur aldrei verið í þökk Bandaríkjanna. Það mun styrkja efnahagstengsl og efnahagsstöðu ekki bara erkifjendanna, Rússa, heldur einnig samkeppnisaðila Bandaríkjanna, Þýskalands og, í stærra samhengi, Evrópusambandsins. Þetta mun einnig minnka sölu Bandaríkjamanna sjálfra á gasi til Evrópu. Þeir verða því bæði af umtalsverðum tekjum af þessu verkefni og lenda í veikari samkeppnisstöðu gagnvart Evrópusambandinu og Rússlandi.

Það þarf því ekki að undra of mikið að bandarískir stjórnmálamenn hafa verið opinberlega hlynntir því að binda endi á þetta verkefni. Aðstoðarinnanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrum Aðstoðarráðherra málefna Evrópu- og Evrasíu fyrir Bandaríkin, Victoria „fuck the EU“ Nuland, lýsti því yfir á blaðamannafundi þann 27. janúar á þessu ári: „Varðandi Nordstream 2. Við höldum áfram að eiga sterk og skýr samskipti við bandamenn okkar í Þýskalandi og ég vil segja ykkur eitt mjög skýrt. Ef Rússland gerir innrás í Úkraínu á einn eða annan hátt, mun Nordstream 2 ekki verða að veruleika“. Þann sjöunda febrúar tók svo Joe Biden forseti í sama streng og sagði: „Ef Rússland gerir innrás … þá verður ekki lengur neinn Nordstream 2. Við munum binda endi á það.“ Fréttamaður spurði hann í kjölfarið, „en hvernig ætlið þið að gera það, nákvæmlega, þar sem stjórn yfir verkefninu er innan lögsögu Þýskalands?“ Biden svaraði: „Við munum… ég lofa því að okkur tekst að gera það“ (Sjá hér).

Nú í vikunni uppgötvuðu svo sænskir jarðfræðingar að Nord Stream 2, og einnig Nord Stream 1, leiðslan hefði verið sprengd á þremur til fjórum stöðum. Að sögn the Guardian áætluðu Þjóðverjar sem rannsökuðu að sprengingarnar sem ollu þessu hefðu verið af styrkleika sem samsvarar um 500 kílógrömmum af TNT. Þær voru á um 60 metra dýpi rétt undan ströndum Borgundarhólms. Þetta er á svæði þar sem Bandarísk orrustuskip eru með töluverða starfsemi og hafa verið með æfingar á fjarstýrðum kafbátum, mitt inni í vötnum NATO. Þegar fréttir bárust af þessum atburði tísti fyrrum erindreki Póllands, Radosław Sikorski, í Evrópuráðinu einföldum skilaboðum: „Thank you, USA!“. Rússahatur hefur verið landlægt í Póllandi í árhundruð og pólsk stjórnvöld hafa verið mjög hörð á því að koma NATO enn meira en þeir eru þegar í átökin í Donbass, svo tístið þarf ekki að koma á óvart.

Tvær flugur í einu höggi

Rússland mun missa miklar framtíðartekjur ef Nord Stream 2 verður ekki að veruleika. Þýskaland mun þurfa að greiða mun hærra verð fyrir gas frá Bandaríkjunum. Efnahagur Þýskalands er þegar orðinn hættulega þaninn og nánast öruggt er að Þjóðverjum á eftir að verða kalt í vetur. Þetta er einungis nýjasta áfallið á efnahag Evrópu í heild sinni og útlit er fyrir kreppu sem á sér varla hliðstæðu. Bandaríkin munu hins vegar hagnast á þessu öllu saman. Þegar bæði Rússland og önnur Evrópuríki veikjast æ meira, styrkist staða Bandaríkjanna sem eina raunverulega risaveldi heimsins. Þau munu græða á tá og fingri á þessu, eins og bandarísk vopnafyrirtæki gera á styrjöldinni í Úkraínu. Við skemmdarverkið missa Rússar líka megintæki sitt til að pressa á evrópsk stjórnvöld. Flutningur milli leiðslanna frá Rússlandi til Þýskalands, en útlit var fyrir að um leið og friður kæmist á myndi starfsemin hefjast á ný (sjá hér).

Hvaða niðurstöðu draga svo vestrænir fjölmiðlar af þessu öllu saman? Jú, þetta voru augljóslega Rússar sjálfir sem sprengdu gasleiðslu sína. Af hverju þeir skrúfuðu ekki bara fyrir sinn enda á leiðslunni fylgir ekki sögunni, en þetta voru nú samt Rússar, það hlýtur að vera. Svona er komið fyrir fjölmiðlum.

Ef þessari vitleysu er ekki haldið beint fram, þá er einfaldlega ekki rætt um þetta. Evrópskir stjórnmálamenn geta ekki verið svona grænir allir saman. Þeir vita vel að Bandaríkin stóðu á bakvið þessa árás, en segja ekki neitt; og það er ógnvekjandi. Evrópumenn eru orðnir svo miklir skósveinar Bandaríkjanna að stjórnmálaleiðtogar þeirra eru tilbúnir að fórna efnahag sínum og lífi og heilsu eigin borgara til að fullnægja heimsvaldaþörf í Bandaríkjunum. Jafnvel þegar komin er raunveruleg hætta á nýju kjarnorkuslysi, ef ekki beinlínis kjarnorkustyrjöld í Evrópu.

Niður með friðinn!

Deilan í Úkraínu hefði getað endað árið 2014 við hina svokölluðu Minsk samninga. Þeir snerust um takmarkaða sjálfstjórn þeirra héraða í Úkraínu sem voru að mestu mótfallin Euromaidan-byltingunni (og þetta er umtalsverður hluti Úkraínumanna, um helmingur landsmanna) og óttuðust að þjóðernishiti nýrra valdhafa myndi bitna á þeim. En Bandaríkjamenn, Bretar, og harðlínuþjóðernissinnar í Úkraínu komu í veg fyrir þá samninga. Annað tækifæri kom árið 2015 þegar Minsk 2 samningarnir voru lagðir á borðið. Þeir voru við það að vera greyptir í stein þegar Bandaríkjamenn mönuðu úkraínska harðlínumenn (eins og þessa) að brjóta þá samninga. Nú síðast í apríl voru úkraínsk og rússnesk stjórnvöld við það að ná raunverulegum friðarsamningum. Þetta eyðilögðu vesturlönd, með Boris Johnson fremstan í fylkingu þessar friðarviðræður Úkraínumanna og Rússa. Þess í stað á að halda áfram í sömu leið: Dæla óteljandi milljörðum Evra í stríðið, dæla vopnum á eldinn svo að eyðileggingin og dauðinn verði nú örugglega eins mikill og mögulegt er. Stríðið skal vara lengi. Rússland, og Úkraína með, skulu blæða í nafni…?

Bæði úkraínskir og rússneskir harðlínumenn hafa alltaf haft margt til síns máls. Úkraínskir vilja rífa tengsl við Rússland og bindast Vestrinu sterkari böndum. Rússar, eftir nærri stanslaust hættuástand frá dögum Napóleóns, eftir dauða tuga milljóna í borgarastyrjöldum á þriðja áratugnum, seinni heimsstyrjöld og hótunum Churchills í kjölfarið um tortímingu Moskvu, og svo gegndarlausar hótanir í Kalda stríðinu eru raunverulega hræddir við að NATO sé einungis nýjasta tilraunin til að binda endi á Rússland og breyta landinu í þræla- og náttúruauðlindakistu fyrir Vesturlönd. Úkraínumenn í Donbasshéruðunum sem hafa legið undir sprengjuregni Úkraínuhers síðan 2014 eru ekki hlynntir öflunum sem hreiðrað hafa um sig í Kænugarði og hafa stundað hernað gegn þeim látlaust í átta ár. Ef við eigum að skipta okkur nokkurn skapaðan hlut af þessu, þá á það að vera með því að hlusta á alla deiluaðila og gera það sem við getum til að stilla til friðar; ekki að öskra herslagorð.

Það ætti að vera hverjum manni augljóst að frá upphafi hefur það verið öllum í Evrópu, bæði í Úkraínu, Rússlandi og svo öðrum Evrópuríkjum fyrir bestu, að þessar fyrrum systkinaþjóðir næðu sáttum og friði. Blóðsúthellingarnar og eyðileggingin þurfti aldrei að eiga sér stað. Það er enginn fallegur endi á þeirri sögu sem verið er að ýta fram.

Er Evrópa orðin vitfirrt?

Eyðilegging Úkraínu og Rússlands í þágu Bandaríkjanna er eitt. Það væri næstum því hægt að skilja framferði Íslands og annarra Evrópulanda, sem hafa ekki gert neitt til að stilla til friðar í þessu máli heldur blása í lúðra stríðs sem frændur okkar í austri þurfa að heyja í raunveruleikanum. En tvennt er erfiðara að skilja. Hið fyrra er stórfurðulegt framferði meintra „friðarsinna“, bæði hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum. Frá dögum Íraksstríðsins 2003 hefur vissulega orðið stöðug hningun á þeim vettvangi, þar sem friðarhreyfingar eru tvístígandi um styrjaldir heimsvaldastefnunnar gegn svokölluðum „Þriðja-heims“ ríkjum á borð við Líbíu, Sýrland, Malí, Venesúela og Jemen. En þegar nú er komið til sögunnar er friðarhreyfingin, líka hin íslenska, segir ekki orð. Orðræða Vestrænna leyniþjónusta og harðlínu þjóðernissinna í Mið- og Austur-Evrópu eru tekin gagnrýnislaust, orð frá orði.

Hitt sem er erfitt að skilja er að Evrópumenn séu nú upp til hópa tilbúnir að steypa efnahag eigin ríkja í ofboðslega kreppu, einungis til að fylgja brjálaðri utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Staðan er nú svo slæm, og útlið svo dökkt, að möguleiki er á raunverulegum endalokum Evrópu sem stórveldis á heimsvísu. Fátækt gætir orðið mikil og viðvarandi. Fyrir hvað? Er þetta til marks um gjörsigur áróðursmaskínu heimsvaldasinna í Bandaríkjunum, er þetta einföld heimska, eða er þetta afleiðing heigulsháttar? Hvert svo sem svarið er, þá er allt útlit fyrir það að Evrópa sé að grafa sína eigin gröf. Hún hefur látið hafa sig að fífli.