NATO og hreyfiöfl Úkraínustríðsins

21. mars, 2023 Þórarinn Hjartarson

(Ræða haldin hjá Menningar og friðarsamtökum íslenskra kvenna 8. mars)

Við Íslendingar erum staddir nokkurn veginn á sama stað og árið 1950 þegar ég fæddist. Við erum í NATO. Það þýðir að við fáum frá Washington og Brussel línuna um hvað við eigum að halda um utanríkismál. Það er heimsmynd NATO. Véfréttin segir: Í austri eru Rússar undir alræðisstjórn og sú hætta vofir yfir að þeir ráðist í vestur, yfir Evrópu. Enn austar vex og dafnar alræðið Kína sem talar friðsamlega en er úlfur í sauðagæru. Við erum í mikilli hættu.

Við erum í sömu meintu hættu og árið 1950. Árið áður hafði NATO verið stofnað til að verjast þessari hættu. Það er þó einn mikilvægur munur á umhverfinu sem ég fæddist inn í og nútímanum. Þá voru hér andstæðar fylkingar í utanríkismálum, fylkingar sem höfðu barist á Austurvelli árið áður, og andstæð sjónarmið heyrðust í íslenskum fjölmiðlum. Nú eru sjónarmið sem eru andstæð heimsmynd NATO sjaldgæf eða komast ekki að, svo „opinbera heimsmyndin“ er það eina sem fólk fær að sjá og heyra. Annar munur er á: stríðsæsingin er meiri nú en þá, þá var heimurinn uppgefinn eftir stríð. Ég horfi á ævi mína og spyr: Höfum við gengið til góðs?


Fjögur stríð í einu í Úkraínu

Stríðið í Úkraínu yfirskyggir nú öll önnur stríð. Það er mannúðarkatastrófa af stærstu gerð. Þjáning úkraínsku þjóðarinnar er djúp og og stefnir í að verða löng. Stór landsvæði í rúst og nærri 1/4 þjóðarinnar á flótta. Þar að auki felur Úkraínustríðið í sér hótun um bein átök helstu kjarnorkuvelda, meiri hótun en nokkru sinni frá seinni heimsstyrjöld.

Hvers eðlis er Úkraínustríðið? Fyrsta sjónarhorn: stríð Rússa er „tilefnislaust“ árásarstríð, stríð Úkraínu er varnar- og frelsisstríð. Pútín er Hitler nútímans sem gengur lengra og lengra í útþenslustefnu sinni, nema því aðeins hann verði stöðvaður með hervaldi. Það á ekki og má ekki semja við svoleiðis menn. Svarið hlýtur að vera annars vegar að veita Úkraínu næga hernaðaraðstoð og hins vegar að styrkja NATO. Að NATO sé lausn vandans. Svona er hægt að líta á málið. Þetta er viðhorf íslenskra stjórnvalda, íslenskra stjórnmálamanna yfirleitt – enda er þetta viðhorf Washington og NATO-landa.

Annað sjónarhorn er t.d. sjónarhorn Rússa. Rússar segja, það voru ærin tilefni: þensla NATO frá 9. áratug er ógnun við Rússland, og NATO-væðing Úkraínu ógnar sjálfri tilveru Rússlands. Úkraína er orðin verkfæri NATO og að verða NATO-land í reynd. Rússland á heimtingu á öryggi og þar sem ekki er neinn vilji til að semja um öryggi Rússlands verðum við að gera einhliða ráðstafanir í öryggismálum okkar. Auk þess byrjaði stríðið ekki fyrir einu ári heldur miklu fyrr.

Sjálfur aðhyllist ég sjónarmið þeirra sem krefjast samninga og málamiðlunar. Hún byggir á 4 undirkröfum: fullveldiskröfum Úkraínu, öryggiskröfum Rússa, þjóðernisréttarkröfum rússneska minnihlutans og kröfu mannskynsins um að forðast stórstyrjöld, jafnvel kjarnorkustríð.

Rússland réðist yfir landamæri Úkraínu 24. febr í fyrra. Þar með hófst stríð þessara tveggja landa. Árásarstríð Rússa er auðvelt að fordæma sem þjóðréttarlegan glæp, og það gerum við. Árásarstríð er höfuðglæpur skv. alþjóðalögum, Rússland er auðvitað eitt meginhreyfiafl í stríðinu og ber ábyrgð á eigin innrás.

Að fordæma hið ársgamla árásarstríð er hins vegar ekki nægjanleg afstaða. Stríð Rússlands og Úkraínu er aðeins einn þáttur Úkraínustríðsins. Úkraínustríðið er flókið stríð, samansett úr a.m.k. fjórum þáttum: a) Einn þáttur þess er borgarastríð í Úkraínu sem hófst 2014 eftir valdarán í Kiev og eftir að tvö austurhéruð sögðu sig úr lögum við landið. b) Með því borgarastríði hófst strax annað stríð, staðgengilsstríð milli NATO og Rússlands sem studdu sinnhvorn aðilann í því. c) Svo er það stríðið áðurnefnt sem hófst með innrás Rússa í febrúar fyrir ári, milli Úkraínu og Rússlands. d) Fjórði þátturinn er nýtt kalt stríð á milli Bandaríkjanna og Rússlands sem hófst upp úr 1990 þegar Bandaríkin sóttu fram með áhrifasvæði sitt í formi NATO, allt upp að landamærum Rússlands. Þetta síðstnefnda stríð teygir sig jafnvel allt til stofnunar NATO sem stofnað var til höfuðs Sovétríkjunum árið 1949.


Sókn BNA/NATO upp að bringu Rússlands

Úkraínustríðið á sér forsögu eins og önnur stríð. Það sprettur af togstreitu stórveldanna, af valdatafli þeirra um áhrifasvæði. Valdatafli sem undanfarin 30 ár, frá lokum kalda stríðsins, hefur fylgt ákveðnum þróunarlínum. Lok Kalda stríðsins báru ekki með sér jafnvægi í heimsvaldakerfinu, þvert á móti. Við fall Sovétríkjanna myndaðist valdatóm og risaveldið sem eftir stóð, Bandaríkin, hófu mikla sókn til að tryggja hnattræn völd sín. Ný strategía þeirra fylgdi sk. Wofowitzkenningu um að tryggja að ekkert nýtt stórveldi mætti rísa upp sem ógnað gæti bandarískum yfirráðum.

Í framhaldi af því efndu Bandaríkin til innrása og styrjalda. Ásamt hernaðarblokk sinni NATO hóf það beinar árásir/innrásir í fjarlæg lönd, Júgóslavíu, Afganistan, Írak og Líbíu auk litabyltinga og valdaskiptaaðgerða, yfirleitt í löndum þar sem Sovétríkin höfðu haft veruleg áhrif áður.

Í öðru lagi kom útþensla NATO austur eftir Evrópu. Síðustu Sovétleiðtogunum voru gefin margvísleg loforð um öryggistryggingar í tengslum við sameiningu Þýskalands og upplausn Warsjárbandalagsins. Eldri Bush Bandaríkjaforseti og James Baker utanríkisráðherra sóru þess eið að NATO yrði ekki útvíkkað «eina tommu austar» en Þýskaland. En útvíkkun NATO var haldið áfram í stökkum austur eftir gamla áhrifasvæði Rússlands – þ.e.a.s. „stuðpúðabeltinu“ sem Rússland hafði í stríðslok komið upp milli sín og stórveldanna í vestri. Allt austur að landamærum Rússlands sjálfs. NATO-þenslan gerðist í krafti þess að Rússland var mjög veiklað, og laut á tímabili bandarískri efnahagsstjórn. Aðeins Hvíta-Rússland og Úkraína voru orðin eftir á milli sem hlutlaus lönd. Síðast kom svo andrússneskt valdarán í Úkraínu árið 2014 sem stjórnað var af CIA og bandaríska sendiráðinu í Kiev. M.a. láku út upptökur af samtali bandaríska sendiherrans í Kiev og Victoriu Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra þar sem ákvarðað var hvernig komandi stjórnvöld skyldu vera skipuð, ákvörðun sem var svo fylgt eftir í framkvæmdinni.

Með valdaráninu höfðu Bandaríkin/NATO komið sér upp virki við hjarta Rússlands. M.a.s. leit út fyrir um stund að þau hefðu náð til sín einu suðurhafsherstöð Rússlands á Krím og myndu breyta henni í NATO-stöð. En það var ofmetnaður. Í staðinn leiddi valdaránið í fyrsta lagi til innlimunar Rússlands á Krímskaga (sem er byggður Rússum) og í öðru lagi til borgarastríðs í austurhéruðum í Úkraínu, af því þetta land, þetta nýja „virki“ vestursins upp við hjarta Rússlands, er þjóðernislega klofið land.

Síðan hefur deilan harðnað skref fyrir skref. Það var að vísu gerður samningur í Minsk í Hvíta-Rússlandi 2014-15, viðurkenndur af Sameinuðu þjóðunum og þjóðréttarlega bindandi. Samningurinn átti að tryggja ákveðna sjálfstjórn fyrir rússneskumælandi héruðin Donetsk og Luhansk innan Úkraínu. En Úkraína virti aldrei þann samning og héruðin lágu áfram undir miklum árásum, 2021 voru 14 þúsund manns fallnir. En upp á síðkastið hafa bæði Porosjenko þá Úkraínuforseti og helstu ábyrgðarmenn samningsins Angela Merkel og Fransois Hollande öll viðurkennt að aldrei hafi staðið til að framfylgja samningnum heldur var hann gerður til að „kaupa tíma“ til að byggja Úkraínu upp hernaðarlega. Þau hafa öll sagt einmitt það. Sú uppbygging fór rækilega fram og Úkraínuher margfaldaðist að styrk með vestrænni hernaðaraðstoð. Úkraína var ekki orðinn aðili að NATO formlega en var að verða það í reynd.

Fleira bættist við, 2016 hófu BNA að koma fyrir skotpöllum fyrir langdrægar kjarnorkuberandi skotflaugar í Póllandi og síðan í Rúmeníu. Það er því erfitt að halda því fram að hernaður Rússa í Úkraínu hafi verið án nokkurra “tilefna“, verið „unprovoked“. „Ukraine and the West provoked the Russian invasion…“ – ögruðu Rússum til innrásarinnar – hefur Noam Chomsky sagt í nokkrum viðtölum. Og pólitík BNA og NATO á þessu svæði hefur verið ein löng sería ögrunaraðgerða. Án þeirra aðgerða er harla ólíklegt að þarna hefði orðið stríð. NATO-blokkin, með valdapól sinn í Washington, var megingerandi í aðdraganda og framköllun þessa stríðs. Hún er sóknaraðilinn.

Þannig er ytra umhverfið í kringum Úkraínudeiluna. Ytri ramminn hefur á undanförnum áratugum mótast af átökum og valdatafli heimsvelda eða stórvelda. Vel að merkja, það eru ekki tvö sams konar stórveldi. Annars vegar er það svæðisbundna stórveldið Rússland sem vill hafa völd og áhrif á sínu nærsvæði en hins vegar Bandaríkin, heimsveldi sem eftir 1991 hafa leitað eftir heimsyfirráðum. Frá þeim tíma höfðu Bandaríkin með áhrifasvæði sínu, og verkfæri sínu, NATO, verið í harkalegri sókn, inn á það sem áður var áhrifasvæði og „stuðpúðabelti“ fyrir Rússland. Rússland hafði bakkað jafnt og þétt en taldi sig ekki geta bakkað lengra og vera innikróað upp við vegg.


Einpóla og fjölpóla heimur

En það voru líka aðrir hlutir að gerast á taflborði heimsveldanna. Rússland hafði eflst að burðum, efnahagslega og hernaðarlega með nýjum forseta frá aldamótunum 2000. Og austur við Kyrrahaf var að rísa mikið efnahagsveldi sem fór alvarlega að ógna efnahagslegri stöðu BNA og bandamanna þeirra á heimsmarkaði. Og eftir því sem þessum rísandi stórveldum jókst efnahagslegur styrkur fóru þau á ýmsum sviðum að rísa gegn risaveldinu sem hafði ráðið flestu á alþjóðavettvangi. Og þau mynduðu bandalag sín á milli. Þau fóru m.a. opinberlega að hafna Wolfowitzkenningunni um einn valdapól í veröldinni og settu í staðinn fram kenningu um fjölpóla heim, multipolar. Frekar en kenning er það þó lýsing á nýjum raunveruleika, nýjum styrkleikahlutföllum, a.m.k. á efnahagssviðinu.

En slíkur nýr raunveruleiki verður ekki til þegjandi og átakalaust. Risaveldið sem öllu hefur ráðið SVARAR hinni auknu samkeppni fyrst og fremst með AUKINNI HERNAÐARSTEFNU, með vígbúnaði, með herstöðvanetinu mikla sem umkringir keppinautana tvo, með vígvæðingu NATO og með efnahagslegum refsiaðgerðum á þá sem ekki hlýða. Átakalínurnar liggja gróflega milli austurs og vesturs. Joe Biden segir að þarna takist á lýðræði og alræði. Pútín og Xi Jinping segja að þar takist á einpóla heimur og fjölpóla heimur. Báðir aðilar viðurkenna sem sagt að tekist sé á um heimsmyndina. Meðal annars í Úkraínu.

Markmið Rússa í stríðinu

Og víkjum þá talinu aftur þangað. Rússum sem sagt fannst sér vaxa kraftur en töldu sig vera komna með bakið upp að vegg. Í desember 2021 barði Pútín í borðið og setti fram þrjár meginkröfur í Úkraínudeilunni, og hann setti þær fram við Bandaríkin og NATO. Kröfurnar sem hann kallaði „öryggistryggingar“ voru þessar: 1) enga frekari stækkun NATO í austur, 2) Minsksamkomulagið komi til framkvæmda í Donbass, 3) Viðurkennt sé að Rússland haldi Krímskaga. Þessar kröfur gengu ekki lengra en svo að það hefði mátt semja um þær, a.m.k. ræða þær.

Svör BNA og NATO við þremur kröfum Rússlands voru: nei, nei og nei. Þar á bæ höfðu menn almennt ekki talið sig þurfa að semja mikið við Rússa, ekki heldur standa við gamla samninga.

Þann 24. febrúar fyrir ári réðust Rússar inn í Úkraínu sem kunnugt er. Þeir höfðu nokkrum dögum áður viðurkennt sjálfstæði aðskilnaðarhérðanna tveggja sem báðu þá um aðstoð, en þeir réðust inn í landið á miklu breiðari víglínu en það. Þjóðréttarleg réttæting fyrir innrásinni er engin, enda kallaði hún yfir Rússa alþjóðlega fordæmingu.

Nú höfðu Rússar bætt einni kröfu við áðurnefndar þrjár, kröfu, um „af-nasismavæðingu“ Úkraínu sem líklega var krafa um stjórnarskipti í Kiev (núverandi stjórn kalla Rússar (fasíska/nasíska). Ekki veit ég hver hernaðarleg markmið Rússa voru í raun en það sýnist ljóst að þeir vanmátu hernaðargetu Úkraínu, getu sem hafði vaxið hratt undangengin misseri. Mögulega ætlaði Pútín að gleypa Úkraínu. Það er stöðugt látið í veðri vaka á Vesturlöndum að hann myndi svo halda áfram til næstu landa eins og Hitler. Mér finnst þó líklegra að með hinni breiðu víglínu innrásarinnar hafi Pútín ætlað að þvinga Úkraínu til að semja fljótt um þær meginkröfur sem Rússar settu fram fyrir stríðið. Rússland hafði náð sínu fram með slíkum skjótum hernaðaraðgerðum gagnvart Georgíu 2008 (út af Ossetiu og Abkhazíu).

Ennfremur: Fáeinum dögum eftir innrásina hófust samningaviðræður. Bennett forsætisráðherra Ísraels hafði forustu í viðræðunum og hann heldur því fram í nýlegu viðtali að bæði Rússland og Úkraína hafi þá óskað eftir samkomulagi um að Úkraína skyldi halda sig utan NATO á móti því að Rússar drægju sig tilbaka. Einnig að Rússar hafi gefið eftir kröfuna um „af-nasismavæðingu“ landsins. Bennett sagði að vestrænir leiðtogar hafi haft eitthvað misjafna afstöðu til samningatilraunanna, en að lokum hafi þeir lagst gegn þeim. Spurður hvort þeir hafi „hindrað“ samning sagði hann: “Basically, yes. They blocked it, and I thought they were wrong.” Þetta mælir gegn þeirri hugmynd að hernaðarleg markmið Rússa hafi verið mjög víðtæk eða að Pútín sé í „heimsvaldastríði“. Og þetta bendir á hvaðan sú meginafstaða er komin að Úkraína skuli ekki semja við Rússa.

Skömmu síðar fóru aftur fram samningatilraunir í Istambúl undir forustu Tyrkja og lofuðu góðu en aftur leystust þær upp eftir þrýsting frá Vesturlöndum. Utanríkisráðherra Tyrklands sagði þá að „sum NATO-ríki vilja að stríðið haldi áfram til að Rússland verði veikara“.


Markmið Bandaríkjanna og NATO

Í sömu viku utanríkisráðherra Tyrklands sagði þetta, fimm dögum síðar, var varnarmálaráðherra Bandaríkjanna spurður út í markmið Bandaríkjanna í Úkraínustríðinu og hann sagði nokkurn veginn það sama: „Við viljum sjá Rússland veikjast það mikið að það geti ekki gert þess konar hluti sem það hefur gert við Úkraínu.“

Þetta markmið, að veikja Rússland, er í samræmi við markmið hinnar áhrifamiklu hugveitu RAND-Corporation sem starfar fyrir Pentagon. Fyrir fjórum árum, árið 2019, lagði hún fram áætlunina „Að teygja Rússland“ (Extending Russia), sem er um það að „láta Rússland yfirteygja sig hernaðarlega eða efnahagslega“ eins og segir í inngangi. Í kaflanum um „geopólitískar aðgerðir“ í þessum tilgangi er fyrsta aðgerðin „Að veita Úkraínu vopnaaðstoð“. Þar segir «Úkraínski herinn tekur Rússlandi nú þegar blóð á Donbass svæðinu (og öfugt). Að veita meiri bandaríska vopnaaðstoð og þjálfun getur leitt til þess að Rússland auki beina þátttöku í átökunum, og einnig gjaldið sem það borgar fyrir hana.“ Þetta sýnir að fólk á lykisstöðum í Bandaríkjunum óskaði eftir þessu stríði og fagnaði því eðlilega þegar það kom og vildi að það drægist á langinn.

Meint markmið Rússa, að þvinga Úkraínu til skjótra samninga tókst altént ekki. Stríðið dróst á langinn. Í fyrsta lagi hafði Úkraínuher verið byggður upp í 8 ár. Árið 2014 var hann afar veikur og réð ekki við litlar hersveitir aðskilnaðarsinna í Donbass en nú var hann orðinn meira en milljón manna vel útbúinn her, enda gekk Rússum víða illa að fást við hann á fyrstu vikum stríðsins. Í öðru lagi hófu Vesturlönd efnahagslegt leifturstríð gegn Rússum strax eftir innrásina og búist var við að það myndi bíta á þá. Í þriðja lagi, þó að stjórnvöld í Úkraínu hefðu í byrjun stríðs viljað semja varð brátt ofan á það viðhorf í Kiev – endurspeglaði væntanlega viðhorfið í Washington – að Úkraína gæti sigrast á Rússlandi hernaðarlega, að ekki eigi að semja við Pútín, Úkraína sé tilbúin að leggja fram hold og blóð eigin þegna í stríðið ef næg vopnaaðstoð fæst. Varnarmálaráðherra Úkraínu orðaði það svo í viðtali síðar:Nú vinnum við ætlunarverk NATO. Þeir fórna ekki blóði sínu, við fórnum okkar blóði, það útheimtir að þeir sjái okkur fyrir vopnum.“


Djöflamaskínan

Ekkert af því sem hér er sagt réttlætir innrás Rússlands í Úkraínu. Rússar bera fulla ábyrgð á árás á fullvalda ríki. Þetta sýnir samt að NATO-blokkin, með valdapól sinn í Washington, er ekki aðeins meginhreyfiafl og megingerandi í aðdraganda stríðsins heldur megingerandi líka í því að knýja áfram stríðið.

Hlutverkaskiptingin er það sem ég vil kenna við djöflamaskínu, og það er djöflamaskína sem vinnur vel fyrir Bandaríkin og NATO. Þau þurfa aðeins að leggja fram vopnin og peningana, en Úkraína leggur fram blóðið. Að vísu „þarf“ að leggja fram stórfé, Bandaríkin ein hafa á undanförnu ári lagt fram 100 milljarða dollara, sem er víst u.þ.b. tvöföld sú upphæð sem er á öllum fjárlögum rússneska hersins á einu ári. Og hverjir fá þessa peninga? Raunar ekki Úkraína heldur BANDARÍSKIR VOPNAFRAMLEIÐENDUR. Hermálabatteríið. The Military Industrial Complex sem er eitt meginhreyfiaflið og líklega sterkasti mótorinn sem knýr áfram Úkraínustríðið.

Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hæstráðandi í staðgengilsstríðinu við Rússland, dró bandaríska strategíu saman í eina setningu þegar hann sagði: «Úkraínumenn eru fyrirmynd fyrir hinn frjálsa heim, þeir geta unnið stríðið við Rússland og skulu fá allt það sem þeir biðja um af vopnum.” Gott er að Úkrína fórnar sér fyrir göfugan málstað. Manni dettur í hug Jóhannesarguðspjall: „Sjá guðs lambið sem ber synd heimsins!“

Heimurinn stendur ekki á bak við BNA/NATO

Í upphafi innrásar Rússa fyrir ári talaði Joe Biden og vestrænir leiðtogar um að heimurinn stæði sameinaður gegn Rússlandi – með efnahagslegum refsiaðgerðum og með stuðningi við her Úkraínu. En þannig var það ekki og er enn síður þannig núna. Í meginatriðum liggja línurnar þannig að fyrir utan N-Ameríku og ESB eru það fyrst og fremst Ástralía og svo Japan og S-Kórea sem taka þátt í efnahagsaðgerðunum gegn Rússlandi. Aðrir ekki. „Herbúðir okkar“ sem sagt nánast takmarkaðar við NATO. Um þetta fjölluðu New York Times („The West Tried to Isolate Russia. It Did‘nt Work“ 24/2) og Washington Post („A Global Divide on the Ukraine War is Deepening“ 23/2) nýlega í ítarlegum greinum.

Sömu aðilar bjuggust við því að refsiaðgerðir ESB og Bandaríkjanna gegn Rússlandi – víðtækustu refsiaðgerðir sem settar hafa verið á nokkurt land – myndu slá rússneska hagkerfið út af sporinu, en svo er ekki. Svo er að sjá að refisaðgerðirnar hafi komið harðar niður á Evrópu en Rússlandi.

Stöðvum stríðið!

Stríðsáróðurinn um að Úkraína geti unnið Rússland er lífshættuleg blekking sem þjónar fyrst og fremst einum tilgangi: að framlengja stríðið, auka dauðann og eyðilegginguna í þessu ógæfusama landi. Sú framlenging getur mögulega orðið til að veikja Rússland en til þesss verður Úkraína örugglega að fórna sjálfri sér. Þeir sem standa á bak við þessa strategíu gefa nefnilega djöfulinn í hag Úkraínu. Sá „fulli sigur“ á Rússum sem ráðamenn í Washington og Kiev hafa talað og tala enn um er aðeins hugsanlegur í allsherjarstríði Bandaríkjanna gegn kjarnorkuvæddu Rússlandi. En þá tortímist Úkraína líka í þeim gjörningaleik – og mjög margt annað á jarðarkringlunni tortímist um leið.

Hið hnattræna suður (Global South) gengur sem sagt ekki í takt við Vesturlönd. Og gagnvart Úkraínustríðinu eru þessi lönd mjög líkleg til að styðja kröfuna „stöðvum stríðið!“ en taka alls ekki undir slagorð Vesturlanda „vinnum stríðið!“.

Grundvöllur friðar getur aldrei verið fullur sigur annars aðilans á kostnað hins. Grundvöllur friðar er hin vaxandi krafa um málamiðlun. Stækkun NATO til Úkraínu getur síst af öllu verið hluti af þeim grundvelli. „Stöðvum stríðið!