Morðin á Maidantorgi sem kveiktu stríð og breyttu heimsmyndinni
—
Þann 18. – 20. febrúar 2014 urðu þeir hörmulegu atburðir í mótmælunum á Maidantorgi í Kiev að 74 mótmælendur og 17 lögreglumenn voru myrtir. Um 300 mótmælendur og 200 lögreglumenn voru særðir. Meðal fórnarlamba voru blaðamenn frá a.m.k. fimm löndum. Flestir voru skotnir af leyniskyttum sem höfðu lagt undir sig nálægar byggingar. Ýmsar getgátur hafa komið fram um það hverjir áttu sök á manndrápunum en óhætt er að segja að bók Ivan Katchanovski hafi varpað skerandi ljósi á atburðina.
Fórnarlömb árásanna voru sæmd hetjunafnbótum og nefndHin himnesku hundrað og haldið er uppá byltingardaginn á ári hverju (hundrað er hin opinbera tala, sjá síðar). Það væri því vissulega óþægilegt ef skuggi félli á sjálfa Sæmdarbyltinguna eins og hún er kölluð.
Atburðarásin
Forsaga morðanna er sú að Úkraínumenn, einkum íbúar í Vestur-Úkraínu, langþreyttir á oligörkum, fátækt og spillingu, bundu vonir við að geta sótt um aðild að Evrópusambandinu. Forsetinn Janukovits, ofurríkur Austur- Úkraínumaður frá Donetsk, hafði riftað viðskiptasamkomulagi við sambandið haustið 2013 og hugðist þiggja lán frá Rússum til að bjarga fjárhagsástandinu. Fólk í Vestur-Úkraínu treysti honum ekki, taldi hann lepp Pútíns og það brutust út mikil mótmæli kennd við Maidan torg í Kiev, stundum nefnd Euromaidan eða Sæmdarbyltingin. Í Austur-Úkraínu var meirihluti fólks hins vegar ekki fylgjandi mótmælunum. Þau voru í fyrstu friðsöm en í janúar 2014 fóru hópar öfga hægrisinnaðra aktívista að hafa sig í frammi. Ofbeldið magnaðist og Þeir ruddust inn í stjórnarbyggingar við torgið, lögðu þær undir sig og kveiktu elda. Öryggislögregla og aðrar sveitir voru sendar á vettvang og Þann 20. febrúar hófst skothríð leyniskytta á lögreglu og mótmælendur. Ofbeldið olli miklu uppnámi og ásakanir dundu á Janúkovits og lögreglusveitum ríkisins. Þann 21. febrúar tók sig til foringi hægri aktivistanna, að eigin sögn fyrir hönd forustuafla aktívista, og rifti opinberlega samkomulagi sem Janukovits hafði undirritað í viðurvist fulltrúa erlendra ríkja um farsæla lausn deilnanna í þágu mótmælenda. Hann krafðist þess að Janukovits segði af sér fyrir kl. 10 næsta dag og réttlætti það með því að kenna honum um morðin. Biden hringdi í Janukovits og sagði honum að kalla burt skyttur sínar og segja af sér. Í kjölfar þessar ásakana og hótana flýði Janukovits til Rússlands. Hann var settur af, kosningar voru haldnar og annar oligarki, Porosjenko, áður forseti, náði kjöri en hann var einn forystumanna mótmælenda. Borgarastríðið í austurhéruðunum hófst í kjölfarið og Azovhersveitir, (sumar prýddar nasistamerkjum og fánum að sögn Benoit Paré, fransks embættismanns ÖSE sem sendur var á svæðið), voru sendar þangað til að berja niður mótmæli aðskilnaðarsinna sem höfðu stofnað sjálfsstjórnarlýðveldin Donetsk og Luhansk sem Rússar viðurkenndu. Rússar tóku svo yfir Krímskaga og blönduðu sér í átökin í Donbass. Stríðið í Donbass frá 2014 – 2022 kostaði um 14.000 manns lífið. Það leiddi svo af sér milliríkjadeilu milli Rússlands og Úkraínu og loks hina ólöglegu innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar 2022. Nató og Vesturlönd blönduðu sér í stríðið og allt fór í bál og brand.
Jón Karl Stefánsson skrifaði fróðlega grein á Neista þann 2. des. 2024, undir titlinum „Hinir í Úkraínu og aðdragandi stríðs“. Til að fá heildarmynd af atburðarásinni er gagnlegt að lesa þessa grein. Jón segir frá Maídanmótmælunum og aðdraganda þeirra og muninum á stuðningi við mótmælin í vestur- og austurhéröðum í landinu en 49 % þjóðarinnar voru með og 45 % á móti.
Ríkisstjórnin sem tók við völdum hélt áfram að skella skuldinni af manndrápunum á Janukovits og lögreglusveitir hans, Berkut óeirðalögregluna og aðrar lögreglusveitir. Útgáfa ríkisstjórnarinnar af skotárásunum fór strax á kreik í fjölmiðlum og hefur ekki enn verið leiðrétt, t.d. í Wikipediu er hún enn sú sama þrátt fyrir að annað hafi komið í ljós við réttarhöldin og með vísindalegum rannsóknum.
Rannsókn Katchanovskis og niðurstöður réttarhalda:
Ivan Katchanovski er úkraínskur fræðimaður og prófessor í stjórnmálafræði við Ottawaháskóla í Kanada. Hann var sjálfur staddur á Maidanmótmælunum og ákvað að rannsaka ítarlega og með vísindalegum aðferðum atburðina á Maidantorgi og draga ekkert undan.
Bók hans, The Maidan Massacre in Ukraine: The Mass Killing that Changed the World, kom út á opnum aðgangi hjá Palgrave Macmillan árið 2024. Áður hafði hann sent frá sér fjölda ritrýndra greina á opnum aðgangi þar sem niðurstöður hans komu fram.
Katchanovski safnaði saman sönnunargögnum, þ.e. myndbandsupptökum, ljósmyndum og hljóðupptökum auk hundraða vitnisburða og viðtala frá rannsókninni sem fram fór í Úkraínu og réttarhöldunum sem fylgdu. Bók hans byggir því á frumheimildum. Með greiningu á þessum sönnunargögnum tókst honum að sýna framá hverjir báru ábyrgð á morðunum og hvaða afleiðingar þessir atburðir höfðu á þróun heimsmálanna.
Niðurstöður rannsókna hans sýndu að skot leyniskyttanna komu frá Hótel Úkraínu og fleiri byggingum við Maidantorgið sem aktivistar höfðu lagt undir sig. Öfga hægrisinnaðir meðlimir Svoboda hreyfingarinnar og annarra slíkra höfðu þar aðsetur. Engar skipanir um að hleypa af skotum komu frá Janukovits né áttu Rússar neinn þátt í atburðarásinni eins og tilgangurinn virðist hafa verið að láta líta út fyrir með drápunum. Rannsókn hans afsannar þá falskenningu sem hefur riðið röftum í Úkraínu og á Vesturlöndum.
Katchanovski greindi rannsókn yfirvalda og niðurstöður réttarhalda í sérstökum kafla í bók sinni (bls 145-175). Niðurstöður réttarhaldanna voru birtar þann 18. okt. 2023 en rannsókn hafði staðið í 7 ár. Þær staðfestu að margir mótmælendur og lögreglumenn hefðu verið skotnir af af leyniskyttum aktivista en ekki af Berkut lögreglunni né öðrum lögreglusveitum. Flest skotin hefðu komið frá Hótel Úkraínu, Tónlistarkonservatoríinu og öðrum byggingum á valdi aktivista og þar hefðu öfga hægrisinnaðir hópar haft aðsetur. Ákærur á hendur Berkut lögreglunni, m.a. þeirra sem höfðu verið sendir til Donetsk í fangaskiptum, hefðu verið byggðar á fölskum eða ófullkomnum gögnum og þeir voru því sýknaðir. Það var líka staðfest að Janúkovits og embættismenn hans hefðu ekki gefið skipanir um skotin og að Rússar hefðu ekki átt hlut að máli. Katchanovski gagnrýnir rannsókn yfirvalda á margvíslegan hátt. Hún var ófullkomin m.a. vegna þess að sjúkraskýrslur voru gerðar af mismunandi sjúkrahúsum, þau geymdu ekki byssukúlur og önnur gögn. Ýmis gögn hurfu, týndust eða voru eyðilögð. Sum fórnarlömb og sakborninga náðist ekki að yfirheyra af ýmsum ástæðum. Rannsakendur lögðu í fyrstu mesta áherslu á að rannsaka þátt Berkut lögreglunnar en síður þátt leyniskytta.
Í lokakafla bókarinnar (bls 249-257) segir Katchanovski að drápin hafi verið vísvitandi blekkingaraðgerð, skipulögð og framkvæmd af hópum öfga hægrisinnaðra Maidan aktívista, til að ná völdum og steypa ríkisstjórninni af stóli. Leyniskyttur á Hótel Úkraínu og Tónlistarkonservatoríinu hófu skothríð snemma morguns þann 20. febrúar á Berkút lögregluna og aðrar lögreglusveitir til að fá þær til að hörfa. Þessi hópur leyniskytta og fleiri slíkir hópar skutu síðan á mótmælendur frá fleiri en 20 byggingum og svæðum sem þeir höfðu á valdi sínu. A.m.k. 20 myndbandsupptökur, m.a. frá erlendum blaðamönnum sýna hópa vopnaðra skytta. Katchanovski segir að Svoboda (talinn öfgafyllsti þjóðernissinnaði flokkur Úkraínu) og Right Sector (Pravi Sector, stofnaður 2014 og sameinaði ýmsa hægri sinnaða hópa) hafi skipulagt og framkvæmt morðin. Þeir hafi notið stuðnings flokka oligarka eins og Fatherland (Batkivshchyna, flokkur Yuliu Timoshenko, sagður blanda af þjóðernissinum og populistum). Fáeinir Georgiumenn og aðrar erlendar leyniskyttur sögðust hafa fengið skipanir frá öfgahópunum.
Berkut lögreglan skaut hins vegar í átt að efri hæðum Hótels Úkraínu þar sem leyniskytturnar voru og yfir höfuð mótmælenda.
Afstaða Vesturlanda, yfirhilming ráðamanna og pólitískar ofsóknir
Katchanovski segir að vitnisburður hafi borist varaforseta Evrópusambandsins frá utanríkisráðherra Eistlands sem þá var nýkominn frá Kiev um að Janukovits forseti hefði ekki haft nokkurn ávinning af því að drepa fólkið og að ljósmyndagögn og læknisrannsóknir sýndu að sömu leyniskyttur hefðu drepið bæði friðsama mótmælendur og lögreglumenn. Honum hefði þótt grunsamlegt að þau yfirvöld sem tóku við völdum vildu ekki láta rannsaka málið. Janukovits hefði líklega ekki staðið á bak við þessar árásir heldur einhverjir tengdir hinni nýju stjórn. Evrópusambandið leyndi þessum upplýsingum en þeim var lekið. Evrópuþingið hunsaði líka fjölmörg tilmæli frá þingmanni á Evrópuþinginu um að rannsaka Maidanmorðin og morðin í Odessa.
Þó Katchanovski sé ekki að rannsaka þátt erlendra ríkja í mótmælunum og morðunum, telur hann að vísbendingar séu um að Bandaríkjastjórn og fleiri vestrænar ríkisstjórnir hafi vitað hvernig í pottinn var búið. Hann hefur eftir tveimur aktivistum úr sitt hvorri yfirheyrslunni að vestrænir stuðningsmenn hafi sagt að þeir mundu ekki skipta sér af mótmælunum nema að 100 manns lægju í valnum. Strax eftir atburðina hafi verið farið að tala um hin himnesku hundrað og af því fórnarlömbin voru ekki nema 91, hafi fólk sem dó af öðrum orsökum á sjúkrahúsum verið talið með hinum látnu. Hann nefnir líka ummæli Bidens og Blinkens um að leyniskytturnar hafi átt sök á drápunum.
Hann telur það handvömm og skammarlegt að eftir 10 ár frá þessum hræðilegu pólitísku glæpum hafi enginn verið dæmdur né settur í fangelsi. Yfirhilming ráðamanna og tafir við rannsóknina hafi átt sök á því. Katchanovski segir að aðilar sem beinlínis áttu þátt í morðunum hafi verið settir í opinberar stöður og haft aðstöðu til að leyna staðreyndum. Hann bendir t.d. á Andriy Parubii sem var foringi nýnasistaflokksins Patriot of Ukraine og forystumaður The Maidan Self-Defence á Euromaidan sem varð forseti (speaker) úkraínska þingsins í nýrri stjórn.
Hann segir líka að niðurstöður réttarhaldanna hafi verið falsaðar eða mistúlkaðar í öllum úkraínskum fjölmiðlum og flestum vestrænum fjölmiðlum og Wikipediu. Hin falska mynd af því að þáverandi forseti hafi staðið að drápunum hafi ekki verið kveðin niður og ekki viðurkennt að það voru öfgafullir hægrimenn sem stóðu að þeim. Hann telur það samt rangt að segja að Maidan mótmælin hafi verið nasísk eða fasísk stjórnarbylting vegna þess að þessir öfgahópar hafi ekki haft mikið fylgi meðal almennings en vegna ofbeldisins hafi þau náð yfirhöndinni. Katchanovski útskýrir þetta atriði frekar í nýrri bók sinni sem hefur verið birt á opnum aðgangi, The Russia-Ukraine War and its Origins.
Katchanovski hefur sagt frá því í viðtali við The Canada Files og í fleiri viðtölum í tímaritum og á You-Tube, hvernig hann var ofsóttur af yfirvöldum í Úkraínu vegna rannsóknar sinnar. Fjármunir hans voru gerðir upptækir og heimili hans í Úkraínu haldlagt og síðan eyðilagt. Greinar hans voru ritskoðaðar og reynt að koma í veg fyrir að hann gæfi út bók sína. Reynt var að grafa undan akademisku orðspori hans og hann varð sjálfur að safna fyrir útgáfu bókarinnar. Útgefandi einn reyndi m.a.s. að fá hann til að breyta atriðum sem voru byggð á niðurstöðum rannsókna hans.
Bók Katchanovskis hefur nú vakið mikla athygli og viðurkenningu og fræðimenn nota niðurstöður hans til að greina atburðarásina sem leiddi til Úkraínustríðsins.
Gagnrýni
William Rich, prófessor i sögu við Georgia College í Bandaríkjunum hefur gagnrýnt niðurstöður Katchanovskis, m.a. að hann hafi stundum gefið sér ósannaðar niðurstöður. Sönnunargögn hafi verið ófullkomin. Margir opinberir starfsmenn, meðlimir ríkisstjórnar og SBU hefðu flúið og ekki verið hægt að yfirheyra þá. Hann telur samt að rannsóknin í Úkraínu hafi í fyrstu um of einblýnt á að sanna sök Berkut óeirðalögreglunnar en ekki leyniskyttanna á Hótel Úkraínu og öðrum byggingum. Hann segir líka að Katchanovski og dómarar séu sammála um að Rússar hafi ekki átt hlut að málum.
Önnur sjónarhorn
Margir fleiri hafa lýst þessum atburðum, m.a. hinn vinsæli rithöfundur Andrei Kurkov og Valur Gunnarsson sagnfræðingur.
Andrei Kurkov, einn ástsælasti rithöfundur í Úkraínu, lýsir þessum atburðum, aðdraganda þeirra og eftirmálum í bók sinni Ukraina Diaries. Dispatches from Kiev, 2014. Hann er dæmigerður Vestur-Úkraínumaður og hefur litla þolinmæði gagnvart Rússum og þeirra áhrifum í austurhéruðunum.
Dagbók Kurkovs eru athugasemdir hans frá degi til dags um stjórnmálaástandið í bland við hans eigið fjölskyldulíf og vinnu hans sem kennara og rithöfundar. Dagbókin nær frá 21. nóv. 2013 – 24. apríl 2014.
Kurkov segir á einum stað hatrið sprottið af andúð á hinni donetsku ríkisstjórn. Þetta hatur hafi breiðst út kannski of hratt í Vestur Úkraínu en á meðan sé Krím að biðja Rússa að taka sig til baka. Á öðrum stað segir hann að hið eina sem skipti máli séu mannslífin og það sé í þeim gjaldmiðli sem Úkraínumenn hafi greitt fyrir að reyna að endurreisa land sitt einu sinni enn, að hreinsa sig af siðleysi og spillingu. Fleiri en 100 manns hafi dáið, hundruð verið særð og tugir hafi horfið og séu í felum að reyna að flýja land. Kurkov sendi frá sér bókina Diary of an Invasion árið 2022 þar sem hann segir frá atburðum eftir innrás Rússa á sama hátt.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur sem hefur stundað nám í Úkraínu og kynnt sér sögu austur Evrópu, lýsir atburðunum á Euromaidan út frá sjónarhorni gests og fræðimanns. í bók sinni Bjarmalönd, sem kom út árið 2021, skrifar Valur um þessa atburði í kafla sem nefnist „ Leyniskytturnar á þökunum. Kyiv, nóvember 2013-febrúar 2014“ (bls 287). Þar segir Valur:
… Markmiðið kann að hafa verið að hleypa öllu í bál og brand til að réttlæta enn harðari aðgerðir en enn þann dag í dag veit enginn hver gaf skipun um að skjóta; Janúkóvitsj, Pútín sjálfur eða einhver lægra settur í stjórnkerfinu. Hafa sumir hinna grunuðu nýlega verið sendir til Rússlands i fangaskiptum og verða því ekki dregnir fyrir dóm, sem hefur vakið harða gagnrýni í Úkraínu.“
Valur kemur svo aðeins aftur inn á þessa atburði í bók sinni Stríðsbjarmar. Úkraína og nágrenni á átakatímum, 2023, (bls. 224). Hann hefur þá sennilega enn ekki haft nasasjón af niðurstöðum Katschanovskis eða ekki viljað taka afstöðu til þeirra.
Lokaorð:
Enn hefur ekki tekist að losna við siðleysi og spillta oligarka í Úkraínu. Á „Sæmdarbyltingunni“ hvílir svartur blettur Maidanmorðanna. Hún var saurguð af öfgamönnum og óligörkum.
Þöggun, falskar upplýsingar og skerðing á tjáningarfrelsi hefur einkennt fréttaflutning í Úkraínu og á Vesturlöndum. Þó margir hafi lengi vitað hverjir stóðu að þessum morðum hefur ekki mátt tala um það opinberlega. Þeir sem það hafa gert hafa fengið á sig kunnuglega stimpla.
Heimildir:
Jón Karl Stefánsson: Hinir í Úkraínu og aðdragandi stríð. Neistar 2. des. 2024. Hinir í Úkraínu og aðdragandi stríðs – Neistar
Katchanovski, Ivan: The Maidan Massacre in Ukraine: The Mass Killing that Changed the World . Palgrave MacMillan, 2024. The Maidan Massacre in Ukraine: The Mass Killing that Changed the World | SpringerLink (með því að skruna niður síðuna má skoða staka kafla).
Katchanovski, Ivan: The Russia-Ukraine War and its Origins. From the Maidan to the Ukraine War. Palgrave MacMillan, 2026. The Russia-Ukraine War and its Origins: From the Maidan to the Ukraine War | SpringerLink
Katchanovski, Ivan: Buried trial verdict confirms false-flag Maidan Massacre in Ukraine. MR Online 22.02.2024. Buried trial verdict confirms false-flag Maidan massacre in Ukraine – MR Online
Katchanovski, Ivan. (Viðtal). Í The Canada Files. December 13, 2024. Marthad Shingiro Umbaro.
Kurkov, Andrei: Ukraine Diaries. Dispatches from Kiev. London: Harvill Secker, 2014.
Paré, Benoit. French monitor: Ukraine, Nato provoked. Viðtal Aaron Maté við hann um bók hans á Grayzone. (Bók Paré kom fyrst út á frönsku Ce qu j‘ai vu en Ukraine 2015-2022. – Journal d´un observateur international. 2025. Hún kom svo út á ensku undir titlinum What I saw in Ukraine 2015-2022: – Diary of an International Observer. 2025.
Rich, William: The Maidan Shooting: Conspiracy Theories and Unanswered Questions. Commons 20.02 2024. ( Grein Risch er hluti af greinasafninu Ukraines Euromaidan. Analyses of a Civil Revolution. Ibidem Press, 2025). The Maidan Shooting: Conspiracy Theories and Unanswered Questions | Спільне
Valur Gunnarsson: Bjarmalönd. Rv.: Mál og menning, 2021.
Valur Gunnarsson: Stríðsbjarmar. Úkraína og nágreinni á átakatímum. Rv.: Salka, 2023.
Höfundur er bókasafns- og upplýsingafræðingur.







