Hinir í Úkraínu og aðdragandi stríðs
—
Hér verður reynt að rýna í þau átök sem ríkt hafa innan Úkraínu frá árinu 2013. Sérstök áhersla verður á hóp sem gleymist oft í umræðunni um þetta hörmulega stríð; þ.e. þá Úkraínumenn sem voru ekki hlynntir valdaráninu sem átti sér stað 22. febrúar 2022. Sjálf tilvist þessa hóp er oft afgreiddur sem einhvers konar Pútín-áróður eða réttlæting fyrir innrás. En þessi hópur er ekki einungis raunverulega til, hann er hugsanlega álíka stór og sá sem studdi hina nýju ríkisstjórn í Kænugarði. Þessi hópur hlýtur að hafa sín réttindi.
Einnig verður farið yfir það stríð sem ríkti í landinu á milli ársins 2014 til 2022 þegar Rússland réðst inn í landið. Það er engum til bóta sem vill sjá frið í þessum heimshluta að líta fram hjá þessum hluta stríðsins. Reynt verður að notast við eins vönduð gögn og mögulegt er og skoða þetta tímabil nokkuð ítarlega til að fá betri mynd af því sem gæti endað í enn meiri hryllingi.
Tvær Úkraínur
Í stjórnmála- og menningarlegum skilningi hefur Úkraína lengi verið tvískipt. Í Úkraínu bjuggu um 41 milljón manna árið 2010. Þéttbýlustu svæðin eru í austri og suðaustri þar sem iðnaður er einnig mestur. Stærstu þjóðernishóparnir eru þeir sem skilgreina sig sem Úkraínumenn (77,8%) og svo þeir sem skilgreina sig sem Rússa (17,3%) en margir þeirra sem skilgreina sig sem Úkraínumenn í austurhluta landsins tala rússnesku að móðurmáli. Landsmenn eru mjög klofnir í afstöðu sinni til margra kjarnaþátta samfélagsins, t.d. afstöðu til Sovétstímans, þjóðernishyggju, samskipti við Rússland, og afstöðu til sósíalisma eða þjóðernishyggju.
Þessi klofningur kom vel fram í forsetakosningunum árið 2010. Kosningarnar fóru fram í tvennu lagi þar sem enginn skýr sigurvegari kom fram í fyrri kosningunum, og því þurfti að velja á milli tveggja efstu frambjóðendanna í síðari kosningum: Viktors Yanukovych og Yulia Tymoshenko. Yanukovych var leiðtogi Partija rehioniv (Svæðisflokksins)[i], og Tymoshenko Batkivshchyna flokksins (Föðurland)[ii]. Niðurstaða seinni hluta forsetakosninganna 2010 var sú að um 49% kjósenda völdu Yanukovych en um 46% kusu Tymoshenko. Hér einnig var mjög mikill munur milli austurs og vesturs, þar sem íbúar í austri kusu frekar Yanukovych en í vestri Tymoshenko.
[i] Svæðisflokkurinn varð til árið 2001 með sameiningu fimm flokka sem teljast til miðju á hinu pólitíska rófi: Verkamannaflokksins (Partiya Pratsi Ukrainy), Flokks Endurvakningar Héraðsstjórnar (Partiya Rehionalnoho Vidrodzhennya Ukrainy), flokks „Fallegrar Úkraínu“ (Partiya „Za Krasyvu Ukrainu“), flokki úkraínskra ellilífeyrisþega („Vseukrainskoi Partiya Pensioneriv“) og Samstöðuflokki Úkraínu (Partiya Solidarnosti Ukrainy). Flokkurinn náði fyrst meirihlutakosningu í þingkosningunum 2007 og var stærsti stjórnmálaflokkur landsins þar til Maidanuppþotin áttu sér stað.
[ii] Flokkur Tymoshenkos, Batkivshchyna, var skilgreindur sem flokkur hófsamra þjóðernissinna. Hún hafði verið leiðandi í hinni svokölluðu „appelsínugulu byltingu“ árin 2004 og 2005 og var forseti í kjölfarið.
Mjög svipaðar niðurstöður komu fram í þingkosningunum 2012. Þeir stjórnmálaflokkar sem nutu mest fylgis í austri voru Partija Rehioniv og svo Kommúnistaflokkur Úkraínu. Í Vesturhluta Úkraínu voru stærstu flokkarnir Föðurlandsflokkurinn, Svoboda-flokkurinn, sem er ofur-þjóðernissinnaður flokkur og svo UDAR flokkur hnefaleikakappans Vytalis Klitskos. Heildarniðurstaðan var sú að þeir flokkar sem fengu mest fylgi í austri sigruðu með naumindum. Partiia Rehioniv fékk um 30% atkvæða í þingkosningunum auk þess að sigra í beinum frambjóðendakosningum í 204 af 225 kjördæmum. Flokkurinn naut því alls 41% þingsæta í Úkraínska þinginu þegar Maidan mótmælin brutust fram.
Maidan
Árið 2013 ákvað forsetinn, Viktor Yanukovych, að rifta viðskiptasamkomulagi sem gert hafði verið við Evrópusambandið. Yanukovich sagði samninginn ekki myndu vera til góða fyrir Úkraínu, að Úkraína gæti ekki uppfyllt skilyrði samningsins í tæka tíð. Samflokksmaður forsetans sagði að ef samningurinn yrði samþykktur yrðu landamæri landsins opnuð og innlendur iðnaður myndi líða fyrir. Þessi samningur væri sem áhlaup vestrænna auðmanna á auðlindir landsins.
Ekki voru allir sammála forsetanum. Mótmæli gegn stjórn Yanukovych hófust í nóvember 2013 undir nafninu EuroMaidan (Evróputorgið), sem vísaði í vilja mótmælenda til að tengjast meira Evrópusambandinu en fjarlægjast Rússland. Pútín var sagður standa að baki þessari afturför og Yanukovych sagður leppur hans.
Aftur var mjög mikill munur á þessari afstöðu í austri og vestri. Á meðan krafa um afsögn Yanukovych og ný stjórnvöld ómaði um Kænugarð og fleiri borgir í vesturhluta Úkraínu, héldu íbúar borga í austurhlutanum sínar eigin kröfugöngur, gegn Maidan-mótmælunum og með stjórnvöldum (Kusch, 2013). Til marks um þetta lét úkraínska markaðs- og félagsrannsóknafyrirtækið Research and Branding Group framkvæma skoðanakönnun í desembermánuði 2013 um það hvort menn styddu Euromaidan mótmælin annars vegar, og hvort þeir vildu að Úkraína héldi lengra í viðskiptasamningum við Evrópusambandið, eða væri á móti mótmælunum og vildu halda fríverslunarsamningi við Rússland, Kasakstan og Hvíta-Rússland. Fyrirtækið tók viðtöl í öllum 24 héruðum („oblöstum“) Úkraínu og tveimur stærstu borgum landsins. Niðurstöðurnar voru þær að um 46% studdu áframhaldandi samningsviðræður við Evrópusambandið en um 36% að halda áfram fríverslunarsamningum við ríkin í austri. Um 19% voru óákveðnir. Um 49% studdu Euromaidan-mótmælin en um 45% voru þeim andsnúin. Um 6% voru óákveðnir. Mikill munur var á viðhorfum eftir því hvar í landinu spurt var. Í Vesturhluta Úkraínu studdu um 84% Euromaidan, en í Austurhluta landsins voru um 81% á móti (Research and Branding Group, 2013).
Ofbeldi í „byltingu reisnarinnar“
Mótmælin í Kænugarði voru tiltölulega friðsöm allt til miðbiks janúar 2014. Þá samþykkti þingið lög gegn mótmælum sem hefðu þrengt verulega að tjáningar- og fundarfrelsi. Þann 16. janúar mættu í mótmælin vopnaðir hópar af mótmælendum, margir með mjög vafasöm merki sem eiga rætur sínar að rekja til hópa sem störfuðu með nasistum í seinni heimsstyrjöldinni, og hófu það sem átti eftir að hljóta nafnið „bylting reisnarinnar“.
Fyrstu dauðsföllin urðu 19. janúar er átök spruttu milli mótmælenda og lögreglu. Mánuði síðar, þann 20. febrúar, átti sér stað lykilatburður er skotið var á hóp mótmælenda. Fréttaskeið birtust um allan heim er leyniskyttur skutu niður varnarlitla mótmælendur, og reyndar einnig á lögreglu. Þegar öllu var lokið lágu meira en 100 manns í valnum.
Það er hins vegar alls óvíst hverjir stóðu á bakvið leyniskyttuárásirnar alræmdu. Þann 5. mars 2014 var símtali milli þáverandi utanríkisráðherra Eistlands, Urmas Paet, og þáverandi varaforseta Evrópusambandsins, Catherine Ashton, lekið í fjölmiðla. Samtölin áttu sér stað þann 25. febrúar, en Paet var þá nýkominn úr heimsókn frá Kiev. Í þeim samtölum segir Paet Ashton frá því að stjórn Yanukovich hefði engan ávinning eða hvata haft til þess að fyrirskipa slíkar skotárásir á mótmælendur. Þetta beinlínis tryggði að stjórnin missti þann alþjóðlega stuðning sem það hefði enn yfir á að ráða. Bæði ljósmyndagögn og rannsóknir lækna sýndu enn fremur að bæði lögreglumenn og mótmælendur hefðu verið drepnir, og að sömu leyniskytturnar hefðu verið að verki. Hann bætti því við að honum þætti ógnvekjandi og grunsamlegt að stjórnin sem tók við vildi ekki láta rannsaka þessa atburði. Yanukovich hefði ekki staðið á bakvið þessar árásir, heldur einhverjir tengdir hinni nýju stjórn. Fyrir þessu hefði hann heimildir. Paet staðfesti við fjölmiðla að samtalið hefði átt sér stað og að upptökurnar væru raunverulegar. Catherine Ashton var gagnrýnd harðlega á Evrópuþinginu fyrir að leyna þessum upplýsingum frá bæði þinginu og almenningi (Sjá fyrirspurn Willy Meyer á Evrópuþinginu). Upptöku af samtalinu má nálgast hér.
Ný stjórn
Forsetinn og stjórnvöld höfðu látið undan þrýstingi frá Maidan-mótmælendum og settust við samningaborð við stjórnarandstöðuleiðtoga. Fremstir í flokki þeirra voru Arsenij Jatsenjuk frá Föðurlandsflokknum, Julija Tymosjenko, fyrrverandi forseti og einn leiðtoga appelsínugulu byltingarinnar árið 2004, og svo Oleh Tjahnibok frá ofurþjóðernissinnaflokknum Svoboda. Fundir áttu sér stað langt fram á kvöld og forsetinn gaf sífellt meira eftir. Hægriöfl innan mótmælenda, með Pravi Sektor (Hægriarmurinn) fremst í fylkingu, brugðust ókvæða við þessum fundum og réðust á lögreglu, m.a. með bensínsprengjum, og tóku yfir opinberar byggingar í höfuðborginni.
Forsvararmenn úr ESB, einkum utanríkisráðherrar Þýskalands, Frakklands, og Póllands höfðu nú samband við forsetann og sömdu við hann um málamiðlun sem gekk út á það að hann, Yanukovych, skyldi sitja við völd fram til desember 2014 en þá skyldi framkvæma nýtt forsetakjör. Einnig átti að leiða aftur í gildi stjórnarskrá frá appelsínugulu byltingunni 2004. Forsetinn og stjórnarandstöðuleiðtogar skrifuðu undir þetta samkomulag. Þeir síðastnefndu fór þar eftir með samninginn út á Maidan-torg, en þar tók leiðtogi Pravi Sektor, Dmitro Yarosj samninginn, fór með hann upp í ræðustól og reif hann í sundur. Daginn eftir tóku sveitir þjóðernissinna undir þingið og stjórnarbyggingar. Leiðtogar ESB fóru nú heim og skiptu sér ekki meira að (sjá nánar hér). Framámenn frá Bandaríkjunum, hins vegar, tóku áfram virkan þátt í atburðarrásinni.
Nú hófst ægileg ofbeldisalda og þjóðernissinnar úr vesturhluta landsins, auk erlendra vígamanna, inn til Kænugarðs. Ráðist var að þinghúsinu með grjóti og molotov-kokteilum. Mótmælendur voru vopnaðir og skutu á lögreglu. Fjöldi fólks lét lífið dagana 18. til 22. febrúar og mótmælendur náðu yfirtökunum í stjórnarbyggingum og umkringdu þinghúsið. Það var við þessar aðstæður sem forsetinn flúði endanlega land, þann 22. febrúar 2014.
Stjórnarandstaðan tók nú völdin og boðaði til kosninga, strax 25. febrúar. Þær kosningar verða seint taldar lýsa vilja hins almenna borgara í Úkraínu, enda var nánast engin kosningaþátttaka í austurhluta landsins, þar sem andstæðingar Maidan-mótmælanna töldu kosningarnar ólöglegar, en í vesturhlutanum var þátttakan einungis um 60%. Þessar kosningar voru samt haldnar og sigurvegari, með rúmlega 50% atkvæða, var milljarðamæringurinn Petro Poroshenko. Í sigurræðu sinni sagði hann helstu markmið sín að brjóta á bak aftur andspyrnuna í austur Úkraínu, slíta stjórnmálasambandi við Rússland, afnema rússnesku sem opinbert tungumál og bindast Evrópusambandinu sterkari böndum. Meðal fyrstu lagabreytinga sem ný ríkisstjórn stóð fyrir var að afnema lög sem hin burtflæmda ríkisstjórn hafði samþykkt árið 2012 sem leyfði notkun rússnesku, rúmensku, moldóvsku og ungversku í dómssölum, skólum og öðrum opinberum stofnunum á svæðum þar sem hlutfall þjóðernisminnihluta var meira en 10%. Með þessu misstu þessir þjóðernishópar rétt sinn til að nota móðurmál sitt í samskiptum við hið opinbera. Þetta vakti ekki mikla lukku í austri.
Bandarískir haukar með hönd í bagga
Fingraför Bandaríkjamanna voru um allt í Úkraínu. Þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, John Kerry, átti t.d. fundi með stjórnarandstöðunni í Úkraínu í janúarmánuði 2014. Yfirlýstur tilgangur fundarins var að ná ró í landinu, endurræsa hið pólitíska ferli landsins og vinna að áætlunum um myndun nýrrar ríkisstjórnar í landinu. Á meðan Maidan-uppreisninni stóð mætti sjálfur John McCain, öldungadeildarþingmaður, til Kiev til að halda ræðu fyrir mótmælendur og stappa í þá stálinu. Hann átti einnig kvöldverði með stjórnarmönnum í þjóðernissinnaflokknum Svoboda og ráðlagði um næstu skref.
Enn grófari voru afskipti Victoriu Nuland, sem þá var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna fyrir Evrópu. Strax í desember 2013 lýsti hún því yfir á fundi með samvinnustofnun Úkraínu og Bandaríkjanna að hún hefði ferðast til Úkraínu í þrígang frá því að mótmælin hófust til þess að styðja baráttuna gegn þáverandi stjórnvöldum í Úkraínu. Árið 2015 birtust svo upptökur af símtali sem Nuland átti við þáverandi sendiherra Bandaríkjanna í Úkraínu, Geoffey Pyatt, á meðan Maidan mótmælunum stóð. Þar ræddu þau fjálglega um það hvaða aðilar væru bestir til að taka við stjórnartaumunum eftir að byltingunni lyki. Þau voru þar sammála um að rétti maðurinn innanlands væri Arseniy Yatsenuyk. Hann varð einmitt forsætisráðherra á milli 2014 til 2016. Á meðan samtali Nulands og Pyatt stóð var samt Yanukovych enn réttkjörinn og löglegur forseti landsins (Carpenter, 2017). Nuland og Pyatt fóru mjög vandlega í saumanna og ræddu um að Joe Biden, þá varaforseti Bandaríkjanna, væri rétti maðurinn til að stýra alþjóðaþætti byltingarinnar, enda vanur maður í stjórnarskiptaaðgerðum. Þegar tal barst að aðkomu Evrópusambandsins lét Nuland út úr sér „Fuck the EU“.
Strax í kjölfar Maidan byltingarinnar hélt svo Zbigniev Brzesinski, þjóðaröryggisráðgjafi í stjórnartíðum Carters og Obama, erindi í “Woodrow Wilson Center for Scholars” í Washington DC., einum öflugasta “þankatanki” heims. Í erindinu hvatti Brzesinski bandarísk stjórnvöld að færa nýjum stjórnvöldum í Kiev vopn sem væru sérstaklega hönnuð fyrir andspyrnustríð í borgum. Ögra ætti Rússlandi að ráðast inn í Úkraínu og koma því í langt, dýrt og blóðugt stríð sem myndi veikja Rússland (Brzezinski, 2014). Þessi stefna varð að raunveruleika.
Pólitísk hreinsun
Fljótlega í kjölfar stjórnarskiptanna hófust árásir á flokksmenn stærsta stjórnarflokksins. Öllum meðlimum hans í öllum þeim 204 kjördæmum sem flokkurinn átti meirihluta í var sagt upp og nýir embættismenn, hliðhollir nýjum stjórnvöldum, settir í þeirra stað. Flokkurinn var beinlínis bannaður í nokkrum héruðum strax árið 2014 og fjöldi flokksmanna fengu á sig kæru fyrir að „styðja viðleitni til aðskilnaðar og fyrir spillingu“ (sjá nánar hér). Vígahópar á borð við Pravy Sektor tóku svo til að elta flokksmenn uppi og beita þá ofbeldi. Margir þeirra voru myrtir. Ný yfirvöld aðhöfðust ekkert til að koma í veg fyrir þessar árásir og enginn ofbeldismannanna hlaut kæru. Skrifstofur flokksins og stundum heimili flokksmanna voru brennd til grunna. Breska dagblaðið the Guardian greindi frá því í einstaklega orvellískri frétt að þessi fyrrum stjórnarflokkur Úkraínu, og stærsti flokkur landsins, hefði lent í „öldu sjálfsmorða“ árið 2015. Þann 21. febrúar 2023 bannaði úkraínuþing svo alla starfsemi Svæðisflokksins. Þeir sem ekki voru opinskátt í liði með nýjum stjórnvöldum voru þaggaðir í hel.
Stríð milli austurs og vesturs
Í desember 2013 voru haldnar mótmælagöngur gegn Maidan-byltingunni í austurhluta Úkraínu (Kushch, 2013), en eftir að Euromaidan-sinnar náðu pólitískum völdum í Kiev í janúarmánuði 2014 keyrði um þverbak víða í Austurhlutanum. Þau landsvæði í Úkraínu þar sem mest andspyrna var við nýjum stjórnvöldum voru í Donetsk, Luhansk og á Krímskaganum, en mótmæli voru einnig haldin í öðrum stjórnarsvæðum, allt frá Odessa, Kharkiv og Mariupol og norður eftir austurhlutanum. Þetta eru helstu iðnaðarsvæði Úkraínu og liggja þau nokkurn vegin á milli fljótanna Dnéper og Don til rússnesku landamæranna. Frá sjónarhorni þeirra voru atburðirnir í Kiev 2014 valdarán á löglegri og lýðræðislega kjörinni stjórn.
Rússnesk stjórnvöld skiptu sér fljótlega beint og gróft af Úkraínudeilunni. Þann 22. febrúar skipulögðu aðilar innan rússneska hersins, ásamt heimamönnum, innlimun Krímskaga í Rússland. Hersveitir hliðhollar Rússum tóku stjórn yfir stjórnarbyggingum í Sevastopol, höfuðborg skagans, og afvopnuðu úkraínskar öryggissveitir þar. Í kjölfarið var skipulögð þjóðaratkvæðisgreiðsla þar sem kjósa átti um það hvort íbúar Krímskaga vildu slíta sig úr stjórnarsambandi við Úkraínu og tengjast Rússlandi. Þetta var gert þann 16. mars og í kosningum með um 83 prósenta mætingu kusu tæp 97 prósentur þátttakenda að slíta sig úr stjórnarsambandi við Úkraínu. Þetta kom ekki sérstaklega á óvart enda er meirihluti íbúa Krímskagans rússneskumælandi og tengslin við Rússland höfðu haldist frá því ríkisstjórn Krúsjefs ákvað að færa skagann inn í úkraínska sovétlýðveldið. Þessi innlimun Krímskagans í Rússland var fordæmd á Vesturlöndum, eins og í Úkraínu, enda var aðkoma Rússlands og forseta þess mjög bein og augljós.
Mótmæli gegn Maidan spruttu upp víðar í suðaustur Úkraínu og í lok apríl voru hávær mótmæli haldin hinni sögufrægu borg, Odessa. Mótmælin í Odessa fengu þó sorglegan endi annan maí 2014, þegar fasískir hópar og fótboltabullur eltu uppi stóra hópa mótmælenda, hröktu þá inn í höfuðstöðvar verkalýðshreyfingar í borginni og brenndu þá þar inni. Samkvæmt skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna brunnu 42 til bana í árásinni (OUNHCHR, 2014). Þessi árás á mótmælendur voru sem köld gusa í andlitið á þeim sem litu á valdaránið sem endurkomu nasista. Ekki voru viðbrögð Vesturlanda mjög uppbyggjandi við þessum atburði. Stephen Harper, þá forsætisráðherra Kanada, lét hafa eftir sér að þessi atburður væri merki um „hægfara innrás Pútíns“ (Harper, 2014).
Aðskilnaðarsinnar í Donbass
Donetsk og Luhansk stjórnarsvæðin eru sameiginlega kölluð Donbass. Þetta er mikil flatneskja án náttúrulegra varnargarða, en jafnframt þéttbýlasta svæði Úkraínu. Fólksflutningar þangað hófust fyrir alvöru á Sovéttímanum þegar fólk leitaði í vinnu í hinum stóru verksmiðjum borganna. Tengslin við Rússland hafa ætíð verið sterk á þessu svæði. Það á ekki að koma neinum á óvart að íbúar þarna hafi gripið til vopna og neitað að viðurkenna hina nýju stjórn, sérstaklega í kjölfar atburðanna í Odessa. Þetta er ekki einungis vegna fylgispektar við þá stjórn sem almenningur hafði þó kosið, heldur risti þetta dýpra. Stór hluti af hinni nýju byltingarstjórn í Kænugarði talaði opinberlega um að hreinsa landið af Rússum, sósíalistum og öðru óæskilegu fólki og því ekki að undra að viðbrögð hafi orðið.
Stór hluti íbúa í Donetsk og Luhansk vildu fara sömu leið og Krímverjar gerðu, að skilja héruðin frá Úkraínu og annað hvort lýsa yfir aukinni sjálfsstjórn eða hreinlega ganga inn í Rússland. Þetta varð fljótlega mjög líkt stríðsátökunum í Kalda stríðinu. Austur og Vestur mættust í þriðja ríki. Hersveitir nýrra stjórnvalda nutu stuðnings frá Natoríkjunum, en Donbass skæruliðarnir frá Rússlandi. Á milli varð almenningur og hann átti eftir að þurfa að þjást mikið næstu árin.
Mótmælendur gegn stjórnarskiptunum í Kiev lýstu yfir sjálfstæði Donetsk og aðskilnaði frá Úkraínu undir nafninu „Donetskaya Narodnaya Respublika“ þann 7. apríl 2014. Vopnaðir hópar sóru að verja landsvæðið ef til innrásar kæmi. Hið sama gerðist í Luhansk 27. apríl. Ákveðið var að halda atkvæðagreiðslu þar sem hægt var að velja á milli þess að breyta engu, að auka sjálfsstjórn héraðsins, eða að ganga til ríkjasambands við Rússland. Fleiri borgir í austur Úkraínu fylgdu í kjölfarið. Aðskilnaðarsinnar gerðu áhlaup á lögreglustöðvar og opinberar byggingar og náðu fljótlega völdum.
Stjórnvöld í Kiev hófu hernaðaraðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum þann 13. apríl. Herinn og aðrar vopnaðar sveitir umkringdu borgirnar og hófu meðal annars sprengiárásir. Yfirvöld í Úkraínu héldu því fram að þau myndu ná stjórn yfir landinu innan 48 klukkustunda, en annað kom á daginn. Skæruliðarnir reyndust miklu harðari en þeir áttu von á og náðu að yfirbuga hersveitir í fjöldamörgum aðgerðum og náðu af þeim vopnum.
Umsátur og sveltistefna
Þegar hersveitum stjórnvalda mistókst að knésetja aðskilnaðarsinna í hernaðaraðgerðum lagðist ríkisstjórn Poroshenkos í æ harðari aðgerðir. Öll félagsleg aðstoð frá ríkinu, t.d. atvinnuleysis- og örorkubætur, var stöðvuð, vöruflutningar til landsvæðanna voru bannaðir og herinn, fullur af vestrænu fé, reyndi að loka fyrir alla umferð til og frá yfirráðasvæðum uppreisnarmanna. Líklega hefði þetta tekist ef ekki hefði komið til leynilegra, en ólöglegra, vöruflutninga frá Rússlandi.
Þó að lítið hafi farið fyrir fréttaflutningi frá þessum viðburðum hér á landi og annars staðar á Vesturlöndum fengu stjórnvöld yfir sig gagnrýni á alþjóðavettvangi. Í desembermánuði 2014 birti Amnesty International greinargerð þar sem sýnt var fram á hvernig Kiev-stjórnin beitti sér fyrir því að hindra flutning neyðargagna til almennings í Donetsk og Luhansk. Samkvæmt skýrslunni var verkefnið við að svelta íbúana að stórum hluta til í höndum hersveitarinnar Dnipro-1, en hún var ein af um 30 einkahersveitum með nasískar hugsjónir að leiðarljósi sem störfuðu nærri óáreittar í Úkraínu (Taub, 2015). Sveitirnar réðust á alla birgðaflutninga á leiðinni til Donbass svæðisins. Íbúar fengu ekki einu sinni matarsendingar og Amnesty sakaði Kiev stjórnina um glæpi gegn mannkyninu fyrir þessa vísvitandi herferð til að hindra flutninga á mat, lyfjum og öðrum lífsnauðsynjum til almennings (Amnesty International, 2014).
Þrátt fyrir þetta gekk hvorki né rak að knésetja gagnuppreisnina í Austur- og Suðurhluta Úkraínu. Þvert á móti þá unnu aðskilnaðarsinnar hverja orrustuna á fætur annarri gegn Úkraínuher og málið var hið vandræðalegasta fyrir hinn nýja forseta.
Minsk 1 og 2
Það kom því að því að menn settust við samningsborðið. Það borð var staðsett í höfuðborg sameiginlegra nágranna, í Minsk í Belarús. Þar komu saman erindrekar frá Úkraínu, Rússlandi, frá aðskilnaðarstjórnum Donetsk og Luhansk, ásamt sáttasemjurum frá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Það tókst að ná fram samningum um vopnahlé, það að fjarlægja erlenda vígamenn frá úkraínskri foldu, samþykkt var að friðargæsluliðar frá ÖSE væri á staðnum til að halda uppi friði , samþykkt var að haldnar yrðu kosningar um alla Úkraínu um stjórnarskrárbreytingar sem gætu opnað fyrir aukna sjálfsstjórn hvers stjórnarhéraðs, fangaskipti urðu milli stríðandi fylkinga, neyðaraðstoð var leyfð á ný og samþykkt var að landamæri Úkraínu væru örugg og heilög.
Því miður leið ekki á löngu þar til hersveitir Úkraínumanna gerðu loftárásir á flugvöllinn í Donetsk. Aðskilnaðarsinnar svöruðu í sömu mynt og þetta leysti úr læðingi fjölda átaka milli hinna stríðandi fylkinga. Friðarsamningurinn var að engu orðinn.
Ekkert gekk þó né rak í að brjóta aðskilnaðarsinna á bak aftur og stríðið varð æ harðara. Á endanum var gerð önnur tilraun til að ná friðsamlegri lausn á deilunni og í febrúar 2015 náðu erindrekar Úkraínustjórnar, Rússlands, Frakklands og Þýskalands að setjast saman og gera nýjan samning, nú með nákvæmari útlistunum á því hvernig mætti halda samninginn. Þessi samningur, Minsk, 2 fól meðal annars í sér tafarlaust vopnahlé, afvopnun á lykilsvæðum og strangara eftirlit erlendra aðila með því að samningnum yrði framfylgt. Full yfirráð Úkraínu yfir landamærum sínum voru tryggð, en Donbass var lofað aukinni sjálfsstjórn.
Ögn betur tókst að halda þessa samninga þó að reglulega kæmi til átaka milli stríðandi fylkinga. En síðar kom í ljós að ekki lá alvara að baki þessum samningum að hálfu Þjóðverja og Úkraínumanna. Í viðtali við dagblaðið Die Zeit viðurkenndi Angela Merkel að „Minsk samningarnir var tilraun til þess að kaupa tíma fyrir Úkraínu. Úkraína notaði þennan tíma til að verða sterkari, eins og þú sérð í dag. Úkraína árin 2014-15 og Úkraína í dag eru ekki sami hluturinn.“ (Sjá hér). Selinskí tók í sama streng í viðtali við Der Spiegel. Þar sagðist hann meðal annars hafa einungis þóst styðja Minsk samningana til þess að ná fram fangaskiptum við Rússland og gefa landi sínum meiri tíma til að undirbúa sig fyrir stríð. Hann bætti því við að þessir samningar hefðu einungis þjónað þeim tilgangi að svala yfirgangsfýsn Rússlands um hríð. (sjá viðtalið í heild hér.)
Frekari mannréttindabrot
Úkraínustjórn fór að sýna meiri tilburði til ógnarstjórnar eftir því sem á leið. Úkraínska Leyniþjónustan, SBU, var tekin fyrir í skýrslu Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir að starfa án aðhalds og eftirlits og fyrir víðtæk mannréttindabrot frá árinu 2014. Mannréttindaráðið sagði Leyniþjónustuna hafa stundað ólöglegar handtökur, mannrán, pyntingar og morð án dóms og laga á fjölda fólks frá dögum Maidan-byltingarinnar (UN OHCR, 2021).
Viðbrögð SBU við skýrslunni voru ekki að fara í sjálfsskoðun, heldur var farið í háa gírinn við að taka höndum, pynta og myrða bæði innlenda og erlenda gagnrýnendur úkraínskra stjórnvalda. Stöðugt bættist á lista þeirra um Úkraínumenn sem dirfðust að gagnrýna úkraínsk stjórnvöld sem lentu í því að vera rænt, þau pyntuð og svo myrt. Meðal þeirra eru Volodymyr Struk, borgarstjóri Kremennaborgar. Í byrjun mars s.l. var honum rænt og hann fannst svo látinn af skotsárum. Eftir að fréttist af láti Struks lét Anton Gerashchenko, ráðgjafi Innanríkisráðherra Úkraínu hafa eftir sér: „Nú hefur fækkað um einn svikara í Úkraínu. Borgarstjóri í Luhanskhéraði, fyrrverandi meðlimur í þingi Luhansk, hefur verið drepinn“ (Miami Standard News, 2022).
Denis Kireev, úkraínskur embættismaður fór fyrir hönd úkraínsku ríkisstjórnarinnar á friðarsamningsumræður við Rússland í Hvíta-Rússlandi í mars. Tilgangur fundarins var að leita leiða til að koma á vopnahléi. Þann sjötta mars fannst hann látinn á götum Kyiv. Samkvæmt fréttum af atburðinum var Kireev myrtur um miðjan dag af úkraínskum leyniþjónustumönnum fyrir að vera „svikari“ og myndir af líki hans fóru í dreifingu um allt landið (Taylor, 2022).
Daginn eftir voru bræðurnir Aleksandr og Mikhail Kononovich, leiðtogar kommúnistahreyfingar ungmenna í Úkraínu, handteknir og þeir færðir í gæsluvarðhald í Kyiv. Þeir voru sakaðir um að vera áróðursmenn fyrir viðhorf Rússa og Hvít-Rússa.
Sama dag birtust myndbönd af því að úkraínskir nasistar pyntuðu MMA-íþróttamanninn Maxim Ryndovskiy. Hann var þrefaldur heimsmeistari í Sambo-glímu. Aðalglæpur hans var sagður sá að hafa þjálfað með rússneskum og téténskum glímumönnum og einnig að hafa heimsótt yfirráðasvæði sjálfsstjórnarsinna í Luhansk. Ryndovsky er gyðingur og yfirlýstur friðarsinni (Melanovsky, 2022).
Nestor Shufrych, þingmaður úr úkraínska sósíal-demókrataflokknum, var handtekinn þann 4. mars, sakaður um að hafa starfað með rússneskum stjórnvöldum. Hann hafði áður lent í því að ráðist var á hann á þinginu. Hann var handtekinn fyrir að hafa tekið myndir af varnarliði úkraínuhers og að vera grunaður um að vera á bandi með Rússum (Rackziewycz, 2022).
Þann 10. mars var hinn þjóðþekkti blaðamaður og sjónvarpsþáttastjórnandi, Yan Taksiur, handtekinn af úkraínsku Leyniþjónustunni og færður í gæsluvarðhald. Taksiur, sem er í úkraínsku Réttrúnaðarkirkjunni, er með krabbamein og samtök Rétttrúnaðarkirkjunnar á heimsvísu gáfu þann 24. mars út ákall til heimsbyggðarinnar þar sem Taksiur hafði hvorki fengið verjanda til að aðstoða sig né aðgang að heilbrigðisþjónustu frá því hann var handtekinn (OC, 2022).
Sílenski rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Gonzalo Lira sem hafði ferðast til Úkraínu til að fjalla um stríðið, var numinn á brott þann 15. apríl. Hann hafði verið sakaður um að vera á móti stjórn Zelenskis og vera hliðhollur Rússum (News 24. 2022). Þessi, og fjöldamörg önnur voðaverk voru framin á almennum borgurum í Úkraínu að hálfu vígasveita hliðhollar Kiev-stjórninni.
„Friðarforsetinn“ lúffar fyrir Bandaríkjamönnum
Nýr forseti, Zelensky, var kjörinn í aprílmánuði árið 2019. Fólk var orðið dauðleitt á bæði Poroshenko og stríðinu sem hafði ríkt í 5 ár. Auk þess að vera vinsæll leikari, þá gaf Zelensky í skyn að hann myndi binda endi á þessi átök með samningum. En sú varð ekki raunin. Þann 18. Júní 2019 tilkynnti bandaríska Varnarmálaráðuneytið að það hygðist gefa 250 milljónir Bandaríkjadala til kaupa á hergögnum fyrir úkraínsk stjórnvöld. Samtals hafði Varnarmálaráðuneytið þá gefið Úkraínu 1,5 milljarða Bandaríkjadala til að halda styrjöldinni gegn íbúum austur-Úkraínu gangandi (Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, 2019). Ef Zelensky hefur viljað frið, þá vildu Bandaríkjamenn það augljóslega ekki.
Þann 17. desember 2021 afhentu rússnesk stjórnvöld Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna uppkast, ásamt tillögu um framkvæmdaáætlun, að samkomulagi um það sem þeir kölluðu varanlegan frið milli Rússlands og Bandaríkjanna/NATO. Samningsdrögin fólust í mjög einfölduðu og stuttu máli í því að NATO myndi ekki þenjast meira út í áttina að Rússlandi, og á móti myndu Rússar fara að öllu eftir kröfum Atlantshafsbandalagsins og nágrannaríkja sem gerðar væru til að koma í veg fyrir nokkurs konar stríðsátök að hálfu Rússa. Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið höfnuðu þessum samningi án umræðu og sögðu hvert ríki geta ákveðið hvort það myndi sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu eða ekki (Revell, 2021). Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóri NATO, sagði um friðarviðleitni Rússlandsforseta þetta: „Bakgrunnurinn var sá að Pútín forseti lýsti því yfir á haustmánuðum 2021, og sendi í rauninni drög að sáttmála sem hann vildi að NATO undirritaði, um að lofa því að hætta frekari útþenslu NATO. Það var það sem hann sendi okkur. Og þetta voru frumskilyrði þess að ekki yrði ráðist inn í Úkraínu. Við skrifuðum auðvitað ekki undir það“ (Stoltenberg, 2023). Auðvitað ekki?
Viðbrögðin við þessari tillögu Rússa voru ekki bara hunsun meðal vestrænna ráðamanna. Strax í kjölfarið fluttu stjórnvöld í Kænugarði um 100 þúsund hermenn í átt að Donetsk og Luhansk- héruðunum. Forsetinn ítrekaði í kjölfarið vilja til að ganga í NATO og bætti því við að hann vildi koma upp kjarnorkuvopnum í landinu. Á sama tíma hófu Rússar að færa hersveitir sínar að landamærunum við Úkraínu. Ástandið var orðið ískyggilegt.
Þann 16. febrúar hófu úkraínsk stjórnvöld svo stórsókn á Luhansk og Donetsk. Þeir létu sprengjum rigna yfir íbúa héraðanna og útlit var fyrir að þúsundir myndu farast og að milljónir manna yrðu rekin á flótta til Rússlands. Þann 19. febrúar kom svo enn ein stríðsyfirlýsingin. Þá hélt forsetinn, Zelensky, ræðu á 58. Öryggisráðstefnunni í Munchen, stærstu ráðstefnu sinnar tegundar í Evrópu þar sem hann talaði fyrir því að rifta endanlega Búdapest-samningunum sem undirritaðir voru árið 1994 og kvartaði yfir því að Úkraína hefði ekki lengur yfir að ráða kjarnorkuvopnum. Þeir samningar voru grundvöllurinn fyrir því að Úkraína hafði ekki yfir að ráða kjarnorkuvopnum. Í stað slíkra samninga myndi Úkraína áskilja sér rétt til að byggja upp hvaða öryggisráðstafanir sem það vildi. Um leið ítrekaði hann óskir þess að Úkraína gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu.
Frá sjónarmiði Rússlands voru þessi orð eins mikil ógn við öryggi ríkisins og mögulegt var. Ef Úkraína ætlaði að ganga í NATO, og um leið koma sér upp kjarnorkuvopnabúri, aðeins 750 kílómetrum frá Moskvu, var ekkert eftir af rauðu línunni sem sett var árið 1991. Maður hlýtur að spyrja sig, var hér vísvitandi verið að koma af stað styrjöld? Eitt er ljóst, að Brzezinski hefur verið ánægður með þróun mála. Svo fór að á endanum kom innrás, átta árum eftir valdaránið 2014.
Heimildir
Amnesty International. 2015. Eastern Ukraine: Humanitarian disaster looms as food aid blocked. Sótt frá https://www.amnesty.org/en/latest/news/2014/12/eastern-ukraine-humanitarian-disaster-looms-food-aid-blocked/
Golinkin, L. 2019. Neo-Nazis and the Far Right Are On the March in Ukraine: Five years after the Maidan uprising, anti-Semitism and fascist-inflected ultranationalism are rampant. The Nation. Sótt frá https://www.thenation.com/article/politics/neo-nazis-far-right-ukraine/.
Melanovsky, J. 2022 (9.mars). Ukrainian neo-Nazis torture Jewish anti-war MMA athlete. WSWS. Sótt frá https://www.wsws.org/en/articles/2022/03/09/umma-m09.html
Miami Standard News. 2022 (3.mars). Pro-Russia mayor of city in eastern Ukraine who welcomed Putin’s invasion is found shot dead in the street after being kidnapped from his home. Miami Standard. Sótt frá https://miamistandard.news/2022/03/03/pro-russian-mayor-of-city-in-eastern-ukraine-who-welcomed-putins-invasion-is-found-shot-dead-in-the-street-after-being-kidnapped-from-his-home/
OHCHR. 2022 (janúar). Conflict-related civilian casualties in Ukraine (PDF). Sótt þann 2.06.2022 frá https://ukraine.un.org/sites/default/files/2022-02/Conflict-related%20civilian%20casualties%20as%20of%2031%20December%202021%20%28rev%2027%20January%202022%29%20corr%20EN_0.pdf
Orthodox Christianity. 2022 (24.mars). ORTHODOX JOURNALIST WITH CANCER DETAINED IN KIEV WITHOUT ACCESS TO LAWYER OR MEDICINE, HEALTH DETERIORATING. Sótt frá https://orthochristian.com/145355.html
Raczkiewycz, M. 2022 (4.mars). Suspected longtime Russian mole Shufrych detained by territorial defense after taking pictures of checkpoint. The Ukrainian Weekly. https://subscription.ukrweekly.com/2022/03/suspected-longtime-russian-mole-shufrych-detained-by-territorial-defense-after-taking-pictures-of-checkpoint/
Taub, A. 2015. Pro-Kiev militias are fighting Putin, but has Ukraine created a monster it can’t control? Vox. Sótt frá https://www.vox.com/2015/2/20/8072643/ukraine-volunteer-battalion-danger.
Taylor, H. 2022 (07.03.2022). Ukrainian official Denis Kireev found dead after being accused of committing ‘treason’ and working for Russia. 7News, Australia. Sótt frá https://7news.com.au/news/ukraine/competing-claims-emerge-after-ukraine-official-denis-kireev-accused-of-treason-shot-dead-in-street-c-5958770
TheN24. 2022 (20.apríl). Chilean journalist Gonzalo Lira disappeared in Ukraine five days ago.
UN OHCR. 2021. Arbitrary detention, torture, and ill-treatment in the context of armed conflict in eastern Ukraine, 2014-2021. United Nations Human Rights Office of the High Commissioner. Skýrsla um ofbeldi úkraínskra öryggissveita í stríðinu í Austur Úkraínu. Sótt frá https://www.ohchr.org/sites/default/files/Documents/Countries/UA/UkraineArbDetTorture_EN.pdf
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (Department of Defense). 2019 (18. Júní). DoD Announces $250M to Ukraine. Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.defense.gov/News/Releases/Release/Article/1879340/dod-announces-250m-to-ukraine/
Brzezinski, Z. 2014. The Ukraine Problem: Confronting Russian Chauvinism. The American Interest (27.06.2014). Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.the-american-interest.com/2014/06/27/confronting-russian-chauvinism/
Carpenter, T. G. 2017. America’s Ukraine Hypocrisy. Cato institute. https://www.cato.org/commentary/americas-ukraine-hypocrisy
Shapovalova, N. 2010. Assessing democracy assistance: Ukraine. FRIDE, project report. Sótt þann 03.01.2022 frá https://www.files.ethz.ch/isn/130779/IP_WMD_Ucrania_ENG_jul10.pdf
USAID. 2019. USAID Enterprise Fund Continues To Generate Growth. Sótt frá https://www.usaid.gov/europe-and-eurasia/newsletter/feb-2019/usaid-enterprise-fund-continues-generate-growth-wnisef
USAID. 2022. Where we work: Ukraine. Sótt 27.01.2022 frá https://www.usaid.gov/ukraine
Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna (Department of Defense). 2019 (18. Júní). DoD Announces $250M to Ukraine. Sótt þann 3. Janúar 2022 frá https://www.defense.gov/News/Releases/Release/Article/1879340/dod-announces-250m-to-ukraine/
Valentine, D. 2016. The CIA as Organized Crime: How Illegal Operations Corrupt America and the World. Skyboat Media. Heimildir og nánari útskýringar á þessu má finna í bók Valentines, en ítarlegt viðtal við Valentine um bókina má nálgast á Youtube á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=vHpxdagNjwg