Merkileg bók um atburðina 11. september 2001 í samhengi

11. september, 2020 Jón Karl Stefánsson



Í dag er árásin á Tvíburaturnana 19 ára. Nýlega kom út (á ensku, af íslensku forlagi) ný bók um atburðina sem áttu sér stað þann 11. september 2001. Þetta er gríðarlega vel unnin og beinskeytt bók sem nær að fanga marga mikilvægustu þættina um þetta málefni. Bókin America´s Betrayal Confirmed. 9/11: Purpose, Cover-up and Impunity, er sterk bók um stórmál. Elías Davíðsson er baráttumaður mannréttinda, hefur einnig mjög fjallað um náttúruverndarmál og lýðræði en öðru fremur hefur hann sem sérsvið málefni hryðjuverka (undir fölsku flaggi sérstaklega).

Elías hefur áður fjallað um málefni tengd 11. september 2001 í bók sinni «Hijacking America´s Mind on 9/11» (Algora Publishers, New York, 2013), þar sem hann sýndi fram á að bandarísk yfirvöld hafa ekki lagt fram neinar sannanir um veru hryðjuverkamanna í flugvélunum. Önnur bók hans, einnig á ensku, var umfangsmikil rannsókn á hryðjuverkunum í Mumbai (Indlandi) árið 2008. Bókin varð tilnefnd bók ársins af hálfu stofnunarinnar London Institute on South Asia árið 2018 og hefur verið þýdd á úrdú (landsmáli Pakistan). Auk þess gaf Elías út tvær bækur á þýsku, aðra um 11. september 2001 og hina um atburðinn á jólamarkaðinum í Berlín 2016, einu bókina sem hefur birst um þennan atburð. Sú bók hefur verið þýdd á tékknesku. Bókin sem hér er fjallað um, hefur verið þýdd á hollensku.

Bókin byggist á sjálfstæðum umræðueiningum. Hver kafli fjallar um afmarkaðan þátt þessara atburða og sýnir, óháð hinum þáttum, að bandarísk yfirvöld hafa með öllum tiltækum ráðum reynt að hylma yfir þá sem hafa skipulagt og framið fjöldamorðin. Hver eining fyrir sig myndar þannig sjálfstætt ásökunarskjal. Samanlagt mynda kaflarnir 16 að því er virðist óhagganlegt ásökunarskjal sem gæti orðið mjög erfitt að hrekja.

Bókin America´s Betrayal Confirmed sýnir fram á að opinbera kenningin um atburðarrásina stenst ekki og getur ekki staðist. Elías telur upp þau fjölmörgu atriði sem sanna að tilgáturnar sem mynda kenninguna standast enga prófun. Hann setur þessi fyrirbæri í samhengi við hegðun og viðbrögð Bandaríkjastjórnar sjálfrar við þessum atburðum. Og auðvitað felur þessi afsönnun opinberu kenningarinnar í sér rök, líkindi eða sannanir fyrir að þessir atburðir hefðu einfaldlega ekki getað gerst hefði fólk úr innsta kjarna bandaríska valdakerfisins ekki tekið þátt í þeim.


Atburðirnir 11. september í ljósi breyttrar heimsmyndar í kjölfar þeirra

Skoðum lítillega fyrsta kaflann, „The Road to 9/11 (the Decade 1990-2001)”. Það er vissulega erfitt að taka inn þann stóra skammt að hryðjuverkin 11. sept hafi verið „innanbúðarverk“ (inside job), að slíkur sögulegur stórviðburður hafi byggt á „skipulegri blekkingu“. En þá er þess að gæta að atburðurinn verður í röklegu samhengi og það er „system í galskaben“. Skoðum nokkur atriði.

„Ellefti september“ var startskot fyrir „hnattrænt stríð gegn hryðjuverkum“. Sjálf hugmyndin um þetta «hnattræna stríð» var og er hugmyndafræði og yfirskrift þess stríðs sem síðan hefur geisað, einkum í Austurlöndum nær. Öll hin afmörkuðu stríð Bandaríkjanna og bandamanna þeirra eftir 11. september – þau helstu í Afganistan, Írak, Líbíu, Sýrlandi sem hafa kostað á aðra milljón mannslífa og sent tugmilljónir á flótta – byggja á skipulegum og kerfisbundnum blekkingum og eru glæpur gegn mannkyni. Það væri ósamræmi ef hin einstöku stríð byggðu á blekkingum en forsendan og hugmyndafræðin á bak við þau byggði á einhverju öðru, t.d. raunverulegri ógn.

Sérhverju ríki sem hyggur á hernað og hervæðingu – og staðfesta BNA í því efni er augljóslega mikil – er nauðsyn að byggja upp sannfærandi óvinamynd þegna sinna vegna. Sagan á óteljandi dæmi þar um, ekki bundin við BNA. Stríðið gegn hryðjuverkum kom í stað stríðsins gegn heimskommúnismanum. Bandaríska heimsveldið, efnahagskerfið, hernaðarkerfið var byggt upp kringum þá ógn. Einnig það stríð hafði skipulegar blekkingar sem meginaðferð. Þá „ógn“ þurfti hins vegar ekki að búa til frá grunni, aðeins túlka hana (og fótósjoppa) svo hún liti nógu skelfileg út. (bls. 22).

Það tilheyrir hinni skipulögðu blekkingu hvað vestrænt fjölmiðlakerfi er miðstýrt. Fréttamiðlun, ekki síst af hernaði og átakasvæðum – og 11. sept var og er slíkt átakasvæði – er afar miðstýrð gegnum fáa ríkjandi og allsráðandi fjölmiðla (sem sækja upplýsingar helst í leyniþjónustur). Fjölmiðlunin sú einokar «fréttaskýringuna» og býr ekki við samkeppni. Það sem við fáum svo að heyra er samhæfð, miðstýrð frásögn.

Við þær aðstæður var óþarfi að leggja fram sannanir. Þegar ráðist var á Afganistan eftir 11. sept var Rumsfeld varnarmálaráðherra spurður hvort tenging Afganistans við 11. sept væri sönnuð, og hann svaraði einfaldlega: …ég held það hafi verið gert nægjanlega. Sönnunargögnin um árásina eru í sjónvarpinu daglega. Tengslin milli hryðjuverkanetanna sem flækjast i málið sjást í sjónvarpinu á hverjum degi.“ En þau sönnunargögn hafa ekki verið lögð fram enn þann dag í dag. Ekki neitt. (58)

Brotthvarf Sovétríkjanna bauð upp á gríðarleg tækifæri fyrir BNA. Tilvist Sovétsins hafði gefið sjálfstæðum þjóðríkjum færi á að standast þrýsting frá BNA, m.a. velja sér efnahagsstefnu. En risaveldið var nú aðeins eitt til að setja einstökum löndum kostina. Nú var það full ferð áfram fyrir efnahagslega frjálshyggju og hnattvæðingu, annars voru menn úti í kuldanum. Bush eldri lýsti yfir: „Við verðum að sigrast á misráðnum hugmyndum efnahagslegrar þjóðernisstefnu sem boðar okkur það að við eigum að loka landamærum okkar fyrir erlendri samkeppni einmitt þegar hið alþjóðlega markaðstorg er orðið raunveruleiki.“ (27) .

Cheney varnarmálaráðherra og aðstoðarráðherra hans Wolfowitz skrifuðu: „Fyrsta markmið okkar er að hindra að aftur komi upp nýr keppinautur, annað hvort á landssvæði fyrrum Sovétríkjanna eða annars staðar.“ (25)

En samhliða hinum nýju tækifærum hafði brottfall Sovétríkjanna skapað Bandaríkjunum verulegan vanda: Sannfærandi óvin vantaði. Utanríkisstefna BNA er ekki ákvörðuð af þjóðþingi heldur í nokkrum hugveitum og klúbbum elítunnar. Elías sýnir skýrt hvernig á 10. áratugnum gerði sig mjög gildandi vöntun og eftirspurn eftir nýrri „ytri ógn“. Sjálfur erki-strategistinn George Kennan hafði áður skrifað: „Ef Sovétríkin myndu sökkva á morgun yrði hernaðariðnaðar-geirinn að halda áfram efnislega óbreyttur þar til einhver annar andstæðingur væri uppfundinn. Annað væri óásættanlegt áfall fyrir bandarískan efnahag.“ (32-40)

Klúbbarnir Council of Foreign Relations (CFR) og Project for a New American Century (PNAC) voru á þessum tíma hvað áhrifaríkastir (sá fyrri er það enn). Hjá þeim kom m.a.s. fram bein eftirspurn eftir „skelfilegum utanaðkomandi atburði“. Hjá CFR var skrifað um „hamfarahryðjuverk“ („act of catastrophic terrorism“) sem myndi þýða „straumhvörf í bandarískri sögu“. (44) PNAC taldi að endurnýjun Bandaríkjahers væri sálfræðilega erfið fyrir þjóðina: „Umbreytingin mun líklega taka langan tíma nema til komi hamfaraatburður sem virkar sem hvati, líkt og nýtt Pearl Harbor“.

Sem sagt mikið í húfi: Fjármagnsfrelsi og opnir markaðir og svo hernaðarkerfi Bandaríkjanna. Eins og bandaríska heimsveldið er byggt upp er algjört grundvallaratriði fyrir það að viðhalda hernaðarkerfi sínu, hestöðvanetinu og NATO. Efnahagslegt vald nægir ekki eitt og sér. Efnahagsvaldið er komið undir hervaldinu, og þá þarf sannfærandi óvinamynd. (24) Mikið var þrýst á um lækkun herútgjalda á 10. áratugnum – en með 11. sept var óvinurinn fenginn, „hryðjuverkaógnin!“. Hryðjuverkaógnin var sálfræðileg forsenda fyrir endurnýjaðri hernaðarstefnu og því að viðhalda öllu hinu umrædda batteríi.

Ekki var bara setið og beðið eftir óvininum. Fyrst eftir 1990 má tala um örvæntingarfulla leit að óvini en fókusinn skýrðist smám saman og þegar kemur fram um aldamót beindist hann eindregið að „hryðjuverkaógninni“, nánar tiltekið „samsæri ísamista“. Ógnin holdgerðist í ímynd hins mikla Osama bin Laden sem hataði frelsið og skipulagði illvirki. Þessi ímynd var skipulega byggð upp á 10 áratugnum. Leyniþjónustur og stóru fréttastöðvarnar voru í aðalhlutverki við þá uppbyggingu. En fljótt eftir 11. sept hvarf bin Laden að mestu úr fréttum (40).

Fyrsti kafli bókarinnar „The Road to 9/11“ er sterkur kafli. Hann fjallar ekki um árásina á Tvíburaturnana en hann fjallar með vel fram settum dæmum um mótíf, hvata og eftirspurn sem var eftir slíkum atburði meðal ráðandi hagsmunaafla í BNA, til að nýta þá sögulegu möguleika sem ný staða bauð upp á og til að ryðja hindrunum úr vegi.


Tæknilegar hliðar 9/11

Lítum á örfá dæmi um framkvæmd þessa mikla hryðjuverks sem hanga ekki saman og standast enga skoðun. Dæmin eru valin af handahófi.

Samkvæmt upplýsingum frá samgönguöryggisnefnd Bandaríkjanna (NTSB) breytti flug UA175 skyndilega um stefnu og tók 180° beygju á milli klukkan 8:51 og 8:56. Flugvélin lækkaði svo lofthæð sína frá 25.000 fetum kl 8:58 niður í 1000 fet kl. 9.03 þar sem hún skall á Norðurturn Tvíburaturnanna. Flugvélin lækkaði um 8000 fet á einni mínútu. Samkvæmt þessu var meðalhraðinn á vélinni síðustu 60 mílurnar sem vélin flaug 1245 k/klst, sem er yfir hljóðhraða. Hámarkshraði á þessari tegund flugvéla eru tæplega 900 km/klst. Flugræningjarnir sem sagðir eru hafa flogið þessu undraflugi höfðu fengið falleinkunn á æfingum með einshreyfla Cessna vél, náðu ekki einungis þessari ofurmannlegu tækni á stórri farþegaflugvél og rötuðu á nákvæmlega réttan stað í blindflugi, heldur brutu þeir náttúrulögmálin í leiðinni. (148-151)

Hvers vegna greindi BBC frá hruni turns númer 7 (47 hæða bygging skammt frá Tvíburaturnum) 22 mínútum ÁÐUR en hrun hans átti sér stað? Opinbera tilgátan um hrun turns númer 7 er sú að brak hafi hrunið á eina hlið byggingarinnar, eldur hafi logað í mörgum herbergjum í húsinu og svo skyndilega hafi byggingin hrunið til grunna á 9 sekúndum sem er nálægt falli steins í frjálsu falli. Er þetta góð tilgáta? Það er raunar nóg að horfa á myndband af atburðinum til þess að sjá hversu veik sú tilgáta er. (220)

Það sama gildir um tvíburaturnana sjálfa. Mörg vitni hafa lýst því að hafa heyrt gríðarlega háværar sprengingar eftir að flugvélarnar höfðu flogið á byggingarnar, fyrst í kjallaranum og svo öðrum hæðum. (185-187). Enn fremur var því aldrei svarað hvers vegna svo ægilega miklu magni af bráðnu stáli (ekki veiktu, heldur bráðnu) kraumaði í rústum turnanna, vikum saman eftir atburðina. (188-190).

Þessi atriði veikja opinberu samsæriskenninguna, og því sterkari stendur kenningin um skipulagt niðurrif. Opinberar rannsóknir, sem unnar voru á skammarlegan hátt, sneyða einfaldlega framhjá slíkum hnökrum á opinberu tilgátunni, en slíkt er skýrt brot á vísindalegum vinnubrögðum. Þegar tilgáta getur ekki staðist ber að hafna henni.

Hvort sem þú ert einn af þeim sem hefur þá tilfinningu að einungis vanvitar, andlega veikir eða brjálæðingar láti sér detta í hug að opinbera tilgátan um atburðarrásina 11. september 2001 sé röng, eða hefur haft tilfinningu fyrir því að maðkur sé í mysunni, þá er bók Elíasar prýðilegur útgangspunktur til því að svala forvitninni og meta spurninguna með eigin dómgreind og athygli að vopni. Höfundur er hvetur sérstaklega þá sem vilja hrekja inntak hennar til að lesa hana spjaldanna á milli, en hann hefur reynt ítrekað að fá slíka gagnrýni, án árangurs. Bókina má panta í gegnum síðuna www.abc911.exposed.