Lífeyrissjóðirnir: Sagan sem aldrei var sögð

5. ágúst 2021 — Júlíus K Valdimarsson


lífeyrissjóðir


Frá Ritstjórn: Júlíus K Valdimarsson segir hér frá samningunum um stofnun lífeyrissjóðanna árið 1969. Hann skrifar: „sú frásögn er í grundvallaratriðum önnur en síðar meir var kokkuð upp af verkalýðsforystunni eftir að hún hafði gengið í lið með nýfrjálshyggjuöflunum og fór að taka ákvarðanir í sínum kjarasamningum út frá fjármagninu, þ.e. eignarhlut sínum í fyrirtækjunum, í stað hagsmuna vinnandi fólks.“ Júlíus tók þátt í samningagerðinni, sem einn fulltrúi atvinnurekenda. Frásögn hans er sem hér segir:

Smá saga um samningana sem gerðir voru í maí 1969 um stofnun almennu lífeyrissjóðanna og átökin um meirihlutaaðild að stjórnum þeirra:

Ég var minntur á í tengslum við 50 ára afmæli almennu lífeyrissjóðanna á síðasta ári - sem komið var á í almennum kjarasamningum 19. maí 1969 – að ég væri eini eftirlifandi fulltrúi atvinnurekenda sem skrifuðu undir þennan samning. Ég skrifaði undir hann sem framkvæmdastjóri Vinnumálasambands samvinnufélaganna á þeim tíma, en Vinnumálasambandið hafði það hlutverk að semja við verkalýðsfélögin í landinu fyrir hönd SÍS (Sambands íslenskra samvinnufélaga) og kaupfélaganna innan þess, sem og dótturfyrirtækja SÍS.

Þessi samningsgerð er mér enn í fersku minni og meðal annars vegna þess að það var mjög hart tekist á um eina aðalkröfu verkalýðsfélaganna í þessum samningum – sem var að að sjóðsfélagarnir fengju meirihluta í stjórnum sjóðanna.

Eðvarð Sigurðsson formaður Dagsbrúnar í Reykjavík var aðaltalsmaður verkalýðsfélaganna í þessum samningaviðræðunum en talsmaður atvinnurekenda og sá sem hafði sig mest í frammi var Albert Guðmundsson fyrrverandi knattspyrnuhetja og fulltrúi Verslunarráðs sem sótti hart kröfu atvinnurekenda um að þeir hefðu meirihluta í stjórnum sjóðanna því meiningin var að þeir greiddu 6% á móti 4% framlagi frá sjóðfélögum og þess vegna töldu þeir að þeir ættu þeir að hafa meirihluta í stjórn þeirra. Þessi krafa var einnig í samræmi við þá skipan mála sem var í svokölluðum fyrirtækjasjóðum sem ýmis fyrirtæki höfðu komið á fyrir starfsmenn sína á sínum forsendum án samninga við stéttarfélög og þar réðu stjórnendur fyrirtækjanna öllum lögum og lofum.

Eðvarð Sigurðsson og verkalýðsfélögin kröfðust þess hins vegar að sjóðfélagarnir ættu að hafa meirihluta í stjórnum sjóðanna og byggðu það á því að þegar atvinnurekendur hefðu samið við verkalýðsfélögin um sjóðina þá þýddi það að þeir afsöluðu frjármagni þeirra í hendur verkalýðsfélaganna og félagsmanna þeirra sem ættu að sjá um ráðstöfun þess. Þessi krafa var líka byggð á því að í þessari kjaradeilu höfðu verkalýðsfélögin ákveðið að fara ekki fram neinar launahækkanir heldur semja þess í stað um þessi mikilvægu félagslegu réttindi. Hart var tekist á um þetta atriði og ég man enn eftir ummælum Eðvarðs þegar hann sagði í hita leiksins að ef það væri einhver krafa í sambandi lífeyrissjóðina sem hann myndi aldrei falla frá þá væri það krafan um meirihluta sjóðfélaga í stjórn þeirra.

Ég fylgdist með þessum samningum við samningaborðið og í herbúðum atvinnurekenda en ég veit ekki hvað gerðist innan samninganefnda stéttarfélaganna milli samningafundanna. En svo fór að lokum að samkomulag náðist um að fjöldi stjórnarmanna i lífeyrissjóðunum yrði jöfn eins og raunin varð þannig að viðhorf Eðvarðs hefur verið borið þar ofurliði.

Ég tel að þessi niðurstaða um jafna aðild atvinnurekenda og sjóðfélaga að stjórnum lífeyrissjóðana hafi haft afdrifaríkar afleiðingar. Í reynd þarna í upphafi var leikurinn ójafn, annars vegar stjórnendur fyrirtækjanna með mikla reynslu af fjármálum og hins vegar fulltrúar sjóðfélaga sem höfðu litla reynslu eða aðstöðu til að leggja sjálfstætt mat á hlutina sem þýddi að tekin var stefna nánast alfarið á forsendum atvinnurekenda hvernig fjármagni sjóðanna var ráðstafað.

Allir þekkja síðan þá sögu hvernig verkalýðsfélögin, þegar fram liðu stundir, tóku sér stað með hagsmunum atvinnurekenda, einkum upp úr 1980, þegar nýfrjálshyggnan leit dagsins ljós, og gerðist sverð og skjöldur fyrirtækjanna sem verkalýðsfélögin eignuðust í gegnum lífeyrissjóðina til að vernda fjármagn þeirra, sem sett hafði verið á rúllettu hins kapitalíska fjármálakerfisins. Gera má því skóna að ef stéttarfélögin og sjóðfélagar lífeyrissjóðanna hefðu fengið full yfirráð yfir fjármagni sjóðanna þá hefði framþróunin verið með öðrum hætt og hliðhollari vinnandi fólki og áframhaldandi samfélagslegum framförum.

Þetta verður enn ljósara um þessar mundir einmitt núna þegar Covit 19 flettir skref fyrir skref ofan af stóru lyginni í sambandi við það mannvonda kapitalíska kerfi sem við höfum þurft að búa við of lengi og algjöran vanmátt þess til þess að leysa mannleg vandamál þegar eitthvað kemur uppá.

Þetta sýnir jafnframt enn betur áður hversu sú umbylting sem hefur átt sér stað í verkalýðshreyfingunni að undanförnu er grundvallarlega mikilvæg til þess að vinnandi fólk missi ekki þau félagslegu réttindi sem verkalýðshreyfingin hefur áunnið sér með langri baráttu sinni, en sem atvinnurekendur og samtök þeirra gera nú fordæmalausa atlögu að eins og meðal annars hefur sýnt sig síðustu daga í framkomu Icelandair í deilunni við Flugfreyjufélag Íslands.