Leiksýning Trumps í Karíbahafi

Andri Sigurðsson
2. september, 2025

Bandaríkin hafa sent þrjú herskip með rúmlega fjögur þúsund hermönnum inn í suðurhluta Karíbahafsins í tengslum við meintar aðgerðir sínar gegn glæpagengjum og fíkniefnasmyglurum sem Trump-stjórnin segir að herji á Bandarískan almenning. Þá hafa Bandarísk stjórnvöld lagt fé til höfuðs Nicolás Maduro, forseta Venesúela, að upphæð 50 milljón dollara og sakað hann um að fara fyrir fíkniefnahópnum Cartel de los Soles, sem Bandaríkin hafa skilgreint sem hryðjuverkasamtök.

Hins vegar hafa Bandaríkin aflétt þvingunum á olíurisann Chevron til að sækja og vinna meira af venesúelskri olíu en Venesúela býr yfir stærstu olíu auðlindum heims. Það er þróun sem hófst í forsetatíð Bidens eftir langvarandi efnahagsþvinganir gegn landinu sem enn sér ekki fyrir endann á. Auk þess samdi Bandarísk sendinefnd sem hitti Maduro stjórnina í janúar um að sex fangar yrðu leystir úr haldi. 

Þessar mótsagnakenndu staðreyndir endurspegla innri átök í Trump-stjórninni. Á meðan harðlínumenn eins og utanríkisráðherrann Marco Rubio vilja koma Maduro frá völdum, er Trump að opna á frekari viðskipti til að þóknast olíuframleiðendum heima fyrir. Sjálfur hefur Trump talað fjálglega um valdaskipti í Venesúela en í ræðu á fundi Repúblikana árið 2023 hrósaði hann sér fyrir tilraunir við að komast yfir olíu auðlindir Venesúela:

“Þegar ég hætti [sem forseti fyrra sinn] var Venesúela við það að hrynja. Við hefðum getað tekið það yfir; við hefðum náð allri olíunni; hún hefði verið þarna í næsta húsi.” — Donald Trump

Segja Maduro höfuð glæpahóps

Trump-stjórnin hefur reynt að réttlæta aðgerðirnar með því að tengja Maduro við alþjóðlega glæpahópa líkt og Tren de Aragua. Þessar ásakanir eru vafasamar en jafnvel bandaríska leyniþjónustan hefur dregið í efa trúverðugleika þeirra samkvæmt New York Times. Þá eru uppi deilur um það hvort hinn hópurinn, Cartel de la Soles, sé yfir höfuð til.  Þá hefur Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó, opinberlega hafnað ásökunum Bandaríkjanna og komið Maduro til varnar, og sagt að engar sannanir liggi fyrir meintum tengslum við glæpahópana.

Þessi taktík er ekki ný í bandarískri utanríkisstefnu. „Skrímslavæðing“ andstæðinga, hvort sem það er Hamas, Saddam Hussein eða nú Maduro, er klassísk áróðurstaktík til að réttlæta hernaðaraðgerðir eða önnur afskipti. Það er miklu auðveldara að selja almenningi innrás, valdaskipti, eða jafnvel þjóðarmorð ef „óvinurinn“ er ekki bara pólitískur andstæðingur heldur fíkniefnasmyglari eða jafnvel hryðjuverkamaður.

Áratugir af árásum á Venesúela

Saga bandarískra afskipta af Venesúela nær langt aftur. Allir bandarískir forsetar síðan árið 2000 hafa á einn eða annan hátt reynt að koma stjórn landsins frá völdum. Það er eftir að hin svokallaða Chavismo-hreyfing, hreyfing verkafólks og bænda í Venesúela, komst til valda undir stjórn Hugo Chavez. George W. Bush studdi valdaránstilraun strax árið 2002 sem brotin var á bak aftur. Obama innleiddi harðar efnahagsþvinganir og Trump ákvað svo einhliða að Juan Guaidó nokkur yrði forseta landsins árið 2019 (með stuðningi ríkisstjórnar Íslands). Biden hélt áfram með lamandi efnahagsþvinganir þegar hann var forseti og nú hefur Trump aftur tekið við og heldur áfram sömu stefnu.

Efnahagsþvinganirnar hafa verið sérstaklega hrikalegar. Samkvæmt hagfræðingnum Jeffrey Sachs og Center for Economic and Policy Research hafa þær kostað tugþúsundir mannslífa og valdið efnahagshruni sem leiddi til þess að  landsframleiðsla Venesúela lækkaði um 75% milli áranna 2013 og 2020. Bandaríkin hafa einnig stolið milljörðum dollara af eignum Venesúela, þar á meðal gullforða landsins í Englandi og olíueignum í Bandaríkjunum en Venesúela rak fjölda bensínstöðva undir heitinu Citgo. John Bolton, fyrrum öryggisráðgjafi Trumps, viðurkenndi opinskátt að olían væri aðalmarkmiðið þegar hann sagði að það væri „mikill munur“ fyrir bandarísk olíufyrirtæki ef þau gætu starfað í Venesúela.

Þrátt fyrir allar þessar tilraunir, þar á meðal Operation Gideon árið 2020, þar sem tveir fyrrverandi sérsveitarmenn úr Bandaríska hernum reyndu að handtaka Maduro með hjálp venesúelskra uppreisnarmanna – og fleiri tilrauna við að ráða Maduro af dögum – hefur stjórnin í Caracas haldið velli.

Ólíklegt að Bandaríkin hefji innrás

Þrátt fyrir hótanir og Bandarísk herskip í Karíbahafi er ólíklegt að Bandaríkin geti eða vilji ráðast inn í Venesúela á þessum tímapunkti. Fjöldi hermanna sem eru um borð í USS Iwo Jima og telja í mesta lagi nokkur þúsund, eru langt frá því að vera nógu margir til innrásar í land sem hefur yfir að ráða hundruð þúsunda hermanna og varaherlið sem hefur haldið tryggð við Maduro og Chavismo hreyfinguna. Efnahagsþvinganir Bandaríkjanna hafa ekki skilað tilætluðum árangri en þeim var ætlað að veikja stuðning verkafólks við ríkisstjórnina. Auk þess hefur Venesúela nýlega aukið tengsl sín og samvinnu við Rússa og Kínverja.

Slík innrás myndi líklega krefjast tugþúsunda ef ekki hundruð þúsunda hermanna en Bandaríkin hafa ekki ráðist inn í annað land á svæðinu síðan 1989 þegar Bandaríkjaher réðist inn í Panama með 27 þúsund hermönnum. Þess má geta að sú innrás og valdarán var réttlétt með því að Manuel Noriega forseti Panama, sem áratugina á undan hafði verið náinn bandamaður Bandaríkjanna, væri glæpamaður og bæri ábyrgð á fíkniefnasmygli, alveg eins og Bandaríkin ásaka nú Maduro um með sama hætti.

Líklegra er að um samningataktík Trumps sé að ræða til að knýja fram eftirgjöf, sérstaklega varðandi aðgang að hráolíu. En á sama tími þarf Trump að friðþægja herskáum nýíhaldsmönnum líkt og Marco Rubio sem hefur ítrekað kallað Maduro einræðisherra. Leikhús fáránleikans heldur áfram, en raunveruleg innrás virðist ólíkleg að svo stöddu.