Lögregluríki?
—
Samherjamálið tekur á sig ýmsar myndir. Ein þeirra er sjálfskipuð eða pöntuð aðför lögreglustýrunnar á Akureyri að fjórum tilgreindum blaðamönnum undir því yfirskini að þeir hafi hugsanlega undir höndum og muni hugsanlega dreifa klámefni úr farsíma skipstjóra, sem, merkilegt nokk, starfar hjá Samherja. Þetta vekur upp spurningar um raunverulegt hlutverk lögreglu í kapítalísku þjóðfélagi.
Eflaust hafa margir rekið upp stór augu þegar lögreglustýran á Akureyri (þessi sem var á móti nauðgunarkærum á þjóðhátíð í Eyjum á sínum tíma) ákvað að því er virtist upp á sitt einsdæmi að veita fjórum blaðamönnum réttarstöðu sakbornings í máli, sem í fljótu bragði virtist runnið undan rótum skæruliðadeildar Samherja. Einn þessara blaðamanna ákvað að una ekki að verða tekinn til yfirheyrslu með þessa réttarstöðu og skaut málinu til Héraðsdóms Norðurlands. Í skýrslu lögreglustýrunnar fyrir dómi kom fram að þetta hefði ekkert með Samherjamálið að gera, heldur væri hér um gróft brot á friðhelgi einkalífs skipstjóra hjá Samherja (merkileg tilviljun) af hálfu þessara blaðamanna og gróf misnotkun á hugarástandi þess einstaklings, sem stal síma skipstjórans á sínum tíma og á þá væntanlega að hafa komið honum til þessara blaðamanna. Hér má bæta við að í ljósi þess að þessir blaðamenn vinna á þremur mismunandi fjölmiðlum er frekar vafasamt að þeir hafi allir í einu tekið við símanum.
Bæði Stundin og RÚV (og fleiri fjölmiðlar) hafa birt fréttir um niðurstöðu héraðsdóms: Sjá frétt Rúv hér: („Ekki brotlegur fyrir það að sjá viðkvæm gögn“) / Sjá frétt stundarinnar hér: („Aðgerðir lögreglu gegn blaðamönnum ólögmætar“) Hér verður niðurstaða dómsins ekki rakin að öðru leyti en því að lögreglustýran er gerð afturreka með allan sinn málflutning og rökstuðning – og hún ætlar að áfrýja til Landsréttar, væntanlega vitandi að bæði Landsréttur og Hæstiréttur svo maður tali nú ekki um Mannréttindadómstól Evrópu hafa gert íslensk yfirvöld afturreka með svipuð mál. Þess vegna verður ekki hjá því komist að velta fyrir sér raunverulegum tilgangi lögreglunnar á Norðurlandi eystra og raunverulegu hlutverki lögreglu í kapítalísku þjóðfélagi.
Þrátt fyrir ásakanir lögreglunnar um að blaðamennirnir hafi hugsanlega komist yfir klámefni skipstjórans í símanum (hvað var hann að gera með klámefni í símanum?) og að þeir hefðu ekki átt að taka við honum úr hendi hugstola manns (áttu þeir kannski að gerast sálgæslumenn símaþjófsins?) er tengingin við Samherja morgunljós. Hvort lögreglustýran hefur tekið þetta upp hjá sjálfri sér sem persónulegan greiða við samflokksmenn sína í Samherja eða skæruliðadeildin farið fram á við stýruna að hún hræddi nú blaðamennina pínulítið svo þeir veigri sér við frekari skrif um velgjörðarmenn Akureyrar, Íslands og Namibíu skal ósagt látið. Lögreglustýran er augljóslega að ganga erinda Samherjamanna og skæruliðadeildarinnar þar sem reynt er eins og hægt er að ófrægja og hræða þá mætu blaðamenn, sem hafa flett ofan af því sem kalla má alþjóðlega glæpastarfsemi. Allt er gert til að breiða yfir glæpina í Namibíu og víðar og sömuleiðis reynt að koma þvílíku höggi á blaðamennina (og þar með blaðamannastéttina) að þeir eigi sér ekki viðreisnar von og láti af þeim ósið að skrifa vondar fréttir um stórauðvaldið á Íslandi, sem samherji er óneitanlega hluti af. Á þetta hafa margir bent í skrifum undanfarinn mánuð frá því að mál lögreglustýrunnar kom upp.
Í framhaldi af þessu má svo leiða hugann að raunverulegu hlutverki lögreglunnar í kapítalísku þjóðfélagi. Í orði kveðnu er lögreglan verndari almennings. Minna má á framferði lögreglunnar og hvítliða á Austurvelli 30. mars 1949 þegar ráðist var á friðsama mótmælendur gegn inngöngu Íslands í NATO með táragasi og kylfum. Þar var ekki verið að vernda almenning. Einhvern tíma fyrir 20-25 árum var farið að tala um "allsherjarreglu", sem virðist ákveðin hvar liggur af lögreglunni á hverjum tíma eftir því hvað hentar og "brot gegn valdstjórninni" sem á mæltu máli þýðir að lögreglan getur meira eða minna farið sínu fram gegn almenningi ef hann er ekki til friðs, þ.e. ef hann heldur sig ekki heima og þegir um valdníðslu lögreglunnar gegn samborgurunum.
Það er eiginlega alveg sama hvert í heiminum við förum og hvar í heiminum við skoðum. Hlutverk lögreglunnar er fyrst og fremst að vera tæki ráðandi stéttar til að halda niðri öðrum stéttum þjóðfélagsins. Það er ánægjulegt að í litlum héraðsdómi við litla strönd í litlu landi hafi lögreglan verið gerð afturreka með aðför gegn fjórum blaðamönnum og þar með blaðamannastéttinni í landinu. Það er ekki aðeins lítill sigur fyrir fjölmiðlafrelsið, heldur einnig fyrir allan almenning að mega hafa skoðanir og jafnvel koma þeim á framfæri ef svo ber undir. Hins vegar er þetta enginn stórsigur. Hann verður ekki fenginn í kapítalísku þjóðskipulagi.