Kreppa er óhjákvæmilegur hluti kapítalismans!


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018

Árið 2008 tröllreið kreppa kapítalismans íslensku þjóðfélagi. Ekki í fyrsta skipti og heldur ekki í síðasta skipti, en á eftirminnilegan hátt. Þegar hin svokallaða millistétt – skuldsett vinnandi fólk – sá eignir sínar brenna upp og ríkisstjórnina ráðalausa, var sem hulu væri svipt af fólki, það þyrptist á mótmælafundi og felldi að lokum ríkisstjórnina. Aðalbyltingin í Búsáhaldabyltingunni var að allur almenningur þættist geta komið fram og krafist réttar síns án þess að skeyta um álit borgarastéttarinnar.

Þótt ljóst sé að kreppa fylgir kapítalisma alltaf og óhjákvæmilega, óðu uppi aðrar og tækifærissinnaðri skýringar á eðli vandans: Sumar lutu að klaufaskap, sumar að kynhormónum – sumar að siðferði. En slæmt siðferði er ekki ástæða kreppu og hruns í kapítalismanum, heldur er það líka eðlilegur fylgifiskur hans, rétt eins og kreppan: Kapítalismi laðar fram slæmt siðferði og góður kapítalismi er í besta falli tálsýn.

Hin stóra takmörkun sósíalískra byltingarsinna veturinn 2008-2009 var að þeir voru of fáir og of illa skipulagðir til þess að geta komið fram sem byltingarsinnaður, sósíalískur valkostur við ríkjandi ástand. Það var því á sinn hátt eðlilegt að fram sprytti urmull framboða sem boðuðu allskyns umbætur, en voru flest meira og minna tækifærissinnuð og flest smáborgaraleg í eðli sínu. Hér má telja með Vinstri-græn, sem voru pólitísk jómfrú, varkár í yfirlýsingum og stefnu og óspjölluð af reynslunni.

Ríkisstjórnin sem tók við af hrunstjórninni var auðvaldssinnuð í gegn. Því til stuðnings nægir að nefna endurreisn bankakerfisins, harða baráttu fyrir því að fá að borga IceSave-skuldirnar og svo auðvitað umsóknina að Evrópusambandinu. Fordæmalaus tækifæri til félagsvæðingar voru látin ónotuð – og þótt sýta megi það, var það líka eðlilegt, þar eð raddir sósíalismans voru of veikar til að geta haft áhrif.

Þegar útséð var um að nokkru yrði þokað í sósíalíska átt, tók hópur sig til og stofnaði Alþýðufylkinguna. Á þeim tæpu 6 árum sem síðan eru liðin hefur Alþýðufylkingunni ekki tekist að vinna nein vígi af borgarastéttinni eða handbendum hennar, þótt að vísu hafi byggst upp harðsnúinn og vaxandi hópur félaga í flokknum, ásamt betri og betri stefnuskrá í stórum og litlum málum þjóðfélagsins. Þá hefur flokknum tekist að koma málstað sósíalismans inn í umræðuna í kringum kosningaþátttöku.

Hvað hefur breyst á þessum tíu árum? Sá efnahagslegi bati sem hefur sést hefur í fyrsta lagi komið til vegna ferðamannastraums og breyttrar hegðunar fiskistofna. Í öðru lagi hefur hann ekki skilað sér nema til hluta landsmanna, meðan drjúgur hluti situr í versta húsnæðisvanda síðan áður en Breiðholt var byggt, og sér ekki fyrir endann á honum enn. Heilbrigðiskerfi og menntakerfi eru í sárum eftir grófan niðurskurð. Öryrkjar sitja enn með óbættan hlut. Á meðan baða hinir ríku sig í gróða og mikill ójöfnuður geisar.

Á tíu ára afmæli hrunsins blasa enn við verkefni sem við erum því miður orðin vön: Þörfin fyrir að byggja upp byltingarsinnaðan flokk, sem getur í alvörunni tekið forystu í baráttunni fyrir þjóðfélagi þar sem velferð og réttlæti ná til allra. Alþýðufylkingin skorar á alla sósíalista að taka þátt í þessu verkefni, til þess að mannsæmandi þjóðfélag geti orðið að veruleika á okkar dögum.