Koss dauðans
—
10.12. 2025. Í dag var dagurinn stóri. Í Ósló voru Friðarverðlaun Nóbels formlega veitt frú Drakúla frá Venesúela. Ef þú horfir á myndbandið í grein Ben Norton um hana, muntu heyra hana lofa því að auðæfi Venesúela séu erlendum stórfyrirtækjum opin og aðgengileg, ef Bandaríkin ná að steypa Maduro forseta.
Ég er að tala um 1,7 billjóna dollara tækifæri, ekki aðeins í olíu og gasi, sem er gríðarlegt, og þið vitið að tækifærin eru fyrir hendi, því við munum opna allt, olíuvinnslu, flutning og dreifingu, fyrir öll fyrirtæki; heldur einnig í námuvinnslu, í gulli, í innviðum, orku…
Þessi kona styður opinskátt stríð Bandaríkjanna gegn hennar eigin landi! Ben Norton bætir við:
Machado lagði áherslu á að ef Trump og Rubio gætu hjálpað henni að steypa Maduro af stóli, myndi hún slíta tengsl Venesúela við Kína, Rússland og Íran, og næsta áætlun þeirra yrði að vinna með Washington að því að steypa vinstristjórnum í Níkaragva og Kúbu.
Er þetta það sem Noregur er að verðlauna? Hvað gerir það úr Noregi?
Eftir því sem ég best veit er afhending friðarverðlauna Nóbels til þessarar mannskepnu smánarlegasta opinbera athöfn sem Noregur hefur nokkru sinni framkvæmt. Ég gæti vel haft rangt fyrir mér; sennilega hef ég það, því flestir Norðmenn, þar á meðal ég sjálf, hafa enga hugmynd um hvað fer fram á bak við tjöldin. Rannsóknarblaðamenn í Noregi eru fáir og hræddir.
Að ræða sósíalisma Venesúela er í besta falli erfitt verkefni í flestum NATO-löndum. NATO var jú stofnað til að vernda veldi heimsvaldasinna fyrir Sovétríkjunum, þótt Sovétríkin hafi ekki verið hernaðarleg ógn (til er mikið af heimildum um þetta efni).
Aðalhættan frá Sovétríkjunum var ekki hernaðarleg, eins og okkur var talin trú um, heldur pólitísk: Það var mjög mikilvægt að við létum ekki blekkjast af kommúnisma. Samt, þegar Sovétríkin voru leyst upp var NATO það ekki.
Þá vaknaði spurningin: Hvern var nú verið að verja? Gegn hverjum? Og hvers vegna?
Við vitum um mörg af virkum afskiptum Bandaríkjanna af evrópskum stjórnmálum eftir seinna stríð: Operation Gladio til dæmis og stuðningur Bandaríkjanna við hina grimmu grísku einræðisstjórn (1967-1974). Til er mikið magn skjala sem leynd hefur verið létt af (sjá t.d. David Gibbs, Guide to Using Declassified Documents)).
Það er engin ástæða til að ímynda sér að Bandaríkin hafi minni áhuga á að vernda „bandaríska hagsmuni“ nú en áður, þótt við höfum ekki aðgang að „opnuðum leyniskjölum“ um atburði líðandi stundar.
Aftur verðum við að spyrja okkur: Haða hagsmunir eru „bandarískir hagsmunir“? Ég fullyrði að þeir séu vissulega ekki mínir eða þínir, sama hver þú ert.
Hvað sem því líður virðist ein leið til að vernda þá vera sú að tryggja að Venesúela eigi sem fæsta vini. Vestrænir fjölmiðlar hafa verið alræmdir fyrir hlutdrægni sína gegn sósíalismanum í Venesúela frá fyrsta degi valdaráns Hugo Chavez, manns sem naut víða hylli.
Hvað heyrum við um hið svokallaða „lýðræði“ sem var við lýði fyrir stjórnarbyltingu Chavez? Hagnaðist venesúelska þjóðin í raun og veru af því? Á tímum El Caracazo voru engar fátæktartölur til í Venesúela. En sú staðreynd ein að umferð og viðskipti lömuðust vegna gríðarlegs fjölda fólks sem mótmælti verðhækkunum bendir til þess að fátæktin hafi sannarlega verið alvarleg. Herinn fékk skipun um að bæla niður mótmælin, og þegar fjöldamorðunum lauk hljóðaði fyrirsögn: „Venesúela hlýðir AGS, greiðir skuldirnar með líkum.“ Enn þann dag í dag veit enginn hversu margir voru drepnir. Þáverandi ríkisstjórn Venesúela sagði: 262. Í kjölfarið fundust hundruð ómerktra fjöldagrafa.
Samt sem áður kynnti Venesúela sig sem „vin“. Höfuðborgin Caracas var eftirmynd Miami þar sem sumir lifðu í vellystingum á meðan líf meirihlutans var eins og Dickens lýsti í Bleak House. Chavez breytti því! Ég hvet ykkur til að sjá mynd John Pilger, The War on Democracy.
„Lýðræði“ er illa misnotað orð. Þegar það er notað sem afsökun til að nauðga löndum, styðja einræðisstjórnir og misnota auðlindir er það orðið að mótsögn í sjálfu sér. Það kemur því ekki á óvart að Trump forseti þykist ekki einu sinni leggja á það áherslu. Í nýju þjóðaröryggisstefnunni (National Security Strategy) leynir hann því ekki neitt að hann (og ríkasta eitt prósentið í Bandaríkjunum) ætli að seilast í hvaðeina sem lönd í Rómönsku Ameríku hafa upp á að bjóða, með góðu eða illu. Skjalið er ýmist kennt við Monroe- eða Donroe-kenninguna þar sem það skoðar Rómönsku Ameríku sem bakgarð Bandaríkjanna.
Algert virðingarleysi Trumps fyrir áður svo upphöfnum „gildum“ er undirstrikað bæði af Greyzone og Geopolitical economy í greinum um fyrrverandi forseta Hondúras og dæmdan eiturlyfjabarón – og nýlega náðun hans úr fangelsi í Bandaríkjunum.
Hins vegar er það sem Trump er að gera ekkert nýtt. Nauðgunin á löndum Rómönsku Ameríku og Karíbahafsins hefur staðið yfir næstum jafn lengi og Bandaríkin hafa verið til. Tökum Haítí sem dæmi, hertekið af Bandaríkjunum árið 1915, var undir hernámi í 19 ár með þvinguðum kynþáttaaðskilnaði og uppreisnum sem bældar voru niður af mikilli hörku sem leiddi til dauða þúsunda. Þessu hörmungatímabili fylgdu ýmsar einræðisstjórnir með stuðningi Bandaríkjanna. Þú hefur kannski lesið skáldsöguna (eða séð kvikmynd með Elisabeth Taylor) The Comedians eftir Graham Greene, um Papa Doc og hlýðna morðingja hans? Á eftir honum kom jafn óaðlaðandi Baby Doc.
Síðast var það Aristide sem vann að því er virtist frjálsar og sanngjarnar kosningar á Haítí. En æ, æ, Aristide hafði víst nokkrar örlítið sósíalískar tilhneigingar, svo Clinton forseti batt enda á forsetatíð hans eftir aðeins nokkra mánuði. Og hlutirnir bötnuðu ekki fyrir Haítí. Af öllum löndum Rómönsku Ameríku og Karíbahafsins var Haítí líklega það sem fór verst út úr þessu, en það var ekki eina fórnarlamb Bandaríkjanna.
Við vitum heilmikið um valdaránið gegn Jacobo Árbenz, forseta Gvatemala, sem var ekki einu sinni sósíalisti. Við vitum um tengslin milli Dulles-bræðra og United Fruit, til dæmis. Alls staðar á þessu stóra svæði sem Monroe-kenningin skilgreindi sem „bakgarð“ Bandaríkjanna, voru viðskiptin gróðavænleg fyrir bandaríska kapítalista, ekki fyrir verkamenn né aðra hagsmunaaðila. Til að viðhalda því fyrirkomulagi voru fjölmörg grimmileg hernaðarvaldarán framin undir verndarvæng Bandaríkjanna.
· 1959‑65 Aðgerðin Rough Rider, aðgerðin Mongoose – víðtæk skemmdarverkastarfsemi, niðurrifsstarfsemi og morðtilraunir gegn stjórn Fidels Castro á Kúbu
· 1965‑70 Aðgerðin Kondór, einræðisstjórnum komið á fót (Argentína, Chile, Úrúgvæ, Paragvæ, Brasilía, Bólivía)
· 1965‑68 Íhlutun í Dóminíska lýðveldið (aðgerðin Power Pack) – 22.000 hermenn sendir til landsins til að koma í veg fyrir meinta valdatöku kommúnista
· 1973 Aðgerðin Mongoose (framhald) – hertar skemmdarverkaaðgerðir gegn sykuriðnaði Kúbu
· 1979 Aðgerðin Just Cause (skipulagsstig) – upplýsingaöflun fyrir innrásina í Panama sem loks var gerð 1999
· 1980‑84 Íran-Kontra hneykslið – ólögleg vopnasala til Írans, ágóðinn rann til kontraskæruliða í Níkaragva
· 1983‑85 Aðgerðin Urgent Fury – innrás í Grenada
· 1985‑87 Aðgerðin Fönix – framhaldsstuðningur við andkommúníska herflokka í El Salvador
· 1989‑90 Aðgerðin Just Cause – innrásin í Panama til að steypa Manuel Noriega af stóli
En fyrir utan þessar þekktu valdaránstilraunir hefur örugglega mikið undirróðursstarf átt sér stað sem við vitum lítið um. Dæmi um slíkt er heimsókn Marco Rubios til Ekvador um daginn. Ég ímynda mér ekki eitt augnablik að hann hafi farið þangað í kurteislegt spjall yfir kaffibolla.
Að minnsta kosti tvær valdaránstilraunir með stuðningi Bandaríkjanna hafa verið gerðar í Venesúela, önnur árið 2002 og hin 2020. Svo var það hinn ókjörni Juan Guaidó sem Vesturveldin, þar á meðal Noregur [og Ísland], ákváðu að viðurkenna sem forseta Venesúela, en sem var í rannsókn hjá FBI fyrir fjársvik í tengslum við neyðaraðstoð. Hann er enn í rannsókn hjá FBI. Hann er auðvitað í Miami, þar er yfirstétt Venesúela eins og heima hjá sér.
Þegar vestrænir fjölmiðlar útskýra hinn gríðarlega straum innflytjenda frá Venesúela undanfarin ár, vísa þau í hinar hörmulegu efnahagsaðgerðir venesúelsku ríkisstjórnarinnar. Sú skýring er hins vegar mjög kaldhæðin lygi. Það eru efnahagsþvinganir Bandaríkjanna sem hafa, samkvæmt fræðiritinu the Lancet, verið að kyrkja efnahagslíf Venesúela og meira og minna svelta íbúana. Árum saman! Ein rannsókn staðfestir að þvinganirnar hafi valdið 40.000 umframdauðsföllum í landinu á aðeins einu ári, frá 2017 til 2018.
Ekki aðeins er bandaríska „eitt prósentið“ og hinir ýmsu forsetar þess lands staðráðnir í því að sósíalísk ríkisstjórn megi ekki undir neinum kringumstæðum ná árangri í Venesúela, megi ekki fá að veita nágrannaþjóðum innblástur; þau eru staðráðin í að ná yfirráðum yfir olíu og gulli landsins – sem er einmitt það sem frú Drakúla lofar þeim.
Hin sprenghlægilega afsökun Trumps forseta fyrir því að þvinga Bandaríkin til að stunda aftökur án dóms og laga á alþjóðlegu hafsvæði, og breyta þannig landi sínu í alþjóðlegt úhraksríki, er að forseti Venesúela sé „fíkniefna-hryðjuverkamaður“. Sú fullyrðing er svo fáránleg að hún á ekki einu sinni skilið svar, en samt lagði hugveitan Responsible Statecraft sig fram um að láta eins og hún væri að svara fullorðinni manneskju.
Lokaorð mín eru hins vegar ekki hlægileg. Verðlaun lands míns til frú Drakúla fylla mig takmarkalausri sorg, skömm og skelfingu.
Katjana Edwardsen er norskur áhugamaður um alþjóðamál. Hún bjó í áratug á Íslandi, á þar börn og skrifar greinar fyrir Neista.







