Kapítalisminn er stærsta umhverfisógnin.


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Reykjavík 6.-7. október 2018, áréttar að meðan þjóðfélagið er keyrt áfram af gróðadrifnu markaðskerfi, sem gerir endalausar kröfur um síaukinn hagvöxt sé tómt mál að tala um uppfyllingu markmiða Parísarsamkomulagsins og annarra skuldbindinga Íslendinga hvort sem er hérlendis eða á alþjóðavettvangi. Fundurinn hafnar öllu daðri við olíuvinnsluhugmyndir og mengandi þungaiðnað og hvetur stjórnvöld til fara raunhæfar leiðir til að minnka losun koltvísýrings en þá þarf að koma til félagsvæðing þjóðfélagsins þar sem hagsmunir samfélagsins en ekki auðmanna eru hafðir í fyrirrúmi.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að undið verði ofan af umhverfisógninni og komið á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Landsfundurinn hvetur íslenskan almenning til þess að taka umhverfismálin föstum tökum og vinna að því að gripið verði til viðunandi viðbragða við þeim vanda sem óbilgirni markaðshyggjunnar hefur skapað í heiminum. Til þess að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi, bæði hjá almenningi og innan umhverfishreyfinga, á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.