Jú, frumvarpið vegur að stjórnarskrá og fullveldi Íslands

6. apríl, 2023 Arnar Þór Jónsson

Hvernig ber að skilja þá staðreynd að nú sé lagt fram frumvarp í nafni Sjálfstæðisflokksins, þar sem því er slegið föstu sem meginreglu að EES reglur skuli ganga framar öðrum almennum lögum frá Alþingi?

Fullveldi er undirstaða stjórnmála og lagasetningar, því það ber með sér þann undirstöðurétt sérhverrar þjóðar að setja þau lög sem dómstólar og framkvæmdavald beita gagnvart borgurunum.

Í þessu ljósi má það kallast réttaröryggismál að valdhafar á Íslandi beri skynbragð á aðstæður hér á landi, hlusti á vilja kjósenda og svari til ábyrgðar gagnvart íslenskum kjósendum.

Það sem nú er að gerast má í þessu ljósi kallast grafalvarlegt. Ef þetta frumvarp utanríkisráðherra verður að lögum stöndum við frammi fyrir nýjum veruleika þar sem höggvið verður á þráðinn milli íslensks samfélags og þeirra sem setja okkur lög.

Afleiðingin verður í stuttu máli sú að lögin hætta að vaxa úr grasrót samfélagsins, en hvolfast þess í stað yfir okkur eins og hlemmur, án þess að við getum rönd við reist. 

Ísland hefur vissulega ekki sömu innleiðingarskyldur og ESB ríkin, en til að gefa lesendum mynd af umfangi ESB réttar, þá voru reglur EB árið 1973 prentaðar á 2800 bls., en árið 2020 þurfti 90.000 bls. undir gildandi rétt ESB. Með frumvarpinu er verið að ofurselja Ísland stærsta skrifstofuveldi / skrifræði í sögu mannkynsins. Þótt EES rétturinn sé ekki jafn mikill að vöxtum er umfang hans slíkt að með frumvarpi utanríkisráðherra er verið að gera réttinn óaðgengilegan öllu venjulegu fólki á Íslandi. Það sem verra er: Þetta eru reglur sem Íslendingar geta ekki haft nein áhrif á. Þær eiga bara að njóta hér almenns forgangs og setja ramma utan um alla umræðu, án þess að vera sjálfar til umræðu!

Með þessu frumvarpi er verið að festa í sessi áhrif stofnana ESB á íslenskan rétt og íslenskt þjóðlíf. Um leið er grafið undan íslenska ríkinu og stofnununum þess, þ.m.t. Alþingi og dómstólum. Frumvarpið á sér ekki stoð í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, heldur brýtur gegn henni. Það er í andstöðu við fullveldi Íslands. Frumvarpið samræmist ekki grunnstefnu Sjálfstæðisflokksins. Frumvarpið er ólýðræðislegt. 

Um þetta má hafa mörg fleiri orð, en ég læt þetta duga að sinni. 

Greinin birtist áður á bloggi Arnars Þórs Jónssonar 4/4 2023. Höfundur er lögmaður og lýðræðissinni og sem stendur varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.