Íslensk króna, evrukreppa og fullveldi.
—
Evra eða króna?
Síðustu vikur og mánuði, eftir að gengi krónunnar fór að lækka, hækka aftur raddirnar sem vilja binda íslensku krónuna við evru (einstaka vill dollar), greiða laun í evrum eða taka upp evru, „stöðugan gjaldmiðil“. Sem sagt fastgengisstefna – ellegar þá að leita alveg í „skjól stórveldis eða ríkjasambands“ (orðalag Baldurs Þórhallssonar) sem sé ESB-aðild. Hæstu þvílíkar raddir koma frá Samfylkingunni og Viðreisn sem við var að búast. Samfylkingin gefur út myndband og hvetur til ESB-aðildar, og höfuðrökin í málinu eru „stöðugleiki“ og „ódýrara Ísland“ með upptöku evru. Sömu kröfur eiga líka stuðning langt inn í Sósíalistaflokkinn og mun valda honum innantökum þegar hann um síðir verður að taka afstöðu til ESB.
Hins vegar talar ný forusta ASÍ nú örðu vísi en sú gamla var vön að gera. Drífa Snædal segir : „Umræðan um gjaldmiðil er alveg örugglega ekki fyrsta mál á dagskrá hjá nýkjörinni forustu ASÍ, það eru brýnni mál sem við erum að fjalla um, það eru skatta- og húsnæðismál, við setjum þau á dagskrá núna.“
Það er óhjákvæmilegt fyrir launafólk að velta vöngum yfir þróun gengisins í adraganda kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin þarf auðvitað að spyrja sig hvaða ráðstafanir geti varnað því að verðbólga éti kauphækkanir jafn óðum. Duga ekki „rauð strik“ eða þarf vísitölubindingu launa? Til að taka upp evru þarf að ganga í Evrópusambandið fyrst. Það er þó hægt að binda gengi krónunnar við evru án inngöngu, en slíkt væri augljóslega liður í aðlögunarferli fyrir ESB-aðild.
Hver svo sem gjaldmiðillinn er verður þróun kaupmáttar alltaf niðurstaða úr stéttabaráttu. Stéttabaráttan verður ekki afgreidd með einni saman gengisskráningu og peningamálastefnu. En gjaldmiðillinn hefur samt áhrif og um það skulum við ræða. Það er til lítils að ræða fast eða fljótandi gengi „fræðilega“ nema út frá valkostum raunveruleikans – fyrst og fremst evrunni og ESB, og reynslunni af ríkisfjáramálastefnu og peningamálastefnu þess batterís gagnvart aðildarríkjum. Dæmin og reynslan eru fyrir hendi.
Evrópusamruninn hófst með Evrópubandalaginu 1957. Evrópubandalagið byrjaði sem fríverslunarsvæði og tollabandalag, breytti sér svo í Evrópusamband 1993, sameiginlegan markað með frjálsu fjármagnsflæði, þaðan yfir í myntbandalag – og í framhaldi af evrukreppunni boðar æðsta yfirstjórn ESB fjármálabandalag (sameiginleg efnahagsstjórn og vald yfir fjárlögum einstakra ríkja) og þróunin stefnir að pólitísku sambandi. Sjá nánar hér
ESB er birtingarmynd á hnattvæðingarþróun auðvaldskerfisins. Auðmagnið þjappast saman í sístækkandi einingarnar. Þrenningin Bandaríkin – ESB – Japan myndar blokk og hefur drottnandi stöðu en mætir samt vaxandi keppni á viðskiptasviðinu (einkum frá Kína) og átök milli blokkanna harðna. Auðvaldskerfið skiptist jafnframt í „jaðarsvæði“ og „kjarnsvæði“. Að mikilvægum hluta fer arðránið fram sem flæði arðs milli svæða, frá jaðarsvæðum til kjarnasvæða, frá hinum fátækari til hinna ríkari.
Evrukreppan
Evrukreppan svokölluð sem brast á frá og með 2009 birtist annars vegar sem skuldakreppa margra ríkja á evrusvæðinu jafnframt því sem atvinnuleysi í meirihluta evruríkjanna í hefur síðan lengst af verið yfir 10% – og í Grikklandi, Ítalíu, Spáni og Portúgal jafnvel yfir 20%. Kreppan hefur verið dýpst á því sem kalla má „jaðarsvæði“ ESB: í sunnanverðri og austanverðri Evrópu. Versta dæmið var og er Grikkland.
Ríkjandi orðræða á Íslandi – hjá RÚV og öðrum „evrópusinnum“ – vill skýra kreppuna í Suður-Evrópu og Austur-Evrópu með staðbundinni óstjórn, spillingu, opinberri eyðslusemi o.s.frv. Grikkir voru gjarnan sagðir vinna lítið, taka ellistyrkinn snemma o.s.frv. En þetta er áróður, vinnutími Grikkja 2008 var víst sá lengsti á evrusvæðinu og eftirlaunaaldurinn um meðaltal.
Kreppa bæði Griklands og annarra „jaðar“-ríkja ESB er yfirleitt einföld í eðli sínu. Hagkerfi þessara ríkja gat ekki keppt við útflutning frá kjarnaríkjum ESB, fyrst og fremst Þýskalandi sem blásið hefur út sem útflutningshagkerfi. Á tíma fjármálabólunnar fram að 2008 var hins vegar hægt að halda uppi mun hærri lífsgæðum en ella í þessum löndum með miklu og ódýru flæði lánsfjármagns – einkum frá norðurevrópskum bönkum. En í kreppunni kom að skuldadögum.
Kjarninn í Brusselvaldinu er norðurevrópsk fjármálaelíta (nátengd þeirra bandarísku) og „þýska útflutningsvélin“. Efnahagsstefna Brusselvaldsins endurspeglar efnahagsstyrk landanna sem að því standa. Evran er skraddarasniðin fyrir þarfir Þýskalands. Með tilkomu sameiginlegs gjaldmiðils misstu hins vegar veikari ríkin hagstjórnarvopn til að verja sig, og í kreppunni misstu þau stjórn eigin mála á einu sviði af öðru. Sjá nánar hér
Þýskaland
Þýskt auðvald náði á tíunda áratug að þrýsta verulega niður lægstu launum í eigin landi, ekki síst með hjálp ódýrs vinnuafls frá Austur-Evrópu. Þetta veikti frekar en styrkti eftirspurnina í þýska hagkerfinu sjálfu en útkoman varð samt hagvöxtur, afskaplega útflutningsdrifinn hagvöxtur, og Þýskaland fékk gríðarterka samkeppnisstöðu eigin framleiðslu gagnvart öðrum ESB-ríkjum. Sem óhjákvæmilega þýddi samdrátt iðnaðarframleiðslunnar á hinum svæðunum sem urðu undir í samkeppni við þýsku útflutningsvélina. Hin sameiginlega mynt raskar þannig samkeppnisstöðunni og gagnast einkum sterkustu hagkerfunum en vinnur mest gegn „jaðrinum“. Grunnhugmynd frjálshyggjunnar um frjálst flæði er lög í ESB og þeim sem urðu undir var gert ómögulegt að vernda eigin framleiðslu.
Viðskiptajöfnuður Þýskalands varð hagstæður og jöfnuður viðskiptalanda þeirra tilsvarandi neikvæður. Við þær aðstæður sótti þýskt og norður-evrópskt banka- og fjármálaauðmagn fram á þenslutímanum fram að 2008 og bauð hagstæð lán í „jaðar“-löndunum, ekki síst til þess fallin að kaupa fyrir þau þýskan útflutning (en ekki byggja upp eigin framleiðslu- og stoðkerfi). Löndin voru yfirleitt meira og minna kaffærð í skuldum, skuldum ríkisins, fyrirtækja og einstaklinga. Ójöfn samkeppni og ólíkur efnahagsstyrkur á einum sameiginlegum markaði skilaði sér þannig að sá sterkari dró þróttinn úr hinum veikara. Þegar kreppan skall á tók svo við vandinn að innheimta skuldirnar.
Grikkland
Grikkland tók upp evru árið 2000 og upplifði neysludrifinn hagvöxt og safnaði viðskiptahalla, sérstaklega gagnvart Þýskalandi, og skuldum í norðurevrópskum bönkum til að greiða hallann. Þegar skuldakreppan lagðist yfir Grikkland tók ESB efnahagsstjórnina í landinu milliliðalítið. Nánar tiltekið „Þríeykið" (troika: Framkvæmdastjórnin, Evrópski seðlabankinn að viðbættu AGS). Og gerði grísk stjórnvöld að „landstjórum“ sínum. Á árunum 2010-2018 fékk Grikkland stóra „björgunarpakka“ frá „Þríeykinu“ í formi lána og áætlunar um niðurgreiðslu þeirra í áföngum.
Grikkland hafði tekið upp evru og hafði t.d. ekki möguleika á gengisfellingu til að vernda eða örva eigin framleiðslu og útflutning. Í staðinn þurfti að greiða fyrir „björgunarpakkana“ með miskunnarlausum niðurskurði á opinberri þjónustu, með útstrikun hundruð þúsunda opinberra starfa og meðfylgjandi gríðarlegu atvinnuleysi, með lækkun launa (35% lækkun hjá fagmenntuðum og 31% hjá ófagmenntuðum) og stórlega hækkuðum lífeyrisaldri . Auk þess var þess að krafist að Gríska ríkið seldi ríkiseignir á útsölu, t.d. hafnir og samgöngukerfi. Sjá nánar hér
Björgunaraðgerðum lauk í ágúst sl. Hið ESB-sinnaða RÚV sagði að björgunin hefði tekist vel (endurómandi stóru fréttastofurnar). Það er fegrun raunveruleikans. Hinn þekkti bandaríski hagfræðingur Jack Rasmus lagði eftirfarandi mat á „björgunina“: „Grikkland hefur bara skipt út lánadrottnum. Í fyrstu björgunaraðgerðinni, 2010, skuldaði landið aðallega einkabönkum Evrópu. Í annarri björgunaraðgerð komu samevrópsku stofnanirnar (Þríeykið) og veittu lán til að borga út einkalánadrottnana – Grikland sá raunar aldrei peningana – og og færðu í reynd skuldina yfir á efnahagsreikninga Þríeykisins. Grikkland varð nú að reiða út enn hærri greiðslur – í þetta sinn till Þríeykisins. Þríeykið borgaði síðan einkabakana út. Rannsókn German Institute sýna að 95% af öllum greiðslum af skuldum Grikklands til Þríeykisins hafi að lokum runnið til norðurevrópskra banka.“ Sjá nánar hér
„Þríeykið“ tók þannig að sér að skipuleggja skuldainnheimtu fyrir evrópska fjármálakerfið, og kom fram sem innheimtuaðili fyrir bankastjórana. Í síðasta þætti málsins vísar Þríeykið svo Grikkjum á nýja evrópska banka og vogunarsjóði eftir lánum til að borga samevrópsku stofnanirnar út.
Þannig var tekist á við evrukreppuna víðast hvar í skuldsettum evrulöndum, á misróttækan hátt: með blóðugum niðurskurði ríkisútgjalda, enda fylgir ESB ríkisfjármálasáttmála sem bannar teljandi ríkishalla. Hvaða pólitík er þetta? Þetta er pólitík fjármálafáveldisins, fjármálaheimsvaldastefna.
Ítalía
Öfugt við Grikkland er Ítalía öflugt iðnríki. Á 7-10. áratug gaf ítalskur iðnaður þeim þýska lítið eftir. En þegar Ítalía tók upp evru sýndi sig að ítalski iðnaðurinn hafði samt ekki afköst á við þýsku útflutningsvélina og landið lenti brátt í miklum viðskiptahalla við Þýskaland. Nú gat Ítalía ekki jafnað leikinn eins og áður með því að fella líruna. Við tók efnahagsleg stöðnun og samdráttur. Á árunum 2009-2012 var fimmta hvert ítalskt iðnfyrirtæki lagt niður. Í ríkisfjármálunum tók við niðurskurðarsterfna þó ekki væri hún eins blóðug og í Grikklandi. Atvinnuleysi hefur síðan haldist 10-15% og a.m.k. tvöfalt hærra meðal ungs fólks. Þegar Framkvæmdastjórn ESB sætti sig ekki við Berlusconi sem forsætisráðherra 2011 sparkaði hún honum án þess að spyrja Ítali og setti í staðinn Goldman-Sachs-manninn Mario Monti. Fjármálaveldið kýs helst að stjórna milliliðalaust.
Í ljósi alls þessa er ekki undarlegt að það voru ESB-efasemdarmenn og evruandstæðingar sem unnu kosningarnar á Ítalíu í sumar. Popúlistastjórnin sem nú situr í Róm sættir sig ekki við niðurskurðarkröfur ESB. Hún leggur upp með hallafjárlög og aukin framlög til innviða. Hækkar lægstu laun og lífeyri. En hvers konar keynesismi er jú bannaður í ESB, m.a. er algjört bann við fjárlagahalla yfir 3%. Þar sem Ítalía er í fjötrum evrunnar verður fjárlagahallinn aðeins jafnaður með lántökum. Stjórnarflokkarnir ræða einnig um að stofna „hliðarmynt“ til að greiða með opinbera þjónustu og komast út úr herfjötri evrunnar. Framkvæmdastjórn ESB hefur hafnað hinum nýju fjárlögum á Ítaliu og krefst þess að þau verði endurskoðuð.Sjá nánar hér
Eystrasaltslöndin
eru gott dæmi um þann fjötur sem evran varð ríkjum í efnahagskröggum. Eftir efnahagslega sjokkþerapíu og einkavæðingu í Eystrasaltslöndum á 10 áratugnum fylgdu löndin öll þrjú beingaddaðri frjálshyggju eftir bókinni, fordæmi Lettlands var t.d. haldið hátt á loft af AGS eftir aldamótin. Efnahagsumbæturnar þar voru „business-friendly“, háir skattar á laun en skattaparadís fyrir eignamenn og auðhringa. Þenslan var þó ekki notuð til uppbyggingar heldur varð „af-iðnvæðing“ raunin, og Þýskaland og „kjarnalönd“ ESB notuðu Eystrasaltslöndin í fyrsta lagi sem útflutningsmarkaði og í öðru lagi sem fjármálamarkaði til að fjármagna innflutninginn til þessara landa. Fyrir aldamót voru Eystrasaltslönd komin með fastgengisstefnu, bundu galdmiðil sinn síðan brátt evru, og á fyrsta áratug nýrrar aldar var banka- og fjármálakerfi þeirra allra komið í eigu erlendra norður-evrópskra banka. Árið 2004 gengu þau í ESB og tóku upp evru á árunum 2011-15. Sjá nánar hér
Frá 2008 varð kreppan dramatískt. Í hruninu höfðu Eystrasaltslönd þó enn ekki tekið upp evru, svo formlega gátu þau fellt gengið til að örva eigin framleiðslu og útflutning. En þetta var hindrað af lánadrottnum þeirra sem pressuðu löndin til að fylgja fastgengisstefnu til að verja hagsmuni eigin banka, og fengu í því stuðning ESB. Sem dæmi var fjármálakerfi Lettlands fyrir hrun komið nánast allt í eigu sænskra banka. Vaxandi skuldum var þess vegna mætt með miskunnarlausum niðurskurði opinberrar þjónustu. Um þetta fjallar Hilmar Þór Hilmarsson hagfræðiprófessor í bók sinni The Economic Crisis and its Aftermath in the Nordic and Baltic Countries.
Hilmar Þór skrifar: „Eystrasaltslöndin voru neydd í gríðarlegan niðurskurð ríkisútgjalda í hruninu 2008 ekki síst í mennta og heilbrigðismálum. Slíkur niðurskurður hefði verið útilokaður á Norðurlöndunum. Hefðu íslensk stjórnvöld reynt slíkt hefði það leitt til þjóðfélagsátaka sem engin ríkisstjórn myndi lifa af til lengri tíma.“ (Stundin 18. tbl. 2018 Umrædd grein)
Og atvinnuleysið æddi upp, var t.d. í Lettlandi komið í 15% fljótt eftir hrun. Og hefði orðið miklu meira ef þegnarnir hefðu ekki brugðist við með því að flytjast úr landi í stórum stíl. Hilmar Þór skrifar: „Þegar Eystrasaltsríkin urðu sjálfstæð árið 1991 voru íbúar þar 7,8 milljónir. Nú eru 6,1 milljónir eftir.“ (sama stað)
Ísland
Hliðsjón af ofannefndum löndum ætti að hjálpa til að meta reynslu Íslendinga. Ísland er reyndar ekki „jaðarríki“ í auðvaldsheiminum heldur er staðsett utarlega á kjarnasvæði hans. Ísland er ekki í ESB og því ekki undirlagt ríkisfjármálareglur þess eins og þau ríki sem að framan voru talin. Hins vegar er Ísland ekki alveg utan ESB heldur. Við gengum í EES árið 1995 og það tengdi landið við alþjóðlegt fjármálaumhverfi. Það fór saman við innreið nýfrjálshyggjunnar í landið (meira og minna í alla flokka). Þetta lagði grunninn hnattvæðingu íslensks efnahagslífs (frjálsa flæðið og útrásin!) og fjármálavæðingunni (og hruninu!) Samkvæmt Stefáni Ólafssyni og Arnaldi Sölva Kristjánssyni (Ójöfnuður á Íslandi, sjá t.d. bls. 17) er 1995 líka sá tímapunktur er „íslenska jafnaðarsamfélagið“ leið undir lok og stóraukin ójafnaðarþróun hófst.
Hvernig reiddi Íslendingum af í hruninu miðað við það sem orðið hefði væru þeir í ESB? Spurningin snýst m.a. um ábyrgð ríkis á bankakerfum. Í nóvember 2008 þrýsti ESB íslenskum stjórnvöldum til að gangast við ICESAVE-skuldunum. Og þegar stjórnvöld leituðu lánafyrirgreiðslna hjá AGS lýsti ESB yfir að það væri sameiginleg afstaða allra ESB-ríkja að leggjast gegn því að AGS aðstoðaði Ísland ef kröfur Breta og Hollendinga væru ekki virtar. Þrýstingurinn var mikill og í ákveðna átt.
Með neyðarlögunum í október 2008 var íslensku bönkunum skipt upp, erlenda starfsemin skorin frá og nýir bankar stofnaðir. Hjá ESB hins vegar var sú almenna stefna tekin í fjármálakreppunni að hvert ríki bæri ábyrð á einkabönkum viðkomandi lands. Írland var að nokkru leyti í sömu stöðu og Ísland og írska ríkið þurfti að ábyrgjast skuldbindingar írskra banka eftir hrun, sem dró landið á barm þjóðargjaldþrots. Ef Ísland hefði á líkan hátt verið bundið af fjármálastefnu ESB er líklegt að útkoma okkar úr hruninu hefði orðið miklu verri.
Ísland var ekki bundið af ríkisfjármálareglum ESB (Maastrichtreglum) sem banna meira en 3% fjárlagahalla og fyrstu árin eftir hrun var fjárlagahalli hér 5-6% eða nærri tvöfaldur við þær reglur, og gerði mögulegt að milda niðurskurð opinberrar þjónustu.
En íslenska krónan. Hver var reynslan af henni í hruninu? Hilmar Þór Hilmarsson ber íslenska dæmið saman við Eystrasaltslöndin: „Efnahagsþróunin á Íslandi var frábrugðin þróuninni í Eystrasaltsríkjunum. Gengi krónunnar féll, bankarnir hrundu, en niðurskurður í ríkisfjármálum var mun minni en hjá Eystrasaltsríkjunum. Ef við skoðum árangur efnahagsstefnunnar á Íslandi er hann miklu betri. Mikill hagvöxtur, lítið atvinnuleysi og aukið svigrúm til velferðarútgjalda og uppbyggingar.“ (Stundin.is 1. nóv)
Gengi íslensku krónunnar fór að lækka ört síðla árs 2007 og kaupmáttur launa að rýrna. Snemma árs 2010 hafði hann rýrnað um nálægt 16% miðað við 2007. Skuldavandi, atvinnuleysi o.fl. gerðu kjaraskerðinguna meiri, og hrunið gerði fjölda heimila gjaldþrota vegna bólgnandi lána. Atvinnuleysi fór í um 9% árið 2009 en minnkaði aftur nokkuð hratt næstu tvö ár. Sjá hér niðurstöður Stefáns Ólafssonar og Arnaldar Sölva Kristjánssonar um áhrif hrunsins á launafólk. Umrætt skjal
Málið snýst um fullveldi
Ekki held ég því fram að alþýða Íslands hafi endurheimt fyrri kjör eftir hrunið, en það er undir baráttu hennar sjálfrar komið að hún geri það. Hvorki ástand hagkerfisins né krónan mun hindra það. Það er meginatriði í samanburði á Íslandi og ofannefndum kreppuhrjáðum evrulöndum að Ísland hélt í meginatriðum fullveldi sínu og réði eigin málum. Kjör almennings á Íslandi réðust því áfram fyrst og fremst af útkomunni úr stéttabaráttunni á heimavelli, bæði kaupgjaldsbaráttu og baráttu um ríkisfjármálin (hitt er annað mál að verkalýðshreyfingin fylgdi stéttasamvinnustefnu og gaf eftir umsamdar kauphækkanir 2009 og sveigði sig þannig að „greiðslugetu atvinnuveganna“).
Hin kreppuhrjáðu evrulönd misstu hins vegar meira eða minna frá sér stjórn eigin mála. Þar þarf almenningur í viðbót við eigið auðvald að fást við yfirþjóðlegar stofnanir sem ráða jafnvel úrslitum og það sýnir sig sig að þær hafa í fyrirrúmi aðra hagsmuni en hagsmuni almennings.
Spurningin um gjaldmiðil snýst öðru fremur um fullveldi. Fullveldið er alþýðunni vopn og auðlind og þjóðríkið er frá hennar sjónarhóli miklu æskilegri vettvangur stéttabaráttunnar en ríkja- og efnahagsblokk af gerð ESB. Hvert fer það fullveldi sem látið er af hendi með ESB-aðild? Dæmin frá evrukrppunni sýna það ljóslega að valdið sem látið er af hendi fer til fjölþjóðlegrar og yfirþjóðlegrar fjármálaelítu sem er kjarni Brusselvaldsins.