Hvernig lýðræðið dó í Rúmeníu

15. mars, 2025

Það sem gerðist í Rúmeníu er fyrirboði þess sem koma skal annars staðar: þegar áróður missir áhrif sín eru ráðandi elítur í auknum mæli tilbúnar til að kasta jafnvel formlegum reglum lýðræðisins fyrir róða.

Atburðirnir í Rúmeníu tákna nýtt og örlagaríkt skref fyrir vestræn samfélög sem segjast vera frjálslynd og lýðræðisleg. Elítur takmarka sig ekki lengur við að hafa áhrif á úrslit kosninga með fjölmiðlastjórnun, ritskoðun, lagalegum aðgerðum, efnahagslegum þrýstingi og leyniþjónustuaðgerðum. Þegar þetta nær ekki tilætluðum árangri eru þær í auknum mæli tilbúnar til að kasta formlegum lýðræðisferlum algjörlega fyrir róða, þar með talið kosningum. Sjá hér.

Því ætti að líta á það sem gerðist í Rúmeníu sem viðvörunarmerki um það sem gæti brátt gerst annars staðar. Raunar lýsti Thierry Breton [umboðsmaður innri markaðar ESB til ársins 2024] því opinskátt yfir að svipaðar aðgerðir mætti  framkvæma annars staðar – hann var að vísa til Þýskalands – ef hætta væri á að popúlistar myndu vinna kosningarnar. Sjá hér.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þetta undanhald lýðræðis hefur verið lengi í bígerð. Raunar mætti halda því fram að vestræn frjálslynd lýðræðisríki hafi um allnokkurt skeið starfað í varanlegu undantekningarástandi. Það hve auðveldlega grunnfrelsi og stjórnarskrárbundin réttindi voru sett til hliðar á meðan heimsfaraldurinn geisaði veitti nægar sannanir fyrir þessu. Ráðandi elítur geta gert þetta af því hve lítið er um skipulagða fjöldamótspyrnu til að aftra þeim.

Í stuttan 30 ára tíma eftir seinni heimsstyrjöldina tókst almenningi að nýta lýðræðislegar stofnanir til að ná vissum efnahagslegum og pólitískum völdum frá rótgrónum fámenniselítum, en þær efnislegu aðstæðurnar sem gerðu það mögulegt – fyrst og fremst skipulögð völd verkalýðsins – eru ekki lengur til staðar. Þegar litið er til baka var hinn stutti tími (tiltölulegs) fullveldis almennings undantekningarfrávik frá sögulegri reglu, takmarkað við ákveðin landsvæði og viðhaldið af einstökum efnislegum og pólitískum aðstæðum. Raunar upplifðu lönd eins og Rúmenía aldrei þetta, heldur fóru beint frá kommúnistastjórn yfir í nýfrjálslynda eftir-lýðræðisstjórn. Tvær meginstoðir atlantíska sambandsins – Evrópusambandið og NATO – hafa ýtt undir andlýðræðislega þróun í Evrópu og leitt baráttuna við að grafa undan lýðræðislegum ferlum og bæla niður sjálfsákvörðunarrétt almennings.

Það sem við verum nú vitni að er ekki „afturför“ vestræns frjálslynds lýðræðis, óheppileg frávik frá sögulegri reglu, heldur frekar rökrétt niðurstaða þess. Ríki sem voru eitt sinn stuttlega móttækileg fyrir kröfum almennings hafa nú snúið aftur til þess hlutverks sem ríkisstofnanir hafa haft í gegnum mestan hluta af sögu kapítalismans – að varðveita völd elítunnar fyrir alla muni.

Greinin birtist upphaflega á ensku hjá tímaritinu Compact.