Hvað er þetta með Rússa?
—
Á byltingarafmælinu 7. nóvember varð mér eðlilega hugsað til Rússlands og rússnesku byltingarinnar. Fyrir átta árum á þeim degi hélt ég alllanga ræðu á aldarafmæli byltingarinnar sem ég birti hér á Neistum. „Byltingarhugsun og byltingarframkvæmd. Nokkrir punktar um Októberbyltinguna.“ Kannski áhugaverð ræða.
Hvað er þetta annars með Rússana? Nú höfum við enn á ný hafið vígvæðingu á Íslandi. Vegna Rússa, er okkur sagt. Við eigum að óttast þá. Samt hafa Rússar aldrei gert neitt á hlut okkar Íslendinga, nema síður væri. Samt eigum við líka að fyrirlíta þá: þetta er vanþróuð og ósiðuð þjóð barbara sem stjórnað er af hrakmennum. Á fyrstu árum Kalda stríðsins og aftur núna síðustu fjögur árin er okkur auk þess sagt að þeir séu svo útþenslusinnaðir og ætli að gleypa Evrópu.
Jæja, þeir eru nú samt merkileg þjóð. Ég hef aldrei verið hrifinn af þessu fóbíska skylduhugarfari um Rússa. Ég ætla að tilgreina nokkur atriði þar um. Ekki skrifa heimildaritgerð, meira eins og kvæði eða svolitla þulu. Svohljóðandi Rússaþulu:
***
Rússar komu lítt við sögu Evrópu fyrr en um 1700. Þá þegar voru þessir austurslavar orðnir stærsta þjóð Evrópu, undir keisaranum Pétri fyrsta, nýsloppnir undan Mongólaveldi. Pétur keisari horfði fast í vestur eftir fyrirmyndum og framförum. Alþýðan var ánauðugir bændur.
19. öld. Á þeirri öld skrifuðu Rússar merkilegustu bókmenntir í Evrópu. Áttu greinilega góðan slatta af hugsandi og skapandi fólki. Fólki í „intelligentsíunni“ svokölluðu, sem samkvæmt Tsékov var samt dáítið iðjulaus.
1905. Það ár var röðin komin að alþýðunni. Rússneskur verkalýður gerði uppreisn. Öldu mikilla verkfalla fylgdi hreyfing „verkalýðsráða“ sem var pólitísk frekar en fagleg skipulagning og setti á dagskrá völd verkalýðsins. Keisaravaldinu tókst þó að berja þá byltingarhreyfingu niður án þess að hrynja sjálft.
1917. Í febrúar steypti lýðurinn í Pétursborg keisaranum og stjórn hans. Helstu orsakirnar voru stríðsþreyta og krafa um frið. En ný bráðabirgðastjórn viðhélt samt bæði kapítalismanum og stríðsrekstrinum. Við stríðsþreytuna bættist svo jarðhungur jarðlausra bænda og efnahagsleg örmögnun samfélagsins – og í október (nóvember) steypti verkalýurinn bráðabirgðastjórninni og stofnaði sósíalískt Sovét-Rússland undir stjórn Bolsévíka. Því fylgdi skömmu síðar borgarastríð og innrás 15 ríkja í landið, sem verkalýðurinn og Rauði herinn stóðu þó af sér, svo að Sovétríkin voru stofnuð í árslok 1922. Þetta gátu Rússarnir. Og þá var rússaógnin fólgin í smitandi byltingarhættu. Sovétríkin voru rikissósíalismi með miðstýrðu verkalýðsvaldi sem ól af sér vaxandi velferð alþýðu og efnahagsundur í mjög fátæku landi en tilveran var þó sýrð af sífelldu umsátri heimsvaldasinna, sífelldr endurreisn eftir stríð ellegar undirbúningi undir ný stríð, heit og köld. Þeir fengu sjaldan frið.
1939-45. Stalín hafði reynt mjög að byggja bandalag með Bretum og Frökkum gegn Hitler. Því var hafnað, svo að 1939 gerði hann í staðin griðarsamning við óvininn. Það gaf honum tveggja ára frest. Nú. Allt meginland Evrópu hafði fallið fyrir fasismanum eða gengið honum á hönd – ýmist friðsamlega eða eftir stuttan bardaga – þegar Þjóðverjar svo réðust inn í Sovétríkin 1941. Sovétmönnum tókst að snúa því tafli við og höfðu að mestu sigrað þýsku vígvélina áður en nein önnur víglína gegn henni var opnuð í Evrópu. Á sigurhátíð Rauða hersins við stríðslok skálaði Georgíumaðurinn Stalín sérstaklega fyrir rússnesku þjóðinni, og sagði að með „staðfestu“ sinni hefði hún verið „leiðandi aflið“ í Föðurlandsstríðinu. Rússar frelsuðu þannig ekki bara föðurlandið heldur Evrópu líka og var síðan þakkað fyrir það með Kalda stríðinu. Og Evrópa hefur enn ekki getað fyrirgefið Rússum frelsunina. Segjum evrópsk elíta hefur ekki gert það.
Frá 1991. Kapítalismi og hnignun. Á 9. áratugnum hafði sovéski sósíalisminn lifað stöðnunartíma, meðan nýfrjálshyggjan stormaði fram á heimsvísu. Gagnbyltingin koma að ofan, frá elítu sem þróast hafi í ríkisskrifræðinu og sá sér hag í einkavæðingu. Tíundi áratugurinn kom yfir Rússa með tröllaukinni eignaupptöku. Framleiðslukerfið féll í hendur lítils hóps ólígarka sem að hluta til voru leppar vestræns fjármálavalds og heimsvaldasinna. Rússlandsforseti var að sínu leyti leppur ólígarkanna og AGS. Þessu fylgdi gríðarleg samfélagshnignun og hrapandi lífskjör: Á þremur árum 1991-93 styttist reiknuð ævilengd um 6 ár fyrir karlmenn. Mannfallið var líkt og í síðari heimsstyrjöldinni. Katastrófa. Líklega heimssögulegt einsdæmi.
2003. Þá varð aftur merkilegur viðsnúningur. Árið 2000 hafði Pútín verið kosinn forseti. Á skömmum tíma hafði hann safnað völdum og viðspyrnu í ríkiskerfinu, nægjanlegum til breytinga. Hann reyndist ekki vera í vasa ólígarkanna. Réttara væri að kalla hann fulltrúa rússneskrar þjóðernishyggju þar sem fullveldi Rússlands er fyrsta boðorð. Hann kallaði 15 stærstu ólígarkana til fundar í Kreml. Þar lagði hann þeim lífsreglur: ríkisvaldið leyfir ykkur að halda eignum ykkar – gegn því að þið greiðið skyldur ykkar til samfélagsins og haldið ykkur utan við stjórnmálin, algjörlega. Þetta gekk eftir og efnahagslegur viðsnúningur í Rússlandi varð stórbrotinn, að þessu sinni upp á við. Rússneska þjóðin hefur síðan metið forseta sinn í samræmi við það. Sjálf á hún bæði nægilegan þjóðernisanda og þjóðarstolt.
2022. Rússnesk stjórnvöld mátu það svo að Rússlandi stæði tilvistarógn af austursókn hernaðarbandalagsins NATO eftir 1990 austur eftir allri Evrópu upp að Rússlandi – og loks inn í Úkraínu eftir valdaránið þar. Krafa Rússa var að þessi sókn væri stöðvuð. Þegar því var alveg hafnað réðust Rússar loks inn í Úkraínu. Það var ruddaleg og þjóðréttarlega ólögleg innrás. En séð frá Rússlandi var ógnin að vestan alveg raunveruleg, og Rússar enn á ný komnir í stríð við vestræn stórveldi. Frá þeim sjónarhóli voru orustur Rússa í Donbass vissulega árásarhernaður, en stríðið sjálft sem hófst 2014 (á Maidan) var í eðli sínu varnarstríð, varnarstríð gegn stórsókn NATO-velda. Velda sem nota Úkraínumenn sem staðgengil sinn og byssufóður, banna þeim að semja og hafa úkraínska öfgaþjóðernissinna sem sína helstu skjólstæðinga.
2025. Nærri fjórum árum síðar eru Rússar enn í stríði. Við sameinað Vestrið. Stríðsþreyttir nokkuð en staðfastir samt. Sagan setur þeim sífellt ný verkefni. Eins og í Seinni heimsstyrjöld eru þeir ekki aðeins að verja föðurlandið, því nú eiga þeir í höggi við heila heimsskipan, 500 ára skipan vestrænnar drottnunar yfir hnettinum. Svo þversagnarkennt sem það kann að hljóma er það öðru fremur í stríðinu við Rússa í Úkraínu, og ósigrinum þar, sem sú heimsskipan siglir í strand.
Hvað er þetta með Rússa? Af hverju höfum við andúð á þeim? Og þykjumst betri en þeir (við þessi með „vestrænu gildin“). Slíkt er blanda af vestrænni yfirburðahyggju, NATO-undirgefni, og heimaræktaðri heimsku. Við höfum ekki efni á henni, og hún mun bara koma okkur í koll.
Mynd: Breskt pólitískt landakort frá árinu 1877







