Hryðjuverk BNA og framtíð Evrópu

23. febrúar, 2023 Júlíus K Valdimarsson

Þann 24. febrúar er ár liðið frá innrás Rússa í Úkraínu, sem er blóðugasta stríð í Evrópu frá 1945. Innrásin er þjóðréttarlegur glæpur og hlýtur að fordæmast eins og öll árásarstríð. Sú fordæming ein nægir þó ekki því stríðið á sér rætur og forsögu, það er sprottið af valdatafli heimsveldanna, og frá fyrsta degi hefur það verið staðgengilsstríð milli BNA/NATO og Rússlands. Aðstoð og þátttaka NATO-blokkarinnar í stríðinu vex með hverjum mánuði, heimurinn virðist á ársafmælinu ramba á barmi kjarnorkustríðs og Evrópa logar stafna á milli af stríðsæsingi.

Grein Seymour Hersh

Stórfrétt mánaðarins í Úkraínudeilunni kom 8. febrúar þegar rannsóknarblaðamaðurinn Seymour Hersh birti grein á vefsíðu sinni hjá Substack þar sem hann útlistaði að það hefðu alls ekki verið Rússar sem sprengdu í Eystrasalti eigin gasleiðslur til Þýskalands í heldur hefðu Bandaríkin gert það (með aðstoð).

Seymour Hersh er u.þ.b. þekktasti rannsóknarblaðamaður heims og hefur unnið flest hin virtari blaðamannaverðlaun BNA (Pulitzer verðlaun og George Polk verðlaunin 5 sinnum) og hefur aftur og aftur reynst maður orða sinna, allt frá því hann afhjúpaði fjöldamorðin í My Lai í Vietnam 1968, og síðari afhjúpanir hans hafa reynst jafn sannar, um njósnir CIA á eigin landsmönnum á sjöunda og áttunda áratug, um fangapyntingar í stríðinu í Írak (Abu Ghraib), um leynilegar vopnasendingar til íslömsku vígahópanna í Sýrlandi o.s.frv. Styrkur Hersh felst ekki síst í því hvernig hann nær að hagnýta traust sambönd sín að tjaldabaki, hjá CIA, öðrum leyniþjónustum og djúpt inn í bandaríska stjórnkerfið.

Fólk sem hneigist til rökhugsunar hafði reyndar talið BNA langlíklegasta sökudólg í málinu, þó að nær allar vestrænar fréttastofur væru samtaka um að benda á Pútín. Joe Biden hafði þar að auki fyrirfram boðað (eiginlega auglýst) hver viðbrögð Bandaríkjastjórnar yrðu ef ráðist yrði inn í Úkraínu: „Ef Rússland gerir innrás… þá verður engin Nord Stream 2 gasleiðsla. Við munum binda enda á hana.“

Sjálfur hefur Samour Hersh sagt að varla væri hægt að kalla skrif sín „afhjúpun“: „Það sem ég gerði var að útskýra hið augljósa“, segir hann. Útskýringin fólst í ítarlegri frásögn af aðdraganda og framkvæmd sprenginganna skref fyrir skref. Samkvæmt heimild Hersh er um um að ræða dæmigerða CIA-aðgerð, þar sem afar þröngur hópur kemur við sögu. Lykilatriði í herfræðinni var að bandaríska þingið fengi ekkert að vita, af því að um stríðsaðgerð var að ræða. Jake Sullivan, Anthony Blinken utanríkisráðherra og Victoria Nuland aðstoðarráðherra voru í lykilhlutverkum.

Framkvæmdin

Meðal þess sem fram kemur í greininni er að áformin um sprengingarnar og undirbúningur þeirra hófst í desember 2021, tveimur mánuðum áður en rússneska innrásin hófst.

Merkileg er sú nána leyndarsamvinna við aðila í norska flotanum sem heimildarmennirnir segja frá, fyrst við að velja sprengjuhleðslunum stað í tengslum við sumar-flotaæfingu NATO, þekkta sem BALTOPS 22. Og síðan samkvæmt heimild Hersh: þann 26. september sleppti norsk P8 eftirlitsvél hljóðdufli sem virkjaði sprengjurnar. Með stríðsaðgerð sem þessari setur Noregur sig í mikla hættu í stigmagnandi átökum við kjarnorkuvæddan nágranna sinn í austri. Fyrir heimsku sakir. En ekki fyrir eintóma heimsku samt. Líka af yfirdrifinni þjónustulund við stóra bróður í vestri. Og enn frekar: af einfaldri græðgi. Af því að Noregur græðir stórkostlega á margföldun gasverðs í Evrópu, rétt eins og BNA, við að stöðva gasstrauminn frá Rússlandi.

Á allt þetta bendir Hersh. Hann útskýrir ennfremur að stríðsaðgerð þessi beinist ekki aðeins gegn Rússum heldur einnig gegn Þýskalandi og Evrópulöndum upp til hópa. Norska utanríkisráuneytið neitaði enda strax í ofboði að eiga „nokkurn hlut að málinu“. Aumingja Noregur, hvað hefur hann komið sér í?!

Af hverju Nord Stream?

Sprenging Nord Stream er mesta staka hryðjuverk þessa stríðs. Það voru Bandaríkin/CIA sem gerðu það, segir Hersh – með norskri aðstoð. Reynslan er sú að ef Hersh segir það þá er það mjög líklega rétt. Þá vaknar sjálfkrafa spurningin: Af hverju völdu Bandaríkin að vinna einmitt þetta hryðjuverk? Valið á Nord Stream segir mikla sögu: um hvað þetta stríð snýst, og um hvað vakir fyrir Bandaríkjunum með svo ákafri þátttöku í því.

Seymour Hersh vitnar í Anthony Blinken utanríkisráðherra strax eftir hryðjuverkin. Hann var spurður um áhrif sprenginganna á orkumál Evrópu og svaraði: „Það gefur gríðarlega möguleika, í eitt skipti fyrir öll að losna við að vera háður rússneskri orku og þar með að taka frá Pútín notkunina á orku sem vopni og verkfæri í hans heimsvaldaáformum. Það er afar mikilvægt og gefur feiknalega herfræðilega (strategic) möguleika á komandi árum.“

Séð frá Washington snýst Úkraínudeilan ekki aðallega um Úkraínu. Hin mikla strategía er að nýta ófriðinn austur þar til að treysta hernaðarleg og efnahagsleg yfirtök Bandaríkjanna í Evrópu. Á það bendir Seymour Hersh. Hann fjallar hins vegar ekki um það í löngu máli. En það hafa aðrir gert.

Úttekt Ben Norton á grein Hersh

Við viljum benda á afar sterkt myndband frá vefsíðunni Geopolitical Econonomy Report þar sem Ben Norton fjallar um grein Seymour Hearsh á sannfærandi hátt, og leggur út af henni. Hann vísar meðal annars í fréttamyndir og upptökur af viðtölum við toppmenn í Bandaríska stjórnkerfinu, þar með Joe Biden, Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, Antony Blinken utanríkisráðherra, Victoriu Nuland aðstoðarráðherra sem öll voru í lykilhlutverkum við undirbúning og framkvæmd hryðjuverksins. Þetta eru myndbandsskot sem lýsa bæði hatri þeirra á gasleiðslunum og fögnuðinum eftir vellukkaða sprengingu. Ben Norton víkur jafnframt í lok myndbands síns að þáttum sem Hersh gerði aðeins lítil skil í skýrslu sinni. Einkum varðar það efnahagslegu hlið málsins. Meðal annars hvernig BNA og Noregur högnuðust á eyðileggingu Nordstream 2 gasleiðslunnar þann 26. september sl. Þar dregur Norton m.a. fram að aðeins nokkrum klukkustundum eftir sprengingu Nord Stream opnuðu Noregur og Pólland nýja gasleiðslu; Eystrasalts-gasleiðsluna fyrir jarðgas sem tengir Noreg við meginlandið. Þessi leiðsla var fjármögnuð af Evrópussambandinu og skilgreint markmið hennar að gera Evrópu óháða innflutningi á Rússnesku gasi. Og hverjir hagnast á þessari gasleiðslu? – Jú, Noregur; árið 2022 var Rússland stærsti útflutingsaðilinn á jarðgasi til Evrópu, en fljótlega fór Noregur framúr. Sama hefur gerst með BNA sem þegar er orðinn stærsti útflytjandi á fljótandi gasi til Evrópu.

BNA tókst að hindra viðskiptasambönd Rússa og Þýskalands með einu hryðjuverki að þessu sinni og treysta um leið stöðu fyrirtækjanna á Wall Street og fyrirtækja í Noregi með auknum útflutningi þeirra á gasi og olíu til Evrópulandanna. Úkraínustríðið er fyrir Bandaríkjamönnum eins og öll þeirra stríð góður bisniss fyrir þau fjölþjóðlegu stórfyrirtæki sem að baki þeim standa og krefjast sífellt fleiri stríða. Um er að ræða fyrirtæki á hinum ýmsu sviðum þótt mestur þrýstingur hafi jafnan komið frá olíu og gasiðnaðinum, sem og vopna- og hergagnaiðnaði.

Frá mínútu 43 í mynbandinu fer Norton nánar yfir efnahagslega þáttinn í heimsvaldataflinu. LYKILATRIÐIÐ í taflmennsku Washington er að hindra friðsamlega samvinnu og eðlileg viðskipti milli Rússlands og Þýskalands. Þar er rifjuð upp greining Zbigniew Bzezinski fyrrum þjóðaröryggisráðgjafa þar um, og ekki síður ummæli George Friedman frá 2015. Friedman var þá stjórnarformaður leyniþjónustufyrirtækisins Sratfor sem einnig gerir strategískar greiningar fyrir Bandaríkjastjórn og er oft nefnt „The Shadow CIA“. Ummæli Friedmans: „….yfirgnæfandi geópólitískir hagsmunir Bandaríkjanna í meira en öld – í fyrri heimsstyrjöldini og seinni heimstyrjöldinni og í kalda stríðinu – snúast um samband Rússlands og Þýskalands vegna þess að sameinaðar gætu þessar þjóðir orðið eina aflið sem gæti ógnað okkur. Við verðum að vera viss um að þetta gerist ekki”. Á mínútu 45 í myndbandi Nortons er myndbandsskot þar sem sjá má Georg Friedman setja fram þessa greiningu.

Í framhaldi af því dregur Ben Norton í lokaorðunum upp hina stærri mynd. Hryðjuverkið á Nord Stream „snýst um það að hindra efnahagslega samþættingu Evrasíu.“ Hann bendir á hvernig samvinna Rússlands og Kína eru meginþáttur í þeirri efnahagslegu samþættingu og þar með þróun fjölpóla heims sem grefur jafnt og þétt undan Bandarískum heimsyfirráðum. Strategía Washington er að Úkraínustríðið verði meginatriði í baráttunni um að varðveita þau yfirráð. Þann heim.

Hver er útkoman?

Hafi herfræði Washington í Úkraínudeilunni – þ.á.m. sprenging Nord Stream – verið sú að treysta yfirtök sín í Evrópu og að höggva á tengsl milli Evrópu og Rússlands þá virðist það vera að takast. Sjálfstæði Evrópu er ört dvínandi, hallast öll í vestur, og gjá hefur opnast gagnvart Rússlandi.

Þau rofnu tengsl og sú gjá samræmast hagsmunum bandaríska heimsveldisins en hagur Evrópubúa af því er meira en vafasamur. Hann skaðast líklega meira en hagur Rússa. Stuðningur Evrópuríkja við refsiaðgerðirnar sýnir og sannar fyrst og fremst hreðjatak Washington á Evrópu. Olaf Scholz veit náttúrlega að BNA vann hryðjuverkið á Nordstream 2 sem átti að færa Þýskalandi ódýrt gas, en hann þorði ekki og þorir ekki að segja neitt. Lénsherrann kúgar nú lénsmenn sína í Evrópu til skilyrðislausrar hlýðni.

Ávinningurinn af umræddu hryðjuverki getur þó brugðið til beggja vona þegar kólnar á heimilum, harðnar á dalnum og evrópska orkukreppan þróast áfram. Og hin hliðin á málinu er sú að refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi eru í meginatriðum bundnar við NATO-ríki. Hnattræna suðrið og lönd utan Evrópu og N-Ameríku taka með fáum undantekningum ekki þátt í aðgerðum gegn Rússum svo orð sé á gerandi.

Og nú var spennandi að fylgjast með hvernig viðbrögðin yrðu við afhjúpunum Seymour Hersh. Eins frægasta og virtasta rannsóknarblaðamanns heims. Viðbrögðin voru sannarlega athyglisverð hjá öllum helstu meginstraumsmiðlum í Evrópu eins og í N-Ameríku: Ærandi þögn.

Endurvarpsstöðvarnar á Íslandi endurvarpa sömu þögn rækilega. RÚV talar og talar um Úkraínu, og upp á síðkastið hefur umfjöllunin verið stóraukin vegna ársafmælisins. En að minnast á frásögn Seymour Hersh? Almáttugur hjálpi okkur, nei! Ekki eitt orð.