Höfnum markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu.


Ályktun frá landsfundi Alþýðufylkingarinnar 6.-7. október 2018.


Heilbrigðiskerfi Íslands á nú í vök að verjast, eins og það hefur reyndar gert lengi. Öfl markaðsvæðingar sækja stöðugt á og vilja leyfa meiri einkarekstur, enda gefur það meira í aðra hönd fyrir þau sjálf. Mikilvægt er að fólk sem lætur sér annt um heilbrigðismál í landinu, um velferð og jöfnuð sjúklinga og um hvernig opinberu fé er ráðstafað, standi saman gegn öllum áformum um frekari markaðsvæðingu og snúi við þeirri þróun sem verið hefur, með því að félagsvæða á nýjan leik starfsemi sem þegar hefur verið markaðsvædd.

Tekið hefur verið eftir viðspyrnu heilbrigðisráðherra gegn frekari markaðsvæðingu. Vera má að þar fylgi hugur máli, en þá rekst ráðherrann á þann vegg sem ríkisstjórnarsamstarf með tveim helstu spillingarflokkum Íslands er – og sá veggur lifir ekki sjálfstæðu lífi, heldur er hann rökrétt afleiðing af tækifærisstefnu Vinstrigrænna. Auðvitað fer þessi andstaða fyrir lítið í meirihlutasamstarfi með opinberum markaðshyggjuflokkum. En ekki hvað?

Markaðsvæðing er líka hluti af þeirri hægrisinnuðu efnahagsstefnu sem landið fylgir, og mun fylgja meðan ekki veljast forystuöfl sem stefna á félagsvæðingu. Þannig er aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) beinlínis Þrándur í Götu fyrir félagsvæðingu, fyrir utan að á henni byggist sjálf tilvera Sjúkratrygginga Íslands, með þeirri markaðsvæðingarumgjörð sem hún byggist á, sem er hindrun fyrir félagslega reknu heilbrigðiskerfi. Ef tilskipanir frá EES standa félagslega reknu heilbrigðiskerfi fyrir þrifum, skorum við á stjórnvöld að skrá Ísland úr EES sem skjótast.

Á sama tíma og peningar fossa úr sameiginlegum sjóðum út í einkarekstur, leka þök og deildum er lokað vegna fjárskorts í opinbera kerfinu. Sú ömurlega staða sem Landspítali og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir eru í, er bein afleiðing hægristjórnar í heilbrigðismálum sem hefur verið ríkjandi óslitið síðan fyrir aldamót. Íslensk alþýða ætti að fylkja sér um þær kröfur, að sporna gegn frekari markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu og að endurreisa það félagslega rekna heilbrigðiskerfi sem við bjuggum eitt sinn við og eigum að eignast aftur, með félagsvæðingu.